Sjálfsmat
5.3.2008 | 11:12
Jenný er að fjalla um nýjasta útspilið hjá borginni, borga foreldrum fyrir að vera heima með börn sín. Ég hefði viljað hafa kost á því að vinna minna frá mínum börnum á sínum tíma en svo fór ég að hugsa. Það vita allir að atvinnuleysi hefur afar slæm áhrif sálarlega á fólk. Ætli það hafi álíka slæm áhrif á foreldra að neyðast til að vera heima vegna leikskólaplássleysis ? Þá er ég að tala um þá sem vilja síður vera heima. Leikskólinn er í raun fyrsta skólastigið, þar læra þessi kríli að umgangast hvert annað og læra margt annað sniðugt. Þessi hugmynd virkar ekki nema fólk hafi sjálft val um hvort það vill gera og svo geta karlarnir allt eins verið heima með börnin.
Ég byrjaði daginn á að skoða www.mbl.is en svo dreif ég mig inn á www.vedur.is ,ekki til að sjá veðrið heldur er hægt að sjá jarðskjálfta þar frá sjálfvirkum mælum. Það skelfur enn ansi duglega þarna norðan við Vatnajökul, það kom hlé í gær en svo tók þetta kipp aftur...mér sýnist að það sé aðeins að róast aftur núna. Í gær var sagt að það væru helmingslíkur á gosi. Þetta er ekki langt frá Kárahnjúkum (tek það fram að ég veit ekki nákvæmar vegalengdir þarna) og Steinar glotti ógurlega um daginn ; Það skildi þó ekki vera, að nú fari þetta dýra virkjun til fj......?
Á morgun er stórafmæli, Sollan mín verður 25 ára. Margt hefur hún afrekað á sinni æfi, komist yfir marga erfiðleika og vaxið við hverja raun. Hún er hjartahlý og góð, alveg eins og dóttir á að vera. Hún hefur borið með mér byrðar lífsins í gegnum tíðina. Hún er yndisleg og ég elska hana til tunglsins og til baka. Hún á tvo ömmumola, Vigni litla gorm sem er ekkert lítill lengur, hann fer í skóla í haust og litlu hjartamúsina hennar ömmu sinnar, Hilmar Reyni. Báðir snáðarnir fæddust á erfiðum árum í lífi ömmu sinnar. Vignir var bara smá snáði þegar móðir mín lést eftir alvarleg veikindi og Hilmar litli fæddist í nóvember 2007 -á versta árinu sem amma hefur lifað. Hann verður vonandi lánsamari í lífinu en stóri nafni og frændi sem er hjá Guði.
Hérna til hliðar er hlekkur á minningarsíðu um Hilmar, Solla setti myndir þar inn í gær. Við erum báðar með lykilorðið á þessa síðu. Þar eru myndir sem lýsa prakkara Himma vel, brosið og prakkaraskapurinn.
Annars er ég góð, man ekki meira í bili en ég skrifa þá bara aftur eða bæti því við. Hafið það gott í dag sem alla aðra daga og takk fyrir yndisleg komment við næstu færslu á undan.
Anna ; Tigercopper er líklega best geymda leyndarmál bloggheima, mikill prakkari en með hjartað á réttum stað og líklega af stærri gerðinni. www.tigercopper.blog.is Kíkið á hann
Athugasemdir
Til hamingju með Solluna þína, elsku Ragga. Hún var yndisleg sem lítil telpa og hefur haldið því áfram.
Takk annars fyrir frábæran pistil.
Jenný Anna Baldursdóttir, 5.3.2008 kl. 12:24
Kær kveðja elsku Ragga takk fyrir að deila þessu með okkur ég sendi ljós á þig og fjölskyldu þína. Falleg mynd og texti
Kristín Katla Árnadóttir, 5.3.2008 kl. 12:28
Hver verður heima??? Jú, konur. Þetta gæti fært okkur mörg ár aftur í tímann í okkar baráttu til að vera metnar að verðleikum til jafns við karla á vinnumarkaðinum.
Það er miklu ódýrar fyrir Reykjavíkurborg að senda börnin bara heim og hafa mömmurnar hjá þeim heldur en að sjá þeim fyrir leikskólaplássi. Leikskólapláss kostar Reykjavíkurborg 150.000kr á mánuði og svo greiða foreldrar ca 24.000 (minnir mig). Þannig að borgin græðir mikið ef barn er heima jafnvel þótt þeir greiði heimilin 50 til 60 þúsund fyrir að vera heima.
Halla Rut , 5.3.2008 kl. 15:02
Æ þetta er svo fáránlegt hjá borginni, auðvitað á þetta að vera val hverrar konu en ekki nauðsyn vegna þess að bið er eftir leikskólaplássi.
Þessi mynd er yndisleg og tók ég mér það bessaleyfi að kópera hana, vonandi var það í lagi? Sammála þér með hann Tigercopper, hann er best geymda leyndarmálið hér í bloggheimum og strax orðinn skyldulesning hjá mér
Huld S. Ringsted, 5.3.2008 kl. 15:40
Ég var heima með mína syni, en þeir fóru á leikskólann hálfan daginn til að umgangast aðra krakka því það voru engir krakkar heima við á daginn. Sem þeir höfðu mjög gott af.
Í kring um mig eru fjölskyldur sem allir eru að vinna úti og sinna sínu félagslífi en hafa engan tíma til að sinna krökkunum. Þarna finnst mér að fólk þurfi að forgangsraða betur og geta sleppt ýmsu til að sinna krökkunum betur. Kannski er ég svona gamaldags en mér finnst að annað foreldrana eigi að vera sem mest heima með krökkunum.
Knús og klús
Kidda (IP-tala skráð) 5.3.2008 kl. 15:45
Nákvæmlega Huld. Þetta er ekki val heldur nauðsyn. Ég er mjög pirruð yfir þessu.
Halla Rut , 5.3.2008 kl. 16:01
Í dag er það bara þannig að leikskóli er undirbúningur fyrir skóla. Þau börn sem ekki hafa farið í leikskóla eiga oft erfitt uppdráttar í skóla því þau hafa ekki sömu undirstöðu og hin.
Halla Rut , 5.3.2008 kl. 16:03
Halla, í dag heyrði ég slitrur úr frétt og þar kom fram að upphæðin yrði eftir skatt 8.000 kr ....þvílík upphæð!
Fíflagangur bara!!
Ragnheiður , 5.3.2008 kl. 16:21
takk fyrir kommentið, gangi þér vel.... kv Þórunn Eva
Þórunn Eva , 5.3.2008 kl. 18:17
Börn eiga rétt á því að vera í leikskóla. Þetta á ekki að vera spurning um vilja foreldra. Við maðurinn minn skiptumst á að vera hjá yngri stráknum í 26 mánuði svo fór hann í leikskóla. Sá eldri fór aldrei á leikskóla, var alltaf hjá mömmu minni á meðan ég var í skóla. Það var bara fínt og hann minnist þessa tíma með ánægju. En leikskóli á að vera réttur barna, punktur og basta.
Helga Magnúsdóttir, 5.3.2008 kl. 18:28
Já væri ekki bara ráð að borga leikskóla starfsfólki mannsæmandi laun svo það sé hægt að hafa leikskólana virka það gengur ekki að heilu deildirnar eru lokaðar vegna mannekklu. að öðru þessi mynd og texti er dásemd.
Eyrún Gísladóttir, 5.3.2008 kl. 18:39
9000 kall. Einmitt. Borgarstjóri sagði: Tugir þúsunda. Sammála Eyrúnu en vandamálið liggur ekki aðeins þar heldur er starfsaðstaða fólks fyrir neðan allar hellur. Hana þarf að laga líka.
Halla Rut , 5.3.2008 kl. 19:04
Konur eiga að fá að ráða því hvort þær vinna úti eður ei.
Ég skal upplýsa þig Ragga mín, mestu skjálftarnir eru núna í
Upptyppingum og eru þeir ekki langt frá Kárahnjúkum, til þess að gera. Ef að skjálftar verða harðir, geta þeir haft áhrif á Kárahnjúkasvæðið, en við skulum vona að satt sé að stíflan sé ofurstyrkt, ef hún brestur þá er voðin vís, gæti það orðið afdrifaríkt fyrir fólkið á þessu svæði. Svo voru skjálftar i Öxarfirði í nótt, en við erum nú svo vön því. T.d erum við ekki nema tvo og hálfan tíma
héðan frá Húsavík til Egilsstaða og eftir kortinu að dæma þá er styttra frá Upptyppingum í Kárahnjúka, það er ef það væri vegur þarna á milli.
En svo vitum við aldrei hvar næsta gos verður.
Til hamingju með Sollu þína Ragga mín, Vignir og Hilmar eru yndislegir
Skilaðu kveðju til hennar.
Takk fyrir yndislegan pistil.
Knúsý kveðjur Milla.
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 5.3.2008 kl. 19:45
Það skildi þó aldrei vera að allt fari á hvolf á Kárahnjúkum? Æi, maður vonar þó að ef eitthvað gerist þá verði ekki slys á mönnum og músum.. jarðhræringar eru alltaf varasamar.
Persónulega myndi ég mæla með því að fólk fái að vera heima meira með börnum sínum, á launum. Það er svo mikil dásemd að upplifa nálægðina við foreldra sína í uppvextinum.
.. Þú ert endalaus rúsína Ragnheiður! Ég vissi ekki að ég væri falinn - hélt að ég væri búinn að láta svo illa útum allt svo allir vissu orðið hver þessi stormsveipur væri. Æði að fá góða auglýsingu svona ókeypis ljósið mitt... og takk fyrir falleg orð!
Svo Solla þín verður 25 á morgun. Maður óskar þér og henni náttúrulega til hamingju með daginn og sendir blóm í tilefninu!
Litlu prakkararnir þínir hafa sannarlega verið mikil Guðsgjöf, annar bara kominn á skólaaldur og hinn á hraðri leið með að bræða bloggheima og fleiri. Litli Himmi mun sannarlega verða farsæll í framtíðinni, hann hefur svo hjartahreinan og dásamlegan verndarengil þarna uppi - Verndarengil sem ber meira segja sama nafn! Ég kíkti aðeins inn á kertasíðuna og gestabók Hilmars og skildi eftir mig dálítil spor og reyndi að senda góða strauma og hlýju til þín og þinna í leiðinni. Guð geymi ykkur og styrki.
Tiger, 5.3.2008 kl. 22:59
Þetta er ömurlegt...ég hef fylgst með þessum málum í langan tíma...gekk á sínum tíma í samtök sem berjast gegn umskurði kvenna...það er fátt sem getur gert mig jafn reiða og sorgmædda...og rótin er fyrst og fremst fáfræði og hjátrú...sorglegt, svo sorglegt.
Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir, 6.3.2008 kl. 00:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.