Í fyrsta sinn
14.8.2008 | 16:56
Ákveð ég að birta héraðsdóm fólki til fróðleiks. Það kann þó að vera að áhuginn á þessu verði ekki mikill í dag enda sviptingar í borginni...í fjórða sinn. Erum við ekki að tala um enn einn borgarstjórann á biðlaunum ?
Hérna fyrir neðan er þessi dómur en dóma getur maður nálgast á www.domstolar.is
Þetta er einn þyngsti dómur í kynferðisbrotamáli sem kveðinn hefur verið upp hér á landi.
Mánudaginn 19. maí 2008 kl. 20.32 var lögregla boðuð að heimili í Reykjavík vegna tilkynningar um að þaðan hafi verið numið á brott barn. Á vettvangi tók á móti lögreglu kona C. Gerði hún lögreglu grein fyrir því að vinafólk hennar hafi komið og tekið dóttur hennar, B, og haft á brott með sér. Í máli C kom fram að B og stjúpfaðir hennar A, ákærði í máli þessu, hafi verið að deila. Í frumskýrslu kemur fram að lögregla hafi haft tal af ákærða sem skýrt hafi frá því að hann hafi kysst stjúpdóttur sína á munninn og hafi það gerst nokkrum sinnum á liðnum vikum. Þetta kvöld hafi þau kysst þannig að tungur þeirra hafi snert hvora aðra. Var ákveðið að færa ákærða á lögreglustöð á meðan málið væri kannað frekar. Á leið á lögreglustöð tjáði ákærði lögreglumönnum að honum fyndist athygli sem B sýndi honum óþægileg. B hafi oft sofið uppi í rúmi ákærða og eiginkonu hans og vildi hún þá sofa við hlið ákærða. Hafi ákærði reynt að útskýra fyrir B að honum fyndist þetta óþægilegt. Ákærða var síðar sama kvöld sleppt úr haldi lögreglu.
Mánudaginn 26. maí 2008 mætti C á lögreglustöð og lagði fram kæru á hendur ákærða fyrir kynferðisbrot gagnvart dóttur sinni. Kvað hún dóttur sína hafa greint sér frá því að ákærði hafi staðið í kynferðislegum samskiptum við hana. Hafi hún haft munnmök við ákærða og strokið getnaðarlim hans. Þá hafi þau haft samfarir. Það hafi átt sér stað í svefnherbergi á heimili ákærða og C.
B var skoðuð í Barnahúsi 28. maí 2008 af Jóni R. Kristinssyni barnalækni og Ebbu Margréti Magnúsdóttur kvensjúkdómalækni. Samkvæmt skýrslu þeirra frá 12. júní 2008 er kynþroski stúlkunnar á III. stigi hvað varði brjóst og kynfæri. Ytri kynfæri séu eðlileg, en meyjarhaft rofið með óreglulegum köntum. Niðurstöður skoðunar samrýmist sögu stúlkunnar. Skoðun leiði í ljós að það sé eins og stúlkan stundi reglulegt kynlíf.
Miðvikudaginn 28. maí 2008 var tekin skýrsla af ákærða hjá lögreglu. Ákærði kvaðst hafa gifst C, móður B, árið 1999. B hafi verið í Thailandi og ekki komið til Íslands fyrr en 2006. Ákærði kvaðst á kvöldin ávallt hafa farið með dóttur sína og fósturdóttur inn í svefnherbergi til að lesa fyrir þær, en um hafi verið að ræða 5 ára dóttur ákærða og eiginkonu hans C og síðan B. Hafi hann þá venjulega strokið þeim báðum um bakið. Ákærði kvað atburði tengda sakarefni málsins hafa byrjað um mánaðarmótin janúar-febrúar 2008. Eitt kvöldið hafi hann verið að strjúka stúlkunum um bakið, nema það kvöld hafi B legið á bakinu án þess að ákærði hafi tekið eftir því. Hafi það ekki verið fyrr en hann hafi snert á henni brjóstin. Hafi ákærða brugðið við þetta, en ekkert meira hafi gerst í þetta skipti. Ákærði hafi haldið áfram að lesa fyrir stúlkurnar á kvöldin. Einhverju síðar hafi það komið fyrir aftur er ákærði hafi verið að strjúka B um bakið að hann hafi komið við brjóst hennar. Hafi ákærði haft höndina á brjóstinu í stuttan tíma en síðan kippt henni til baka. Hafi þetta gerst oft og ákærði verið farinn að finna fyrir óþægindum út af þessu en honum hafi fundist þetta vera rangt. Hafi þetta leiðst út í að þau hafi haft samfarir. Hafi það byrjað með því að í eitt sinn er stúlkan hafi komið heim úr skólanum hafi þau verið tvö ein heima. Hún hafi verið leið og ákærði farið inn til hennar og spurt hvað væri að. Fram hafi komið að henni hafi verið strítt í skólanum. Hafi ákærði farið að hugga hana og hún tekið utan um ákærða. Síðan hafi hún kysst ákærða. Hafi hún viljað að ákærði stryki á henni brjóstin og ákærði gert það. Hafi hún lagst við hliðina á ákærða og lagst þétt að honum. Hafi ákærði snúið henni yfir á bakið og hún lagst ofan á ákærða. Þannig hafi hún legið ofan á ákærða og síðan farið að hreyfa sig. Hafi ákærði svarað með því að strjúka henni yfir buxurnar. Hafi ákærði orðið æstur og sett hendi niður í nærbuxur hennar. Hafi ákærði losað um buxur hennar og sett getnaðarlim sinn við fætur hennar. Í framhaldi hafi þau haft samfarir. Ákærði kvað stúlkuna ekki beint hafa gefið samþykki sitt fyrir samförunum í orðum. Honum hafi hins vegar fundist hún gera það í því sem hún hafi gert. Þessar athafnir hafi sennilega byrjað rétt fyrir byrjun febrúar 2008. Ákærði hafi ekki notað verjur við þessar samfarir en hins vegar við þær sem á eftir hafi fylgt. Ákærði hafi stundum fengið fullnægingu í samförunum. Einhverju sinni hafi ákærði leyft henni að hafa við sig munnmök. Einu sinni hafi ákærði haft munnmök við stúlkuna. Ákærði kvaðst telja að hann hafi haft samfarir við stúlkuna á bilinu 15 til 20 sinnum. Stúlkan hafi haft munnmök við ákærða 5 til 6 sinnum. Ákærði hafi haft mök við hana í endaþarm 5 til 6 sinnum. Ákærði kvað samband sitt og eiginkonu hans hafa verið slitrótt um þetta leyti. Hafi hann með B fundið tilfinningu sem hann hafi saknað mjög lengi um að einhverjum þætti vænt um hann án þess að dæma ákærða fyrir það hvernig hann liti út. Hafi ákærði hundsað allar viðvörunarbjöllur í höfði sínu. Síðar hafi hann séð hve stúlkunni hafi liðið illa. Hafi ákærða fundist sem hann væri farinn að líkjast fósturföður sínum sem misnotað hafi ákærða í æsku. Hafi ákærði séð hann í sjónum sínum og það verið meginástæða þess að ákærði hafi lagst inni á deild 32A á Landspítalanum. Ákærði kvaðst hafa bannað stúlkunni að segja neinum frá athöfnum þeirra. Hafi ákærði áttað sig á því að það væri rangt sem hann væri að gera. Upp hafi komist um athafnir þeirra er vinkona eiginkonu ákærða hafi komið í heimsókn, en þann morgun hafi B legið við hlið ákærða í rúminu. Hafi vinkonan spurt hvað væri í gangi. Þá hafi komist upp að ákærði og B hafi verið að kyssast. Vinkonan hafi farið með B út af heimilinu og heim til sín. Eftir að lögregla hafi blandast í málið hafi ákærði tjáð lögreglu að ólöglegt samband hafi verið á milli hans og fósturdóttur hans. Ákærði hafi ekki sagt alla söguna en sagt að þau hafi verið að kyssast.
Ákærði var aftur yfirheyrður af lögreglu mánudaginn 7. júlí 2008. Var þá borinn undir ákærða sá framburður B að ákærði hafi haft endaþarmsmök við hana á bilinu 20 til 30 sinnum. Kvaðst ákærði ekki muna hve oft hann hafi haft við hana endaþarmsmök, en hann kvaðst efast um að það hafi verið eins oft og stúlkan miðaði við. Þá kvaðst ákærði ekki muna hve oft hann hafi haft við hana samfarir. Hin kynferðislegu samskipti á milli þeirra hafi byrjað seinni partinn í janúar 2008 eða í byrjun febrúar 2008. Ekki hafi ákærði orðið var við að blætt hafi úr kynfærum stúlkunnar við samfarirnar.
Við aðalmeðferð málsins fyrir dómi kvaðst ákærði vilja vísa til þeirrar skýrslu sem tekin hafi verið af honum við lögreglurannsókn málsins um atvik. Kvaðst hann vera þeirrar skoðunar að hann hafi haft endaþarmsmök við stúlkuna í 5 til 6 skipti. Þá hafi hann haft við hana samræði í 15 til 20 skipti. Hafi það gerst allt að 2 sinnum í viku. Stúlkan hafi ekki átt frumkvæði að kynferðismökunum. Bæri hún ekki ábyrgð á neinu því sem gerst hafi í samskiptum þeirra. Hafi hann á fyrstu stigum ekki leitt hugann að því hvort brot hans myndu hafa áhrif á líf stúlkunnar. Það hafi hann ekki gert fyrr en nokkrum dögum áður en hann hafi verið úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna málsins. Ákærði kvaðst hafa verið misnotaður af fósturföður sínum í æsku. Hafi ákærði verið 6 ára gamall á þeim tíma. Þeir atburðir hafi haft slæm áhrif á líf ákærða. Hann hafi þó ekki áttað sig á því fyrr en síðar. Hafi ákærði fyrst sagt móður sinni frá hinni kynferðislegu misnotkun þegar ákærði hafi verið 18 ára að aldri.
Föstudaginn 6. júní 2008 fór fram skýrslutaka fyrir dómi af B á grundvelli 1. mgr. a liðar 74. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Gerði hún grein fyrir því að ákærði hafi haft kynferðisleg samskipti við sig. Hafi hann oftsinnis sett getnaðarlim sinn inn í endaþarm B. Hafi það verið á bilinu 20 til 30 sinnum. Þá hafi hann einnig sett fingur í endaþarm hennar. Hann hafi strokið á henni brjóstin. Einnig hafi ákærði haft samræði við hana. Hafi það sennilega verið 10 sinnum sem þau hafi haft samræði. Einnig hafi hún strokið getnaðarlim ákærða. Auk þess hafi hún haft við hann munnmök. Ákærði hafi einnig haft munnmök við hana. Hin kynferðislegu samskipti hafi átt sér stað í svefnherbergi ákærða og móður hennar, í svefnherbergi B og í sófa í stofu. B kvaðst ekki hafa átt í kynferðislegum samskiptum við nokkurn áður en samskiptin við ákærða hafi byrjað. Hafi hún verið sár og miður sín þegar þessir hlutir hafi gerst. Hafi hún farið að gráta. Hafi hún meitt sig inni í hjartanu. Blætt hafi úr kynfærum hennar við athafnirnar. B kvaðst ekki vera viss um á hvaða tímabili athafnirnar hafi átt sér stað.
Margrét Kristín Magnúsdóttir sálfræðingur í Barnahúsi kvaðst fram að aðalmeðferð málsins hafa hitt B 3 sinnum vegna málsins. Viðtöl við stúlkuna hafi verið erfið. Stúlkan ætti mjög erfitt með að tjá sig og væri þögul. Gæti það að hluta skýrst af mismunandi menningarheimum vegna mikillar skammar sem fylgdi atvikum sem þessum. Þá kenndi stúlkan sjálfri sér að einhverju leyti um hvernig væri komið hlutunum og hvernig fjölskyldan hafi sundrast. Væri það þekkt í tilvikum sem þessum. Liði stúlkunni mjög illa vegna þess. Um þessar mundir væri Margrét að vinna í þeim grunnatriðum sem vinna þyrfti í hjá stúlkunni. Væri hún því stutt komin í meðferðinni sjálfri. Stúlkan ræddi um leiða og skömm. Almennt væri erfitt að segja til um batahorfur vegna tilvika sem þeirra er stúlkan hafi lent í. Miðað við reynslu hér á landi væru þessi brot mjög gróf. Tilfinningalega væri stúlkan meira barn en ungmenni. Hafi hún talað um að hún hafi ekki áður orðið fyrir viðlíka reynslu.
Gunnar Hrafn Birgisson sálfræðingur gerði grein fyrir helstu niðurstöðum sálfræðiskýrslu sinnar vegna ákærða. Ákærði hafi verið mjög miður sín og í miklu uppnámi er Gunnar hafi hitt hann, en ákærði hafi þá verið í gæsluvarðhaldi á Litla Hrauni. Hafi hann í viðtali verið einlægur og hreinskilinn.
D, móðir ákærða, kvað son sinn við 18 ára aldur hafa greint sér frá því að hann hafi verið misnotaður af fósturföður sínum er hann hafi verið 6 ára að aldri. Hafi henni verið það mjög minnisstætt að ákærði hafi skyndilega byrjað að stama við 6 ára aldur. Hafi henni brugðið mjög við það. Stamið hafi aukist mjög með árunum og er hann hafi verið orðinn 18 ára hafi nánast þurft að túlka það sem hann sagði. Fyrrum sambýlismaður hennar hafi ekki verið ákærður fyrir brot sín gagnvart ákærða, en hann hafi verið dæmdur fyrir brot gegn systur ákærða. Skólaganga ákærða hafi verið mjög erfið. Hafi hann oft þurft að skipta um skóla og það farið mjög illa með hann. Systir ákærða hafi fengið aðstoð vegna þeirra brota er hún hafi orðið fyrir. Það hafi hins vegar ekki orðið með ákærða.
Niðurstaða:
Ákærða er gefið að sök kynferðisbrot, gagnvart fósturdóttur sinni B, með því að hafa í nokkur skipti strokið brjóst stúlkunnar innan klæða, í nokkur skipti sett fingur inn í kynfæri hennar og endaþarm, í nokkur skipti látið hana halda um getnaðarlim sinn, í eitt skipti haft munnmök við hana, í 5-6 skipti fengið hana til að hafa við sig munnmök, í fjölmörg skipti haft við hana endaþarmsmök og loks í fjölmörg skipti, allt að tvisvar sinnum í viku, haft samræði við stúlkuna. Samkvæmt ákæru eiga athafnir þessar að hafa átt sér stað í svefnherbergi á heimili þeirra í Reykjavík, frá því í lok janúar eða byrjun febrúar 2008 fram í maí 2008. Við rannsókn málsins hjá lögreglu hefur ákærði viðurkennt háttsemi sína og lýst henni í samræmi við ákæru. Fyrir dómi hefur ákærði játað sök, utan að hann kveðst hafa haft endaþarmsmök við stúlkuna í 5 til 6 skipti. Séu það ekki fjölmörg skipti, svo sem ákæra tilgreini. Hefur framburður hans fyrir dómi verið í samræmi við ákæru. Þá gaf B skýrslu við rannsókn málsins. Hefur framburður hennar verið í samræmi við játningu ákærða, utan að hún kveður endaþarmsmökin hafa átt sér stað á bilinu 20 til 30 sinnum. Þá kveður hún samræðið hafa átt sér stað 10 sinnum. Miðað við framburð ákærða hjá lögreglu og fyrir dómi, niðurstöðu læknisskoðunar á stúlkunni og í ljósi framburður B telur dómurinn sannað að ákærði hafi framið þau brot er í ákæru greinir. Verður í niðurstöðu miðað við að ákærði hafi í mörg skipti haft endaþarmsmök við B. Er háttsemin rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.
Ákærði hefur ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi, svo kunnugt sé. Ákærði hefur verið sakfelldur fyrir mjög alvarleg kynferðisbrot gagnvart stúlkubarni sem var í upphafi 11 ára en að mestu 12 ára þegar brotin voru framin. Voru brotin framin á heimili stúlkunnar og ákærða, þar sem stúlkan átti sér griðarstað. Brot ákærða voru einstaklega gróf og ófyrirleitin, en hann hafði á um fjögurra mánaða tímabili m.a. margsinnis samræði við stúlkuna og endaþarmsmök. Voru brotin til þess fallin að valda stúlkunni verulegum skaða. Á ákærði sér þær málsbætur einar að hann hefur játað sök. Dómurinn telur að Hæstiréttur Íslands hafi á liðnum misserum almennt þyngt refsingar vegna kynferðisbrota. Eigi það m.a. við um brot gegn 201. og 202. gr. laga nr. 19/1940, en nýverið hafa verið gerðar breytingar á XXII. kafla laga nr. 19/1940 til að kveða á um að mál þessi verði tekin fastari tökum en áður. Með vísan til alls þessa, sbr. og 1., 2., 6. og 7. tl. 1. mgr. og 3. mgr. 70. gr. laga nr. 19/1940 er refsing ákærða ákveðin fangelsi í sex ár. Til frádráttar refsingu kemur óslitið gæsluvarðhald ákærða frá 2. júní 2008.
Réttargæslumaður hefur fh. B krafist skaðabóta úr hendi ákærða. Er krafist bóta að fjárhæð 3.000.000 krónur, auk vaxta. Er vísað til þess að ákærði hafi misnotað á mjög grófan hátt aðstöðu sína. B hafi nýlega flutt til Íslands og talað litla sem enga íslensku. Hafi hún leitað til ákærða sem hafi veitt henni hlýju og hann misnotað það gróflega. Hafi ákærði misnotað það traust sem stúlkan hafi sýnt honum og brotið gegn umsjónar- og eftirlitsskyldum sínum. Jafnframt hafi hann misnotað yfirburði sína sem fullorðinn einstaklingur gagnvart barni. Brotið hafi í för með sér sálrænar afleiðingar, svo sem skerta sjálfsmynd. Brotið hafi verið framið á stað þar sem stúlkan hafi talið sig óhulta. Þá sé stúlkan á mjög viðkvæmum aldri og geti brotin haft mjög neikvæð áhrif á mótun hennar sem persónu. Um lagarök er vísað til 26. gr. laga nr. 50/1993. Með vísan til þess er hér að framan er rakið, vættis Margrétar Kristínar Magnúsdóttur sálfræðings, sem og þess er fram hefur komið fyrir dóminum er það niðurstaða dómsins að framferði ákærða hafi valdið B miska. Á hún rétt á skaðabótum vegna háttsemi hans á grundvelli 26. gr. laga nr. 50/1993. Í ljósi atvika málsins sem leiða í ljós mjög gróft kynferðisbrot gagnvart ungu barni og dómaframkvæmdar á þessu réttarsviði eru bætur þessar hæfilega ákveðnar 2.500.000 krónur. Sú fjárhæð ber vexti eins og í dómsorði greinir.
Ákærði greiði allan sakarkostnað samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað ásamt tildæmdum málsvarnarlaunum og þóknun réttargæslumanns brotaþola, hvorutveggja að viðbættum virðisaukaskatti, sem í dómsorði greinir.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari.
D ó m s o r ð:
Ákærði, A, sæti fangelsi í 6 ár. Til frádráttar refsingu kemur gæsluvarðhald ákærða frá 2. júní 2008.
Ákærði greiði B, 2.500.000 krónur í skaðabætur, ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. febrúar 2008 til 7. ágúst 2008, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði 1.200.906 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðrúnar Sesselju Arnardóttur héraðsdómslögmanns, 547.302 krónur, og þóknun til réttargæslumanns brotaþola, Þórdísar Bjarnadóttur héraðsdómslögmanns, 257.964 krónur.
Símon Sigvaldason
Athugasemdir
Þvílík harmsaga en því miður alltof algeng. Í meiri en 70-80% tilfella hefur gerandinn sjálfur orðið fyrir misnotkun, sjálfsmyndin skemmist og eins skrítið og það er þá meiðir fórnarlambið einhvern annan. Það vonandi verður hægt að slíta þessu keðju og breyta ferlinu með betri hjálp og opnari umræðu.
Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir, 14.8.2008 kl. 18:17
Þetta er sorgleg saga, en því miður saga alltof margra
Erna, 14.8.2008 kl. 18:34
æj.... veistu ég get ekki lesið svona.......
Hrönn Sigurðardóttir, 14.8.2008 kl. 19:36
Hrikalega sorgleg frásögn og því miður eitthvað sem gerist alltof oft í okkar þjóðfélagi
Helga skjol, 14.8.2008 kl. 19:49
Hulla Dan, 15.8.2008 kl. 06:23
Ekkert erfitt að vera endalaust að velta sér uppúr hlutum einsog þessum? Nei sorrí ég gleymdi að setja inn knús og smús og allt þetta hjartastúss. Nei ég meina í alvöru talað það er velt sér uppúr því allra sorglegasta sem um getur, endalaust einsog það eigi að bera vott um stórt hjarta. Já já og allar kellingar í vesturbænum, fórnarlömb í bloggheimum, fara með bölbænir vegna þessarar athugasemdar, fórnarlömbin í bloggheimum sem ekkert aumt mega sjá. Knús og smús og allt það. (kann ekki að setja inn hjarta)
dulur (IP-tala skráð) 19.8.2008 kl. 22:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.