Hvað hefur breyst ?
21.11.2008 | 11:56
6 maí 1918
Ég gerði það kraftaverk í gær, að hlusta á umræðuna í báðum deildum. Fór fyrst í neðri deild af því að ég bjóst við að Bjarni frá Vogi myndi halda tveggja tíma ræðu um stækkun verslunarlóðarinnar í Ólafsfirði og ætlaði þá að fá mér lúr á meðan. En hvað skeði. Bjarni steinþagði og ég man ekki eftir að það hafi komið fyrir fyr öll þau ár sem ég hef setið á þingi. Stefán í Fagraskógi segir í greinargerð fyrir frumv. að maður verði að sæta sjávarföllum til þess að komast að landi í Ólafsfirði og þessu hefur Bjarni ekki treyst sér til að leggja út af því það var stórstraumsfjara í heilanum.
Með þennan greinargerðar-vísdóm Stefáns sætti ég sjávarföllum og flýtti mér inn í efri deild. Um leið og ég gekk inn, lamdi forseti stóra hamrinum- aðalverkfæri deildarinnar- í borðið af þunga svo miklum að Pétur biskup dinglaði fram og aftur um vegginn en stór klöpp féll úr Almannagjá og gjöreyðilagði vasabók 1. landskjörins varaþingmanns og tók einn þumalfingurinn alveg af. Ég leit óttasleginn yfir deildarsalinn, gaut hornauga til hins hræðilega verkfæris forsetans og kastaði mér síðan á sund inn salinn því sjávarföllin hans Stefáns voru hagstæð. Hægt og rólega synti ég fran hjá spýtubakka Magnúsar Torfasonar sem er ljósblár að utan en svartur innan í og var sjórinn skítugur mjög þar í kring. En áfram hélt ég samt og létti ekki sundi fyr en ég komst upp að forsetapalli. Forseti reiddi hamarinn enn einu sinni en eg kraup undir stól hans og lagðist þar eins og hundur enda var ég hundvotur. Brimrót var mikið í salnum svo eg heyrði ekkert en það sá ég þó að í hvert skipti sem forseti bað deildarmenn að rétta upp höndina þá rétti Magnús Torfason up stóran gulan blýant í hæð við nefið á sjálfum sér. Mundi eg, væri eg forseti, senda Magnús í líkamsæfingar til Ingibjargar Brands , sem ef eg þekki hana rétt, svei mér myndi ekki vera lengi að rétta úr honum.
4. maí
Erlendínus
°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°
Þeirra tíma þingfréttir. Spýtubakkinn sem nefndur er, er auðvitað hrákadallur. Annað held ég að skýri sig sjálft.
Athugasemdir
fKannski ætti að gefa þingmönnum okkar og ráðherrum hrákadall - þá hætta þeir kannski að spýta á okkur almúgann
kveðja yfir hliðið
Sigrún Óskars, 21.11.2008 kl. 22:06
Þetta eru mun skemmtilegri fréttir frá þingheimi en bullið sem er þar í gangi í nútímanum
Sammála Sigrúnu, það mætti bæta við skóhreinsunartæki svo þeir hætti líka að vaða yfir okkur á grútskítugum skónum.
Knús og klús
Kidda (IP-tala skráð) 21.11.2008 kl. 22:15
Já, ég vildi segja strax að spýtubakkar eru ekki lengur á gólfum en eins og afi minn sagði mannseðlið er alltaf samt við sig.
Jórunn Sigurbergsdóttir , 22.11.2008 kl. 00:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.