Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

Kerfisfræðingur

ég er svoleiðis. Er það ekki annars þegar maður fer í kerfi ?

Auður litla er klár, Auður er litla systir hans Himma. Elst af Grindavíkursystkinunum, brosmild og ljúf hnáta. Hún sýndi mömmu sinni mynd af mér í sunnudagsmogganum. Þá hafði morgunblaðið birt áskorun mína varðandi myndbirtingar af banaslysum í umferðinni. ,,Hvernig fór ég að því að sjá þetta ekki !" sagði Björn alveg hneykslaður. Þá hafði hann eytt löngum tíma í að stúdera teikningu Sigmunds sem er bara beint fyrir ofan. Björn fær mínus fyrir athyglisgáfu en Auður fær plúsinn !

Ég er eitthvað dösuð í bili og skrifa síðar. Munið ljósasíðurnar og eigið góða nótt.


Þetta er ekki að virka

sjá frétt hérna neðar sem afrituð er að vef Rúv. Menn eru frekar forhertir og laus höndin við þessar aðstæður. Fyrst hvolfa menn í sig brennivíni og halda þar með að þeir séu miklir kappar. Aka svo niður annan hvern dauðan hlut í borgarlandinu (sem betur fer þó ekki fólk) enn sannfærðir um að þeir séu kappar hinir mestu. Næsta hugmynd er að lemja löggurnar fyrir að voga sér að skipta sér af þessum snillingum, enda í grjótinu að sofa úr sér. Þvílíkar mannvitsbrekkur......Næstu helgi vona ég að þessir snillingar finni sér viðfangsefni sem hæfir þeirra þroska !

Skömmu eftir klukkan 3 í nótt ók drukkinn maður á umferðarljós á gatnamótum Bústaðavegar og Grensásvegar. Hann lét það ekki stöðva sig og hélt áfram á móti umferð eftir Grensásvegi. Þar missti hann stjórn á bílnum og endaði á strætóskýli. Þegar hann var kominn á slysaseild vegna minniháttar áverka tók hann upp á því að ráðast á lögreglumenn og lækna og var settur í fangageymslu.

 

Um þjúleytið ók annar ölvaður maður á stjórnkassa fyrir umferðaljós við gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar. Þar með urðu  umferðarljósin á einum stærstu gagnamótum borgarinnar óvirk. Vitni sáu mann fara út úr bílnum og hlaupa í átt að Kringlunni. Þar náðu lögreglumenn honum á hlaupum. Hann veittist að laganna vörðum og fékk því að gista í fangageymslu.

-----------------------------------------------------

Las skrilljón komment hjá Jenný um bókargarminn þarna um strákana tíu. Hausinn var lagður af stað í þriðja hring þegar ég var búin að lesa þetta allt. Ég skil samt báðar fylkingarnar en hefði kosið að fólk bæri gæfu til að vinna sínum málstað stuðnings á kurteisari máta. Svoleiðis myndi umræðan skilja meira eftir sig.

Ég vakti (eins og bjáni)allt of lengi frameftir í gærkvöldi. Steinar var að vinna og venjulega þegar svoleiðis er þá telja hvuttar heima að ekki megi fluga reka við í hverfinu án þess að þeir hafi eitthvað um málið að segja. Þetta endaði með því að Lappa var komið fyrir í búrinu sínu á ganginum en við Keli sváfum á venjulegum stöðum. Keli steinsvaf þá enda varðhundurinn Lappi ekki sífellt að vekja hann.Stundum segi ég við þá að ég búi til úr þeim lúffur ef þeir hætti ekki þessu veseni. Þeir vita ekkert hvað það er og hætta ekki neitt. Eitt er þó gott, það læðist enginn heim að mínu húsi með misgjörðir í huga.

Í morgun þegar ég fór í vinnuna þá sá ég keflvískan leigubíl koma sunnan að. Hann var allur klakabrynjaður að framan og það setti að mér hroll. Ég vann lengi eingöngu næturvaktir á stöðinni og ég vissi vel hvað gerst hafði þá í nótt. Menn eru oft ekki komnir á vetrardekkin þegar fyrsta hálkan kemur og flýja heim í hópum. Eftir situr stöðin, hálflömuð, og reynir að afgreiða það sem flesta viðskiptavini með bíla.


mismunandi fyrirhöfn

Suma daga þarf ég að hafa nokkuð mikið fyrir að halda Pollýönnu á lífi. Hún vill leggjast í dvala hjá mér og fer þá inn í skáp og neitar að koma út. Hún situr þar með þvermóðsku og leiðindaviðhorf. Hún vill ekkert skilja og hlustar ekki á mig.

Samt veit ég að í þessu námsefni núna er kúrs í því að njóta minninganna og reyna að kyngja þessum kekki í hálsinum, halda áfram með lífið og muna að það eru fleiri sem þarfnast mín. Fleiri en drengurinn minn sem situr í ljósinu hjá hæsta himnaföður.

Kannski hef ég deilt þessari sögu áður en það gerir þá ekkert til.

Sagan um brosin, eftir Björn Gísla.

Fyrst bjó Guð til Hilmar. Hann horfði á sköpunarverk sitt og hugsaði ; nei þetta er nú kannski einum of, þessi brosir svo mikið !

Þá fór hann í það að búa til Hjalta. Þegar Hjalti var fullgerður þá virti Guð hann fyrir sér ; nei nú fór ég heldur langt í hina áttina. Þessi brosir ekki neitt !!

Guð hugsaði sig um stutta stund áður en hann ákvað að reyna við þriðja drenginn. Guð hófst handa við að smíða Björn. Að verkinu loknu hallaði Guð sér aftur með ánægjusvip og sagði hróðugur ; Já nú tókst það, þessi er fullkominn!!

Hilmar hafði endalaust gaman að þessari sögu hans Bjössa. Þessi saga er nokkurra ára gömul og enn í fullu gildi.

Kannski vantaði Guð núna brosið breiða til himnaríkis ? Hvað veit ég ?

Hérna sjáið þið fallega brosið hans og bræður hans sem eru líka yndislegir karakterar.

Hilmar

Góða nótt...nú fer ég og kveiki ljós fyrir alla sem þess þurfa með.


Sinfónían og fyrsti vetrardagur

og Eyjólfur landsliðsþjálfari hættur,kjötsúpa á Skólavörðustíg. Þetta voru þessir toppar í kvöldfréttum RÚV. Sérstaklega fannst mér gaman að sjá sinfóníuhljómsveitina spila á náttfötunum fyrir börnin,það var auðvitað barn sem stakk upp á því.

Græni eðalvagninn kom af verkstæðinu í gær. Frúin var nú ekki ánægð með vin sinn og Askja leit á hann í morgun. Ég taldi nokkuð víst að græni minn væri með ónýtan mótorpúða enda víbrar hann nokkuð í lausagangi. Það stemmdi og báðir mótorpúðarnir eru orðnir mjúkir sem talið er hægt að rekja til þessa þunga höggs sem bíllinn fær. Annað asnalegt vandamál hrjáir hann líka, það er alls ekki hægt að kveikja á útvarpinu. Það var í ágætu lagi áður en þetta kom allt til. Þeir fundu ekki hvað veldur þessum furðulegheitum hjá Öskju og þetta þarfnast nánari skoðunar við. Ég vil fá bílinn jafngóðan til baka og trúið mér, frú Ragnheiður er smámunasöm með bílinn sinn ! Hins vegar er bifreiðin stórfalleg og hægt að mæla með verkstæðinu sem sá um viðgerð hans. Verkið er þeim til sóma.

Bestu þakkir til þeirra sem tóku áskorun og birtu kvörtun mína um myndbirtingar á slysavettvöngum.

Ég veit að það eru nokkuð margir sem lesa síðuna mína, einn lesandi kom mér þó á óvart. Viðkomandi bað mig um að sýna sér hvernig á að kveikja á kerti fyrir Himma. Ég gerði það. Næsta kvöld sá ég að viðkomandi hafði kveikt sjálfur á kerti, aleinn. Ég brosti hringinn og hrósaði viðkomandi fyrir dugnaðinn. Þá glotti karlinn minn og viðurkenndi að þegar ég hélt að hann væri að skjóta kúlur í stóru tölvunni inni þá var hann að lesa blogg konu sinnar...hehe. Hann er náttlega flottastur og bestur.


Áskorun

Ég skora hér með á Morgunblaðið að hætta nú þegar myndbirtingum af banaslysavettvöngum í umferðinni. Slík myndbirting er með öllu óþörf og eingöngu til þess fallin að særa aðstandendur þeirra sem þannig látast eða slasast.

Vinsamlega birtið sem víðast kæru bloggvinir


Klumsa og þó ekki

Kannski hissa en þó ekki,á því hvernig fólk aflar sínum málstað stuðnings. Það er hnakkrifist í hverju horni út af þessari bókarskruddu þarna...og það sem fólk lætur út úr sér. Ég er klossbit. Ef ég ætlaði í alvöru að sannfæra einhvern um að mín skoðun væri sú eina rétta,hálfgerð ríkisskoðun, þá myndi ég aldrei tala niður til þess aðila sem ég væri að reyna að fá á mitt band. Ég meina kommon people, maður segir ekki svona!!

Í gegnum þau ár sem ég hef verið móðir þá hafa hin ýmsu skeið dunir yfir hjá börnum mínum. Kvenhatarafélagið varð frægt á sinni tíð, einu undantekningarnar vorum við Solla. Ef maður vogaði sér að minnast á að þeir ættu eftir að eignast kærustur sjálfir þá drundi við þrefalt oj . Þeir voru teknir í nokkra fyrirlestra á heimilinu og svo leið þetta undir lok. Annað tímabil var furðuleg dýrkun á Hitler. Móðirin reif þá inn og settist með þá alla þrjá við eldhúsborðið. Þar var haldin löng ræða og útskýrt hvað og hver Hitler var og hvað hann gerði gyðingum,fötluðum og börnum, gott ef það var ekki lesin Anna Frank líka til áhersluauka. Þegar mamma var búin með prógrammið þá blöstu við sex tárvot augu. Þetta höfðu þeir ekki haft hugmynd um. Þeir hafa ekki minnst á Hitler síðan. Þegar þeir voru orðnir umtalsvert stærri þá fór að bera á kynþáttahatri. Við ræddum málið fram og aftur en mér gekk ekki vel að koma þeim af þessu. Oft hljómuðu þeir eins og þrír þjóðernissinnar...það leið löng stund áður en mér skildist hvers vegna mér gekk ekkert að sannfæra þá. Í rödd móðurinnar var holur hljómur, hljómur rasistans sjálfs. Ég breytti um áætlun og byrjaði á sjálfri mér, skoðaði allar mínar hugsanaskekkjur ofan í kjölinn. Þess vegna segi ég, fordómarnir eru rétt neðan við skinnið á manni. Maður verður alltaf, allsstaðar að gæta sín á því að festast ekki í fordómum.

 Í gær var nokkuð rætt um konuna sem flutt var upp á land fram fyrir dómara. Dómari ákvað að dæma hana ekki í gæsluvarðhald. Gott og vel, þekki málið ekki og kemur það ekki við EN verða þeir þá ekki að skila henni heim aftur ?

Hjalti og Aníta eru að standa sig svo vel, þau geta auðvitað ekki lofað mér að tolla edrú, fíknin bíður ekki upp á slíka fullvissu. Það að þau geri eins og þau geta er nóg fyrir mig, ég sætti mig við það. Nú rekur kannski einhver upp stór augu, ég tala um þau sem eina manneskju. Það er vegna þess að þau hafa verið saman síðan 2001 og mér þykir orðið jafnvænt um hana eins og ég ætti hana sjálf líka. Hún er svo yndisleg stúlka...falleg,góð og dugleg. Mér er sannur heiður að fá að eiga hana að.

Ég er óskaplega heppin með krakkana mína og tengdabörnin mín, þetta eru allt bestu manneskjur.

Oft er talað um að sá sem öllu ræður raði hlutum saman þannig að það passi. Þegar ég átti erfitt ár, 2002, eitthvað strákabras og mamma að deyja úr krabbameini, þá eignaðist ég fyrstu barnabörnin mín. Það sem þeir voru miklir gleðigjafar mitt í öllum erfiðleikunum. Sama er uppi á teningunum núna, Solla mín er alveg komin á steypirinn og bráðum sér fjölskyldan fyrsta fjölskyldumeðliminn sem aldrei hitti Hilmar.

Einkennilegt ástand með mig annars. Fyrst eftir að Himmi dó þá missti ég sjónina þannig að ég varð að vera með gleraugun. Þetta hefur lagast. Núna hefur þetta lagast svo mikið að ég get eiginlega ekki notað gleraugun, fæ hausverk af því að nota þau.

Munið Himmaljósin.

Í kvöld hugsum við hlýlega til mannsins hennar Helgu Valdimarsdóttur, hún er hér fastur gestur á síðunni. Maður hennar veiktist í morgun. Hún er sjálf með vefsíðu og er hér bloggvinur neðarlega í þessum langa,langa lista mínum.

Góða nótt og sparið stóru orðin þar til tilefnið er orðið nógu stórt.


tilhneigingar fólks

til að sortéra allt í drasl.

Það er nokkuð mögnuð árátta. Maður getur ekki bara verið maður, maður þarf að sortérast inn í ákveðinn hóp. Nú hafa samkynhneigðir verið nokkuð í umræðunni vegna kirkjuþing, þeir mega ekki giftast í kirkju. Þó er búið að stíga ákveðið skref í rétta átt, þeir mega vera í staðfestri samvist sem fer þá svipað fram og hjónavígsla. Ég held að ég sé í þjóðkirkjunni,kem vísu af langri runu fríkirkjusafnaðarbarna. Ég vil vera í þjóðkirkjunni og ég veit að ég verð aldrei alveg sammála öllum kennisetningum þar en með því að stinga af úr þjóðkirkjunni þá hverfur möguleikinn á að breyta í batteríinu. Dropinn holar steininn og það allt.

Nú loga skelfilegir eldar í Californíu, ég hef fylgst með því héðan úr rigningunni á Íslandi. Ég hef meira verið að fylgjast með FEIMA, þessum almannavörnum þarna í USA. Þessum sem brugðust svo skelfilega þegar Katarina reið yfir. Ég horfði á viðtal (líklega í fyrradag) við einhvern talsmann þeirra. Það var eiginlega ótrúlegt að hlusta á manninn. Hann klifaði sífellt á því að vegna þess að þetta samfélag væri ríkt þá væru íbúarnir fljótari að ná sér og næðu að vinna betur saman en verið hefði í New Orleans. N.O. væri samfélag fátækra og glæpatíðni væri þar há. Þarna var ég farin að missa þráðinn en ekki var hægt að skilja manninn öðruvísi en hann væri búinn að sortéra þessar tvær hamfarir á sitt hvort endann á mæliprikinu. Þessir núna voru ss aðstoðarlöglegir en hinir í N.O. voru það ekki. Náttlega ef það er búið að sortéra þetta fyrirfram þá er borin von að ætlast til þess að vinnubrögðin verði almennileg þegar hörmungar ríða yfir "léleg" svæði sem byggð eru fátækara fólki.

Fordómar eru aldrei af hinu góða en ef maður rýnir í sjálfan sig og vandar sig svolítið þá sér maður að fordómarnir eru bara rétt þarna undir skinninu á manni. Maður er afar fljótur að tileinka sér fyrirfram gefnar skoðanir á mönnum og málefnum. Við getum ekki hreinsað úr umhverfi okkar allt sem mögulega ýtir undir fordóma en annað getum við gert. Við getum meðvitað reynt að vinna gegn þeim af heilindum, með því að útskýra fyrir börnum eðli og afleiðingar fordóma.  Að því sögðu þá leggst ég ekki gegn útgáfunni um negrastrákana, ég mun samt ekki kaupa bókina. Það er vegna þess að mér fannst hún ekki skemmtileg 1966 eða hvað það nú var. Berist hún hingað í höndum barns þá mun ég gera mér far um að útskýra að þrátt fyrir lit og annað sem veldur því að við erum ekki eins þá erum við öll Guðsbörn og eins í hans augum. Mikið vildi ég annars að kirkjan hjálpaði mér við það !

Einn sálmurinn sem sunginn var yfir drengnum mínum var eftir sr. Sigurbjörn Einarsson, þann mikla kennimann. Hann er í sérstöku uppáhaldi hjá mér.

Sálmur 712

    
Dag í senn, eitt andartak í einu
,
    eilíf náð þín, faðir gefur mér.
    Mun ég þurfa þá að kvíða neinu,
    þegar Guð minn fyrir öllu sér ?
    Hann sem miðlar mér af gæsku sinni
    minna daga skammt af sæld og þraut,
    sér til þess, að færa leið ég finni
    fyrir skrefið hvert á sinni braut.


    
Hann, sem er mér allar stundir nærri,
    á við hverjum vanda svar og ráð,
    máttur hans er allri hugsun hærri,
    heilög elska, viska föður náð.
    Morgundagsins þörf é þekki eigi,
    það er nóg að Drottinn segir mér:
    Náðin mín skal nægja hverjum degi,
    nú
í dag ég styð og hjálpa þér.


    Guð, ég fæ af fyrirheitum þínum
    frið og styrk, sem ekkert buga má
    Auk mér trú og haltu huga mínum
    helgum lífsins vegi á,
    svo að ég af hjartaþeli hreinu,
    hvað sem mætir, geti átt með þér,
    daginn hvern , eitt
andartak í einu
,
    uns til þín
í
ljóssins heim ég fer.

                 Sigurbjörn Einarsson


Hérna er sálmurinn. Ég hugsa oft um hann vegna þess að eina leið mín til að lifa af er að gera það svona, einn dag í einu.

Vonandi hafið þið það sem best í dag, það ætla ég að reyna að gera.


Já hm...

Ég er miklu hressari í dag en í gær.

Búin að taka við kvörtunum og allt í dag, þær snerust auðvitað ekki að mér hohoho. Stundum lendir fólk í furðulegustu aðstæðum og þá er oft gott að rausa við óviðkomandi eyra. Ég lána völdum aðilum mín eyru.

Mig hefur lengi langað í skilti á hurðina, með nöfnunum okkar á. Steinar fékk sent í dag skilti við hæfi. Hann á að vísu eftir að skoða það en mér finnst það smellpassa við setteringuna á útihurðinni.

 

1444409672_3ef88c9946

Ég á nebblega systur sem hefur áralanga æfingu í að hressa minni systurina við. Það var enginn annar til þess hér í gamla daga. Hún sendi mér fullt að svona skemmtilegheitum og ég mun koma með það eftir þörfum á síðuna mína.

Gillí er sem betur fer komin heim aftur en kertasíðan hennar ------------------> er þarna.

Hún Jenný mín er í aðalskoðun í dag og ég hugsa hlýlega til hennar. Kannski fær hún endurskoðun ?

Ég held að nýtt met hafi verið slegið í afmæliskveðjum til Kolbrúnar Ragnheiðar sætu rófu hennar Þórdísar Tinnu. Þegar ég leit yfir á hennar síðu í gær þá voru komnar 301 kveðja. Það er gaman að þessu.

Nú ætla ég að sjá hvað þið eruð að hugsa um í dag, var bara búin að fara örrúnt til Gillíar,Önnu og Jennýar.

 


Ég var að horfa á

Mýrina. Það var ekki snjallt sjónvarpsefni fyrir mig. Hún var auglýst í gær til sölu og ég sagði við Steinar að mig langaði í hana. Hann átti erindi með Björn í verslun í kvöld og þar blasti hún við. Hann keypti hana og kom með hana til mín.

Ég horfði á hana með honum, með hjartað á spani. Verst fannst mér að sjá senurnar sem teknar voru á Litla Hrauni, ég fékk alveg hroll. Ég hefði átt að sleppa þessu, ég þoli þetta ekki.

Ég stend sjálfa mig að því að vera með pókerfeis gagnvart mínu fólki alveg eins og öðrum sem í kringum mig eru. Pókerfeisið dugar þó ekki á símann minn, ég bara ansa honum ekki þessa dagana. Þið sem hafið reynt að hringja, bara sorrý. Ég meika ekki símtöl.... Það er einn sem sér í gegnum pókerfeisið. Það verður bara að vera þannig.Sá aðili tilheyrir ekki fjölskyldunni minni. Ég er að reyna að gera við hérna fyrir innan og það tekur tíma. Ég er samt rosalega þreytt, andlega steinuppgefin.

Það halda allir að ég sé svo sterk en trúið mér, að mestu leyti er ég að þykjast vera sterk. Það er mín leið til að lifa skelfinguna af.

Ég er farin að sofa. Munið ljós fyrir www.gislina.blog.is og ljósin fyrir Himmann minn. Litla skottið Þuríður Arna þarf líka ljós í lífið sitt og líka Þórdís Tinna með afmælisbarnið sitt fallega.


Yndislegar

gömlu konurnar sem var verið að sýna í sjónvarpinu rétt í þessu. Þær búa á Sólvangsvegi í Hafnarfirði og voru að sýna nýjustu tísku. Sú elsta að verða 102 ára og sveif um á háu hælunum eins og drottning. Ég brosti alveg hringinn, ég hef svo gaman að svona fallegri fréttum.

Eldarnir í Californiu eru gríðarlega miklir, magnaðar náttúruhamfarir.

Nú sit ég eins og ungi í hreiðri, nánast með opinn gogginn enda ætlaði húsbóndinn að koma með mat heim. Konan fékk frí í dag og við Kelmundur sitjum saman í myrkrinu og í ullinni og bíðum bara.

Ef þið viljið sá fréttirnar þá getið þið kíkt á ruv.is .

Munið ljósasíður og afmæliskveðjur til ungrar dömu sem á afmæli í dag, dóttir Þórdísar Tinnu.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband