Eintóm axarsköft, púslið og fordómarnir

Bifreiðin harðneitaði í gang í kvöld. Vinnumaður hafði farið á sjálfsafgreiðslustöð og tekið eldsneyti, því næst ók hann á veitingastað og fékk sér í gogginn. Bifreið var snúðug þegar hann kom út aftur og sagðist ekki ætla í gang. Vinnumaður beitti ýmsum fortölum, prófaði að setja epli í hanskahólfið en allt kom fyrir ekki.

Vinnumaður hringdi í húsmóður sem náði ekki að svara símanum enda með heilan hamborgara í túllanum. Steinar settur í að hringja í vinnumann enda muldraði hamborgarinn að það væri áreiðanlega eitthvað að bílskrípinu.

Við tók smá hugs í tveimur köllum....símar lagðir á augnablik. Þá hringdi vinnumaður aftur og tilkynnti að af bifreið legði bensínþef. Það er náttlega hálfasnalegt hjá díselbíl að staupa sig á bensíni. Þar með var farið í að finna neyðarnúmer hjá þar til gerðu fyrirtæki sem sér um að leiðrétta slík axarsköft. Ekki getur maður látið bensínið gluða bara beint í næsta ræsi. Það er bannað og Þórunn umhverfisráð myndi senda manni feitan reikning.

Á vettvang mætti sugubíll sem sér um förgun á slíkum efnum, ekki beint hægt að segja að það sé gefins. Steinar mátti reiða fram 25 spírur fyrir þá þjónustu. Þá var eftir að kaupa réttan vökva á farartækið sem enn neitaði að fara í gang, enda móðgaður eðalvagn. Með klappi á nefið og smá aukarafmagni þá tókst loks að sannfæra bifreið um að ekki hefði viljandi verið gerð atlaga að lífi hans og limum. Karlar áttu eiginlega ekkert eftir annað en að sækja húsmóður til að kyssa bifreið á grænt nefið þegar bifreið ákvað að láta af leikaraskapnum og skammaðist sín í gang.

Síðast þegar fréttist að þeim félögum, vinnumanni og bifreið, þá gekk bifreið eins og þægur köttur en fáum sögum fór að vinnumanninum.

Púslið gengur vel en í það komst mús. Stór mús sem situr og púslar, einbeittur á svip. Hann er náttlega mesta krúttið. Við púslum bara saman gamla settið.

Til að ekki skapist misskilningur útaf síðustu færslu þá er ég ekki á móti því að útlendingar komi hingað, alls ekki. Við erum ekki að gera heiðvirðu fólki sem hér vinnur neinn greiða með að flytja inn glæponana líka. Það hlýtur að vera hægt að sortéra þetta betur....það þarf enginn að segja mér annað en að það sé hægt.

Við erum komin með hálfónýtt heilbrigðiskerfi. Hérna er vél sem bóndi minn þarf að sofa með. Skilvíslega fær hann reikning, fjórum sinnum á ári, 4500 krónur hver. Það vantar í allar stéttir heilbrigðisgeirans. Það er allsstaðar allt í voða og vitleysu.

Þess vegna er kannski betra að sleppa því að flytja inn fjölónæma berkla, ja allaveganna í bili.

Við mættum bæta margt hérna heima við. Ég myndi vilja sjá neyðarmóttöku fyrir fíkla, sem tekur við þeim þegar þeir eru tilbúnir til að koma en ekki miðað við biðlista á stofnun. Það er svo margt sem við mættum gera betur.

Ef við viljum endilega vera góð út á við þá gætum við gefið aura í eitthvað góðgerðastarf en meðan við erum með gríðarlanga biðlista eftir nauðþurftum þá þurfum við eitthvað að hugsa málin upp á nýtt. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góð færsla hjá þér Ragga!  Það gilda orðið strangari reglur í sauðfjárvörnum en hjá mannfólkinu ef fólk með berkla getur bara valsað inn í landið eftirlitslaust. 

Maddý (IP-tala skráð) 13.1.2008 kl. 07:50

2 identicon

Skemmtó færsla hjá þér. En vá 25 þúsund kall fyrir smá þjónustu.

Bryndís R (IP-tala skráð) 13.1.2008 kl. 08:59

3 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Nú veit ég að ef maður flytur inn t.d. hreindýr þá þarf að fylgja því heilbrigðisvottorð. Af hverju ekki alveg eins með mönnum?
Þegar ég fór í skóla til Svíþjóðar, (það var sko er ég var yngri)
Þá man ég að ég fór í læknisskoðun og fékk berklasprautu.
Það mætti kannski setja einhverjar reglur um þetta.
Það er af mörgu að taka og ég verð svo reið er ég byrja að hugsa um heilbrigðiskerfið og T.R. svo áður en ég fer í hjartastopp, "hætt"
Frábært blogg að vanda snúlla, flott að púsla svona saman.
Var vinnumaður eitthvað utan við sig? Æ. greyið.
Það er nú í lagi að Eðalvagn fari í fílu.
                          Njóttu dagsins Milla.

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 13.1.2008 kl. 10:35

4 identicon

Góður pistill hjá þér, en veistu Ragnheiður þar sem ég er svo kunnug svona misdælingum þá ættuð þið að láta skipta um allar síur í bílnum hjá ykkur þar sem hann keyrði hann einhvern spöl eftir að hafa sett bensín á hann. Síurnar eru allar yfirfullar af bensíni og er ekki gott fyrir vélina ef þið viljið hugsa vel um bíldósina . Skiptið um síur sem fyrst honí bara á næstu smurstöð. Good luck hon

Margrét Össurardóttir (IP-tala skráð) 13.1.2008 kl. 10:48

5 Smámynd: Anna Einarsdóttir

En Ragnheiður mín !  Það á ekki að setja epli í hanskahólfið, það á að setja mandarínu. 

Þegar þú sendir frá þér svona færslur, þá finnst mér ég lesa skemmtilegustu færslur sem finnast í öllu Blogglandi.   Húmorinn þinn, í bland við alvöru lífsins er óbrigðull kokteill.    Passaðu þig á hamborgurunum...og alls ekki svara í síma eftir að hamborgari hefur smellt sér inn fyrir þínar varir, nema einhver verulega leiðinlegur sé að hringja.  Einn hamborgarinn reyndi að kæfa mig um árið þegar ég hló óvart með munninn fullan af slíkum.   

Anna Einarsdóttir, 13.1.2008 kl. 11:51

6 Smámynd: Heiður Þórunn Sverrisdóttir

Góð lesning Ragga en æj var farin að vorkenna grænu eðalkerrunni ...gott að allt fór vel með vagninn...

Heiður Þórunn Sverrisdóttir, 13.1.2008 kl. 12:46

7 Smámynd: Ragnheiður

Maddy : akkurat

Bryndís : það er sko aldeilis ekki gefins !

Milla mín ; færi ég með Kela til útlanda þá yrði mesta vesen að komast með hann til baka. Ég er hrædd um að það endi með að við grípum of seint í rassinn

MaggaÖ : hann er einmitt að fara á heilsuhæli í fyrramálið og fær síurnar í viðbót þá. Góð ábending

Anna : Mandarína ? Þá er ekki von að eplið hafi virkað. Takk fyrir hlý orð

Ragnheiður , 13.1.2008 kl. 12:48

8 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Góð færsla hjá þér, Ragnheiður, það þarf að hugsa þessi innflytjendamál alveg upp á nýtt og marka klára stefnu, straumurinn hingað er orðinn það mikill að það er orðið bráðnauðsynlegt og ekki hægt að nota sömu aðferðir og á meðan hingað slæddist einn og einn útlendingur.

Heilbrigðiskerfið þarf líka stöðugrar endurskoðunar við, eins og öll þessi kerfi. Vonandi verður allt voða gott hjá okkur í framtíðinni, þegar allt þetta vel menntaða unga fólk sem við eigum tekur við stjórntaumum, vonandi hefur okur ekki gleymst að kenna því grundvallarreglur siðferðis í þjóðfélögum sem vilja teljast siðuð, í bland við annan lærdóm.

"Vinnumaður beitti ýmsum fortölum, prófaði að setja epli í hanskahólfið en allt kom fyrir ekki"

Þetta er nú með betri bröndurum sem ég hef heyrt lengi!

Í sambandi við það sem þú sagðir frá með bensín á díselbíl, þá rifjaðist upp fyrir mér sunnudagabíltúr með tengdaforeldrum mínum og eldri syninum. Bíllinn komst út götuna, en síðan byrjaði hann að hiksta. Tengdapabbi furðaði sig á þessu, en eftir dálítinn tíma leið, má segja, þessi setning af vörum sonar míns: "Kannski hefur einhver sett VATN á bensíngeyminn?" Kom upp úr dúrnum að hann hafði verið einn að dunda sér úti í garði, eins og oft áður, þar sem það mátti eiginlega alveg treysta því að hann héldi sig þar og færi ekki neitt í burtu (ólíkt yngri stráknum mínum) og hafði dottið í hug að setja bensín á bíl afa, en gerði það sem sagt með því að ná sér í vatn í vökvunarkönnu ömmu sinnar! 

Greta Björg Úlfsdóttir, 13.1.2008 kl. 13:08

9 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Frábær pistill og ég hjartanlega sammála.  Skelfilegt að fylla þann græna af bensíni.  Vesalings eðalvagninn.

Jenný Anna Baldursdóttir, 13.1.2008 kl. 14:42

10 identicon

Ég skil eðalvagninn mjög vel, þetta er svona svipað og bjóða kókista upp á pepsi og fá svo bara epli í sárabætur

Er það ekki meira kósý að pússla með stórri mús heldur en að gera það ein bara passa upp á að hann setji ekki síðasta pússlið í.

Þær eru skrýtnar þessar línur sem eru dregnar í sambandi við fólk sem kemur hérna til landsins. Ekki sama hvort það er dýr eða manneskja, félagi í þessarri glæpaklíku eða hinni. 

En í sambandi við allt sem fellur undir heilbrigði hér á landi þá þarf að breyta svo miklu í sambandi við forgangsröðunina í kerfinu.  Og hef ekki mikla trú á að það breytist neitt á næstunni, því miður. Það þarf hugarfarsbreytingu og það mikla hjá þeim sem ráða í hvað peningarnir okkar fara í.

Knús og klús

Kidda (IP-tala skráð) 13.1.2008 kl. 14:56

11 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Skemmtilegur pistill að vanda Ragga mín.  Skil ekki enn hvernig hægt er að dæla  bensín á dísel og öfugt, þetta er svo vel merkt  Truck En að fúlsa við epli er náttl. bara stælar í bíl. 

Kær kveðja á nesið.  Hvernig gengur að halda sér vakandi???

Ásdís Sigurðardóttir, 13.1.2008 kl. 17:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband