Labbfærsla
13.3.2008 | 15:45
Við skálmuðum stærri hringinn með hundana í sólinni og ROKINU, norðan 30 metrar á sekúndu eða eitthvað álíka. Löbbuðum til baka meðfram sjónum og þar er sjóvarnargarður, ég hafði skjól af honum meðan Steinar var með hausinn í skrilljón gömlum vindstigum. Það er gott að vera lítil kellíng.
Sá einn fugl á leiðinni og Keli líka, Keli vildi elta fuglinn en komst að því að það var eiginlega handleggur með mömmu fasta við sig. Fuglinn slapp og ég gat sagt Steinari frá því, milli andkafanna af rokinu, að þetta væri minn mesti upp áhaldsfugl. Hann var agnarlítið hissa á því. Þetta er afar algengur fugl. Þetta var stokkandarsteggur. Þegar ég var lítil í Krossamýri þá var andapar þar við húsið. Mamma ákvað einn daginn að ná mynd af þessum vinum okkar og viti menn, þau hófu sig til flugs og komu aldrei aftur. Í vinnunni hjá mér í Skógarhlíð kom líka ár eftir ár andapar í brauð á nóttunni. Fuglar vakna upp úr 3 á nóttunni, þetta lærði ég þegar ég var á næturvöktunum. Þau komu hverja nótt en svo hætti kollan að koma meðan hún lá á en kom svo aftur að því loknu. Eitt árið hvarf hún en kom of fljótt til baka. Þá hafði hreiðrið hennar áreiðanlega eyðilagst í framkvæmdunum við nýju Hringbrautina. Hún verpti nefnilega þarna nærri kapellu Valsaranna. Endirinn á því framkvæmdamáli varð sá að andavinirnir okkar hurfu fyrir rest.
Keli er hrifinn af fuglum og vill elta þá. Lappi er hinsvegar hrifnari af hestum og sannaði það áðan með því að kútvelta sér í þurrum hrossaskít við afar litlar vinsældir okkar.
Nú lít ég út eins og vonda nornin í norðrinu og ætla að skutlast í sturtu, það er líklega best að hafa hundaLappa með í sturtuna.
Heyri í ykkur.
Munið eftir forvitninni í næstu færslu og endilega líka, hver er ykkar uppáhaldsfugl ?
Athugasemdir
Rosalega er ég ánægð með þig núna
Stúfur Stubbalings er líka hrifinn af hestur og fuglum. Einu sinni rákumst við á hest með fugl á bakinu! Hann var svo dolfallinn að ég ætlaði ekki að mjaka honum úr sporunum aftur. Þarna sameinuðust tvö hans áhugamál á einu bretti
Uppáhaldsfuglinn minn hefur löngum verið Krummi svo finnst mér Krían líka skemmtilegur fugl.
Hrönn Sigurðardóttir, 13.3.2008 kl. 16:46
Tjaldurinn og krumminn eru mínir uppáhalds. Tjaldurinn er mikið í garðinum mínum á sumrin.
Sigrún Óskars, 13.3.2008 kl. 17:05
Ég veit ekki hvað Bjartur er hrifin af hann er hræddur við kisu og í lagi með hunda. Mér Finns lóan krummi og Hrossagaukur eru mínir uppáhalds fuglar.
Kristín Katla Árnadóttir, 13.3.2008 kl. 18:24
Vá þið eruð svo dugleg að fara út að labba...ég gat ekki annað en brosað þegar þú sagðir að það væri gott að vera lítil kerling...ég man nefnilega eftir að þegar Himmi var að stækka sem mest þa´sagði hann við mig og pabba sinn...ég er svo heppinn og við vildum vita út á hvað þessi heppni gekk þá sagði hann ég þarf ekki að verða stór til að verða stærri en mamma og svo þarf ég heldur ekki að vera stór til að verða stærri en þú og bennti á mig...ég hló og sagði honum að þá væri hann mjög heppinn að pabbi hans væri ekki stór....,
Kveðja til ykkar Heiður og fjölsk.
Heiður Þórunn Sverrisdóttir, 13.3.2008 kl. 19:01
... gömlu vindstigin, segir þú... voru þau ekki slöpp, gömul og þreytt...?
Uppáhaldsfuglinn Krían... hef ort um hana ljóð... liðug, frek og falleg...
Brattur, 13.3.2008 kl. 19:19
Haha Heiður, það minnir mig á þegar ég fór með hann í tveggja eða þriggja ára skoðunina. Læknirinn horfði á hann í forundran og fannst hann stór eftir aldri (hann var það þá) og botnaði ekki í þessu eigandi þessa smáforeldra hehehe
Brattur ; vindstigin náðu allavega ekki að hrekja Steinar af leið
Ragnheiður , 13.3.2008 kl. 19:55
Yndisleg tilfinning að labba um í fjöru, sjórinn og allt það. Uppáhaldsfuglarnir mínir eru 2, Krummi, hann er svo skemmtilegur, talar meira að segja við mann ef þeir eru ekki mjög styggir, og svo Örninn, hann er svo tignarlegur og greindur.
Knús til þín góða kona.
Guðrún B. (IP-tala skráð) 13.3.2008 kl. 20:07
knús knús á þig duglegust....
Þórunn Eva , 13.3.2008 kl. 21:44
Bördí Jennýjarson er minn uppáhaldsfugl. Rosalega ertu dugleg að labba. Ég þarf að fara að drífa mig.
Jenný Anna Baldursdóttir, 13.3.2008 kl. 21:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.