Ég er alltaf að hugsa

Og núna hef ég hugsað um þetta hérna. Víða fjallar fólk um þetta mál enda ekki nema von. Það er ekkert á hverjum degi sem fólki sem ekki hefur gengið þessi spor, er sýnt svart á hvítu úrræðaleysi kerfisins. Og í athugasemdum spinnast umræður, stundum merkilegar en stundum eru þær fullar dómhörku, sleggjudómum og skilningsleysi.

Málið er samt einfaldlega þetta. Það er nákvæmlega alveg sama hvað bloggarar eða kommentarar út í bæ segja. (ég ætla að skrifa þetta út frá móður) Móðirin er áreiðanlega sjálf búin að ásaka sjálfa sig fyrir allt það sem fólki dettur í hug að segja um aðstæðurnar.

Margir trúa því enn að börn fíknarinnar komi bara frá slæmum heimilum, það gera þau auðvitað ekki. Oft hafa aðstæður ekki verið þær bestu en samt verið reynt að gera það besta út litlum efnum. Mig truflaði mest peningaleysi, ég vann þá meira, og þá truflaði mig tímaleysi. Ég hefði viljað eyða mun meiri tíma í og með krökkunum mínum en ég hafði tök á. Það var bara ekki í boði.

Fólk ýjar að því að öll sagan sé ekki sögð þegar fréttir eins og þessi sem ég tengi í eru sagðar. Hvað vill fólk fá að vita meira ? Afhverju þarf alltaf að láta í það skína að uppeldið,foreldrarnir og fjölskyldan séu sökudólgarnir ? Unglingur á viðkvæmum aldri þarf ekki mikið til að renna út af sporinu. Stundum eru ein mistök nóg. Ég hef fengið upplýsingar um allskyns vandamál, oftast tengd sonum fólks. Fólk vill deila reynslu, eðlilega. Fólki vantar einhvern sem skilur, án þess að dæma. Í afar mörgum tilvikum var EIN neysla nóg, fíknarviðbragðið svo sterkt að það tók yfir líf viðkomandi þar með.

Horfið á útigangsmennina. Hver vill vera svona ? Uppivöðslusamur, í tötrum, hlandblautur á almannafæri.

Í fjölskylduboðum spyrja gamlar frænkur börnin ; hvað ætlar þú að verða væni minn þegar þú verður stór ? Hafið þið einhverntímann vitað til þess að einhver hafi svarað ; Fíkill ! Eða sagði eitthvert barnið ; Róni!

Nei auðvitað ekki, þetta ætlar sér enginn. Himmi sagðist ekkert ætla að vera fangi ; hann ætlaði sko að verða bílstjóri, eins og pabbi á stóra bílnum. Það var flottast !

Samt sagði ég við vinkonu mína, þegar Himmi var 3-4 ára. ,,Hann á eftir að verða til vandræða þessi ungi maður, meiri skelfingin sem það er erfitt að fá hann til að gegna ! Ef hann ekki lærir þá verður hann inn og út af Hrauninu!! "

Ég vissi það þá. Og allt var reynt til að teyma hann í réttar áttir, það bara gekk ekki.

En í hvert sinn sem ég les...þarna er ekki öll sagan sögð þá reiðist ég innan í mér. Það skiptir ekki máli. Málið er að bregðast við aðstæðum í núinu. Það breytir enginn fortíð sinni, hvorki mæður fíkla né mæður fyrirmyndarbarna. Ekki ætlast til þess.

Svo til að það sé kristalstært þá þekki ég ekkert til þessarar ungu stúlku sem fjallað er um í viðtengdri frétt. En ég þekki þetta skrattans úrræðaleysi kerfisins. Ég hef enga tölu á því hversu oft Hjalli minn var týndur. Og ég vissi alveg að engin viðbrögð yrðu, hætt að búast við því. Kerfið bregst of seint við. Að hluta til er um að ræða plássleysi á neyðarvistun, það voru amk bara 4 pláss fyrir krakka sem eru komnir á eyðileggingarbraut. Það er fyrir allt landið. Það er of lítið. Allt of lítið.

Næst þegar þið lesið slíka frétt og gloprið þessu út ; það vantar eitthvað meira inn í þessa sögu ?! Hugsið málið aðeins, hvað finnst ykkur vanta ?

Góðar stundir


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Frábær færsla hjá þér ragnheiður. Sendi þér styrk og kærleik inn í daginn. Kærleikskveðja. Guðný Guðmundsdóttir.

Guðný Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 20.8.2008 kl. 16:30

2 Smámynd: Sigrún Óskars

Þetta er mjög sorglegt og sorglegt hvað úrræðaleysið er algert.

Það er rétt hjá þér að börn geta lent í ógöngum hvort sem þau koma frá "góðum" eða "slæmum" heimilum. Svo er spurningin hvað eru góð og slæm heimili?

Góð færsla hjá þér Ragnheiður, sendi knús og kveðjur yfir girðinguna

Sigrún Óskars, 20.8.2008 kl. 16:34

3 Smámynd: Dísa Dóra

Góð færsla hjá þér og svo sannarlega sönn.  Málið er bara að við getum aldrei stjórnað því hvort börnin okkar leiðast í heim fíknarinnar hve mikið sem við viljum forða þeim frá því.  Við vissulega getum gert allt til að kenna þeim góð lífsgildi en svo getum við ekkert gert annað en að vona að sú kennsla sé næg - stundum er hún næg en stundum villast börnin þrátt fyrir að allar aðstæður séu eins og best verður á kosið.

Það er vísst svo að hver einstaklingur hefur nefnilega eitthvað sem kallað er frjáls vilji og hann geta foreldrað ekki beislað þangað sem við viljum þrátt fyrir allt.  Það er svo sannarlega satt að við höfum börnin aðeins að láni.

Knús til þín

Dísa Dóra, 20.8.2008 kl. 16:55

4 Smámynd: Hulla Dan

Þú skilur þetta svo vel.
Það er líka ábyggilega fullt af hlutum sem við vitum ekki og kemur ekki við og skiptir ekki máli. Stelpan skilar sér ekki og mér finnst að kerfið eigi að bregðast við.
Flestir foreldrar gera það sem þau telja best og réttast fyrir börnin sín.
Auðvitað veit maður aldrei hvort þessi aðferð virkar, eða hin.
Maður einfaldlega gerir það sem maður heldur að virki og hjálpi börnunum mans.

Hafðu það sem allra best

Hulla Dan, 20.8.2008 kl. 17:26

5 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Frábær færsla og svo sönn, auðvitað vantar ekki neitt í það sem við vitum ekkert um, og vi megum ekki dæma þó við séum að ræða um mál.

Kærleik til þín Ragga mín.
Milla.

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 20.8.2008 kl. 19:46

6 identicon

Góð færsla hjá þér Ragnheiður. Ég var einmitt að velta fyrir mér þessu máli og öllu því sem ég hef um það að segja, sem er ótal margt!

Kerfið virkar ekki og það sem meira er, það á ekki eftir að gera það í nánustu framtíð!

Mun blogga um það fljótlega.

Kær kveðja

Guðbjörg Erlingsdóttir (IP-tala skráð) 20.8.2008 kl. 20:18

7 identicon

Frábær færsla hjá þér Ragga mín.

Ég man þegar ég var að vinna með ÆSKR að þá vorum við oft að taka á móti krökkum sem voru að koma úr neislu og koma þeim í annan félagsskap, sem var við sjálf.  Þetta voru sjaldnast börn frá brotnum heimilum.

Málið er bara að fólk er svo fljótt að dæma. Dæma eitthvað sem það þekkir oft ekki af eigin raun, en það hefur skoðun á málefninu.

Vandamálið við skoðanir er það að þær eru eins og rassgöt, það eru allir með eitt.  Og oftar en ekki hefur fólk EKKI rétt fyrir sér.

Knús í klessu frá Klettaborg.

Guðrún B. (IP-tala skráð) 20.8.2008 kl. 21:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband