Stundum festist maður
2.2.2008 | 15:21
í einhverjum sporum. Þennan janúar hef ég þolað þrátt fyrir að vera með víðtæka fóbíu fyrir janúarmánuði almennt, ég held að birtustigið ráði þar mestu. Sálarlifið hefur verið í stíl við mánuðinn. Það hafa almennt ríkt hin mestu myrkur með stöku stormi. Heldur fór að brá af í mánaðarlok og þá spurði ég manninn ; er ég ekki búin að vera alveg hundleiðinleg undanfarið ? Jú eiginlega viðurkenndi hann en bætti svo við ; ég ákvað að bíða bara rólegur eftir að mín kelling kæmi í ljós! Þar var ég náttlega heppin að hann er haugur af þolinmæði ,hann hefur nefnilega ekki hallað orði að leiðinlegu konunni sinni. Leiðinlegheit mín hafa aðallega falist í því að ég hef setið einhversstaðar, steinþegjandi og alveg óvirk í umheiminum. Það skal vera leiðinlegt að horfa upp á það. Reyna að tala við einhvern og það kemur bara eins atkvæðis orð eða ha ? eftir dúk og disk.
Einu samskiptin hafa verið yfir púslinu
Nei þetta passar ekki !
Færðu þig !
Réttu mér etta !
Já þetta ! Hvað hélstu að ég væri að benda á ? (bara 999 önnur stykki á borðinu)
Og hann hefur hætt við, fært sig, rétt mér og brosað.
Eftir síðasta púslfíaskó náðum við að tala saman, um Himma, um allt sem hefur verið að gerast og hvernig mér hefur liðið og hvað mér finnst hann hafa staðið 1000% með mér, með þolinmæðinni. Og viti menn, honum tókst að brjóta klakann sem ég var búin að koma utan á mig, það hefði enginn annar getað.
Ég hef verið utan við mig og bara sauður, klukkan kannski orðin 19.00 og ég enn ekki búin að uppgötva að þennan dag eins og aðra á að gefa heimilisfólki að borða. Ji, núna ?
Þú ert óróleg þegar þú sefur segir hann. Þá er mig að dreyma ..man minnst af því en dreymir aldrei Himmann minn. Þá myndi ég ekki vilja vakna af þeim draumi.
Trúin er brotin, ég skil ekki þetta Guðsorð.
Samt held ég ótrauð áfram, ég veit að mér er ætluð leið útúr þessum erfiðleikum. Mitt er að finna hana. Það mun ég gera.
Í ruglinu hefur heimilið setið alveg á hakanum. Björn hjálpaði mér með eldhúsið áðan og náði að ýta því að mér, kurteislega, að hann væri að verða alveg fatalaus.,,Hvar eru fötin þín ? spurði forviða mamman. Hann hvarf og kom að vörmu spori með fulla óhreinatauskörfu. Ég náði hintinu og nú malar þvottavélin.
Ég er ánægð með sjálfa mig, ég sé draslið hérna núna og ég er að vinna í þessu. Ég er bara samt dugleg.
Þetta kemur....
Athugasemdir
Þú ert frábær, algjörlega yndisleg, hrein og bein. Og þú getur svo sannarlega tjáð þig í skrifuðu orði.
Jenný Anna Baldursdóttir, 2.2.2008 kl. 15:31
Knús á þig elskan ..
Guðrún B. (IP-tala skráð) 2.2.2008 kl. 16:48
Þetta kemur Ragnheiður mín. Ég veit það, því þú ert svo skynsöm og vel gefin og þroskuð, að þú finnur leið til að komast í gegn. Svo er auðvitað ómetanlegt að hafa svona klett við hliðina á sér.
Anna Einarsdóttir, 2.2.2008 kl. 17:59
Stórt knúúúúúús!!!
En þú verður að kenna Bjössa á þvottavélina, óþolandi þegar karlmenn geta ekki þvegið af sér sjálfir!!
Steinunn Ósk Steinarsdóttir, 2.2.2008 kl. 18:22
Knús
Huld S. Ringsted, 2.2.2008 kl. 20:53
Sólin rís aftur en hvort það verður á morgun eða bara seinna þá er gott að vita af henni þarna bak við skýin, hún gefur von um bjartari tíma.
Stórt faðmlag til þín og kveðja til eiginmannsins
Maddý (IP-tala skráð) 2.2.2008 kl. 21:04
Já Madddy mín, hún rís aftur en verður öðruvísi svona Himmalaust. Skila knúsinu á kallinn minn...
Við hittumst hinumegin
Ragnheiður , 2.2.2008 kl. 21:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.