Bókmenntastórvirki eða ömurlegar aðstæður ?
13.10.2009 | 16:42
Don Kíkóti þykir afar merkilegur og margþýddur á allskonar tungumál. Hann hefur aldrei höfðað til mín enda fer öll hans orka í að berjast vonlausri baráttu við vindmyllur. Don Kíkóti er náttlega óður, hann sér ofsjónir- hann er manískur og bara einfaldlega brjálaður. Hann hefur með sér þjón ..hlutverk þjónsins skil ég samt ágætlega og mun koma að því síðar. Í dag sé ég að Ásthildur Cesil prýðir forsíðuna á DV- ég hvet ykkur til að lesa á síðunni hennar, lesa um þann aðbúnað sem snýr að fíklum og fjölskyldum þeirra.
Þar er barist við vindmyllur. Ég tel að óþol mitt á Don Kíkóta sé runnið af því að alla mína æfi hef ég barist við einhverjar vindmyllur.
Alversta baráttan hefur verið fyrir fíklana, afbrotastrákinn og óþægðarangann...hver þeirra á hvaða titil vita þeir sjálfir.
Þá var ég í hlutverki þjóns hins óða..
Svo vogar maður sér að verða þreyttur á baráttunni, lokar á vesenið og reynir að hvíla sig. Svo fer allt í vitleysu og maður situr uppi með samviskubit um að hafa ekki gert nóg - þegar í raun ekkert var hægt að gera og enginn vildi hjálpa manni.
Eina sem maður fékk voru einhver hornaugu, dómharka einhvers fólks úti í bæ sem ekki hafði heldur manndóm til að reyna að koma til hjálpar.
Hélt fólk að við vildum hafa ástandið svona ?
Athugasemdir
Þú hristir upp í mér.... og ég velti því fyrir mér í framhaldinu; er til einhver félagsskapur foreldra ungmenna sem villast af réttri leið ?
Ég held ekki og eins og við vitum er líklegra að hópur fólks nái árangri, heldur en einstaklingur. Það þarf úrbætur og úrræði sem virka og ég sé enga hæfari til þess að knýja á um það en fólk sem þekkir ástandið og afleiðingarnar..... fólk með hjartahlýju.... fólk eins og þig og Ásthildi.
Bara hugmynd.
Anna Einarsdóttir, 13.10.2009 kl. 20:45
Þú ert góð að vanda elsku Ragga mín. Ásthildur berst hetjulega og því miður finnst manni þetta oft eins og barátta við vindmyllur, enginn vill heyra neitt gott um "vonda" fólkið okkar, ó ef það bara vissi hversu lík við erum öll innst inni, kær kveðja
Ásdís Sigurðardóttir, 13.10.2009 kl. 21:23
Flott hugmynd Anna..við Birna Dís erum tvíeyki- köllum okkur mömmur í bata. En svona samtök eru snilldarhugmynd
Kær kveðja Ásdís mín
Þetta er kannski heldur bitur pistill en mér leið bara svona þegar ég skrifaði hann.
Ragnheiður , 13.10.2009 kl. 22:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.