Vestur- Skaftafellssýsla
16.3.2009 | 12:12
er sögusviðið, nánar tiltekið bærinn Keldunúpur á Síðu.
Húsmóðirin er orðin þung á sér enda er von á fimmtu dótturinni, synirnir eru orðnir fjórir.
Bóndinn, Hans Wíum Jónsson, hefur verið heilsuveill undanfarið. Um mitt sumar fæðist Sigríður Júlía, hún er fædd 14 júlí 1878. Móðir Siggu litlu er tæpast komin vel á fætur þegar Hans lést. Hann lést 9 september 1878, frá öllum þessum börnum og ómegð. Kona hans, Guðrún Magnúsdóttir fædd 19 ágúst 1839, virðist standa ein fyrir búi í fimm ár en þá er hún látin líka.
Börn þeirra komast á legg fyrir utan einn dreng , ekki verða öll langlíf þó og þar á meðal Sigga litla, langamma mín. Hún lést 31 júlí 1937.
Útfrá henni er mikill ættbogi kominn, hún átti marga syni en einungis eina dóttur. Dóttir hennar var Gústa, amma mín.
Ég er að gramsa í Íslendingabók, skoða sögu kvennanna formæðra minna. Þær voru miklir harðjaxlar. Sigríður Júlía var okkar mikla ættmóðir og hennar nafn er enn talsvert notað af afkomendum hennar.
Ég kannski kem með eitthvað meira grams seinna í dag. Er að þrífa og vesenast eins og kellingar eiga að gera. Mér bauðst bíllinn en ég afþakkaði hann...það er snjór og rok og ég ákvað að vera heima í hreingerningum frekar. Kallinn sendur út á galeiðuna í staðinn.
Eigið góðan dag, hvort sem þið eruð stödd í sól eða skugga. Oft getur maður lagað skuggann sjálfur, bara að færa sig aðeins til og þá er maður í sólinni.
Athugasemdir
Ég er viss um að Steinar er orðinn brúnn með þennan sólargeisla (þig) við hlið sér alla daga.
Anna Einarsdóttir, 16.3.2009 kl. 12:16
Hehe takk Anna mín ...
Ragnheiður , 16.3.2009 kl. 12:18
Já ertu ættuð að austan. Ég líka bara gott fólk sem kemur þaðan.
Ía Jóhannsdóttir, 16.3.2009 kl. 12:31
já þessi ættarleggur er þaðan. Takk Ía mín
Ragnheiður , 16.3.2009 kl. 12:58
Gaman að gramsa svona.Þú ert yndisleg
Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 16.3.2009 kl. 13:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.