Öðruvísi pistill
11.8.2008 | 11:35
Í dag ætla ég að fjalla um konu, konu sem ég þekkti ekki fyrr en eftir 19 ágúst 2007. Hún hafði lagt inn hjá mér skemmtileg komment allt sumarið í fyrra þegar ég fjallaði um flísalögn, hvuttana mína og kóngulærnar sem hér er yfirdrifið nóg af.
Svo kom höggið mikla. Hilmar dó. Ég skrifaði skilmerkilega hér hvað ég var að hugsa, hvað ég vildi gera og hvað mig langaði í. Eitt það fyrsta sem mér fannst ég verða að fá var blátt kerti.
Ég man ekki hvaða dag það var en hún birtist hérna, með blátt kerti sem hún færði mér. Þetta kerti logaði á borðstofuborðinu alla vökuna og nokkuð lengi fram yfir útför Hilmars. Það er góð lykt af því, einhverskonar sjávarlykt.
Ég fékk mér skáp, í stíl við þennan skenk sem sjónvarpið stendur á og þar í raðaði ég öllu sem tilheyrir Hilmari. Þangað inn fór kertið hans bláa líka, þó það væri búið að brenna mikið niður. Þar er myndaalbúm með myndum af honum, öll kortin sem bárust og þar geymi ég gullin mín öll sem honum hafa tengst.
En fátt þykir mér vænna um en bláa kertið. Bláa kertið sem ókunnunga konan færði mér. Ef ég fer nærri skápnum þá finn ég lyktina af því, þessa lykt sem fyrir mér táknar manngæsku og einhverja þá fallegustu sál sem ég hef kynnst.
Þessi kona gerir það ekki endasleppt. Ljóðið hérna fyrir neðan sendi hún mér þann 8 ágúst. Hún veit eins og allir aðrir að árið -fyrsta árið- er að verða liðið. Það eru erfið tímamót.
Nú ætla ég að vita hvort þið eruð getspök, hvort þið getið giskað á hver þessi kona er hér á Moggablogginu.
SENN ER ÁRIÐ LIÐIÐ.
Því fórstu svo fljótt elsku drengurinn minn,
því dimmdi svo snöggt hér í heimi?
ég get ekki höndlað lífið um sinn,
minn hugur er langt út í geimi.
Árið að líða og ekkert er rétt
lífið svo undið og snúið.
Við brjóst mitt í huganum faðma þig þétt,
en þetta er allt saman búið.
Hver dagur hann líður í í pínu og kvöl,
ég reyni að gleðjast og vinna.
Því varð ekki lengri þín jarðneska dvöl,
var einhverju öðru að sinna?
Hugur þinn ávallt á fluginu var,
þú þeystir um landið sem stormur.
Hvað var það sem fleytti þér áfram þann dag,
er vonleysið skreið inn sem ormur.
Það vafði þig böndum og batt þína hönd,
í huganum barðist og streyttist.
Þeir lögðu' á andleg og skelfileg bönd,
þú hræddist að ekkert nú breyttist.
Ein var þó lausnin illskunni frá,
þú vildir mig vernda og tryggja
að hverfa í burtu þú hélst þar og þá
að minnst mundi gjörð sú mig hryggja.
En ástin mín eina, svo röng var þín trú,
ég vildi að hjálp hefði borist.
En líf þitt þú tókst og byggðir þér brú,
inn í framtíð, ei undan var skorist.
Ást þín á mömmu og pabba var sterk,
sterkari en ást á þér sjálfum.
Að vernda' okkur fannst þér svo auðvelt verk,
við eftir þó sitjum og skjálfum.
Eitt ár er í lífinu hraðfleygt og stutt,
ég lifað hef allmörg nú þegar.
En árið sem líður senn héðan í burt,
er eilífð og uppfullt af trega.
Hvað gat ég gert, hvað gerði ég rángt,
ég spyr mig og velkist í efa.
Var það þá ég sem gerði þér bágt,
nei, nú verð ég hug minn að sefa.
Það segja mér margir, ég móðir sé góð,
ég gerði mitt besta ég vona.
En var þá mitt besta alls ekki nóg,
því endaði lífið þitt svona?
Nú verð ég að reyna og ætla mér að,
rísa upp kröftug og keik.
Veit að í huganum viltu mér það,
að ég lifi með öðrum í leik.
Í minningu þinni, strákurinn minn,
ég þramma skal veginn með hinum,
sem sitja svo sárir og sakna um sinn
Himma sem lék sér með vinum .
Að lokum ég tjái þér ást mín enn,
þú aldrei úr huga mér víkur.
Stúfurinn litli hann stækkar nú senn,
og verður þér sjálfsagt mjög líkur.
Guð minn þín gæti og geymi um sinn,
þú hjálpar þeim líka' á þinn hátt.
Ég kem á þinn fund þegar tíminn er minn,
í faðmalög þá föllumst við sátt.
08.08.08.
Athugasemdir
Ég veit hver hún er....
Hrönn Sigurðardóttir, 11.8.2008 kl. 11:39
Hmmmm.... nú er vandi. Ég ætla að giska á Millu. En mikið er þetta fallegt ljóð !
Anna Einarsdóttir, 11.8.2008 kl. 11:50
Þetta er yndislegt ljóð. Ekki get ég giskað á hver semur þetta, en það er a.m.k. falleg sál sem getur komið svona nokkru frá sér.
Marta (IP-tala skráð) 11.8.2008 kl. 11:57
Þetta er góð kona, engill.
Jórunn Sigurbergsdóttir , 11.8.2008 kl. 12:07
Þetta er með þeim fallegustu ljóðum sem ég hef heyrt. Ég ætla að giska á Ásdísi Sig. Er bara nokkuð viss. Eigðu góðan dag Ragga mín
Erna, 11.8.2008 kl. 12:19
get ekki giskað, en hún er allavega góð kona - eins og þú, Ragnheiður. Þú átt bara gott skilið.
Ég fékk bara tár í augun þegar ég las þetta ljóð. Hvaða kona er þetta eiginlega sem semur svona? Hún er engill.
Eigðu góðan dag í sólinni það er gola svo það verður ekki alltof heitt, kannski hægt að sitja úti á palli með kaffi
Sigrún Óskars, 11.8.2008 kl. 12:28
Án þess að lesa commentin þá datt mér Ásdís Sig. strax í hug ?
Yndislegt ljóð
M, 11.8.2008 kl. 12:32
Ég sé varla út úr augum fyrir tárum, ótrúlega fallegt....mér dettur hún Ásdís í hug, þekki ekki aðra sem eru í ljóðagerð.
Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir, 11.8.2008 kl. 12:39
Hágrát.
Hulla Dan, 11.8.2008 kl. 12:52
Þetta er æðislega fallegt ljóð....já ég er sammála hinum að þetta gæti verið hún Ásdís Sig. Ég hef séð ljóðin á síðunni hennar, ótrúlega falleg. kv Gunna.
Guðrún Ágústa Einarsdóttir, 11.8.2008 kl. 14:02
Ofsalega fallegt ljóð og jú ég er sammála hinum um hver höfundurinn er
Dísa Dóra, 11.8.2008 kl. 14:41
Úff ... en fallegt. Grunar Ásdísi líka .. þessa elsku.
Hugarfluga, 11.8.2008 kl. 15:48
Var þetta ekki Ásdís ?
Ofboðslega fallegt.
Knús úr klettum.
Guðrún B. (IP-tala skráð) 11.8.2008 kl. 17:09
Sigrún Jónsdóttir, 11.8.2008 kl. 17:24
Ásdís Emilía Björgvinsdóttir (IP-tala skráð) 11.8.2008 kl. 17:43
Það er á hreinu að góð sál hefur ort þetta ljóð, manneskja sem er engill í mannsmynd. En hver hún er, er ég ekki viss um. Hef sjaldan lesið nokkuð eins fallegt, sennilega aldrei.
Knús og klús
Kidda (IP-tala skráð) 11.8.2008 kl. 19:16
Ótrúlega fallegt ljóð og vel ort.
Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 11.8.2008 kl. 21:19
Hún snertir lífið á einstakan hátt hún Ásdís
Hlýjar kveðjur til þín duglega kona
Guðrún Þorleifs, 12.8.2008 kl. 09:29
Mikið er þetta fallegt ljóð og svo mikill sannleikur í því. Þetta er einstaklega vel sett fram á hreinskilinn en svo mjúkan hátt. Þetta er alveg einstakt. Knús og kossar til þín Ragga mín.
Sigurlaug B. Gröndal, 12.8.2008 kl. 10:25
Ásdís
Hólmdís Hjartardóttir, 12.8.2008 kl. 20:25
snökt,snökt.Ég grét inni í mér þegar höfundur leifði mér að lesa þetta.Yndislega fallegt í minningu yndislegs drengs
Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 12.8.2008 kl. 22:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.