tilhneigingar fólks
26.10.2007 | 13:07
til að sortéra allt í drasl.
Það er nokkuð mögnuð árátta. Maður getur ekki bara verið maður, maður þarf að sortérast inn í ákveðinn hóp. Nú hafa samkynhneigðir verið nokkuð í umræðunni vegna kirkjuþing, þeir mega ekki giftast í kirkju. Þó er búið að stíga ákveðið skref í rétta átt, þeir mega vera í staðfestri samvist sem fer þá svipað fram og hjónavígsla. Ég held að ég sé í þjóðkirkjunni,kem vísu af langri runu fríkirkjusafnaðarbarna. Ég vil vera í þjóðkirkjunni og ég veit að ég verð aldrei alveg sammála öllum kennisetningum þar en með því að stinga af úr þjóðkirkjunni þá hverfur möguleikinn á að breyta í batteríinu. Dropinn holar steininn og það allt.
Nú loga skelfilegir eldar í Californíu, ég hef fylgst með því héðan úr rigningunni á Íslandi. Ég hef meira verið að fylgjast með FEIMA, þessum almannavörnum þarna í USA. Þessum sem brugðust svo skelfilega þegar Katarina reið yfir. Ég horfði á viðtal (líklega í fyrradag) við einhvern talsmann þeirra. Það var eiginlega ótrúlegt að hlusta á manninn. Hann klifaði sífellt á því að vegna þess að þetta samfélag væri ríkt þá væru íbúarnir fljótari að ná sér og næðu að vinna betur saman en verið hefði í New Orleans. N.O. væri samfélag fátækra og glæpatíðni væri þar há. Þarna var ég farin að missa þráðinn en ekki var hægt að skilja manninn öðruvísi en hann væri búinn að sortéra þessar tvær hamfarir á sitt hvort endann á mæliprikinu. Þessir núna voru ss aðstoðarlöglegir en hinir í N.O. voru það ekki. Náttlega ef það er búið að sortéra þetta fyrirfram þá er borin von að ætlast til þess að vinnubrögðin verði almennileg þegar hörmungar ríða yfir "léleg" svæði sem byggð eru fátækara fólki.
Fordómar eru aldrei af hinu góða en ef maður rýnir í sjálfan sig og vandar sig svolítið þá sér maður að fordómarnir eru bara rétt þarna undir skinninu á manni. Maður er afar fljótur að tileinka sér fyrirfram gefnar skoðanir á mönnum og málefnum. Við getum ekki hreinsað úr umhverfi okkar allt sem mögulega ýtir undir fordóma en annað getum við gert. Við getum meðvitað reynt að vinna gegn þeim af heilindum, með því að útskýra fyrir börnum eðli og afleiðingar fordóma. Að því sögðu þá leggst ég ekki gegn útgáfunni um negrastrákana, ég mun samt ekki kaupa bókina. Það er vegna þess að mér fannst hún ekki skemmtileg 1966 eða hvað það nú var. Berist hún hingað í höndum barns þá mun ég gera mér far um að útskýra að þrátt fyrir lit og annað sem veldur því að við erum ekki eins þá erum við öll Guðsbörn og eins í hans augum. Mikið vildi ég annars að kirkjan hjálpaði mér við það !
Einn sálmurinn sem sunginn var yfir drengnum mínum var eftir sr. Sigurbjörn Einarsson, þann mikla kennimann. Hann er í sérstöku uppáhaldi hjá mér.
Sálmur 712
Dag í senn, eitt andartak í einu,
eilíf náð þín, faðir gefur mér.
Mun ég þurfa þá að kvíða neinu,
þegar Guð minn fyrir öllu sér ?
Hann sem miðlar mér af gæsku sinni
minna daga skammt af sæld og þraut,
sér til þess, að færa leið ég finni
fyrir skrefið hvert á sinni braut.
Hann, sem er mér allar stundir nærri,
á við hverjum vanda svar og ráð,
máttur hans er allri hugsun hærri,
heilög elska, viska föður náð.
Morgundagsins þörf é þekki eigi,
það er nóg að Drottinn segir mér:
Náðin mín skal nægja hverjum degi,
nú í dag ég styð og hjálpa þér.
Guð, ég fæ af fyrirheitum þínum
frið og styrk, sem ekkert buga má
Auk mér trú og haltu huga mínum
helgum lífsins vegi á,
svo að ég af hjartaþeli hreinu,
hvað sem mætir, geti átt með þér,
daginn hvern , eitt andartak í einu,
uns til þín í ljóssins heim ég fer.
Sigurbjörn Einarsson
Hérna er sálmurinn. Ég hugsa oft um hann vegna þess að eina leið mín til að lifa af er að gera það svona, einn dag í einu.
Vonandi hafið þið það sem best í dag, það ætla ég að reyna að gera.
Athugasemdir
Fallegur sálmur! Það er mjög gott að temja sér að taka einn dag í einu, dagurinn í dag er dagurinn sem gildir.
Knús á þig mín kæra
Huld S. Ringsted, 26.10.2007 kl. 13:26
Mín skoðun er sú að endurútgáfa "Negrastrákanna" er tímaskekkja, því bókin er barn síns tíma og samning hennar hugsunarvilla, sem ætti að vera leiðrétt hjá þjóð sem vill kalla sig upplýsta. Mér fannst bókin skemmtileg á sínum tíma, bara af því mér fannst strákarnir sniðugir og tengdi það ekkert sérstaklega hvort negrar væru heimskari en aðrir eða ekki, bara rétt eins og maður pældi ekki í því hvort Gutti í "Guttavísum" Stefáns Jónssonar væri hugsanlega ofvirkur og/eða með athyglisbrest...Afríka var langt, langt í burtu og líkurnar á að hitta negrastrákana í þulunni álíka miklar og á því að litli svarti Sambó hefði breyst í smjör í alvörunni...
En nú þegar ég er (á að teljast) fullorðin og veröldin hefur þar að auki "skroppið saman", svo negrastrákarnir gætu vel verið krakkarnir í næsta húsi, þá horfir þetta allt öðru vísi við og maður kemur auga á hætturnar sem felast í þeirri túlkun sem myndirnar og sagan býður heim.
Greta Björg Úlfsdóttir, 26.10.2007 kl. 13:30
Greta, það er samt hlutverk okkar að fræða einmitt um slíkt. Við náum aldrei að banna allt sem óheppilegt er og ég var að reyna að koma þeim punkti að. Það sem við getum ekki losnað við með góðu móti verðum við að útskýra þannig að börn skilji....
Þessi bók er áreiðanlega víða til þó hún hafi ekki verið endurútgefin í áratugi.
Ragnheiður , 26.10.2007 kl. 13:38
Þegar ég tala um negra, þá er ég að tala um afro-american (negro) en ekki NIGGER - niggara.
Þessi sálmur er óskaplega fallegur og ég er sammála því að sr. Sigurbjörn er með djúpvitrustu mönnum þessarar þjóðar.
Ömurlegt að heyra um réttlætingar bandaríksu neyðarhjálparinnar á vinnubrögðum sínum...fordómar blómstra því miður enn...
Greta Björg Úlfsdóttir, 26.10.2007 kl. 13:38
Já, í sjálfu sér væri vel hægt að taka þessa bók og lesa hana MEÐ aðeins eldri börnum og setja hana í sögulegt samhengi, kryfja hana til mergjar. Ég held að lítil börn á leikskóla séu samt of ung til að meðtaka boðskapinn, þar sem þau eru, eftir því sem manni skilst (þegar mínir strákar voru litlir voru bara hvít börn á leikskólunum), ekki einu sinni búin að fatta að það séu nokkuð "öðruvísi" við að vera "öðruvísi" á litinn.
Greta Björg Úlfsdóttir, 26.10.2007 kl. 13:42
...enda er það ekki neitt öðruvísi...
Munurinn ef einhver er felst ekki í litnum heldur menningarheimi viðkomandi einstaklings...þannig að svartur/rauður/gulur/ hvítur einstaklingur sem elst upp í sama samfélagi ætti að hafa allar sömu forsendur sem slíkur, fyrir utan það sem einkennir hann sem EINSTAKLING.
Greta Björg Úlfsdóttir, 26.10.2007 kl. 13:46
Hehe ég er ekki svo frjálslynd að ég vilji að hún sé lesin á leikskólum...sagði það, stutt í fordómana hehe. Ég myndi ekki hampa henni neitt en ef við byrjum á að ritskoða og prenta bara hugmyndafræðilega réttan texta þá er spurning með rauðhærða (Línu) nefstóra (Gosi) ofl ofl ofl
Hvar hættum við þá ?
Í staðinn fyrir að banna vil ég fræða, þannig útrýmum við fordómum. Við getum ekki falið þá í þeirri von að þeir hverfi svoleiðis.
Ragnheiður , 26.10.2007 kl. 13:48
Þar er ég alveg sammá! Það er orðið slæmt ef varla má opna munninn eða prenta stafkrók án þess að eiga á hættu að vera ofsóttur fyrir fordóma tvist og bast...öfgarnar í hina áttina eru alveg jafn slæmar, að banna þetta og hitt, banna Línu, Andrés, Spaugstofuna, Strákana, þetta orðið eða hitt...Nei, takk.
Það er betra að fræða en að banna. Lítil saga um það: Yngri sonur minn og vinir hans tóku upp á því að kalla litlu sætu bekkjarsystur sínar "dj...hórurnar!" Þegar ég spurðin hann hvort hann vissi hvað "hóra" væri svaraði hann nei. Eftir að ég útskýrði fyrir honum, í einföldu máli, hvað átt væri við með orðinu (kona sem sefur hjá karlmönnum fyrir pening) heyrði ég hann aldrei segja þetta aftur.
Greta Björg Úlfsdóttir, 26.10.2007 kl. 14:04
hehe, SAM-MÁLA, átti þetta að vera...
Greta Björg Úlfsdóttir, 26.10.2007 kl. 14:05
Ragnheiður, tek heils hugar undir með þér! Bönn og meiri bönn !!!
Börnin mín ólust nú upp við hlið þeldökkrar frænku, sungu 10 litla negrastráka og aldrei, ALDREI voru vísurnar settar í sambandi viuð frænku þeirra, en talandi um það, ætla ég sannarlega að kynna mér málið :)
Reyndar var bara ALDREI talað um að þessi frænka væri eitthvað öðruvísi og aldrei fékk ég spurningu um af hverju hún væri öðruvísi á litinn, hún var bara hún sjálf, þau þekktu freknótt börn feit börn og mjó börn, held að þeim hafi fundist þetta mjög eðlilegt sem það og var, hún var nákvæmlega jafn mikið öðruvísi og þau systkinin. Börnin okkar eru svo ótrúlega víðsýn, við skulum bara muna það.
Guðrún Jóhannesdóttir, 26.10.2007 kl. 14:08
Börn fæðast ekki með fordóma, það eru því miður við-fullorðna fólkið- sem kennum þeim fordóma með okkar eigin hugsunum og hegðun.
Takk fyrir fínar umræður
Ragnheiður , 26.10.2007 kl. 14:15
Takk sömuleiðis og eigðu góðan dag!
Greta Björg Úlfsdóttir, 26.10.2007 kl. 14:30
Þetta með fordómana minnti mig á þegar mínir voru yngri og í nágrennið flutti fjölskylda frá Vietnam. Einn strákanna lenti í bekk með mínum yngri og viðbrögð marga foreldranna voru vægast sagt ömurleg. Þeirra börn máttu ekki leika við hann, af því að hann kom frá Vietnam.
Þessi strákur og minn yngri urðu mjög góðir vinir upp allann grunnskólann. Sá strákur hefur oft sagt mér frá því hvernig sumt fólk kom fram við þau systkinin og það voru ekki fallegar lýsingar. Oft varð ég verulega reið að heyra hvernig fólk sem ég hélt að væru góðar manneskjur gátu komið fram. Held að krakkar sem alast upp með allskonar fólki sé laust við fordóma þar til fullorðna fólkið sem á að vita betur, kemur með sína fordóma í þeirra eyru.
Knús og klús
kidda, 26.10.2007 kl. 14:39
Þetta er frábær pistill hjá þér kona og skyldulesning fyrir okkur öll. Ég er ekki á því að banna umrædda bók, finnst hún einfaldlega ekki eiga erindi á markað í nútímanum, þar sem kynþáttaótti er mikill og hefur æ skelfilegri afleiðingar allt í kringum okkur. Mér finnst bókin gott kennsklu gagn fyrir FULLORÐIÐ fólk.
Þessi sálmur er geymdur í hjartanu á mér og líka í tölvunni minni (hehe)því hann á að syngja yfir hausamótunum á mér þegar ég dey.
Eina leiðinin til að lifa innihaldsríku lífi er að gera það í stundinni, mínútunni og deginum, það er nokkuð ljóst, en er nokkur kúnst.
Ég fór úr þjóðkirkjunni í vor og er alveg sátt við það.
Smjúts á þig elsku vinkona
Jenný Anna Baldursdóttir, 26.10.2007 kl. 15:51
Með fallegri sálmum það er rétt. Mér finnst eiginlega að bera í bakkafullan, hvað þessi negra bók er mikið auglýst. Ætli hún endi ekki sem metsölubók, annars heyrði ég í konu sem var með í útgáfu bókarinnar, að hennar mati er þetta listaverk, myndir bæði og texti. Hafðu það gott elsku Ragga ég gleymi ekki ljósinu á kvöldin til ykkar.
Ásdís Sigurðardóttir, 26.10.2007 kl. 16:23
Fordóma koma af kunnáttuleysi og einnig hroka. Ég man eftir þessari bók og fannst hún ekkert sérstaklega skemmtilegt. Það var ekki mikill lærdómur í henni annað en að þegar kona kemur inní hópinn, þá geta þeir orðið tíu aftur.
Fallegur sálmur. Guð geimi þig
Ásta María H Jensen, 26.10.2007 kl. 17:12
Hæ hæ elsku ragga mín vonandi hefuru það æðislega gott.
ég er heima hjá mömmu og hjallin er bara heima að horfa á sjónvarpið mér langaði bara að kasta á þig kveðju.
hafiði það gott.
Aníta selma ólafsdóttir (IP-tala skráð) 26.10.2007 kl. 17:28
Elsku Aníta, gaman að sjá kveðju frá þér. Stórt knús til þín sætust og kveðja til Hjalla míns. Var einmitt að spjalla við hann áðan. Ég elska ykkur.... Mamma
Ragnheiður , 26.10.2007 kl. 17:33
Þessi sálmur er einn af mínum uppáhaldssálmum. Ég er svo heppin að 2 strákar í kirkjunni minni syngja hann nokkuð oft fyrir mig. Hörður og Gunni í Grafarvogskirkju. Ég fer alltaf að gráta þegar ég heyri hann og er það bara ljúft. Það er ekki sorgargrátur.Bara grátur. Takk fyrir þetta. Þú ert yndisleg.
Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 26.10.2007 kl. 19:30
Jaer sammala eitt andartak og einn dag i einu.Þakka þer skrifin við vitum ekkert hvað kom uppa með drengina þeir tala ekki við okkur.Ragnheiður min maðurinn minn fekk hjartaafall i morgun var skorinn liður illa en vonandi kemur þetta hægt og rolega viltu hugsa til hans þegar þu kveikjir a kerti.kveðja Helga
Helga valdimarsdottir (IP-tala skráð) 26.10.2007 kl. 20:59
Það er satt þetta er fallegur sálmur. fordómar koma af hræðslu við hið ókunna og að gera sér ekki grein fyrir því að það er í lagi að
vera öðruvísi, ég hitti lítinn vin minn 3ára í dag, þegar ég sótti Aþenu mína á leikskólann í dag, þau eru á sömu deild.
Við sögðum góðan dag,
og ég sagði hvað heiti ég hann mundi það ekki, ég heiti Milla þá sagði hann, illa voff voff,þá mundi hann að ég ætti voffa.
Hann er öðruvísi þessi litli engill, en hann gefur mér meira ljós en allt annað. Sendi ljós og orku kveðjur þín Milla.
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 26.10.2007 kl. 21:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.