Búin að finna út úr þessu
30.12.2007 | 12:14
sat hér í mökkfýlu yfir vondu veðri og fyrirhuguðum töfum á búðarrápi konunnar. Ég ætla að hafa hér "gömlu" familíuna mína í mat á morgun, það samanstendur af honum pabba og systur minni. Svo var planið að vaða snemma út að versla matinn en nú er ekki kellingu né kalli út sigandi. Hundar hafa fokið hér í örvæntingu um garðinn í tilraun til að pissa. Kelinn móðgaður, klóalaus, og nær hvergi neinu gripi. Ég held að þeir hafi náð að spræna þegar þeir fuku framhjá tré.
En nú er ég búin að finna hið góða við þetta veður. Haha..það getur enginn skotið upp flugeldum meðan rokið er svona mikið nanananabúbú...ekkert pomm
Jenný fjallar um fegurðarsamkeppnir í dag. Ég skil aldrei að hægt sé að keppa í fegurð. Fegurð er smekksatriði. Svo er alls ekki endilega samræmi milli umbúða og innihalds. Það ættum við að vita nú þegar við erum öll nýbúin að taka upp jólapakkana. Eða eins og synir mínir í fyrra..fengu hólk utan af eldhúsrúllu sem innihélt nærbuxur með glannalegum myndum á. Húsbóndinn lengi að bauka við að pakka þessu inn á þennan hátt.
Ég skrapp líka yfir á Jónu síðu og finnst að maður eigi að fá að hafa jólin uppivið eins lengi og maður vill. Mesti krúttstrákur sem sögur fara af er enn í miklum jólaham og með fylgja myndir af honum við gjörningana. Hann er bara flottastur en ég geri mér grein fyrir að eitthvað verður mamman til bragðs að taka.
Svo kom ég við hjá Ásdísi og hef fasta mynd af henni í höfðinu, ja af henni og Bóthildi kisu. Ég sé fyrir mér þær tvær blakta eins og fána á ljósastaur við aðalgötuna á Selfossi
Stundum les ég færslur bloggvinanna og ég sé sögur....í þeim eru stundum konur með svuntur og klæddar á gamaldags máta. Svona les ég líka bækur. Þær lifna við og gerast í höfðinu á mér. Finnst ykkur að ég eigi að fá pillur við þessu ? Þetta veldur því stundum að ég er að bilast úr hlátri yfir einhverri vitleysu sem ég las í bók í kringum 1970. Ein bók er til heima hjá pabba sem vakti ómælda gleði hjá okkur systrum í gamla daga. Hún heitir beinagrind skemmtir sér og vakti alltaf lukku. Við lágum einhversstaðar með bókina og flissuðum eins og bjánar. Mamma hristi oft hausinn yfir þessu og glotti út í annað.
Jæja ég held að það sé aðeins að lægja hérna. Það er ágætt. Heyrumst seinna.
Athugasemdir
Nei nei það þarf engar pillur við þessu. Ef svo væri þá þyrfti ég þær líka. Lifnar allt við í hausnum á mér þegar ég les bækur.
Bryndís R (IP-tala skráð) 30.12.2007 kl. 12:18
Mínir hundaræflar vilja ekki út svo þeir bara halda í sér.. hehehe
Mér finnst svo frábært að hafa svona gott afl að sjá myndir þegar maður les, ég geri þetta enda finnst mér mun skemmtilegra að lesa en að glápa á tv.
Njóttu þín... Stórt knús
Kristín Snorradóttir, 30.12.2007 kl. 12:20
Þetta er líklega ástæðan fyrir því að manni finnst bókin alltaf skemmtilegri en myndin Ég er alltaf búin að gera mér í hugarlund allt öðru vísi persónur og umhverfi......
....Vona að þú þurfir engar pillur við þessu en ef þær þarf þá gaukar þú kannski einni og einni yfir
Hrönn Sigurðardóttir, 30.12.2007 kl. 12:40
Ég segi nú eins og Hrönn, bókin er oftast skemmtilegri en myndin, minn hugarheimur er svo villtur. Annars áttu ekkert að taka töflur við þessu, þetta gefur lífinu lit. Verð nú að viðurkenna að ég sé Kela ræfilinn fjúka mígandi fram hjá tré og engar klær, ræfillinn.
kær kveðja á nesið og svo get ég sagt þér að það er opið til 7 í kvöld í Bónus og 3 á morgun.
Ásdís Sigurðardóttir, 30.12.2007 kl. 12:43
Ekki langar mig í pillur áður en ég fer að lesa sekk svo inn í sumar bækur að ég veit varla hvað skeður í kring um mig. Verst hvað ég er fljót að lesa. Ef bókin er góð þá get ég ekki látið hana frá mér fyrr en hún er búin.
Annars er ég hrædd um að sprengjugleðin verði út alla vikuna í tíma og ótíma ef ekki verður hægt að skjóta upp á gamlárskvöld.
Einhvern tíma hlýtur að lægja, þannig að hægt verði að skjótast í búðina. Var að vonast eftir snjóbyl í gærkvöldi og ætlaði þá að njóta þess að vera uppi með kveikt á kertum, lömpum, lesa bók og háma í mig nammi.
Knús og klús
kidda, 30.12.2007 kl. 13:24
Það er eigi ósjaldan sem ég sit og flissa við lestur blogga vegna þeirra mynda sem skjótast upp í huga minn við lesturinn
Sammála þér með að það er bara ágætt að ekki verður mikið flugeldaveður á morgun er svo ákaflega lítið fyrir þetta svona á gamals aldri og með aukinni slysatíðnin af völdum þessa dóts
Dísa Dóra, 30.12.2007 kl. 14:24
Ég segi það sama betra að hafa vont veður en þessar dandans rakettur
það er nú flott að geta búið til sögur og myndir í heilabúinu okkar,
það er svo skemmtilegt.
Kveðja og knús.
Milla.
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 30.12.2007 kl. 15:24
Ég er eins og þú, sé allt í myndlíkingum sem ég les, það er stundum eins og ég sé að framleiða bíómynd í kollinum um leið og ég les. Ég sé hundana í anda eins og fínustu spreybrúsa, pissandi á flugi í rokinu
Huld S. Ringsted, 30.12.2007 kl. 17:22
Það þarf ekki pillur við ríku ímyndunarafli og frjórri hugsun mín kæra. Til hamingju með það.
Er búin að ákveða að fara í fyrró að versla í matinn, nenni ekki í látunum.
Jenný Anna Baldursdóttir, 30.12.2007 kl. 18:10
Hmmm.. ég er líka svona þegar ég les bækur. Þær lifna við í hausnum á mér. Ég horfi einhvernvegin á söguna. Held að það sé bara skemmtilegra þannig.
Ég sendi nú bara kallinn með mer í búðina á milli lægða í dag. Það var ósköp notalegt að hafa hann til að gera allt.
Knús á þig Ragga mín, hafðu það gott yfir áramótin.
Guðrún B. (IP-tala skráð) 30.12.2007 kl. 19:47
Ég óska þér innilega gleðilegs árs Ragga mín, og þakka þér kynnin hérna í bloggheimi. Ég sendi þér bæði ljós og bið fyrir þér og þínum, núna, áður og áfram. Knús
Guðrún Jóhannesdóttir, 30.12.2007 kl. 19:55
hehe hvernig gat þessi færsla farið fram hjá mér?
Ragga mín það er yndislegt að þú skulir hafa svona mikið hugmyndaflug. það getur aldrei verið annað en frábært þegar maður getur búið til heilu senurnar í hausnum á sér.
Ég sé aumingja hundana fyrir mér og kannski ekki skrítið þar sem Viddi vitleysingur gekk út á hlið hérna úti í garði.
Jóna Á. Gísladóttir, 3.1.2008 kl. 01:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.