Loðboltarnir mínir
20.3.2009 | 12:06
hafa áreiðanlega verið settir hér til að gleðja mig. Hundarnir eru auðvitað snillingar þó að þeir gelti bæði á Sigrúnu, Hilmar og Guðmund Andra og ærist við póstinn. Skamm Lappi og Keli (þeir lesa bloggið mitt, meira að segja sá blindi)
En kötturinn er alveg á sérparti. Hann vill ráða öllu hérna og hefur bara fengið að gera það (hann ræður bara í dýradeild) Hundar sitja og standa eins og köttur segir og allt gengur þetta ljómandi. Köttur er stríðinn og á til að leggja Lappa í smávegis einelti, slær hann í hausinn og stekkur upp á eitthvað. Lappi stendur ringlaður á gólfinu og veit ekki hvað lenti í hausnum. Kisa til hróss má segja að klærnar eru ekki notaðar í svona hrekkjabrögð. Um daginn vildi hann endilega leika við Kela, lá á borðstofustól og krækti í Kela þegar hann fór framhjá. Keli settist umsvifalaust og horfði á kisa, beið greinilega næstu fyrirmæla. Honum hugkvæmdist alls ekki að kisi væri að spyrja hann um að koma að leika.
Í nótt var tómur matardallur kisa. Þannig vill hann hreint ekki hafa það. Mamma, Lappi og Keli sváfu en pabbinn var í vinnunni. Þegar pabbi kom heim þá var gerð athugasemd við þetta og pabbi fór til að leysa málið. Dallurinn var ekki alveg tómur, kisi hafði sjálfur sett þar stél af fugli til að hafa eitthvað. Þegar maður er rauðbröndóttur kisi og býr á Álftanesi með tveimur táfýlubófum þá bjargar maður sér.
Heilsan er eins, ég fer til Öldu á eftir. Hún á að fara í "tunnuna" á eftir, það er henni ekki vel við og ég hef svolítið þurft að telja í hana kjarkinn með að fara í þetta og hún ætlar að fara. Svo fær hún lyfin í dag og líka á að sprauta í mænuna til að reyna að minnka sendingu sársaukaboðanna til heilans. Hún er öll þrútin af bjúg og kviðurinn orðinn ansi framsettur, svipaður og við 6 mánaða meðgöngu. Í gær var hún í svo sætum innibuxum og mig vantaði svoleiðis og spurði hvar hún hefði fengið þetta. Hún sagði mér það og við brunuðum þangað eftir heimsóknina. Fann mér þrennar svona buxur og borgaði við kassann. Svo fórum við Steinar að þrasa...um verðið. Hann sagði að ég hefði borgað þetta og ég sagði nei : hún sagði 2990 og ég borgaði það ! Svo komst ég auðvitað að því við smáumhugsun að það passar ekki við 3 buxur á tæpan 1500 kall stykkið. Ég teygði mig afturí og sótti pokann með miðanum í. Við höfðum bæði rétt fyrir okkur. Rétt verð var auðvitað rúmlega 4000 kr. En ég borgaði 2990. Skanninn í búðinni nam greinilega ekki eitt merkið.
Nú er ég orðin búðaþjófur í viðbót við allt annað
Athugasemdir
Úbs....en hvar fékkst þú svona innibuxur á kr. 1500 stykkið?
Knús á þig Ragga mín
Sigrún Jónsdóttir, 20.3.2009 kl. 12:37
Þú ert yndisleg, frásögnin þín fékk mig til að brosa, þarf á því að halda í dag.
Auður Proppé, 20.3.2009 kl. 12:42
Gangi ykkur vel í dag.Ummmmm heimabuxur.Ég á bleikar Jóe Boxer sem ég fer í um kvöldmat.Nema núna er ég enn í heimagallanum enda lasin
Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 20.3.2009 kl. 12:48
Sigrún mín, í Rúmfó í Skeifunni
Verði þér að því Auður mín, knús á þig
Knús Birna mín
Ragnheiður , 20.3.2009 kl. 13:14
skemmtilegir loðboltar - þeir hafa fullt leyfi frá mér til að gelta á mig, þeir eru bara vinalegir
knús í kotið
Sigrún Óskars, 20.3.2009 kl. 15:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.