hugsað til baka
15.10.2007 | 14:11
Ég er alin upp inn í Laugarnesi,rétt hjá þessari fallegu Laugarneskirkju. Það var oft gaman hjá okkur krökkunum þar. Við lékum okkur á kirkjutúninu og það var allur aldur í hrúgu þar. Oft var með okkur ein nokkuð mikið eldri stúlka. Hún hafði veikst sem smábarn og var nokkuð mikið þroskahömluð eftir það. Hún mátti vísast þakka fyrir að hafa haldið lífi.Hún bjó alla tíð með móður sinni sem var hæglát og prúð kona.
Við krakkarnir sáum ekkert athugavert við hana. Við vorum ekki með fordóma fyrir nokkrum sköpuðum hlut í þá daga. Stundum fórum við öll í fótbolta á kirkjutúninu. Þá bættist oft við ungur maður sem bjó líka á Hofteignum, hann var samt eldgamall í samanburði við okkur krakkaskarann. Honum fannst bara gaman í fótbolta með okkur og þá var hann með, einfalt mál. Við þekktum alla íbúana þarna í kring, líka gamla fólkið. Á horni Hrísateigs og Hraunteigs var svakalegur garður...þrælgirtur af. Þar máttum við ekki fara inn og við virtum það. Það er stutt síðan sá íbúi féll frá og nú er búið að rífa upp einhvern hluta af þessum garði og byggja þarna nýtt hús. Ég held að gamli íbúinn hafi verið garðyrkjustjóri og þess vegna hefur hann ekki viljað okkur krakkastóðið trampandi allt niður.
Það var fiskabúð þar rétt hjá..með ótrúlega miklu og fallegu úrvali af fiskum. Við reyndum að halda lífi í gullfiskum heima en það gekk ekki vel. Það gekk miklu betur með finkurnar,hamsturinn og skjaldbökurnar svo maður minnist ekki á Kidda kisu sem varð fjörgamall köttur. Hann var síðasti köttur sem við áttum á Hrísateignum og flutti í Mosó með foreldrum mínum og lést í hárri elli.
Við systur deildum herbergi lengi framan af með ýmsum árekstrum sem fylgdu því. Ég man aldrei eftir að draslaralegt hafi verið í herbergi okkar enda mamma afskaplega húsleg...strauaði nærbuxur og borðtuskur allan sinn búskap.
Löngu hef ég týnt öllum vinunum úr Laugarnesi bernskunnar. Þannig er lífið. Fólk flutti og svo endaði með að ég flutti sjálf burt. Þá seldu foreldrarnir íbúðina og fluttu sjálf burt.
Oft hef ég í seinni tíð dáðst að sr. Garðari sóknarpresti. Við krakkarnir vissum að ef við bönkuðum upp á heima hjá honum þá fengum við kex eða nammi. Af okkur var örugglega heilmikið ónæði en öllu tekið með jafnaðargeði. Alla sunnudaga fór maður í sunnudagaskólann og lagði grunn að þeirri trú sem hjálpar í dag í verstu aðstæðum lífs míns. Kirkjuvörðurinn var líka afskaplega þolinmóður við okkur krakkana. Þeir sem þekkja Laugarneskirkju vita að það eru stallar á hliðum hennar. Þarna festust boltarnir okkar ár eftir ár, sumar eftir sumar. Hann kom röltandi með okkur, fór og sótti stigann og sótti boltana fyrir okkur. Ásdís kennari bjó svo á Silfurteig, fyrir ofan kirkjuna. Hún var nokkuð strangur kennari af gamla skólanum en brást ævinlega vel við þegar maður mundi ekki hvað hafði verið sett fyrir að læra næsta dag. Hún fór vel yfir það með manni og laumaði svo nammi í munninn um leið og hún sendi nemandann sinn heim með vitneskjuna.
Það var gott að vera krakki í Laugarnesinu.
Nóg komið af nostalgíu þessa dags...
Athugasemdir
Frábær lesning Ragga...þú áttir heima á Hrísateig aldrey var talað um það þó að strákarnir þínir hafi komið til okkar Gísla fyrst eftir að allir voru fluttir suður...myndin sem Himmi er lítill á hjólinu hún er tekin á Hrísateignum þar var alltaf hlaupið framm og til baka á eftir þeim því menn toldu mis vel á hjólunum bara smá fróðleikur til baka
Heiður Þórunn Sverrisdóttir, 15.10.2007 kl. 14:54
Skemmtilegt að lesa þetta.
Hvað það var nú allt öðruvísi og betra í þá gömlu daga.
kidda, 15.10.2007 kl. 15:46
Heiður; þið bjugguð aðeins nær Sundlaugavegi en ég gerði í gamla daga. Ég bjó alveg út í enda þarna næst Hofteig. Það var nú svosem ekki talað um neitt á þeim tíma en sem betur fer að það allt breytt í dag.
Guðmundur minn ; Var ekki búin að tengja ykkur feðgana fyrr en nú
Ólafía mín ; það var amk öðruvísi enda næstum bara leikið úti
Ragnheiður , 15.10.2007 kl. 15:53
Ó, já, það er margs skemmtilegs að minnast frá í gamla daga, sem betur fer átti maður góða og áhyggjulausa bernsku.
Ég leigði í einn vetur herbergi á Hrísateignum, það var gott að vera þar.
Greta Björg Úlfsdóttir, 15.10.2007 kl. 16:02
Æ.Æ:ég er nú svo miklu eldri en þið, en ég átti heima á Laugarteig 15. held ég hafi flutt þaðan 53=54. man það ekki svo gjörla.
En við höfum upplifað sömu skemmtilegu heitin og alltaf fór maður í sunnudags-skólann hjá séra Garðari hann var bara góður við okkur.
Við lékum okkur aðallega á stóra túninu sem var þar sem Blómaval
var núna síðast, þvílíkt frelsi sem við höfðum.
Takk fyrir skemmtilega frásögn Ragga mín.
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 15.10.2007 kl. 17:40
Húsbandið mitt er alin upp í Lauganesinu og talar um að það sé besta hverfi bæjarins. Ég er hins vegar alin upp útum allt í flestum hverfum borgarinnar og festi hvergi rætur sem barn. En fer varla út úr Grafarvoginum í dag.
Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 15.10.2007 kl. 20:48
Já maður nær svo góðum tengslum ef maður býr lengi á sama stað sem barn. Það er ansi dýrmætt. Mér tókst því miður ekki að skapa svoleiðis minningu hjá krökkunum mínum en það er helst Grundarfjörður sem þau minnast með hlýju.
Ragnheiður , 15.10.2007 kl. 20:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.