Mikið búin að spá og spökulera
26.5.2009 | 01:14
síðan ég sá þessa auglýsingu um þátt Jóns Ársæls...Pála og biskupsmálið. Nú var mikið fjallað um þetta mál á sínum tíma og ég man ekki nákvæmlega málsatvik eins og þau voru þá en það breytir engu svosem.
Fórnarlömb misnotkunar eru ansi mörg og misnotararnir eru áreiðanlega í hverri stétt manna. En slík mál hafa alltaf verið erfið, sönnunarbyrðin er erfið enda eru nú ekki sjónarvottar að slíku athæfi. Ég veit ekki hvað dómstólar hafa til hliðsjónar við dóma í svona málum enda skil ég sjaldnast dóma sem ganga í brotamálum gegn konum og börnum.
En aftur að þessu máli. Umræddur biskup er löngu látinn. Eftir stendur fjölskylda hans- saklaus. Hvað er það sem fæst með því að draga þetta mál upp nú ? Ég ætla að hlusta betur á viðtalið við þau Pálu og Jón Ársæl núna á eftir ef það er komið inn á vefsjónvarp vísis en mér heyrðist hún tala um að hún vildi afsökunarbeiðni frá kirkjunni. Þetta olli enn meiri heilabrotum. Slík afsökunarbeiðni frá slíku batteríi sem þjóðkirkjan er væri varla nokkuð annað en orðin ein, án einlægni, án nokkurrar eftirsjár...orð á blaði- einskis virði enda engin meining á bakvið þau.
Nú má ekki skilja þessa færslu sem svo að ég hafi ekki samúð með fórnarlömbum í slíkum málum, öðru nær og þessi mál þekki ég á eigin skinni eins og svo margar kynsystur mínar.
Það er bara þessi spurning : hvað næst fram með að draga málið fram nú ?
Ég bara skil það ekki.
Gefið dánum ró og hinum líkn sem lifa
Athugasemdir
Henni finnst hún hafa orðið fórnarlamb í annað sinn þegar hún hrökklaðist úr landi fyrir 13 árum.
Hún vill fá fyrirgefningarbeiðni frá KIRKJUNNI (ekki fjölskyldu hins látna) Við munum hvað "Breiðavíkurdrengjunum" þótti gefandi að forsætisráðherra skyldi biðja þá fyrirgefningar, fyrir hönd þjóðarinnar (ekki gerði Jóhanna Sigurðardóttir neitt á þeirra hlut)
Kirkjan, sennilega með þöggun, áhugaleysi um mál hennar og framtaksleysi er sek gagnvart þessari konu, hvort sem hún lýgur eða segir satt. Hlusta hefði átt á hana og leita niðurstöðu málsins.
Þessi kona er lifandi en hún á líka fjölskyldu sem hefur þjáðst með henni eins og fjölskylda hins látna hefur gert.
Ég held að sjóði mest á henni að þetta var maðurinn/presturinn sem gifti hana og skírði barnið hennar.
Þau eiga öll mína samúð. Ég tek e.t.v. aðeins dýpra í annarri árinni af því að ég hef hugsað þetta frá því að þetta hafi verið ég sjálf eða dóttir mín... og enginn hlustað og allra síst trúað; burtséð frá hugarburði eða staðreynd.
Eygló, 26.5.2009 kl. 02:40
Gerandinn hefði betur haft velfertð fjölskyldu sinnar að leiðarljósi og mér finnst ekki að þolandinn eigi að halda áfram að sýna endalausa tillitsemi.
Þessi kona (og hinar) voru gerðar ómerkingar þegar kirkjan þaggaði niður málið og aðhafðist ekkert.
Mér er sama þó það taki hundrað ár, kirkjan á að skammast til að biðjast afsökunar.
Reyndar er það ekki nóg.
Samúð mín liggur amk. með þolendunum og þeirra málstaður á að heyrast.
Án tillits til hvort gerandinn er dauður eða lifandi.
Jenný Anna Baldursdóttir, 26.5.2009 kl. 07:19
Tek hér undir með Jenný og Maríju, auðvitað var það biskupsins að hugsa um hag fjölskyldu sinnar og hvaða afleiðingar káf hans gæti haft. Þetta hlýtur að vera sárt fyrir fólkið hans, en það er ekki hægt að ætlast til að fórnarlömbin hugsi um þeirra tilfinningar. Og mér finnst kirkjunnar menn ekkert of góðir til að falla á kné og biðja öll sín fórnarlömb afsökunnar á framferði þjóna hennar. Þeir ættu að vera vandari að vali á prestum, það er mín skoðun og alls ekki að láta þá endalaust njóta vafans.
Knús á þig elskuleg mín.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 26.5.2009 kl. 09:28
Ó hvað ég skil þig Ragga mín!
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 26.5.2009 kl. 10:02
Slettirekuna mig langar svo að vita hvað þú, Jóhanna, skilur. Sem mér auðvitað kemur ekkert við, bara forvitin.
Eygló, 26.5.2009 kl. 10:08
Það þarf að ljúka þessu máli.Þegar brotið er manni (lesist brotið var á mér)þarf maður (ég)að ljúka málinu fyrst í hjarta sér og fá frið.Aðrir geta ekki framkallað þennan frið.Hvorki,dómstólar eða stofnanir.Sáttin er í hjarta mans (mér) sjálfs.Þetta er ömurlegt mál fyrir alla aðila.
Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 26.5.2009 kl. 10:25
Auðvitað hefði hann átt að hugsa um sína fjölskyldu fyrst og fremst . Það sem ég á við er að afsökunarbeiðni frá svona batteríi eins og kirkjunni getur aldrei orðið einlæg og heil. Hún verður að mínu áliti alltaf hjómið eitt, tómar umbúðir.
Þessu máli átti að ljúka meðan kallinn lifði.
Auðvitað er sárt þegar manni er ekki trúað, það hef ég prufað. Það er alger viðbjóður.
Ég sé ekki að neinn geti beinlínis sótt sér bata og réttlæti með að klifra upp axlir annarra sakleysingja.
En finnist Pálu hún fá réttlæti með að kirkjan biðjist afsökunar þá er það fínt, kirkjan klúðraði þessu máli. Ég bendi á ágætt viðtal við sr Bjarna stórvin minn og sálusorgara í Kastljósi í gær.
En að gera þetta þannig að einhver sjónvarpsþáttur geti klæmst á þessu máli enn og aftur, það finnst mér ekki rétta aðferðin.
Takk öll fyrir prýðileg innlegg, ég skil öll og þau eru öll flott framsett
Eigið notalegan dag
(Birna Dís, ég notaði sömu aðferðina)
Ragnheiður , 26.5.2009 kl. 10:44
Maíja, þar sem þú spyrð vil ég svara, tel þig enga slettireku þó þú spyrjir. Það sem ég tel mig skilja er það sem Ragga er að hugsa.
Það sem ég er að hugsa er að hér er ekki aðeins um einn þolanda að ræða. Pála er vissulega fórnarlamb og um það hljóta allir að vera sammála, en það að aðstandendum kynferðisbrotamanns sé ekki vorkunn, m.a. vegna þess að gerandinn hefði átt að vita eða hugsa fyrirfram hvað hann var að gera fjölskyldu sinni eru rök sem ég kaupi engan veginn.
Fjölskyldan er vissulega þolandi í þessu máli, sem öðrum slíkum, og ég tel að Ragga sé m.a. að benda á það að þó að upprifjanir og sjónvarpsumfjallanir hjálpi einu fórnarlambi, sé öðrum fórnarlömbum ekki greiði gerður.
Flókið mál og viðkvæmt og ég er fyrsti talsmaður þess að kirkjan þurfi að stjórna sínum starfsmönnum betur og ekki hafa menn í þjónustu sem eru siðlausir eða brjóta á skólstæðingum - það er vont ef skjólið sem kirkjan á að veita er farið að breytast í andhverfu sína.
Vona að þetta skýri eitthvað.
Með vinsemd og virðingu,
Jóhanna
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 26.5.2009 kl. 13:20
Nákvæmlega Jóhanna. Fjölskyldan er líka fórnarlamb (ólöglegt fórnarlamb eins og ég kalla það oft)
Ragnheiður , 26.5.2009 kl. 15:34
En alltaf er þolandinn settur aftast í röðina.
Gerandinn varinn af kirkjunni.
Fjölskyldan af almenningi.
Svo rekur þolandinn restina.
Í mínum bókum er þetta að byrja á öfugum enda.
Jenný Anna Baldursdóttir, 26.5.2009 kl. 18:16
Það á auðvitað ekki að verja gerandann, en viðurkennir þú ekki að fjölskyldan sé þolandi Jenný?
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 26.5.2009 kl. 18:50
Ég þurfti að lesa yfir mína eigin athugasemd til að vera viss um að það hefði ekki verið ég sem hefði verið ókurteis eða hlutdræg.
Svo það fari ekki á milli mála: Allt þetta mál er harmleikur. ALLIR sem tengjast því eiga um sárt að binda. Það á líka við ÖLL mál af svipuðum toga. Konurnar sem eiga aðild að þessu máli væru fórnarlömb, svo og fjölskyldur þeirra OG fjölskyldur hins meinta geranda. Geti maður litið þannig á, var maðurinn líka "fórnarlamb" fíknar sinnar og/eða girndar.
Presturinn var fjölskylduvinur í okkar stórfjölskyldu í áratugi, eða frá því fyrir barnaskóla. Mér þótti hann alltaf "góður karl". Það eru margir sem eru NÆSTUM ÞVÍ alveg góðir, en svo er einhver agnarsmár hluti persónuleikans þannig að fyrir rest yfirskyggir það hið góða... í augum flestra/margra/sumra.
Eygló, 26.5.2009 kl. 20:18
Ég man svo vel eftir þessu máli og hve það stakk mig hvernig Ólafur brást við ásökununum, hve hann varð fjúkandi reiður út í þessar konur sem hann áleit allt að því ruglaðar. Það sem stakk mig var að hann var ekki bara einhver prestur heldur biskup yfir öllu Íslandi. Segjum sem svo að þessar ásakanir hefðu verið upplognar, annað eins hefur gerst, en hvar var þá fyrirgefningin þessa æðsta manns kirkjunnar í garð þessara kvenna sem hann áleit svona ruglaðar? Þessi harkalegu viðbrögð Ólafs sönnuðu algerlega fyrir mér að þessar voru ekki úr lausu lofti gripnar, svona bregst bara sekur maður við sem heldur að hann geti falið slóðina sína. Hefði hann verið saklaus, hefði hann brugðist öðruvísi við og með talsvert meiri virðingu.
Margrét Birna Auðunsdóttir, 29.5.2009 kl. 15:53
Psst..sko, ég er og hef alltaf verið viss um sekt hans. Enda er ég ekki að tala um það hér að ofan heldur bara hvað næst svosem fram nú þegar hann er ekki lengur hér til að svara til saka ? Og svo hitt, eins og ég held upp á "suma" presta þá sé ég ekki kirkjuna fyrir mér biðjast EINLÆGLEGA afsökunar á slíkum hlutum, það kemur kannski eitthvað afsökunarbull á blaði en hvaða meining er þar að baki?
Nú hefur bæst við kona sem hann níddist á.
Kær kveðja Bidda mín og takk þið öll fyrir fróðleg, málefnaleg og góð innlegg hérna..
Ragnheiður , 29.5.2009 kl. 16:00
Ég held að það hljóti að vera sárabót að fá fyrirgefningarbeiðni frá kirkjuvöldum (sem þær svo taka ákvörðun um hvort þær veiti). Það hlyti að vera e-s konar yfirbót af hálfu kirkjunnar og þónokkur stuðningur við konurnar, um að þær séu ekki bullklikkaðir lygarar.
Jú, jú, mér þætti það vera viss sigur, þótt aldrei væri hægt að bæta fyrir orðnar gjörðir.
Eygló, 29.5.2009 kl. 20:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.