Ég er komin

heim eftir frábæra helgi. Við lögðum af stað vestur klukkan 21.30 á föstudagskvöldið, með bílinn á vetrardekkjunum að kröfu kvenpersónunnar sem sat í farþegasætinu. Húsbóndanum fannst það óþarfi en sá hversu stíft frúin sótti það og ákvað að gegna bara. Við útbjuggum bílinn þannig að hægt væri að sofa í honum, settum í hann dýnur og sængur. Förinni var heitið vestur í sveitina "mína", í Hænuvík við Patreksfjörð. Þar stóð til að ferma yngri heimasætuna á bænum. Okkar fólk er að mestu leyti þarna fyrir vestan og það var aldrei spurning um að drífa sig vestur.

Í dölunum var slydda og slabb á veginum. Við skröngluðumst áfram vestur og eftirtektarvert er að hvergi er búið að opna nein vertshús á vesturleiðinni. Við vorum í samfloti með trukk, vorum farin að uppnefna hann og kalla hann vin okkar. Spáðum í hans aðbúnað og svoleiðis á leiðinni. Hann sendi okkur framúr sér á Holtavörðuheiðinni Bröttubrekku en við sáum alltaf grilla í hann hinumegin í öllum fjörðum eftir það.  Fínn ferðafélagi alveg.

Steinar var ákveðinn í að keyra vestur að Klettshálsi og það passaði, þar fyrir neðan var útskot og þar lögðum við gamla bílnum og skriðum aftur í að sofa. Það var hlýtt að sofa þarna nema hvað nefið á mér varð kalt öðruhvoru, ég var eiginlega alveg búin að hanna húfu á nefið þegar við vöknuðum klukkan 9. Þá þurfti auðvitað að skreppa út í móa og eitthvað svoleiðis. Steinar fór á undan mér út og ég reif upp afturhurðina. (gamli er eins og sendibíll) og stakkst niður einhvern bakka og nærri út í læk. Þá hafði Steinar bakkað, í myrkrinu, að einhverjum kanti og ég tók ekkert eftir því þegar ég stökk niður.

Okkur bráðvantaði kaffi þegar við vöknuðum en það þýddi ekki að spá í það. Siggi Atli segir að það sé hægt að kaupa kaffivél sem gengur fyrir bílarafmagni í Ellingsen, það verður sko athugað hehe. Kvöldið áður höfðum við séð ljós á Klettshálsinum og hugsuðum bæði það sama. Þessi ljós hreyfast ekki, þessir eru stopp þarna uppi ?

Þegar við komum í fyrstu beygjuna á hálsinum þá var ruðningstæki þar, að keðja að framan. Við ókum framhjá honum og aðeins lengra upp. Þá sáum við "vin okkar" aftastan í 3 trukka röð en fyrir ofan þá var einn trukkur og 2 smábílar. Við bökkuðum í útskot á veginum og biðum í klukkutíma meðan vegurinn var hreinsaður.

Við skriðum svo framhjá trukkunum þegar þeir stoppuðu til að taka keðjurnar af. Enn fannst hvergi kaffisala og við héldum áfram á Patreksfjörð. Kíktum á hurðina á Brjánslæk til að sjá hvort Baldur passaði við ferð okkar til baka en gátum ekki séð það. Á Patró fékkst loks þetta langþráða kaffi. Við vorum að fara þaðan út aftur þegar trukkurinn, vinur okkar, birtist...sá var feginn að vera kominn heim. Það lá við að við klöppuðum fyrir honum.

Þá lá næst leiðin í sveitina. Kíktum við á "flugvellinum", en þar hefur frænka mín (kona frænda míns en ég kalla þetta allt frænkur og frændur fyrir því) verið með greiðasölu á sumrin. Þar var enginn en þar skiptum við yfir í sparifötin. Við fórum svo inn á Sellátranes til að komast á kló og svona fyrir messuna sem átti að vera klukkan 14 í Sauðlauksdalskirkju. Ég var nokkuð spennt að sjá kirkjuna að innan en auðvitað enn spenntari að sjá ættingjana mína alla þarna. Sigga systir var komin að kirkjunni þegar við komum, þau fóru úr bænum um klukkan 7. Þarna urðu fagnaðarfundir....oh það er svo gaman að hitta fólkið okkar fyrir vestan.

Við fengum blað í hendur og sálmabók. Haukur frændi minn hélt á sálmabókinni enda ég gleraugnalaus og bókin mun læsilegri í smáfjarlægð. Sumt var feitletrað og þá átti liðið að rísa úr sætum, ég vissi ekki hversu fegin maður varð að fá að standa upp. Bekkirnir í kirkjunni eru svo hörmulega vond sæti..jesús minn. En öll lifðum við bekkina af og fermingarbarnið var stórglæsilegt, báðar Hænuvíkurstúlkurnar í upphlut og Guðný, sú eldri tók virkan þátt í messunni. Bjarnveig Ásta var eina fermingarbarnið.

Við fórum svo út á Sellátranes og réttum úr okkur eftir kirkjubekkina. Það er sko ekki hægt að sofna í þessari kirkju. Bekkirnir koma alveg í veg fyrir slíkt. Mjóir trébekkir með einni fjöl í bakið sem sett er svo framarlega að maður situr alveg fattur. Rassar á kirkjugestum hafa verið nettari í gamla daga.

Okkur var boðið hús til láns og við ákváðum að þiggja það. Gistum í sumarhúsi Guðna og Ingu á Nesi. Næsta dag sátum við í Nesi með Svenna og Steinu og skemmtum okkur vel, borið í okkur veislumatur og bara ótrúlega notalegt ...Ég vildi svo endilega líta við í Hænuvík og kveðja þau þar, fékk að kíkja í fjárhúsin og klóra aðeins rollum undir hökunni. Það er fallegt féð í Hænuvík. Systur sýndu okkur kanínur, hænur og ref sem reyndar fékk nærri hjartastopp af hræðslu, óvanur gestum blessaður.

Versta við að fara vestur er að mig langar alls ekki heim þegar ég er búin að vera þar. Ég hefði alveg getað verið kyrr í Hænuvík og verið með í sauðburði og haft það æðislegt á meðan. Ég er allaveganna ákveðin í að fara vestur aftur í sumar og vera lengur. Ég endurnærðist öll og mér fannst ég skilja byrðina eftir fyrir sunnan.

Heim er ég komin, andlega endurnærð.

Missti af þessum mæðradegi enda sjálfsagt ekki mikið í símasambandi á leiðinni og enn er ekki komið símasamband á vestfirði, meðan svo er þá er ekki von með Himnaríki.

Takk fyrir frábæra þátttöku í spurningunni í síðustu færslu. Það komu mörg svör en flest eru þannig að fólk telur sig hafa verið einhversstaðar áður en það fæddist.

Mín skoðun er sú (amk eins og sakir standa) að ég tel mig einfaldlega ekki hafa verið til og þegar ég dey þá tel ég sama upp á teningum, ég verð einfaldlega ekki til lengur en munurinn er sá að þá mun ég lifa áfram í hjörtum fólksins míns meðan þau sem mig þekktu mig lifa enn.

Viðbót við þessa löngu færslu ;

Í byrjun mai fæddist drengur í fjölskyldunni, Árni Grétar frændi minn á þennan snáða. Rétt fyrir hvítasunnuhelgi eignaðist Óli bróðir hans stúlkubarn, sem að vísu kom 6 vikum of fljótt en var þó rúmar 8 merkur og 48 cm löng. Í fermingarveislunni hitti ég svo Jóhönnu frænku mína og Ásgeir hennar mann. Hún var með skráðan dag 18 maí en í gærmorgun ákvað snáðinni að koma í heiminn og gerði það á Ísafirði. Það er ekki hægt að fæða á Patró, ljósan sinnir bara mæðraeftirliti en ekki fæðingum. Undarlegt....undarlegt.

En þessi yngsti frændi af þremur krílum sem komu nánast í sömu vikunni öll er á vefsíðu sjúkrahúss Ísafjarðar og þar náði ég í mynd af honum.

Jóhönnu og Ásgeirssonur

Mesti myndarpiltur þarna á ferðinni.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Frábært að þú fékkst andlega endurnæringu.  Það er alveg nauðsynleg næring.  Knús á þig mín kæra.... og hafðu það gott. 

Anna Einarsdóttir, 12.5.2008 kl. 10:35

2 Smámynd: Heiður Þórunn Sverrisdóttir

Velkomin heim Ragga og Steinar.

Huss ég hefði viljað koma með á þennan fagra sta,ég var alveg búin að átta mig á hvert þið fóruð og spurði mömmu í gærkvöldi hvort gæti vrið að það ætti að ferma í Hænuvík og hún sagði mér að það ætti að ferma nöfnu sína,ég gat ekki annað en brosað þegar þú talaðir um ruðningstæki á Kletthás gæti verið að Gísli bróðir hafi verið á ferð  hann mokar stundum þarna.

Takk fyrir skemmtilega ferðasögu kveðja í bæinn.

Heiður Þórunn Sverrisdóttir, 12.5.2008 kl. 10:38

3 Smámynd: Ragnheiður

Heiður , nei þetta var einhver mun eldri en Gísli bróðir þinn. Þetta var stórbrotin ferð

Ragnheiður , 12.5.2008 kl. 10:45

4 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Frábær ferðasaga.  Þú hefur lag á að segja skemmtilega frá og svo ertu með húmor fyrir sjálfri þér.  Ég held því fram að það sé deyjandi listform.

Velkomin heim, nokkrum andlegum kílóum léttari mín kæra

Jenný Anna Baldursdóttir, 12.5.2008 kl. 10:46

5 Smámynd: Dísa Dóra

ohhhh ætla að fara vestur í sumar og hlakka ekkert smá til.  Allt of langt síðan ég hef farið vestur.

Það vantar greinilega aðra Ástu ljósu á Patró

Dísa Dóra, 12.5.2008 kl. 11:04

6 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Frábær ferð. Velkomin heim og hann er algjört krútt sá yngsti

Hrönn Sigurðardóttir, 12.5.2008 kl. 11:23

7 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Gaman að lesa þessa ferðasögu, það tók mann "nokkur" ár aftur í tímann og þú segir skemmtilega frá.

Það er vestfirskur svipur á litla dreng

Sigrún Jónsdóttir, 12.5.2008 kl. 11:35

8 Smámynd: Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir

Skemmtileg ferðasaga....og mikið væri gaman að koma þarna, sá leiðina fyrir mér í huganum..

Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir, 12.5.2008 kl. 11:48

9 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Til hamingju með litla frænda þinn hann er yndislegur.
Ekki er nú verra að þú skildir fá andlega upplyftingu fyrir vestan flotta stelpa, já þú vissir hvað þú söngst með vetrardekkinkletthálsinn er nú ekki auðveldur ef snjór og hálka er frekar en aðrir vegir.
En gaman hefur þetta verið allt saman, en kaffi á þessari leið, nei þú verður að bjarga því sjálf.
                                          Knús til þín
                                            Milla.

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 12.5.2008 kl. 11:48

10 Smámynd: Sigrún Óskars

Skemmtileg ferðasaga og velkomin heim. Gott hjá þér að hafa vetrardekkin!

Sigrún Óskars, 12.5.2008 kl. 12:11

11 Smámynd: Guðrún Jóhannesdóttir

Guðrún Jóhannesdóttir, 12.5.2008 kl. 12:40

12 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Skemmtileg ferðasaga.

Sammála með lífið fyrir og eftir þennan heim. Um að gera að nota þetta líf vel, tel ekki völ á öðru til að gera betur .

Ég er enn meira sammála því að við lifum eigi að síður áfram í hjörtum þeirra sem kunna að meta okkur. Ef við viljum framhaldslíf þá er um að gera fyrir okkur að vinna vel að því að skapa okkur sem jákvæðast orðspor til að einhver muni eftir okkur

Kristjana Bjarnadóttir, 12.5.2008 kl. 12:59

13 Smámynd: Tiger

  Velkomin aftur Ragnheiður mín. Þetta er sannarlega fjörleg ferðasaga þarna og þið hafið lent í ýmsu - án kaffisopa. Litli frændinn er sooo cute og til hamingju með hann. Knús í vikuna þína mín kæra.

Tiger, 12.5.2008 kl. 15:10

14 Smámynd: Solla

jeyhhh velkomin heim mamma, mikið hlýtur að hafa verið gaman hjá ykkur. Gott að þið skelltuð ykkur og breyttuð til. En ég saknaði þín

Love you mamma

og ps. Takk Steinar fyrir að passa gömlu

Solla, 12.5.2008 kl. 17:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband