Hugleiðing

oftar en ekki veldur kvöldkyrrðin heilabrotum, ég hugsa óneitanlega til baka og spái í tímann sem liðinn er síðan Himminn minn stakk mig af. Hann var duglegur að hringja og koma við hjá mér í vinnunni, enn kemur stingur í hjartað þegar ég sé ókunnuga bíla (ekki vinnubíla) renna inn á planið í vinnunni..en Himmi kemur ekki lengur á bílnum. Bíllinn hans stendur hérna við skúrinn okkar og þar verður hann.

Maður ræður afar litlu í þessu lífi en samt svo miklu. Maður getur ekki forðast áföll en maður getur valið aðeins hvernig maður bregst við þeim. Þið sem hafið lesið lengst munið líklegast þegar ég andvarpaði yfir að geta ekki drukkið frá mér sársaukann. Verkurinn þar er einfaldlega sá að ég er með hálfgerða fóbíu fyrir áfengi og hef ekki notað slíkt. Þarna var ég næstum til í að reyna en það stóð stutt yfir. Ég hélt áfram að kveljast ódeyfð í gegnum sársaukann. Flesta dagana vildi ég hreint ekki vera með í þessu lífi lengur en vissi sem er að því réði ég ekki persónulega. Þar ræður einhver annar mér mun æðri.

Hann vildi ekki taka mig og margbað ég þó akkurat um það. Það var auðvitað tóm sjálfselska, ekki hefði nú verið neitt betra fyrir krakkana mína eða Steinar að þurfa að grafa kellinguna ofan á allar aðrar hörmungar. Ég vissi líka þegar ég bað um þetta að þetta væri ljótt að biðja um og ég skammaðist mín fyrir það.

Ég hef orðið að læra hvert skref og skoða hverja tilfinningu og hugsun síðan ég missti Himma. Það hef ég gert til að þurfa ekki að fara mikið til baka að sækja mér skýringar í fortíðinni, ég hef skoðað þetta jafnóðum. Ég hef hinsvegar skrifað lítið um þetta undanfarið vegna þess að ég hafði ekki sömu þörf og áður í að tjá mig og skrásetja atburðina.

Heilinn er ekki eins minnislaus og hann var, mér tekst betur að átta mig á dögunum og muna lengur það sem ég þarf og vil muna. Það gat ég bara alls ekki fyrst. Samt vildi ég geyma og til þess setti ég upphafsfærslurnar sér svo ég gæti þá lesið þær síðar. Það hef ég ekki gert samt, treysti mér ekki í það en kannski geri ég það einhverntímann.

Ég hef oft orðið undrandi á sjálfri mér, ég hef alla tíð verið frekar lokaður persónuleiki og hreint ekki sóst í félagsskap fólks. Líður bara allra best heima hjá mér og alveg eins alein heima. Ég hef oftast átt best samskipti við dýrin sem ég hef átt enda er ekki til fals í þeim. Ég held að það sé þess vegna sem ég á hunderfitt með fólk, það er oft svo undirförult og falskt. Það eru eiginleikar sem ég þoli ekki ..engan veginn.

Ef einhver vildi greina mig með eitthvað þá væri áreiðanlega hægt að troða á mig greiningunni félagsfælin. Ég vil hinsvegar meina að þetta sé afleiðing eineltis í skóla, ákveðinna vandamála innan fjölskyldunnar og hafi bara smá saman undið upp á sig.

Það þarf eitthvað mikið að gerast til að ég fari í heimsóknir til fólks og auðvitað nennir enginn fólki eins og mér til lengdar, það skil ég mætavel. Ég myndi áreiðanlega ekki nenna þessu sjálf.

Bloggvini mína þykir mér hinsvegar vænt um, þeir eru þarna þegar mig vantar þá, þeir eru í hæfilegri fjarlægð og mig skiptir engu þó að það sé mögulega táfýla af þeim. En þeir eru þarna.

Ég hef verið slöpp í kommentunum undanfarið og þið vonandi fyrirgefið mér það, ég ætla samt ekki að lofa að það lagist. Ég lofa helst ekki nema því sem ég get staðið við.

Ég held að þessi hugleiðing um sorg hafi farið útum þúfur eitthvað en þið reynið að krafla ykkur fram úr þessu.

Góða nótt


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Þú ert yndið mitt

Hrönn Sigurðardóttir, 31.1.2009 kl. 22:42

2 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Það fer aldrei neitt út um þúfur á þessu bloggi þínu.    Það er einmitt þín sérstaða að geta sett á blað hlutina, nákvæmlega eins og þú hugsar þá.  Þú ert ekkert að reyna að skafa yfir neitt heldur kemur til dyranna eins og þú ert klædd.  Yndislegur eiginleiki sem fleiri mættu kunna. 

Anna Einarsdóttir, 31.1.2009 kl. 22:43

3 Smámynd: Sigrún Óskars

Þú ert ekki vön að fara út um þúfur á blogginu þínu. Maður skilur nákvæmlega það sem þú skrifar, mér finnst þú skrifa það sem þú hugsar og ert heiðarleg.

knús til þín

Sigrún Óskars, 31.1.2009 kl. 22:55

4 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

I like you

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 31.1.2009 kl. 23:00

5 Smámynd: Gudrún Hauksdótttir

Mikid er yndislegt ad lesa og sjá hvad tú ert flínk ad koma hugsunum tínum á blad.takk fyrir ad leyfa mér ad vera med.

Hjartanskvedjur

Gudrún Hauksdótttir, 31.1.2009 kl. 23:03

6 Smámynd: Steingrímur Helgason

Þú ert zhnilld.

Steingrímur Helgason, 31.1.2009 kl. 23:17

7 Smámynd: Einar Indriðason

Ehum... ég veit ekki alveg hvar ég á að byrja... Er að spá í að hugsa um að byrja í miðjunni, og breiða svo úr mér.

Vonandi hitti ég einhvern tímann á þig, helst með einhvern með mér, til að kynna þig fyrir mér, og mig fyrir þér.  Þá færðu sko alvöru knús, með eða án lopapeysu.

Ég er eiginlega pínulítið feginn að drykkjan fór ekki vel í þig.... og ég er eiginlega pínulítið feginn að þessi þarna "uppi" ... greip þig ekki á þann hátt eins og þú hafðir vonast til í smá tíma.

Það eru ekki mörg orð sem ég get galdrað fram, til að hughreysta þig... eða taka sársaukann frá þér... eða breyta fortíðinni....

En.  Ég get verið í hreinum sokkum, þegar við hittumst.  (Það er, ef ég veit af því fyrirfram.)

Og ég get sent einstaka knús á þig í gegnum bloggið.  Það er ekki eins áhrifaríkt og alvöru knús, en það er samt knús með góðan huga að baki.

Ég get jú komið með svona frasa eins og "tíminn læknar öll sár" ... en þetta er bara frasi.  Ég get líka sagt að það kemur sigg á sálina smátt og smátt.  (Ég veit ekki hvort þetta er frasi, en svona er þetta.)

Hmm.... já, best að nota tækifærið núna.  Ég er akkúrat í lopapeysunni núna, og þú veist hvað það þýðir!

Þú færð *LOPAPEYSUKNÚS*

Og... hafandi sagt það.... þá ranka ég allt í einu við mér og átta mig á því að það sem átti að verða bara pínulítið innlitskvitt... er orðið miklu lengra heldur en bara pínulítið innlitskvitt.  Það er bara líka allt í lagi!

Einar Indriðason, 31.1.2009 kl. 23:19

8 Smámynd: Ragnheiður

Takk elskurnar og Einar minn, lopapeysuknúsið framkalla alltaf bros og þá er tilganginum náð.

Þið eruð flottust !

Ragnheiður , 31.1.2009 kl. 23:30

9 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Þú ert flottust Ragga mín

Sigrún Jónsdóttir, 1.2.2009 kl. 00:56

10 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ég kannast við ýmislegt sem þú nefnir í sjálfri mér, félagsfælni og ég er ótrúlega heimakær.  Ég fer helst ekki út úr húsi ótilneydd, nema í vinnu og að versla inn fyrir heimilið. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 1.2.2009 kl. 01:01

11 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Ía Jóhannsdóttir, 1.2.2009 kl. 07:28

12 identicon

Knús og klús

Kidda (IP-tala skráð) 1.2.2009 kl. 11:33

13 identicon

En, það er einmitt heila málið - að maður einmitt skilur alltaf hvað þú ert að tala um, þú ferð ekkert út um neinar þúfur!

Hjartans þökk fyrir þessa hugleiðingu þína, Ragga mín, ég get svolítið fundið mig í þessu sama og þú.

Kærleiksknús

Ásdís Emilía Björgvinsdóttir (IP-tala skráð) 1.2.2009 kl. 11:43

14 Smámynd: Huld S. Ringsted

Huld S. Ringsted, 1.2.2009 kl. 11:51

15 Smámynd: Hulla Dan

Hulla Dan, 1.2.2009 kl. 12:05

16 Smámynd: Tiger

 Ragnheiður mín - þú ert perla!

Hafðu engar áhyggjur af því þó þú sért ekki á fullu í athugasemdakerfinu hjá okkur - nærvera þín skilar sér alltaf þó þú sért ekki að spora endalaust út. Guð geymi þig ljúfust.

Tiger, 1.2.2009 kl. 13:29

17 Smámynd: Fjóla Æ.

Mig langar að senda þér knús eftir að hafa lesið þessa færslu. Ég skil hvað þú ert að meina.

Fjóla Æ., 1.2.2009 kl. 20:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband