Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008

Saman í klefa?

Nú hef ég ekki séð klefana þarna nema í myndum og mér hefur sýnst ekki vera pláss fyrir nema einn rúmbálk þarna inni, borðræfil og eitthvað persónulegt dót. Þetta er kannski alrangt hjá mér.

Að hafa menn saman í klefa getur verið varasamt eins og linkurinn í fréttinni ber með sér. Það er þá eins gott að velja vel saman þá sem eiga að kúldrast saman á 10 fermetrunum eða hvað það er.

Mér datt nú í hug við lesturinn að það væri kannski best að við skiluðum til síns heimalands öllum erlendum föngum til að búa til pláss.

Hitt er annað, ég hélt að menn væru ekki kallaðir inn í afplánun nema það væri pláss fyrir þá ?

 


mbl.is Segja að fangelsið á Litla Hrauni sé yfirfullt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Yfir þessu skemmti ég mér í dag

já eða fræddist. Dagmar keisaraynja lést 1928, það eru 80 ár síðan. Einn mannsaldur. Hún átti merkilega æfi, stórmerk kona. Ég hef mikinn áhuga á sögu og horfi svo á History Channel alveg upp á kraft. Í dag horfði ég líka á 3 þætti af Dog Wisperer, hundasálfræðingur. Hann er alger snillingur. En ég sá hinsvegar að mínir eru ekki súperklikkaðir...bara smá leiðinlegir þegar er umgangur Halo.

En ég horfði ekki bara á sjónvarp, ég fékk heimsókn og ég þreif allt húsið og þvoði nokkrar þvottavélar...ég held að ég sé ofvirk.

Hérna er fróðleikurinn um Dagmar keisaraynju

Danska keisaraynjan

Den danske kejserinde: Dagmar zarina fra Danmark

Danska keisaraynjan (Den danske kejserinde: Dagmar zarina fra Danmark) er dönsk heimildamynd um Dagmar Danaprinsessu, dóttur Kristjáns IX og Lovísu drottningar, sem fæddist árið 1847 og dó 1928.

Dagmar var fjórða í röðinni af sex börnum þeirra hjóna og áttu þau kærleiksríkt heimili í Gulu höllinni í Amaliegade. Systirin Alexandra, sem var þremur árum eldri en Dagmar, var henni sérlega kær ævina á enda, en hún giftist Játvarði sjöunda af Englandi árið 1863.

Árið eftir trúlofaðist Dagmar rússneska stórfurstanum Nikolaj Alexandrovitsch en hann dó ári seinna.

Hinn 23. júní 1866 trúlofaðist hún litla bróður hans, stórfurstanum Alexander sem var Rússakeisari frá 1881 til dauða síns 1894.

Nokkrum mánuðum eftir trúlofunina fluttist Dagmar til Pétursborgar og gekk rússnesku rétttrúnaðarkirkjunni á hönd. Dagmar tók sér nafnið Marija Fjodorovna og varð virt og vel liðin stórfurstafrú og síðar keisaraynja.

Eftir fráfall keisarans lét hún lítið fyrir sér fara og bjó í Anitsjkoff-höll í Pétursborg þangað til byltingin braust út 1917.

Síðustu tvö ár sín í Rússlandi, 1917-19, var Dagmar í eins konar stofufangelsi á Krímskaga en son hennar, Nikulás keisara annan og fjölskyldu hans, sendu bolsévikkar í útlegð til Jekaterínborgar í Úralfjöllum árið 1918.

Árið 1919, þegar Rauði herinn nálgaðist Krímskaga, lét Alexandra systir hennar, þá orðin ekkjudrottning á Englandi, bjarga Dagmar um borð í breskt herskip og forða henni frá Jalta. Dagmar var svo gestur systur sinnar í Sandringham um nokkurt skeið.

En hún tók föðurland sitt fram yfir Bretland og fluttist heim, fyrst í Amalienborgarhöll en síðan til Hvidøre norðan við Kaupmannahöfn en þá eign höfðu þær Alexandra systir hennar keypt saman skömmu eftir lát föður þeirra 1906.

Í Hvidøre bjó hún upp frá því og vann ötullega að því að hjálpa rússnesku flóttafólki í Danmörku. Dagmar lést á Hvidøre 13. október 1928 og var jarðsungin með viðhöfn frá Dómkirkjunni í Hróarskeldu að viðstöddum fulltrúum konungsfjölskyldna hvaðanæva úr Evrópu.


Er að horfa á Margréti Frímannsdóttur

og hún er eins og hún á að vera ,yndisleg. Mikið bind ég miklar vonir við hana. Hún er eldklár og hefur örugglega viljann til að reyna að breyta.

Lagaði aðeins bloggvinalistann.

Tók engar myndir af ömmumolum en græddi nokkur krúttileg knús.

Einhver tekinn á 150 km hraða á Reykjanesbraut....hm.....þið þarna Suðurnesjagormar, voruð þið að flýta ykkur heim frá ömmu ?


Álftanes

Tekið af www.ruv.is

 

Grjóti sturtað á náttúruperlu

Mörgum bílförmum af stórgrýti hefur verið sturtað í fjöru á norðanverðu Álftanesi. Enginn sótti um leyfi fyrir efnislosuninni hjá yfirvöldum en skilti við akveginn á norðanvert Álftanes bannar alla losun.

Norðanvert Álftanes er að margra mati náttúruperla enda á náttúruminjaskrá. Ein fárra skeljasandsfjara sem eftir er á höfuðborgarsvæðinu. Á náttúruverndaráætlun Umhverfisstofnunar er lagt til að friða hana ásamt fjörum í Skerjafirði. Meðal ástæðna er mikilvægur viðkomustaður farfugla og grunnsævi með auðugu lífríki.

Á aðalskipulagi er gert ráð fyrir smábátahöfn á þessum svæði en það er í einkaeigu. Ekkert deiliskipulag liggur þó fyrir. Grjótgarðurinn sem nú hefur verið lagður í sjó fram er ekki ólíkur þeim sem er á teikningum aðalskipulags.

-------------------------------------------------------------------------

Hérna hafa heilu vörubílalengjurnar ekið út á nesið, mér skilst að vísu að einhver hluti þeirra sé að setja efni ofan í einhverja mýri en svo hafa einhverjir aðrir sett þetta grjót í fjöruna. Steinar er búinn að halda því fram að þeir megi þetta ekki og svo kom þessi frétt. En fyrst landið er í einkaeigu getur vel verið að landeigandinn hafi gefið leyfi fyrir þessu, hvað veit maður svo sem ?

Annars er allt gott að frétta, ég held að ömmumolar ætli að koma í heimsókn til mín á eftir.....


Meira myndablogg

Hilmar og Vignir

Kominn háttatími á sæta snúða.

Vignir stóri bróðir

Það er gott að eiga svona stóran bróður, þvílík ástaraugu sem Hilmar fær frá Vigni stóra bróður.

Ha

Ertu að tala við mig ? Hver ert þú ?

 


Stundum held ég

að sé vera að gera atlögu að heilsu manns, ja allaveganna að geðheilsunni. Það þarf eiginlega að spila Pálma aftur svo ég jafni mig á þessum ósköpum. Þetta er eina lagið sem ég ætti að taka hljóðið af sjónvarpinu meðan þar er flutt...Dr.Gunni, ég biðst afsökunar, en við höfum hreint ekki sama húmor.

Annars er allt hið besta hérna, ég horfi á Pál Óskar og brosi. Ég brosi alltaf þegar ég sé hann, hann er svo ljúfur.

Krakkarnir í innslögunum eru æði, þau tala um Barbie strák og fleira í þeim dúr.

 


Stundum festist maður

í einhverjum sporum. Þennan janúar hef ég þolað þrátt fyrir að vera með víðtæka fóbíu fyrir janúarmánuði almennt, ég held að birtustigið ráði þar mestu. Sálarlifið hefur verið í stíl við mánuðinn. Það hafa almennt ríkt hin mestu myrkur með stöku stormi. Heldur fór að brá af í mánaðarlok og þá spurði ég manninn ; er ég ekki búin að vera alveg hundleiðinleg undanfarið ? Jú eiginlega viðurkenndi hann en bætti svo við ; ég ákvað að bíða bara rólegur eftir að mín kelling kæmi í ljós! Þar var ég náttlega heppin að hann er haugur af þolinmæði ,hann hefur nefnilega ekki hallað orði að leiðinlegu konunni sinni. Leiðinlegheit mín hafa aðallega falist í því að ég hef setið einhversstaðar, steinþegjandi og alveg óvirk í umheiminum. Það skal vera leiðinlegt að horfa upp á það. Reyna að tala við einhvern og það kemur bara eins atkvæðis orð eða ha ? eftir dúk og disk.

Einu samskiptin hafa verið yfir púslinu

Nei þetta passar ekki !

Færðu þig !

Réttu mér etta !

Já þetta ! Hvað hélstu að ég væri að benda á ? (bara 999 önnur stykki á borðinu)

Og hann hefur hætt við, fært sig, rétt mér og brosað.

Eftir síðasta púslfíaskó náðum við að tala saman, um Himma, um allt sem hefur verið að gerast og hvernig mér hefur liðið og hvað mér finnst hann hafa staðið 1000% með mér, með þolinmæðinni. Og viti menn, honum tókst að brjóta klakann sem ég var búin að koma utan á mig, það hefði enginn annar getað.

Ég hef verið utan við mig og bara sauður, klukkan kannski orðin 19.00 og ég enn ekki búin að uppgötva að þennan dag eins og aðra á að gefa heimilisfólki að borða. Ji, núna ?

Þú ert óróleg þegar þú sefur segir hann. Þá er mig að dreyma ..man minnst af því en dreymir aldrei Himmann minn. Þá myndi ég ekki vilja vakna af þeim draumi.

Trúin er brotin, ég skil ekki þetta Guðsorð.

Samt held ég ótrauð áfram, ég veit að mér er ætluð leið útúr þessum erfiðleikum. Mitt er að finna hana. Það mun ég gera.

Í ruglinu hefur heimilið setið alveg á hakanum. Björn hjálpaði mér með eldhúsið áðan og náði að ýta því að mér, kurteislega, að hann væri að verða alveg fatalaus.,,Hvar eru fötin þín ? spurði forviða mamman. Hann hvarf og kom að vörmu spori með fulla óhreinatauskörfu. Ég náði hintinu og nú malar þvottavélin.

Ég er ánægð með sjálfa mig, ég sé draslið hérna núna og ég er að vinna í þessu. Ég er bara samt dugleg.

Þetta kemur....

 


Jæja

Þá er ég líklega búin að baka mér ógurlega óvild hjá um það bil 50 bloggurum.

Það var atvik síðan í gær sem varð til þess að ég ákvað að láta slag standa og héðan í frá verða þessir bloggvinir einungis þeir sem ég þekki, sko hef hitt. Það er bara of mikið flækja fyrir mig að vera að fylgjast með rúmlega 60 sálum að ég tali ekki um einhverjar undarlegar kvaðir um að kvitta hjá fólki sem ég náttlega þekki ekki haus né sporð á.

Verst er að sólin skín í augun á mér og ég gæti óvart hafa eytt út einhverjum sem ég þekki persónulega. Þá er bara að smella á til baka.

Á venjulegum bloggsíðum þá velur maður linka á síður sem maður les. Hérna hrúgast yfir mann fólk -ef maður tekur ekki ákveðna stefnu í málinu....

 


Smá myndablogg

Hjalti Solla og Bjössi með Hilmar

Hérna eru bræðurnir, Hjalti og Bjössi og Solla með Hilmar Reyni.

Hjalti og Aníta, Hilmar Reynir

Aníta og Hjalti með Hilmar Reyni á skírnardaginn hans.


Æj

Getur maður sagt svona ; vegna bágs heilsufars þá get ég varla bloggað ?

Málið er að í mig er hrokkin vöðvabólga og komin alveg upp í eyru. Það er sárt að ýta á hvern einasta lykil og þetta er bara dáldið leiðinlegt.

Ætli sé gott að standa á haus í heitu baði ? Eða drukknar maður bara ?

Ég ætla bara að horfa á Útsvar og eitthvað meira.

Það er ég viss um að þetta er vinnunni minni að kenna, það var sturlað að gera í allan dag og svo er svo svakalega kalt ! Svona er að vera lítill, maður frýs upp í eyru meðan venjulegt fólk fær kalt í hnén.

Sá frétt í dag um einhvern sem laug hryðjuverkum upp á tengdasoninn. Ég flissaði heilmikið að þessu en varð um leið fegin að mér er ekki illa við mína tengdasyni. En hugmyndin er góð Whistling

Ef það heyrist ekki í mér meir þá hef ég prufað að standa á haus í baðinu


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband