4 júlí 2008

Mér tekst ekki að finna fyrirsögn á þetta. Kannski er skiljanlegt að íbúar vilji ekki fá slíka starfsemi í sitt hverfi, ég veit það ekki. En hitt er alveg ljóst að einhversstaðar verða þeir að vera. Mér er stórlega til efs að þeir muni ógna börnum á nokkurn hátt. Falli fíkillinn þá er næsta víst að hann fer annað um leið, hann fer í dópgreni, hann fer í miðbæinn,hann fer að hitta aðra virka fíkla. Hann mun áreiðanlega ekki sitja á tröppunum í Hólavaði útúrskakkur. Svo áður en einhver bendir mér á að ég ætti bara að samþykkja svona í næsta húsi við mig þá er best að ég segi það hátt og skýrt, það myndi ég gera. Mér leiðast mun meira "venjulegir" djammarar sem arka um allt gólandi, sprænandi á öll horn en fólk sem er í bata, fólk sem er að reyna að komast lifandi frá afar erfiðri fíkn. Þessir krakkar eru okkar krakkar, það getur hver sem er lent í þeim sporum að barn viðkomandi endi í neyslu. Það þarf oft ekki nema eina skakka ákvörðun hjá viðkomandi barni og þau eru föst í netinu.

Annað sem ég vildi impra á hér er hversu gríðarlega skaðlegt einelti er. Það er alltaf að renna upp fyrir mér meir og meir að verstu sárin á Hjalta sálinni komu vegna eineltis í skóla. Hann var í skóla í Kópavogi á sínum tíma. Hann var alltaf nánast minnstur af öllum en skapið ekki alveg í samræmi við líkamsstærðina. Hann var lagður í einelti. Það var svo auðvelt að gera hann reiðan. Ég fór dag eftir dag í skólann og kvartaði, hann kom oft heim og það lak úr honum blóðið. Skólinn gerði EKKI NEITT. Þegar veturinn var að verða rúmlega hálfnaður kom frostakafli. Við leigðum gamalt hús sem hélt illa hita. Þar vorum við með lögheimili áfram en ákváðum að taka á leigu annað húsnæði í Rvk. Þrátt fyrir að lögheimilið væri kyrrt í Kópavogi þá ákváðu skólayfirvöld að reka þá bræður úr skólanum, auðvitað á þeirri forsendu að drengir byggju í öðru skólahverfi. Þeir fengu ekki að klára veturinn þarna. Auðvitað var raunverulega ástæðan getuleysi skólayfirvalda gagnvart þessu einelti í skólanum. Skólastjórinn gamall kall sem líklega taldi að þetta myndi herða Hjalta að vera barinn smávegis hvern dag. Jú jú það herti hann vissulega, og hann fann sér seinna hóp sem hann passaði inn í. Hóp utangarðsbarnanna, fíklanna, rúðubrjótanna í Breiðholtinu. Þar fannst honum hann passa inn í. Flestir vinir hans þaðan hafa nú þegar farið í meðferðir, fallið, setið inni og margir þeirra eru enn í tómu tjóni. Hjalti hinsvegar er í lagi í bili, hann horfði á eftir stóra bróður í gröfina í fyrra. Góðu eiginleikarnir hans skína nú aftur í gegn eins og áður. Hann var yndislegt barn þar til dópið náði í hann. Þá þekkti ég ekki strákinn á meðan. Hann hefur alltaf verið hlý kelirófa, blíður mömmustrákur sem vildi oft bara hanga með mömmunni sinni í eldhúsinu. Þessi Hjalti er kominn aftur. Fyrir það er ég ofsalega þakklát.

Ég kvartaði við yfirvöld yfir brottvikningunni úr skólanum á sínum tíma og komst að því að það er ekki til neins. Kerfið verndar sína. Alveg eins og þegar ég kvartaði við Landlækni um árið, kerfið sér um sína og það borgar sig ekki að reyna að hrólfa við því. Í besta falli er einhverju logið upp á mann sjálfan.


mbl.is Öryggi barna ógnað af fíklum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Takkf fyrir þessa frábæru færslu, hún vekur mann til umhugsunar.

Jenný Anna Baldursdóttir, 4.7.2008 kl. 08:12

2 Smámynd: Hulla Dan

Þú ert frábær.
Auðvitað eru ógnir við börnin okkar allstaða.
Ég tel þetta heimili ekki eina af ógnunum.
Ég er sammála þér, ég vildi frekar búa við hliðiná á þessu heimili hledur en við hliðina á helgardjömmurum.

Góða starfsemi þarna á ferðinni.

Hulla Dan, 4.7.2008 kl. 08:40

3 identicon

Tek undir þetta með þér Ragnheiður, ég veit ekki betur en að það séu áfangaheimili fyrir fíkla í fleiri hverfum borgarinnar og hafa verið þar árum saman án vandræða ! Svona er fáfræðin ýtir undir fordóma og ótta, svo er líka fréttaflutningur af þessum málum í besta falli óábyrgur!!

Langar líka að segja að ég varð ótrúlega sorgmædd að lesa þetta með eineltið og son þinn, en því miður hef ég heyrt allt of margar svona sögur þar sem skólakerfið hefur brugðist börnunum og skilið eftir sár á sál þeirra sem erfitt er að græða!

kær kveðja og takk fyrir þessa færslu.

Guðbjörg Erlingsdóttir (IP-tala skráð) 4.7.2008 kl. 08:50

4 Smámynd: Alfreð Símonarson

100% sammála þér, það er sorglegt hvað við látum fordómanna fara með okkur, ég þekki nokkra fíkla (á batavegi og einnig aðra sem eru enn í ruglinu í dag). Ég myndi frekar vilja búa við hliðina á áfangaheimili þ.s. fólk er að ná bata heldur en hinnar típísku íslensku fjölskyldu sem heldur sín partí og drekkur og reykir tóbak eins og enginn sé morgundagurinn. Svoleiðis partí fynnst mér leiðinleg, þau enda oft í öskrum og ofbeldi en það er allt í lagi, það eru þessir bölvuðu axarmorðingjahasshausar sem við þurfum að passa okkur á

Eineltið sem sonur þinn hefur þurft að lifa við er því miður daglegt brauð margra í öllum skólum landsins, ég lenti ekki eins illaí því en horfði upp á aðra lenda í þessu. Börn apa eftir fullorðnum og þið getið rétt ímyndað ykkur fyrirmyndirnar sem þau fá, stríðsherrar sem lemja á aumingjunum sem fylgja ekki þeirra trúarflokki, sorglegt það.  Þú og þín fjölskylda fær alla mína samúð og vonandi þarftu ekki að láta reyna á "kerfið" (gömlu valdníðingana).

Kær kveðja Alli

Alfreð Símonarson, 4.7.2008 kl. 10:24

5 identicon

Ég er svo innilega sammála þér, Ragnheiður mín. Einhversstaðar verða þessi heimili að vera, það er ekki endalaust hægt að drita þeim eitthvað út í sveit, þar sem engin hætta er á þau "böggi nágrannana"

Mér finnst erfitt að heyra með eineltið á drengjunum þínum. Minn sonur lenti í einelti í skóla í Hafnarfirði og þar var ekkert tekið á því, hvað svo sem við reyndum að láta í okkur heyra.

Kær kveðja til þín

Ásdís Emilía Björgvinsdóttir (IP-tala skráð) 4.7.2008 kl. 10:27

6 Smámynd: Guðrún Jóhannesdóttir

sammála sammála hjartanlega sammála, og ég mundi alveg samþykkja svona heimili í mínu nágrenni!

En HELVÍTIS  eineltið, (fyrirgefðu orðbragðið) það hefur eyðlagt/skemmt líf fjölda krakka, þekki það sannarlega af eigin raun

Guðrún Jóhannesdóttir, 4.7.2008 kl. 11:03

7 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Tek undir þennan pistil þinn. Þekki þessi eineltis mál frá sonum mínum tveim, þetta var hreinasta helvíti báðir eru komnir á rétt ról í dag en þetta var þeim vondur tími. Sá eldri hætti í skólanum sem hann var í, í Hafnarfirði vegna þess að skólayfirvöld gátu ekki tekið á málinu, það var um jól árið sem hann var í tíunda bekk, við vorum svo heppin að koma honum í sveit og þar fékk hann að klára veturinn.  Ég er sammála því að frekar vil ég hafa fíkla í afturbata nálægt mér heldur en helgardjammara sem enginn má segja neitt við eða hrófla við því þau eru "ekki fíklar" semsagt geta verið edrú á milli helga. Takk enn og aftur fyrir færsluna þína  Góða helgi

Ásdís Sigurðardóttir, 4.7.2008 kl. 12:07

8 Smámynd: Brynja skordal

Hafðu ljúfa og góða helgi Elskuleg

Brynja skordal, 4.7.2008 kl. 12:17

9 Smámynd: Heiður Þórunn Sverrisdóttir

Ragga. Ég hugsað alveg það sama þegar ég sá þessa frétt alveg ótrúlegt að alltaf þurfi að koma svona umræða upp ef eitthvað svona á að koma inn í hverfin ég bara spyr hvað á að gera við þennan hóp.

Man þegar strákarin og þá hels Bjössi var að koma til okkar þegar þeir voru í þessum skóla og var að segja okkur frá lífinu í skólanum ég gat alveg tapað mér hvernig framkoma við Hjalta var og ég segi þeir þekktu ekki þennan ljúfa strák.

Okkur finnst jafn ánæjulegt að sjá gamla Hjalta aftur ljúfur og góður strákur sem alltaf kom í eldhúsið þegar var verið að elda mat...hvað ert núna að elda handa mér ? yndilegt og þeir allir voru svo blíðir strákar þegar þeir voru litlir en hver á sinn hátt.

Eigðu góða helgi Ragga og þið öll á Nesinu. 

Heiður Þórunn Sverrisdóttir, 4.7.2008 kl. 12:49

10 identicon

Þetta point hjá þér er algjörlega skiljanlegt, en þessi undirskriftarlisti er ekki vegna fordómum gegn fíklum.

Ég hef mikla samúð með fólki sem hefur þurft að glíma við þetta og dæmi það persónulega ekki fyrir það eitt að vera fíklar eða að hafa byrjað að nota fíkniefni.  Það eru svo ótalmargar ástæður fyrir því hvernig þetta byrjar, það eru oftast krakkar sem eiga um sárt að binda t.d. eftir einelti.

En við erum að tala um hörðustu fíkniefnaneytendurnar, sprautufíkla.  Við vitum öll að slík neysla hefur mannskemmandi áhrif og breytir vænstu mönnum í skrímsli, leiðir af sér slæman félagsskap og ofbeldi.

Nei það er rétt hjá þér að fólkið færi ekki út á bílaplan í Hólavaði að sprauta sig. En hins vegar eru miklar líkur á því að handrukkarar og annar slæmur félagsskapur fólksins ættu líklega leið um. Við vitum að handrukkarar eru til alls líklegir og gera heimskulega hluti. Fréttir hafa sagt frá því að þeir hafi farið íbúðavillt! 

Auðvitað verður fólkið einhversstaðar að vera, en ég tel þetta ekki vera rétta staðinn fyrir slíka meðferðarstofnun.

Ég held að mörg ykkar myndu hafa aðra tilfinningu fyrir þessu, stæðu þið fyrir þessu sjálf. Að eiga börn og hafa þetta raðhús í bakgarðinum hjá ykkur.

Jóhanna (IP-tala skráð) 4.7.2008 kl. 12:57

11 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Frábær pistill Ragnheiður.  Tek undir allt, sem þar kemur fram

Sigrún Jónsdóttir, 4.7.2008 kl. 13:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband