grasekkja
8.4.2008 | 19:38
kallinn strauk að heiman, enda ekki undarlegt. Ég gaf hann í dag. Við vorum í erfidrykkju og ég vildi endilega sitja hjá henni Nínu minni, samstarfskonu og vini. Næsta sæti þar við var svo illa staðsett að ég sá fram á að ná ekki Steinari þaðan út aftur þannig að ég gaf hann, hinumegin á borðið. Plantaði honum hjá Grímu dóttur hennar Rósu sem er líka samstarfskona mín. Mér til undrunar kvartaði kallinn, ég sem hélt að ég væri að gera honum stóran greiða. Hengja hann á glæsilega stúlku, áratugum yngri en ég er.
Svona er lífið, eintómur misskilningur.
Það var fjölmenni í jarðarför Eggerts Thorarensen forstjóra BSR. Það mættu margir af þeim eldri sem eru hættir, ósköp gamlir orðnir sumir þeirra. Einhverjir komu líka frá Hreyfli, bílstjórar sem voru áður hjá okkur. Athöfnin var afar falleg. Eggert var stórbrotinn maður, bráðskemmtilegur og mikið gæðablóð eins og þessi saga sem sögð var í minningarræðu ber með sér.
Þannig var að Eggert var í laganámi. Einhverju sinni átti hann leið um Kringlumýri og sá þar einstæða móður með 5 börn , borna út úr húsnæði sínu sem var þó ekki annað en lágreistur skúr. Eggert hætti umsvifalaust námi og sagðist ekki ætla að læra þetta fag til að fara svona með fólk. Og þar við sat.
Líkmenn voru 8 bílstjórar sem hafa lengstan starfsaldur á stöðinni, þeir báru sinn gamla vin á leiðarenda.
Mér varð á að flissa í erfinu. Var að spjalla við einn af þessum gömlu þegar annar enn eldri kemur aðvífandi. Hann kannast strax við þær Gunni og Rósu enda eru þær nánast naglfastar en bendir á okkur Nínu og segir ; þessar eru nýbyrjaðar ! Já já segi ég. Ég er bara búin að vera í 25 ár æEg byrjaði á BSR 1984 og hef verið þar með örstuttum hléum síðan. Héðan af fer ég varla þaðan.
Dagurinn byrjaði ekki gæfulega. Einn nýliðinn fór alveg með allt systemið í kerfi og hann náði þeim skemmtilega áfanga að vera búinn að koma afgreiðslunni í morðskap klukkan 8. (ég byrjaði klukkan 7.30) En vegna þess að vinnan mín er ekki umræðuefnið hér og verður það ekki þá fer ég ekki nánar út í þá sálma.
------------------------------------------------------------
Smá Himma blús
____________________________________
Solla sagði að það hefði eitthvað verið dáið í augunum á mér þegar ég var að segja þeim frá láti hans. Ég held að það sé meira en í augunum, mér finnst oft eins og það hafi dáið hluti af mér sjálfri. Ég er samt ágæt, þannig lagað. Þeir sem ekki þekkja nákvæmlega sjá þetta ekki en ég efast um að brosið nái alltaf til augnanna. Það verður bara að hafa það, lífið verður aldrei aftur eins.
Athugasemdir
Æ, eigum við ekki bara að faðmast, Ragga?
Hugarfluga, 8.4.2008 kl. 19:43
Nei Ragnheiður mín, lífið verður aldrei aftur eins. EN ! Þú getur samt átt virkilega gott líf fyrir höndum. Við söknum þeirra sem farnir eru en við eigum mikilvæga einstaklinga ennþá hjá okkur, fólkið okkar. Njótum þeirra eins og best við getum og horfum á það fallega sem lífið hefur upp á að bjóða. Ég held reyndar að þú vitir þetta allt.
Og í guðanna bænum !!!!! Ekki gefa Steinar.
Anna Einarsdóttir, 8.4.2008 kl. 19:50
Takk Fluga mín, knús
Nei Anna ég skal ekki gefa Steinar enda held ég að það myndi ekki þýða. Hann kæmi beinustu leið heim aftur, hinn versti.
Já það má samt eiginlega segja það, maður nýtur síns fólks öðruvísi og á margan hátt betur. En gjaldið var rosalega hátt.
Ragnheiður , 8.4.2008 kl. 19:52
Ég er víst listamálarastrumpur... ætti kannski að fara að teikna meira fríhendis eða hvað? ;)
Vildi bara senda knús og þakka fyrir komuna á sunnudaginn, það var gaman að fá ykkur ;)
Steinunn Ósk Steinarsdóttir, 8.4.2008 kl. 23:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.