Gestir og bíltúr
20.10.2007 | 23:55
Ég var í akstri í dag, ók til Keflavíkur og tók hús á yndislegri dóttur og tengdasyni í stíl. Öll í klórum eftir þá heimsókn en það skal tekið fram að klórarinn var Hektor hvolpur. Ég er svo hrifin af íbúðinni þeirra, hún er stór og björt enda fer fjölskyldan stækkandi. Ég færði þeim innflutningsgjöfina núna sem vantaði síðast, þau voru óskaplega ánægð með hana.
Svo héldum við Björn áfram suðurnesjarúntinum og fórum næst í Grindavík. Það sveif mikill myndarskapur yfir vötnum, mannskapurinn búinn að gera slátur og sátu svo í óða önn við að hnýta hálsband á smákött. Hálsbandið varð að stytta enda kisinn bara smágormur enn, ja eða þvæla því nokkra hringi um hálsinn á honum. Kisinn virðist afar þolinmóður við börnin á heimilinu og mér sýndist þetta ætla að vera mesti sómakisi. Hann er alveg klár á kamrinum sínum. Það er helst að hann heldur að hann eigi að leika við mannskapinn um miðjar nætur en hann fattar það fljótlega.
Björn varð eftir í Grindavík, ég er alltaf svo ánægð með hvað hann er duglegur að rækta sambandið við fólkið sitt þar. Hann hefur lengi verið duglegur við að vera hjá þeim og eins og mér finnst leiðinlegt þegar hann er ekki heima þá er ég samt sátt við þetta hjá honum. Ég veit líka að hann myndi ekkert nenna að vera þar ef þau væru ekki eins góð við hann og þau eru. Nú þarf ég bara að ýta Hjalta í að vera líka duglegur við að hafa samband við þau og þá verð ég sátt. Þeir eiga þessa fjölskyldu líka og eiga að njóta þess.
Minn karl hringdi svo í mig þegar ég var þar. Þá hafði birst hér óvæntur gestur, færandi hendi en hitti ekki á húsmóður heima. Það er reyndar óvanalegt en er hluti af ákveðnum hlutum sem ég hef ákveðið að breyta. Hér kom föðursystir en hana hef ég bara ekki séð í mörg ár. Þau voru ekki alin upp saman,hún og pabbi og fóru ekki að kynnast fyrr en fullorðin. Það var gaman að hitta hana og ég hringdi í Siggu systur svo við gætum báðar notið þess að hitta hana. Úr þessu varð skemmtilegt kvöld,svona fjölskyldukvöld.
Nú eru allir farnir og við erum ein heima gamla settið, ja og rófuálfarnir tveir. Þeir eru að vísu steinsofnaðir enda búið að vera mikið gaman hjá þeim í kvöld.
Munið Himmaljósin,ljósin fyrir Gíslínu, Þórdísi Tinnu og Þuríði Örnu. Þetta gleður og hjálpar þar með í ólíkum aðstæðum.
Góða nótt elskurnar
Athugasemdir
Frábært að dagurinn var góður. Sýnist á lestrinum að þú sért búin að ákveða að vera dugleg við heimsóknir af og til og þá fæ ég kannski að hitta þig á Skaganum einhvern daginn. Mikið yrði það gaman.
Knús í bæinn, elsku Ragga mín. Sofðu svo rótt og rétt!
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 21.10.2007 kl. 00:04
Já nú fer sko að koma að því Gurrí...
Enn með hallamálið í rúminu
Ragnheiður , 21.10.2007 kl. 00:09
Nú er mín búin að taka ákvörðun um að fara meira að heima. Ég hinsvegar er dedd á því að vera mikið heima, eftir að hafa verið á randi meira og minna allt mitt líf. Ég elska heimilið mitt. Ójá. Gott hjá þér að virðra þig svolítið.
Knús inn í nóttina. Mér þykir ógissla vænt um þig
Jenný Anna Baldursdóttir, 21.10.2007 kl. 00:10
já þetta er alveg öfugt hér Jenný mín. Hef svosem aldrei farið neitt en núna þarf ég á því að halda að hitta fólk og dreifa huganum, þú ert á listanum
Ragnheiður , 21.10.2007 kl. 00:14
MIN KÆRA VERÐ AÐEINS AÐ BÆTA VIÐ ,EG BY I KEFLAVIK BARA AÐ ÞER GÆTI DOTTIÐ I HUG AÐ LITA INN EG TRUI A KRAFTAVERK KVEÐJA HELGA
Helga valdimarsdottir (IP-tala skráð) 21.10.2007 kl. 00:25
aldrei að vita hvað mér dettur í hug
Ragnheiður , 21.10.2007 kl. 00:26
Þú hefur örugglega gefið þeim flotta innflutningsgjöf. Gott hjá þér að fara á flakk.... en ég ítreka að þú ætlar til útlanda innan árs.
Anna Einarsdóttir, 21.10.2007 kl. 00:38
Jájá Anna,ég er í stífum æfingabúðum innanlands fyrst
Ragnheiður , 21.10.2007 kl. 00:43
Min kæra veit ekki hvað skeði en það forekki i gegn heilmikið sem eg var að segja þer.Hef tekið þa akvörðun að blogga það sem eg ætla að segja þer verð bara að vanda mig vegna svo margra sem tengjast þessu.Ætla að byrja a morgun.Guð gefi þer goða nott og dreymi þig vel kveðja Helga
HELGAVALDIMARSDOTTIR (IP-tala skráð) 21.10.2007 kl. 02:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.