Nú get ég

"dáið" róleg og þvílíkur léttir. Ég er búin að loka síðasta kaflanum í bókinni ; mamman býr um sinn í síðasta sinn. Legsteinninn er tilbúinn, greiddur og á leið á gröf Hilmars.

Hér koma myndir

steinninn hans Himma í Mosaik 004

Svo langar mig að sýna ykkur letilegasta kött í heimi, hann er óttalega hamingjusamur þessi rauðhaus- kátur og glaður

steinninn hans Himma í Mosaik 002

Eigið góðan dag í rokinu elskurnar


persónuleikabreytingar

hafa verið í huganum í dag. Í dag hef ég líka verið með viðkvæmara móti og illa þolað áreiti.....sakna Himmans mikið á svona mæðradegi..Hann "svarti sauðurinn" eins og hann kallaði það, átti til með að sýna henni móður sinni svo mikla hlýju....þennan dag mundi hann og hringdi í mömmu, kátur, alltaf kátur.

Mamman situr hér og bloggar, alein í handavinnuherberginu sínu, á leið í bólið með tárin í augunum. Sumir dagar eru táradagar.

Nokkuð hefur verið rætt um heilbrigða skynsemi fólks sem neytir fíkniefna. Meðan fólk er í neyslu þá er eiginlega engin von til að viðkomandi hagi sér eftir heilbrigðri dómgreind og skynsemi. Fólk er meira og minna kolruglað í höfðinu af þessum efnum þó að það sé kannski ekki undir áhrifum akkurat þá stundina. Sumir ná sér aldrei, aðrir ná sér og eiga eðlilegt líf eftir að hafa komist frá neyslunni.

Hjaltinn minn var alveg tveir aðilar, yndislegi strákurinn minn, hjartans vinurinn...en svo kom einhver alókunnugur, andstyggilegur, ljótur og leiðinlegur - hann tróð sér inn í minn strák og afmyndaði hann og skemmdi. Það er ekkert sem hefur glatt mig eins og þegar ég sá minn Hjalta skína í gegnum fíkilinn. Minn Hjalti er nefnilega frábær og ég elska hann í ræmur, hann er hjartahlýr og góður, foreldrum sínum til sóma.

Ég elskaði hann ekkert minna meðan neyslan var við völd, ég bara sniðgekk hann á þeim tíma. Ég taldi hann eiga sér betri viðreisnarvon ef mamman drægi sig í hlé og léti hann um lífsbaráttuna. Hann sá að sér. Hann er góður í dag.

Kúnstin er að elska þrátt fyrir gallana, ég á frábæra krakka...þau eru hinsvegar ekkert fullkomin enda væru þau þá örugglega leiðinleg hehe - ég elska þau eins og þau eru, ég reyni að leggja aldrei á minnið leiðinlega hluti, orð og gerðir, það er ekki til neins að muna það. Ég loka augunum og sé brosin þeirra, fallegu augun þeirra, ég heyri þau segja eitthvað sem fékk alla til að veltast um af hlátri....svona hef ég þau, í huganum. Ég er þakklát fyrir valminnið mitt.

Góða nótt elskurnar...

lasarus kveður á leið í bólið.......overandout

psst...ég er ánægð með stjórnina en áskil mér rétt til að skipta um skoðun. Veit ekki alveg með Jón eða Svandísi en er til í að sjá hvernig þau pluma sig. Hélt að ég yrði ekki svona fegin að einn ráðherrann hvarf en svona er lífið.


Gömul saga

Síminn hringir inni á gangi.

Lítill strákur hendist af stað, hleypur eins hratt og fæturnir bera hann.

Hann svarar í símann, leggur tólið niður og hleypur fram ganginn á sama ógnarhraðanum....

,,Alda Berglind dind dind dind, það er síminn til þín"

Svo hló hann klingjandi bjölluhlátri.

Eins og þið sjáið t.d. hér í gestabókinni þá notuðum við Alda þetta gælunafn síðan. Hún var kölluð DindDind...og það var flott nafn. Gefið bara henni af ást lítils snáða á vinkonu sinni...

Nú eru þau bæði látin.

Því hefði ég ekki trúað þá.

Ég er að reyna að pakka saman reiðinni, reiðinni yfir að missa hana, reiðinni yfir að hún fékk ekki að vera hjá telpunum sínum, þessum frábæru smátelpum, reið yfir að hún fékk ekki að upplifa tíu ára brúðkaupsafmælið í september, reið yfir að hún fékk ekki að verða 35 ára ....endalaust reið og miklu reiðari en mér finnst gott að vera.

 

 


Fann hér færslu með kommentum síðan þá

Í dag er ég búin að vera reið...

við fólk sem bæði hefur linkað á fréttina um fangann sem strauk af  Vernd eða þá sem kommentað hafa á sömu færslur.

Þvílíkt þekkingarleysi og nornaveiðar !!

Menn eru dæmdir eftir lagaramma sem settur er á Alþingi. Samkvæmt þeim lögum geta menn sótt um reynslulausn eftir afplánun 1/3 dóms, þá er metið hvort fanginn telst hæfur til þess. Menn fara þá á Vernd og þar er verið að koma þeim af stað inn í þjóðfélagið aftur, sem nýtum þegnum.

Það er nú aldeilis ekki auðvelt ferli fyrir þá....margir vilja þá ekki í vinnu og þeir eru jafnvel með brotnar fjölskyldur sem ekki treysta sér til þess að hýsa þá eða neitt. Foreldra sem hafa kvalist að mestu leyti í þögn enda þögull minnihlutahópur. Fordómarnir gegn föngum eru slíkir að þá skilur enginn nema sá sem fyrir þeim hefur orðið.

Svo sitja einhverjar smásálir inn á bloggvefjum og bulla bara...kasta steinum úr glerhúsi og þykjast geta upphafið sig á því. Þvílíkt lið !!! Meðan þið hafið ekki reynt þá raun að horfa á eftir börnum ykkar æða veginn til glötunar þá ættuð þið einfaldlega að hafa vit á að steinþegja !! Það er bara svo einfalt.

Ég er gjörsamlega fokreið.

Þið ykkar sem blogguðuð um þetta mál í morgun með stórum orðum eruð beðin um vinsamlegast að gera mér einn greiða að skilnaði. Ef þið eruð skráð hér sem blogg "vinir" þá skuluð þið þegar í stað afskrá mig sem bloggvin. Það er einfaldara að þið gerið það heldur en ég, ég nenni ekki að lesa blogg um þetta til að gá hver sagði hvað....

Takk!!!!

Athugasemdir

Óskráður

14.9.2007 kl. 19:31

 

Þessi umræða snérist ekki um son hennar. Hún snýst um fréttina þar sem strokufanga (morðingja) var leitað og fólk var undrandi yfir því að morðingi hafi verið inná vernd eftir að afplána 10 ár af 16 ára dómi.

 

Greta Björg Úlfsdóttir

13.9.2007 kl. 21:26

 

Elsku Ragnheiður, ég sé að þú ert búin að taka út allar færslur varðandi andlát Himma og tímann þar á eftir. Þetta er skiljanlegt eftir þessa orrahríð sem hér hefur geysað út af allt öðru máli. Mikið finnst mér leiðinlegt að þetta skuli hafa komið upp á, fjöldi fólks hefur dáðst að því hvernig þú hefur haft kjark til að opna þig um þín mál hér í bloggheimum. En þetta er þín ákvörðun og hana virði ég. Ég vil bara segja þér að það sem þú hefur sagt frá í þeim færslum sem þú ert búin að taka út er geymt í hjörtum margra, þó það sé ekki lengur hér til aflestrar. Þannig séð eru þær enn til staðar sem vitnisburð um óbilandi ást þína til barnanna þinna.

Nú ætla ég að kveikja á kerti fyrir Hilmar og ykkur öll.  HeartHeartHeart

 

Guðrún B.

13.9.2007 kl. 21:29

 

Knús Ragga mín, ég mun aldrei gleyma fallegu færslunum þinum um fallega drenginn þinn. Hann lifir í gegnum minningarorðin þín. 

Knús á þig elskan.  Ég skil það vel að þú sért reið. Heart

 

Margrét St Hafsteinsdóttir

15.9.2007 kl. 00:59

 

Mig langar bara að segja við það fólk hérna sem þekkir ekki haus eða sporð á málefnum fanga eða hvað fangelsi snúast um og hvað þar fer fram innan veggja, þekkja enga sem hafa farið út af brautinni, þekkja ekki aðstandendur fanga, vita það ekki að fangar eiga foreldra, börn o.s.frv. og er mannlegir þrátt fyrir allt,,,,,,,,,,,,,,, barasta að steinhalda kjafti!!!! 

Sýnið Ragnheiði virðingu og þakkið henni fyrir að upplýsa ykkur fáfróðu asnar, sem getið allt eins lent í því eins og hver annar að gerast aðstandandi fanga, sem jafnvel er dæmdur fyrir morð og þá ætti að vera upp á ykkur risið. Gerið þið ykkur ekki grein fyrir því að hún var að missa SON SINN? Haldið þið að hún hafi elskað son sinn eitthvað meira ef hann hefði verið einhver annar?  Þvílíkir asnar segi ég nú bara.

Hefur einhver ykkar fáfróðu asna spáð  í það hvað 10 ára fangavist gerir manni? Þekkir einhver ykkar ferlið sem fangi fer í gegnum hérna? Vitið þið hversu lítið er gert fyrir fanga í fangelsum hér á landi til að betra þá og hjálpa þeim, svo þeir megi verða góðir og nýtir þjóðfélagsþegnar þegar afplánum lýkur?

Beini þessum orðum bara til þeirra hérna sem hafa skrifað af þröngsýni og fordómum.

Æ, Ragnheiður mín. Bara pirruð á svona fordómum eins og þú.

Hugsa til þín og móðurhjartað mitt finnur sársaukann þinn.

Kærleiksknús Heart

 

Óskráður

13.9.2007 kl. 16:23

 

ég samhryggist þér innilega vegna andláts sonar þíns.

 

En jafnframt verð ég að segja að það eru 2 hliðar á öllum málum, fórnarlömb morðingja og nauðgara eiga/áttu líka ættingja sem eiga um sárt að binda.  Það eru ekki allir fangar góðar sálir annars væru þeir varla á hrauninu.

Vona að reiðin sjatni í þér.

Gangi þér vel

 

kv barnsmóðir fyrrverandi fanga 

 

Ragnheiður mamma hans Himma

13.9.2007 kl. 16:33

 

Auðvitað eiga þeir það. En hvað viltu gera ? Loka menn inni og henda lyklinum ? einhverntímann koma þeir út.

Það erum VIÐ aðstandendur fanganna sem virðumst vera ólögleg fórnarlömb. Við megum þola sleggjudómana og það allt. Eðlilega fær aðstandandi myrts eða nauðgaðs fórnarlambs samúð allra...

Minn sonur meiddi aldrei neinn og ég tel mig geta samt talað fyrir munn aðstandenda sem eiga að fanga sem eru inni fyrir ofbeldisbrot.

Það þarf að bæta sálfræðiþjónustuna í fangelsunum .Fangelsi á ekki að vera geymslustaður . Það á að reyna að endurhæfa mennina þar. Það er allra hagur að þeir komi BETRI út !!

 

Óskráður

13.9.2007 kl. 16:47

 

nei það er rétt hjá þér auðvitað á að byggja þessa menn upp.  Og ég er stórlega hneyksluð á hvað það er léleg sálgæsla(eða í raun engin).  Það ætti nú bara að vera lykilatriðið í betrunarvist að leyfa þeim að tjá sig hjá fagfólki.  Get ekki séð að betrun skili sér í líkamsræktarsal þó öll hreyfing sé góð.

Og það er mjög sárt að vita eins og með drenginn þinn að honum var ekki sinnt sem skildi.  

Minn barnsfaðir var ekki inni fyrir ofbeldisbrot.  Veit líka um annan sem var inni fyrir smáglæpi(samansafn) Og honum var ekki vært á hrauninu vegna skulda, það er líka svakalegt að sitja fastur og óttast um líf þitt hverja mínútu.

En þetta er allt vandfarið skil þína hlið MJÖG vel , frábært að lesa bloggið þitt.

Og enn og aftur segi ég gangi þér vel í sorg þinni þú átt heiður skilin fyrir bloggið þitt.

 

kv barnsmóðir fyrrv fanga 

 

Margrét Össurardóttir

13.9.2007 kl. 16:49

 

Sæl, ég verð að fá að kommentera hér hjá þér Ragnheiður. Það er rétt hjá barnsmóður fyrrverandi fanga að það eru tvær hliðar á öllum málum. Vissulega mega aðstandendur fanga þola sleggjudóma þjóðfélagsins, annað væri nú. Þið eruð fórnarlömb rétt eins og fórnarlömb fanga. Hins vegar gerir maður greinarmun (allavega ég) á morðingja og einhverjum sem svíkur peninga út úr kerfinu eða bara einhverjum. Þarna er stór munur á finnst mér.

Ég fyrir mína parta, hræðist menn sem beita ofbeldi, vil ekki mæta þeim á götu heldur, s.s. vil ekki sjá svona fólk, en samt eiga allir skilið annað tækifæri samt og ég hef ávallt sagt: batnandi er fólki best að lifa, en það er samt ekki þar með sagt að ég sé tilbúin að hleypa þessu fólki að mínu lífi.

Þú talar um fordóma gegn föngum? ég er örugglega með fordóma gagnvart þeim eftir að hafa lýst hræðslu minni hér fyrir þér og örugglega megnið að þjóðfélaginu er það líka, en þurfa þeir þá ekki að breyta þessu viðhorfi?

Ég er örugglega heppin manneskja að þekkja ekki til þessa heims, og þú verið óheppin að þurfa að kynnast þessu í gegnum son þinn sem ég samhryggist þér innilega vegna.

Að þú sért reið yfir því að við hin séum með sleggjudóma o.s.frv. verður að vera svo kannski, en við eigum fyllilega rétt á því að ræða þessa hluti líka. Ég tel mig ekki vera að upphefja mig á neinn hátt með því að blogga um þetta, þetta er einfaldlega mín skoðun sem ég hlýt að fá að hafa með sjálfri mér og blogga um ef mér sýnist svo. Mér finnst þú hins vegar að upphefja þig með því að biðja bloggvini þína að afskrá sig sem þína bloggvini af því að þeir "voguðu" sér að tala um þetta. Í raun ertu þröngsýnni en ég hef séð af þér.

Gangi þér vel annars.

 

Ragnheiður mamma hans Himma

13.9.2007 kl. 16:53

Þröngsýn MaggaÖ ...aha.....

 

Guðrún B.

13.9.2007 kl. 18:31

 

Hæ Ragga mín, ég veit það bara að ég hef ekki sagt neitt ljótt né ætla að gera það, þannig að ég sit sem fastast á bloggvinalistanum þínum.

Knús á þig elskan. Heart

 

Blómið

13.9.2007 kl. 19:08

 

Sæl Ragnheiður mín og mikið skil ég vel reiði þína.

Ég verð að fá að setja hér inn svolítið langt comment og ég vona að þér sé sama.  Mér bara ofbauð það sem Magga Ö commentaði  hér að ofan.

MaggaÖ 

„Aðstandendur fanga eru fórnarlömb eins og fórnarlömb fanga“.  Að sjálfsögðu er það rétt hjá þér, en gleymdu ekki að fangar sjálfir eru oft fórnarlömb aðstæðna sem þeir ráða ekki  við.

Þú ert hrædd við menn sem beita ofbeldi , vilt ekki mæta þeim á götu og ekki hafa „svoleiðis fólk“ í þínu lífi.    Vaknaðu Magga mín þetta fólk er út um allt í samfélaginu, þ.e. fólk sem beitir aðra ofbeldi.  Fæstir af þeim lenda bak við lás og slá.

Að sjálfsögðu eigið þið rétt á að á að ræða hlutina, þ.e. fólk með þínar skoðanir, en ekki vera með sleggjudóma, það var það sem Ragnheiður var að benda á.

Skrítin er hugsunin hjá þér, ef þú telur að móðir sem nýbúin er að missa barn sitt á sviplegann hátt og hefur gengið í gengum mestu erfiðleika lífs síns undanfarnar vikur sé að upphefja sig á einhvern hátt.

Og að lokum MaggaÖ.  Miðað við skrif þín hér að ofan þá held ég að þú eigir ekki að dæma fólk þröngsýnt, því þröngsýnni skoðanir sjást nú sjaldan.   Greinilega allt svart og hvítt hjá þér.

Vona að þú fyrirgefir lengdina á commentinu Ragnheiður mín HeartHeartHeart

 

 

Greta Björg Úlfsdóttir

13.9.2007 kl. 19:15

Ég steinheld mér saman þegar kemur að málum sem ég hef ekki vit á Ninja. Það þýðir samt ekki að ég sjái ekki ofan af skýinu mínu Halo hvað það bjátar margt á í mannheimum og hversu misjafnt er mannanna lánið. Ég sit sem fastast Tounge!Knús á þig, elsku Ragnheiður. Heart

 

Guðríður Haraldsdóttir

13.9.2007 kl. 19:50

 

Ég sendi þér líka knús, elsku Ragga. Svona mál eru viðkvæm og þú hefur gert mikið með blogginu þínu til þess að benda á að þau hafa alltaf fleiri en eina hlið. Fólk man oft vel eftir slæmum glæpum, ofbeldi og jafnvel morði, og hrekkur upp þegar viðkomandi kemur upp á yfirborðið aftur.

Kveiki á kerti fyrir ykkur í kvöld, eins og önnur kvöld. Heart

 

Óskráður

13.9.2007 kl. 20:30

 

Fangar eru ekki fórnarlömb annarra en þeirra eigin gjörðum og þeir verða bara að taka afleiðingum gjörða sinna eins og allir aðrir!!! Jú aðstandendur fangans eru að sjálfsögðu fórnarlömb en fangar eru ekki fórnarlömb!!! þeir vita hvað getur gerst ef þeir brjóta lögin! vistarverur í fangelsum eru bara hlægilega góð miða við alls staðar annars staðar í heimnum en aftur á móti þarf að flokka afbrotamenn niður eftr alvarleika brotsins því ég tel það varla holt að fólk sem situr inni fyrir uppsöfnuð smábrot situr inni á meðal fanga sem hafa framið hrottaleg morð og stæra sig af því. Og auðvitað verður að bæta sálfræði- og geðlæknisþjónustu allra fanga... en ég verð að segja að menn sem brjóta alvarlega af sér eiga það skilið að sitja í fangelsi í ömurlegum vistarverum.

fyrirgefðu en já ég verð að vera sammála þessu með þröngsýnina hjá Möggu. Það eru til margar hliðar en þetta byrjaði á að við vorum að tala um morðingja sem strauk frá VERND eftir 10 ára vist í fangelsi, samt var enn 6 ár eftir af dómnum. Þetta byrjaði ekki með að fólk var að tala um ömurlegar vistarverur eða frelsissviptingu hjá smá"krimmum"... Reynið að setja ykkur í spor foreldra sem hafa lent í að barnið þeirra er myrt á hrottalegan hátt, af þessum mönnum sem þurfa ekki að sitja nema brot af refsingunni þeirra, og fá ekki nema 2 milljónir í miskabætur. úppzzzz..... nei þið getið engan vegin sett ykkur í þau spor!!!

 

Fyrirgefðu Ragnhildur en ef það mega ekki vera umræður um svona og fólk má ekki láta SÍNAR skoðanir í ljós þá eigiði ekki að blogga um svona hluti... þetta er á veraldarvefnum og ef það er hér þá mega allir taka þátt.

Halo En ég votta þér mínar dýpstu samúð og vona að Guð lýsi þér/ykkur vegin í gegnum þessa erfiðu tíma og hjálpi ykkur að takast á við þennan mikla missir. Ég veit nákvæmlega hvað þú ert að ganga í gegnum. 

 

Hjördís Ósk

13.9.2007 kl. 20:36

 

Heart ákvað að senda þér smá Heart áður en ég kveiki á kvöldkertinu :) þetta er orðið að vana að kveikja á kerti og skella sér svo í námsbækurnar :) 

 Baráttukveðjur úr Firðinum C",) 

 

Hjördís Ósk

13.9.2007 kl. 20:39

Bíddu ég finn ekki kertasíðuna ?????????????????

 

Guðrún Emilía Guðnadóttir

13.9.2007 kl. 20:46

 

Hæ snúlla. Magga talar um að hún sé örugglega heppin manneskja að þekkja ekki til þessa heims, en þú sért óheppin að hafa þurft að kynnast honum í gegnum son þinn.

Ég verð ekki mjög oft orðlaus, en hvernig í  hansa koti getur
fólk búið svona mein- lokað í glerhúsi.
Fyrir mörgum árum þurfti ég að vera á sjúkrahúsi,
og var upp í sex sinnum á ári,
þá voru einhverjir að vorkenna mér,
en ég sagði það vera óþarfi því ég teldi þessar ferðir mínar vera forréttindi, Jú vegna þess að ég fékk að kynnast öllum hliðum
vanmáttar, vanlíðunar og veikinda hjá fólki.
Ég var afar veik sjálf,
en fannst það ekkert miðað við hvað aðrir þurftu að líða.
Ég er nú bara að segja ykkur þetta,
vegna þess að mér finnst það vera skylda okkar þjóðfélagsþegna að kynna okkur  eins vel og við getum  allt sem er að gerast í kringum okkur fordómalaust.
Ég hef nú sagt það áður, það er afskaplega leiðinlegt að mínu mati
að vera alltaf eins og innan úr kú er fólk er að tala saman.
Fyrirgefðu Ragga mín þessa langloku.
Bara svo þú vitir það þá er kveikt á kerti fyrir ykkur
á hverjum degi og ég sendi þér alla þá orku sem ég get.
                                Góða nótt elsku stelpan mín.
                                                   Milla.

 

Bjarndís Helena Mitchell

13.9.2007 kl. 20:49

Ég vona bara að þú sért ekki reið við mig. Þó að mér finnist mikil brotalöm í dómskerfi okkar hérlendis, þá áttu kommentin mín alls ekki að endurspeglast á son þinn og því sem þið hafið mátt þola. Knús til þín skvís...Heart

 

Óskráður

13.9.2007 kl. 20:53

 

Vá, þessu máli hef ég alveg misst af.

Heart

 

Katrín Snæhólm Baldursdóttir

13.9.2007 kl. 21:58

 

Að vanvirða svona sorg móður sem hefur af öllu hugrekki skrifað og tjáð sína sorg og sinn missi er mér óskiljanlegt. Sonur hennar deyddi engann..átti við erfiðleika að striða og tók sitt líf út frá þeim. Ef það er ekki næg refsing þá veit ég ekki hvað?? Bæði fyrir hann sjálfan og þeirra sem syrgja.  Í guðanna bænum gefið fólki frið fyrir dómum ykkar og heift. Hver hefur efni á að dæma??? Það er saga á bak við hvert mannsins hjarta sem gefst upp.


Sumt er bara einfaldlega fast saman

og það rak ég mig á í kvöld, er að vísu slatta pirruð enda drepleiðinleg vistin í þessu vaskafati. Steinar gat ómögulega sagt eða gert réttan hlut síðdegis, keyrði of hratt eða hægt eða ofan í holu eða næstum einhver á hann (hann var alveg saklaus þar hinsvegar) .....þegar mér finnst hann svona svakalega ómögulegur þá átta ég mig á því frekar fljótt að vandinn er allur mín megin.

Um daginn (fyrradag) ákváðum við að prufa heilsteiktan kjúlla úr Hagkaup, kvikindið kostaði innan við þúsundkall og það fylgdi honum flaska. Við bættum við hrásalati og átum skepnuna en náðum ekki nema rúmlega hálfum fyrra kvöldið, þá var að éta aftur kjúkling næsta kvöld en þá hélt ég að hann dygði ekki og sauð stóran hrísgrjónaskammt, sum til að hafa með en hin í graut.

Og þar stóð hnífurinn í kúnni í kvöld.

Það er ekkert til sem minnir meira á Himma en grjónagrautur með kanil.

"vittu kúlað"  spurði hann stundum þegar hann var lítill. Þá var hann að spá í súkkulaði. Hann var líka mikið hrifinn af Happa"krennum". Það voru margir labbitúrarnir út í sjoppu að ná í nýja Happaþrennu.

Stundum býður lífið manni undarlega flækju. Þegar Himmi var snúður þá bjó í nálægu húsi kona með álíka gamlan strák og annan á leiðinni , eins og ég. Við kynntumst aðeins en svo fluttum við burtu hvor frá annarri en ég hef fylgst með henni aðeins öðru hvoru svona úr fjarlægð.

Hún missti sinn dreng

Um daginn fletti ég honum upp í legstaðaskrá

Hann lést 19 ágúst

 


2 mars 1986

var Hilmar minn skírður. Þessa dagsetningu man ég vel. Amma hans, Þórdís, átti afmæli þennan dag.

Ég sakna Himma


Í huganum

faðma ég hann, held honum fast að mér og sleppi aldrei takinu.

Í raunveruleikanum er faðmurinn tómur, hann er horfinn mér og kemur aldrei aftur.

Og það vantar í mig stykki, stórt stykki. Eins og ég sagði DoktorE í gær þá vil ég ekki lifa að eilífu, ég er að flestu leyti ekki mótfallin því að láta gott heita nú þegar en málið er þó þannig að ég stjórna því auðvitað ekki.

En mér finnst það stundum asnalegt að fólk sem hefur miklu meiri tilgang hérna megin er rifið burt en ég hangi hér í ráðaleysi og veit oftast ekkert í hvorn fótinn ég á að stíga eða hvort ég eigi yfirleitt að vera að stíga í einhverja fætur.

Og ég verð pirruð og ég verð sár.

Og ég kvarta og röfla hér.

Eini friðurinn er þegar ég sef, þá losna ég við þennan nagandi verk og endalausar hugsanir.


Hugleiðing

oftar en ekki veldur kvöldkyrrðin heilabrotum, ég hugsa óneitanlega til baka og spái í tímann sem liðinn er síðan Himminn minn stakk mig af. Hann var duglegur að hringja og koma við hjá mér í vinnunni, enn kemur stingur í hjartað þegar ég sé ókunnuga bíla (ekki vinnubíla) renna inn á planið í vinnunni..en Himmi kemur ekki lengur á bílnum. Bíllinn hans stendur hérna við skúrinn okkar og þar verður hann.

Maður ræður afar litlu í þessu lífi en samt svo miklu. Maður getur ekki forðast áföll en maður getur valið aðeins hvernig maður bregst við þeim. Þið sem hafið lesið lengst munið líklegast þegar ég andvarpaði yfir að geta ekki drukkið frá mér sársaukann. Verkurinn þar er einfaldlega sá að ég er með hálfgerða fóbíu fyrir áfengi og hef ekki notað slíkt. Þarna var ég næstum til í að reyna en það stóð stutt yfir. Ég hélt áfram að kveljast ódeyfð í gegnum sársaukann. Flesta dagana vildi ég hreint ekki vera með í þessu lífi lengur en vissi sem er að því réði ég ekki persónulega. Þar ræður einhver annar mér mun æðri.

Hann vildi ekki taka mig og margbað ég þó akkurat um það. Það var auðvitað tóm sjálfselska, ekki hefði nú verið neitt betra fyrir krakkana mína eða Steinar að þurfa að grafa kellinguna ofan á allar aðrar hörmungar. Ég vissi líka þegar ég bað um þetta að þetta væri ljótt að biðja um og ég skammaðist mín fyrir það.

Ég hef orðið að læra hvert skref og skoða hverja tilfinningu og hugsun síðan ég missti Himma. Það hef ég gert til að þurfa ekki að fara mikið til baka að sækja mér skýringar í fortíðinni, ég hef skoðað þetta jafnóðum. Ég hef hinsvegar skrifað lítið um þetta undanfarið vegna þess að ég hafði ekki sömu þörf og áður í að tjá mig og skrásetja atburðina.

Heilinn er ekki eins minnislaus og hann var, mér tekst betur að átta mig á dögunum og muna lengur það sem ég þarf og vil muna. Það gat ég bara alls ekki fyrst. Samt vildi ég geyma og til þess setti ég upphafsfærslurnar sér svo ég gæti þá lesið þær síðar. Það hef ég ekki gert samt, treysti mér ekki í það en kannski geri ég það einhverntímann.

Ég hef oft orðið undrandi á sjálfri mér, ég hef alla tíð verið frekar lokaður persónuleiki og hreint ekki sóst í félagsskap fólks. Líður bara allra best heima hjá mér og alveg eins alein heima. Ég hef oftast átt best samskipti við dýrin sem ég hef átt enda er ekki til fals í þeim. Ég held að það sé þess vegna sem ég á hunderfitt með fólk, það er oft svo undirförult og falskt. Það eru eiginleikar sem ég þoli ekki ..engan veginn.

Ef einhver vildi greina mig með eitthvað þá væri áreiðanlega hægt að troða á mig greiningunni félagsfælin. Ég vil hinsvegar meina að þetta sé afleiðing eineltis í skóla, ákveðinna vandamála innan fjölskyldunnar og hafi bara smá saman undið upp á sig.

Það þarf eitthvað mikið að gerast til að ég fari í heimsóknir til fólks og auðvitað nennir enginn fólki eins og mér til lengdar, það skil ég mætavel. Ég myndi áreiðanlega ekki nenna þessu sjálf.

Bloggvini mína þykir mér hinsvegar vænt um, þeir eru þarna þegar mig vantar þá, þeir eru í hæfilegri fjarlægð og mig skiptir engu þó að það sé mögulega táfýla af þeim. En þeir eru þarna.

Ég hef verið slöpp í kommentunum undanfarið og þið vonandi fyrirgefið mér það, ég ætla samt ekki að lofa að það lagist. Ég lofa helst ekki nema því sem ég get staðið við.

Ég held að þessi hugleiðing um sorg hafi farið útum þúfur eitthvað en þið reynið að krafla ykkur fram úr þessu.

Góða nótt


Myrkur

úti og í sálinni suma daga.

Gleðin birtist á yfirborðinu..brosið nær ekki til augnanna

Það er eins og einhver hafi farið með ljósið, peruna í lífinu

Þetta breyttist úr lífi í bið, biðsal...ég bíð farmiðans

Stundum finnst mér eins og ég geti séð farmiðasalann en hann fer sífellt annað áður en hann kemur til mín.

Hann er leiðinlegur

Margir vildu eiga gjöfina sem lífið er

Ég vildi að ég gæti gefið það áfram

Skipt um hlutverk við einhvern annan sem hefur áhugann

Ég held bara áfram að bíða

Öll bið tekur enda, er það ekki annars öruggt ?


Gleðilegt ár

og við Himmi sendum ykkur hjartans þakklæti fyrir árið sem er að líða. Ég segi við Himmi vegna þess að ég vil reyna að trúa því að hann sé að skottast hér í kringum ræfilinn hana mömmu sína.

Þið hér, lesendur, hafið verið mér ómetanlegur styrkur á ári sem á ekki sinn líka, ja amk ekki síðan 1984. Árið áður en Himmi minn fæddist. Þá vissi ég ekkert afhverju ég var að missa með því að eiga hann ekki.

Nú veit ég það

Söknuðurinn er mikill.

Megi árið 2009 verða ykkur öllum gleði og gæfuríkt, uppfullt af skemmtilegum atburðum.

Nú legg ég upp í leiðangur, inn í næsta ár, sem verður jafn hörmulega Himmalaust en þó mun kjarkbetri en á svipuðum tímamótum fyrir ári síðan.

hilmar (2)


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband