Vöknuð
6.10.2007 | 14:13
og ekki búið að hringja í mig til að reka mig. Það laumuðust hundar upp í hjá okkur í nótt. Við vorum alveg búin að venja hvuttana af því að stelast upp í en núna um daginn þegar ég var í fyrsta sinn ein heima eftir að Himmi dó þá tosaði ég Kela upp í til mín. Ég var eitthvað lítil í mér. Þetta er að bitna á okkur gamla settinu í dag. Nú eiga þeir það til að laumast upp í þegar við erum sofnuð. Þeir gera þetta þó ekki alltaf en núna eru þeir auðvitað að passa að við gleymum þeim ekki fyrst það er aukahundur að gista. Tíkin læddist þá bara upp í líka en hún er miklu minni en þeir og nettari, það fór eiginlega ekkert fyrir henni greyinu.
Þegar ég vaknaði þá var ekki kvikindi inni hjá mér, nema kóngulóin á glugganum. Ég klæddi mig og fór fram. Fann steinsofandi kall í stofusófanum og 3 hálfsofandi hunda. Nú er ég í eldhúsinu og þessir 4 aðilar horfnir aftur, núna sofa allir inni í herbergi.
Þessi doði sem greip mig þegar Hilmar dó er í rénun. Nú tekst mér að hugsa og framkvæma og er ekki alveg jafn forkastanlega gleymin. Ég var svo slæm fyrst að ef ég skrifaði það ekki á miða þá datt það alveg út og ég mundi það ekki einusinni þó það væri rifjað upp fyrir mér af einhverjum sem beið eftir að ég gerði eitthvað ákveðið. Þá bjargaði það mér að karlinn minn er þolinmóður. Hann virðist skilja alla hluti, að vísu sumt á sinn hátt en aldrei neitt sem truflar mig. Við rífumst aldrei enda er það mín skoðun að þegar maður er kominn í öskurkeppni við makann að reyna að finna eins særandi orð og maður getur þá er illt í efni, virðingin farin sem er einn hornsteina góðs sambands. Við erum auðvitað ekki alltaf sammála og þá ræðum við það. Ef það er pirringur í gangi þá geymum við málið og ræðum það seinna.
Það eina sem hefur vafist fyrir okkur í gegnum tíðina var hvernig taka ætti á málum Hjalta í upphafi. Ég vildi fara með hann strax og fá aðstoð með hann svo hann færi ekki til hel....... en Steinar vildi taka á þessu með allt öðrum hætti. Hann hrökk í meðvirkni og feluleik. Ég er hinsvegar skóluð úr Al-Anon fræðunum, vegna erfiðrar reynslu sem barn, og reif beinagrindina út úr skápnum og skutlaði henni út á götu þar sem allir sæu hana. Það líðst ekki feluleikur heima hjá mér. Ég er líka afar raunsæ að eðlisfari og vil frekar slasa mig á að leysa málin en að draga þau á eftir mér. En ég vil meina að með því að leysa hlutina svona á minn hátt þá takist mér að fyrirgefa allt sem fyrir kemur. Á nú eftir að sjá mig sættast við lát Hilmars en allt annað hef ég getað sett fallega frá mér og það truflar mig ekki. Það sem liðið er á að geymast í fortíðinni en það á ekki að dragast með manni gegnum lífið.
Boðskapurinn í dag; upp með hökuna og gakktu mót framtíð þinni.
Klús á línuna og munið ljósin hans Himma. Mér eru líka sérlega hjartfólgnar stúlkurnar mínar og ég vil bæta einni við enn. Þegar það gerist þá sjáið þið fjórðu ljósasíðuna birtast þarna í hlekkjunum mínum.
Athugasemdir
Frábær færsla og flott lífssýn sem þú hefur. Er sjálf algjör andstæðingur feluleikja en í skjóli þeirra hefur margri konunni og barninu verið misþyrmt, andlega og líkamlega. Það hjálpar heldur engum að fela ástandið, það byggir upp spennu og endar með sprengingu.
Smjúts á þig.
Jenný Anna Baldursdóttir, 6.10.2007 kl. 14:27
Það er eitt að jafna sig á, annað að sætta sig við. En mikið svakalega ertu mögnuð kona...
Greta Björg Úlfsdóttir, 6.10.2007 kl. 15:21
Gott þetta með beinagrindina, ég er greinlega alltaf með mína hangandi á húsinu, fel aldrei neitt. Þú tekur svo vel á þessum málum og nú er að byrja tímabilið þar sem þú ferð að taka þátt í lífinu aftur en segðu mér eitt, pirrar það þig ekki hvernig allir eru að því að sýnist að haga sér eins og ekkert hafi gerst, ég þoldi það svo illa. Þú átt nú ekkert eftir að sættast við lát Himma þíns, það eru liðin 25 ár síðan ástin mín dó og þó svo ég eigi annan mann í dag og hef átt síðustu 15 árin, þá kemur hinn upp í hug minn hvern dag. Svona er bara lífið. Kveiki á kerti og knús til ykkar.
Ásdís Sigurðardóttir, 6.10.2007 kl. 16:38
Jú Ásdís, það pirraði mig rosalega fyrst. Man að ég stóð í Ármúlanum, Steinar að kaupa nýjan síma fyrir mig og ég treysti mér ekki með inn, ég horfði á allt fólkið í erindunum, fokvond. Það voru allir í venjulegum hlutum og ég þarna með allt í klessu hjá mér !!
Ragnheiður , 6.10.2007 kl. 17:20
Bara að kvitta fyrir mig, var að lesa nokkra daga í einu, sökum þess að tölvan mín virðist ekki opna síður nema þar sem ég opnaði þær síðast. Var farin að halda að eitthvað hefði orðið til þess að þú hættir að blogga.
Duglega kona, hugsa oft til þín....
., 6.10.2007 kl. 17:28
knús og klús fyrir daginn
Kidda (IP-tala skráð) 6.10.2007 kl. 17:40
Þú flotta, skynsama,sterka, rökfasta, hlýja, lífsseiga kona. Eigðu yndislegt kvöld.
Jóna Á. Gísladóttir, 6.10.2007 kl. 18:36
Knús Ragga mín. Ég sé alltaf meira og meira hvað í þig er spunnið.
Þú ert ótrúleg.
Guðrún B. (IP-tala skráð) 6.10.2007 kl. 18:38
Já, þú ert alveg ótrúleg, elskan mín. Algjör hetja og snillingur.
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 6.10.2007 kl. 19:22
Þú ert alveg magnaður einstaklingur. Ég lít upp til þín
Bryndís R (IP-tala skráð) 6.10.2007 kl. 20:05
Ragga mín þú ert alveg frábær, ég kynntist líka þessum feluleik
í mínum uppvexti, ég á afar erfit með að þola óheiðarleika og
ósannyndi gagnvart mér.
Ragga þetta er frábær færsla hér að ofan og maður gæti lært margt af henni.Ég tel að þú sért þannig persóna að allir beri virðingu fyrir
þér það er ekki hægt annað.
ljós og orkukveðjur þín Milla.
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 6.10.2007 kl. 21:09
Gott að þú ert farin að finna mun og þá í rétta átt. Vertu bara góð við sjálfa þig og gefðu þér tíma. Guð veri með þér og öllu þínu fólki á himni og jörðu.Fríða
Hólmfríður Bjarnadóttir, 6.10.2007 kl. 22:27
Við sættum okkur ekki endilega við orðin hlut en lærum að lifa með þessu og eiga gott líf þrátt fyrir allt.Takk fyrir góða færslu
Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 6.10.2007 kl. 23:27
Gott að heyra að þú ert að koma til baka og allt er að snúast til betri vegar en mundu að góðir hlutir gerast hægt og rólega.
Fortíðin er oft erfið en það þarf að sigrast á henni líka og gaman að heyra að þú spilir eftir þínu höfði hvað sem á dynur.
Og það sem Jóna sagði í commenti hér að ofan segir allt sem segja þarf um þig.
Knús og klemm til þín
Magnús Paul Korntop, 6.10.2007 kl. 23:47
Knús fyrir þig elskan
Katrín Ósk Adamsdóttir, 6.10.2007 kl. 23:51
Ég tek undir með öllum hér fyrir ofan, búið að segja allt sem vildi sagt hafa. Knús og klús til þín
Bjarndís Helena Mitchell, 7.10.2007 kl. 01:52
Þegar mikið álag er á manni, eins og hefur verið á þér í mörg ár þá verður maður gleyminn. Það er engin furða. Gott að doðinn er að fara af þér. Bestu kveðjur frá mér Ragnheiður mín.
Jórunn Sigurbergsdóttir , 7.10.2007 kl. 13:05
Knús elsku dúlla, þú ert sterk og flott kona og mátt vera svo stolt af því hvernig þú tekur á málunum, það er einmitt það lang besta að hafa enga feluleiki í gangi sama hvað á gengur það er mín reynsla líka til hamingju með að vera þú
Benna, 7.10.2007 kl. 13:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.