Brakaði í heilanum
13.6.2015 | 10:37
þegar ég reyndi að muna lykilorðið hérna inn á en það tókst. Ég sit hér heima í sólinni - reyndar ekki úti í sólinni. Það má víst ekki lengur eftir að krabbi vildi búa í húðinni á mér. Ég þarf að verða mér úti um sólhatt á höfuðið :) Verst að hárið er svo óstýrilátt að það hefur aldrei verið sérlega auðvelt að vera með slíkt höfuðfat :)
Hér er allt í þokkalegum skorðum. Ég fann út seinnipart vetrar að betra er fyrir mig að hafa hluti eftir klukku heldur en öðrum mælieiningum. Rútína er algerlega lykilorðið en þá virka ég bara alveg þokkalega :) Allt byggir þetta nú á því að reyna að vera sæmileg og ekki sér til skammar meira en þolanlegt er fyrir alla aðila.
Ég fór um daginn og sótti um vegabréf. Það hef ég aldrei gert áður haha....ég veit ekki hvað ungi maðurinn í afgreiðslunni hélt þegar bóndi minn lagði líka um sína alfyrstu umsókn. Við erum spes.
Við förum í næsta mánuði - eða allavega ég. Það er nú ekki vitað með bóndann. Kannski hentar ekki fyrirtækinu að hann fari akkurat þá. Þá förum við bara aftur - í haust :)
Þetta verður svona fjölskylduferð. Förum nokkuð mörg saman.
Ég hef unnið markvisst í sorgarhóp í vetur og finnst það gera mér gott. Það er ómetanlegt að hitta fólk sem skilur mann án orða. Faðmlag frá þeim er svo mikill styrkur og eitthvað svo hreint og ómengað og ekta. Það er ekkert sérlega gott að lýsa þessu.
Fólk í fjölskyldunni plumar sig verulega misjafnlega. Sumir taka kolrangar ákvarðanir á meðan aðrir standa sig svo vel að eftirtekt vekur. Ég reyni bara að leyfa fólki að eiga lífið í friði fyrir nefinu á mér en ég frétti samt ýmislegt sem er ekkert spennandi að vita af fólki í. Það verður hinsvegar að reka sig á sjálft og vilja leita leiða til betra og öruggara lífs. Ég get ekki lifað lífinu fyrir aðra.
Á þessu ári verða 3 ár síðan ég skipti um vinnustað. Það reyndist mikið framfaraskref og mér sjálfri til heilla. Mér líður miklu betur á nýja staðnum og lungnaveikin helst miklu frekar í jafnvægi Sakna nú samt stundum kallanna þarna á gamla staðnum en það verður að hafa það.
Á þessu ári verða líka 8 ár síðan Himmi minn dó og á þessu ári hefði hann orðið þrítugur. Jafnaldrar hans eru farnir að eignast börn, skapa sér framtíð og eiga mörg fallegt líf. Hann á ekkert - nema pláss í hjarta móður sinnar sem ævinlega verður helgað bara honum þar til ég sameinast honum á ný. Í Gufunesgarði eða á nýjum tilverustað.
Best að fara að hnusa af góða veðrinu :)
Athugasemdir
Góða ferð og skemmtun elskan <3
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 14.6.2015 kl. 21:00
Margrét Birna Auðunsdóttir, 20.6.2015 kl. 17:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.