Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008

Setningarathöfn

Olympíuleikanna var algerlega stórglæsileg í dag, ég held að þetta hafi verið í hið eina skipti á árinu sem ég bölvaði gamla túbusjónvarpinu og óskaði þess að eiga stóran flatskjá til að sjá betur alla ljósadýrðina. Ég er yfirleitt ekki með sjónvarpið á á daginn en ákvað að horfa á þennan dagskrárlið.

Ólafur Ragnar er amk ekki þar, hann var hér á Jörfaveginum áðan í labbitúr. Ég hef ekki séð hann labba hérna fyrr.

Mér finnst vera aðeins að birta til.

Þegar ég var búin að lesa kommentin ykkar þá komst ég að þeirri niðurstöðu að ég er með -vitureftirásyndrómið- ég gerði vísast eins vel og ég gat miðað við aðstæður hverju sinni, þær voru hinsvegar ekkert alltaf góðar en ég reyndi að hafa reglu á aðstæðum.

Ég fór að flissa með sjálfri mér um daginn, ég á tvö afar vanaföst börn. Það versta sem ég gerði þeim var að vera "góð" við þau og leyfa þeim að breyta af vananum eins og til dæmis með að vaka lengur og þessháttar. Þetta voru þau Solla og Himmi. Næsta dag varð hún drottning geðvonskunnar og hann herra tætingsins. Þetta virkaði ekki vel á þau. Smábræður þoldu þetta mun betur.

 


Margt sem hvílir á

en ég er samt að pikka söguna inn á hina síðuna. Ég er rúmlega hálfnuð með þessa sögu.

Þessi árstími er slæmur og verður slæmur framvegis. Kær vinnufélagi sofnaði inn í sólina í liðinni viku. Heilsan er að hrekkja mig og það er svo mikið sjálfskaparvíti. Ég er ein heima þessa dagana eða sko, bara með hvuttana mína tvo. Það er gott að hafa þá, þeir passa "mömmu" sína.

Hér á árum áður þegar Steinar fór rútuferðir þá var ég oft hálfhrædd ein heima, eigandi 2 syni í basli þá vissi ég aldrei hvað kæmi bankandi upp á. En svo fengum við okkur hundana. Það er alveg klárt að enginn ræðst hér inn án þess að þeir geri athugasemd við það. Og það er slæm bítandi athugasemd.

En núna er hann í svona ferð, hundarnir sofa inni og ég er að verða komin með rasssæri á að sitja bara hérna heima.

Stundum verð ég svona þung, ég þarf að fá að vera það í friði held ég. Þá finnst mér allt ómögulegt. Hann Himmi minn, fastur í huganum en mikið óskaplega gleðja ljósin á kertasíðunni hans. Öll notalegu kommentin líka, þetta hjálpar allt saman .

Stundum þarf ég að muna að ég er ekki/var ekki og verð ekki fullkomin mamma. Stundum þarf ég að muna að fyrirgefa mér sjálfri. Það vona ég að Himmi hafi gert en ég er þó hrædd um ekki. Það var ekkert vesen í okkar samskiptum, en bara ...æj ...ég vildi ekki taka hann inn hérna þegar hann bað um það. ÞARNA! Ég skrifaði það. Hann bað mig um það um miðjan júní og ég var á leið í bæinn með Patta fótbrotinn, ég sagði ekki þvert nei en sagði að við skyldum tala um þetta þegar ég kæmi heim. Hann talaði ekki um það aftur. Ég spurði hann ekki um þetta meira. Hann fékk líka fljótlega herbergi og ég taldi þetta vera í lagi.

 

Æ röflið í mér um ekkert.


Ráðvillt og rata ekki

almennilega um á þessu bloggi, eitthvað breytt í stjórnborðinu eða ég bara búin að gleyma þessu. Ég veit ekki alveg hvað skal gera. Ég er vog. Þjáð af valkvíða og veit stundum ekki neitt í minn haus. Veit sjaldnast nokkuð í minn haus. Suma daga ætti ég bara að vera undir sæng, með kodda yfir hausnum og helst svo fast að ég vaknaði ekki meira.

Ég hef barist við að ýta þessum komandi degi frá mér. Ég hef borið mig vel þegar fólk hefur spurt mig hvort mig kvíði fyrir. Fólk hefur auðvitað trúað mér, það gerir það alltaf....auðvitað...skrattans..

þetta fer hringi í hausnum....lífið hans...mistökin öll, mín og hans, okkar allra...dauði hans..minningarnar um 19 ágúst 2007...reiðin við þetta sem fólk kallar Guð ......þetta fer allt í tóma hringi og ég næ ekki að halda utan um þetta eins og er. Bara flækja...

Ég opnaði þennan glugga, ég ætlaði ekki að skrifa eitt einasta orð nema eitthvað léttvægt spjall...smá grín og smá spaug.

Ég fiktaði um daginn og tapaði einhverjum bloggvinum, vinsamlega athugið hvort ég henti ykkur út og skilið ykkur til baka.

Ég er fífl, ræð ekki við einfaldar skipanir á vefsvæði.

Farin að sofa, illt í hausnum ...hringekjan heldur áfram. Ég ætla að vakna í september...ekki fyrr.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband