Svolítill skruddugangur á manni
2.10.2007 | 13:25
en ég ætla að skrifa hérna smá pistil um það sem ég er glöð yfir. Ég er ekki nærri alltaf alveg niðurbrotin en það koma svona hviður af því líka. Úthaldið heldur ómerkilegt í mótlæti en samt er ég frægur harðjaxl .
Ég er ótrúlega glöð með ;
Hjördísi mína, hún er í skóla og gengur rosalega vel. Hún er líka flott og klár stelpa. Guttinn hennar, Patrekur Máni, er alger snillingur og ferlegt krútt. Hann minnir mig á Himma.
Sólrún mín, henni gengur orðið svo vel í lífinu. Hún er líka í skóla og gengur flott hjá henni. Hún á lítinn ömmumola, Vigni Blæ. Hann er yndislegur og ég hef afar gaman að honum, hann minnir mig stundum svo á móðurina þegar hún var sjálf á þessum aldri. Solla og Jón voru að kaupa íbúð og eiga von á barni í nóvember.
Hjalta minn og Anítu, þau verða ekki nefnd nema sem par. Þau eru búin að vera saman í mörg ár þó þau séu bara tvítug núna. Þau eru að standa sig svo ótrúlega vel og ég er svo stolt af þeim. Ég tel mig geta skilið að það sé ekki auðvelt að hrista af sér áralanga óreglu. Þau feta sig rólega áfram eftir mjóum vegi dyggðarinnar og við hvert fótmál ætlar mamma að standa og hvetja þau áfram.
Björninn minn, heimsljósið. Hann hefur verið stuðningur móður sinnar um árabil. Hann gleymdi sjálfur að taka út gelgjuna þess vegna og er svo frábær ungur maður. Það er nánast ekkert sem ég get ekki talað um við hann. Hann er sonur minn og hann er líka trúnaðarvinur minn. Hann var að spá í að fara til Danmerkur um áramót en fyrir bænastað mömmu þá ákvað hann að gera það ekki. Hann má fara seinna, mamma getur bara ekki misst hann burt langt eins og er.
Næst má svo sannarlega telja Steinar minn. Þegar við fórum að búa saman 1999 þá tók hann mér og þessum börnum sem sínum eigin. Hann hefur staðið með mér í gegnum allar raunir. Hann er kletturinn minn. Okkur hefur tekist í gegnum allt þetta bras að halda ástinni logandi og megum vart hvort af öðru sjá. Ekki skemmir vináttan sem við áttum í mörg ár áður fyrir. Líf án hans væri heldur vesældarlegt.
Með honum fylgdu krakkarnir hans, yndislegt fólk. Steinunn sem er blíðust og best og Siggi sem er hérna eins og ég eigi hann líka. Þau eru bæði afar vel gerðar manneskjur og mér þykir svo innilega vænt um þau.
Nú er náttlega sæti sjúklingurinn að trufla mig aðeins...hann er svo glaður með að vera kominn heim og fékk sér kjöt í karrý í hádegismat. Hann vissi að ég eldaði það í gær og svo lá hann eins og skata á spítalanum og fékk ekki neitt að borða. Honum fannst lítið varið í það.
Hann var settur í þrekpróf..svona eins og slökkviliðsmenn og hann stóðst það alveg. Það fannst ekkert athugavert við hann og helst er haldið nú að þetta hafi verið einhverskonar álagseinkenni. Það kæmi mér ekki á óvart. Álagið hér hefur verið ómannlegt síðan við misstum okkar dreng.
Eitt enn er ég afar þakklát fyrir. Ég er þakklát fyrir að hafa átt hann Himma. Hann var sannur gleðigjafi í okkar lífi þrátt fyrir allt og allt. Góðu stundirnar voru svo miklu fleiri en hinar og við eigum öll hafsjó af góðum minningum um hann.
Mamma og Himmi þvo hendurnar
Mamma, eridda bleina ? Nei nei sagði ég, bara volgt. Baja vott sagði hann og brosti. Hann gat vel sagt heitt en notaði þetta orð lengi framan af. Þegar honum fannst þetta allt of heitt þá sagði hann það vera bleinandi heitt.
Pabbi hans var með skegg. Hilmar sat í fangi hans og var að skoða framan í hann. Hann kroppaði í skeggið og spurði; pabbi errridda grrras ? Þá var svo mikil sina í garðinum. Himma fannst svipuð áferð á skegginu.
Löngu seinna. Mamma að vekja og strýkur vangann og talar hljóðlega til hans. Himmi minn,það passar að vakna núna. Umlll segir Himmi, það er svo gott þegar þú vekur mann. Maður brosir allaveganna fram að hádegi og svo breiddist út fallega brosið.
Muna svo fallegu ljósin hans Himma, þau gleðja okkur öll
Athugasemdir
Elsku Ragnheiður ! Ég sé að þú hefur ótal margt að gleðjast yfir og Steinar þinn kominn heim og ég fer nú bara að verða abbó að hafa ekki svona mann í mínu lífi en það er bjart yfir þér nú og auðvita koma stundum tímar þar sem að allt virðist dekkra en það birtir alltaf til aftur,mjög gott hjá þér að setja niður það jákvæða og það er nú aldeilis ekkert lítið sem að þú hefur til að gleðjast yfir
Katrín Ósk Adamsdóttir, 2.10.2007 kl. 13:54
Bjarndís Helena Mitchell, 2.10.2007 kl. 13:57
Knús fyrir yndislega færslu. Það standa svo sannarlega góðir að þér Ragga mín, enda áttu bara það besta skilið, trygg og góð eins og þú ert
Jenný Anna Baldursdóttir, 2.10.2007 kl. 14:22
þú ert svo rík að eiga svona góða að - vona þú megir njóta þess lengi lengi knús á þig
Inga (ókunnug) (IP-tala skráð) 2.10.2007 kl. 15:15
Þetta kemur í sveiflum.Mis slæmum.Það er svo magnað að eiga góðan að. Ég á húsbandið mitt góða sem gekk mínum 3 í föðurstað fyrir 17 árum síðan og svo hana Krummu mína. Við erum ríkar konur.
Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 2.10.2007 kl. 16:13
Falleg færsla hjá þér Ragnheiður mín og mikið eru þetta fallegar minningar af Himmanum þínum
Bryndís R (IP-tala skráð) 2.10.2007 kl. 16:17
Gott að heyra að steinar sé komin heim góðar bata kveðju til hans og Hjalti Aníta og Bjössi eru bara yndisleg ég er búin að þekkja þá frá því þeir voru bara litlir og þetta með bleina og errridda grrras það var líka hlegið af þessu hjá okkur þegar Sverrir fæddist sagði hann þetta við hann og tók í hárið hans og hló mikið ..honum fannst þetta fyndið sjálfum...langði bara að taka undir með þér Ragga skilaðu kveðju til strákan frá okkur.....
Heiður Þórunn Sverrisdóttir, 2.10.2007 kl. 16:24
Já, þú ert rík kona og þetta er góð aðferð til að sjá björtu hliðarnar. Við gerðum þetta hjónin fyrir mörgum árum þegar við fórum í gegnum gjaldþrot. Við sátum á kvöldin og töluðum um hvað við værum rík. Þetta hjálpaði okkur að losna við neikvæðar tilfinngar eins og reiði, skömm og fleira.
Haltu bara áfram að segja okkur frá gullmolunum þínum, það hjálpar. Guð blessi þigFríða
Fríða (IP-tala skráð) 2.10.2007 kl. 16:25
Komin aftur úr fríinu. Ég las bloggið þitt úti á Krít í þessi tvö skipti sem ég skaust í tölvu, satt að segja eina bloggið sem ég las, en láðist að senda þér kveðju að utan, þó ég mætti til að vita hvernig gengi hjá þér.
Það er yndislegt að lesa þenna pistil þinn núna, og sjá hvað þú ert í raun og veru rík, þrátt fyrir allt sem yfir hefur gengið síðustu vikur. Öll mættum við vafalaust skoða líf okkar af og til að gá að því hvort við eigum ekki eitt og annað og ótal margt sem við megum vera þakklát fyrir. Sjálf er ég núna óendanlega þakklát fyrir ferðalagið með foreldrum mínum, það var svo gaman að geta farið með þetta með þeim og verið þeim til aðstoðar og það gaf mér líka svo mikið að vera með þeim, því þau eru bæði svo frábærar manneskjur. Og engin leið að vita hvort ég eigi eftir að fara aftur með þeim í ferðalag. Eins er ég þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast henni Lindu vinkonu minni betur og sannfærast enn betur um það hversu góð manneskja hún er. Fyrirgefðu svo rausið í mér um sjálfa mig á blogginu þínu !
Greta Björg Úlfsdóttir, 2.10.2007 kl. 17:12
Takk Greta mín, hér má rausa um sjálfan sig að vild -bara gaman að svona samskiptum við aðra. Ég skrifaði þennan pistil til að minna mig á og til að sýna að ég er mun ríkari en mér finnst þegar syrtir að. Stundum sér maður bara ekki út úr augunum og þá koma svartar færslur.
Velkomin heim mín kæra.
Ragnheiður , 2.10.2007 kl. 17:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.