Hvernig stendur á því ?

Að manni dettur það ekki í hug fyrr en svo seint að strákar eru alla tíð í mun meiri lífshættu en stúlkur ?

Strákar eru uppátækjasamir, það virðist vera í eðli þeirra. Þeir eru líka meiri glannar en stúlkur. Þeim virðist líka vera hættara við að svipta sig lífi.

Þegar maður horfir með stoltum móðursvip á drenginn sinn ungan þá dettur manni bara alls ekki í hug að eitthvað þannig geti komið fyrir.

HimmisætasturHvernig átti mér að hugkvæmast að þessi litli, sæti þarna væri í hættu staddur ?

Hugur minn er hjá öðru fólki í dag, fólki sem þarf að ganga þessa skelfilegu píslargöngu að hafa misst vegna sjálfsvígs.

Ég er ekki svo voðalega reið núna, það tókst mér að sofa úr mér aftur en ég ætla að sjá til á eftir hvort mér og gigtinni takist ekki að skreppa aðeins út í gönguferð. Arga út á sjóinn...

Ég er samt að hugsa á fullu og vildi hreinlega óska þess að ég gæti slökkt á heilanum, hann er orðinn svo þreyttur.

(þessi mynd af Himma er frá öðrum jólum hans, hann er nýorðinn ársgamall og situr þarna prakkaralegur í ömmusófa, auðvitað búin að spóla úr sokkum og skóm....sætastur !)


Ég er á réttu ári og réttri öld

og þvílíkur hvirfilbylur í heilanum. Ég skrapp í kirkjuna áðan, það voru boðaðir þeir sem sr. Bjarni hafði þjónað sl ár. Það er semsagt ár síðan hann boðaði mig á slíka samveru. Þeirrar samveru þá naut ég ekki, ég var enn of dofin og sljó. Núna skildi ég hvert orð, fann hverja tilfinningu og þetta leiddi til mikilla átaka innra með mér. Mér finnst ég vera í slitrum...tætlum...ónýt.

Meðan á björgunarleiðangrinum með Hjalta minn stóð þá var ég ágæt, andlega. Nú er það mál í höfn, með góðri niðurstöðu og ég hef tíma til að hugsa, finna, skilja og upplifa enn á ný þennan andstyggilega sársauka. Sem ég vildi að færi til fjandans, beina leið.

Ég skil stundum ekkert á hvaða leið ég er - ég er bara eins og drusla í vindinum og flaksast eitthvað bara. Ég vil ekki vera svona og ég vil alls ekki eiga svona erfitt -en hvað ? Það er ekki eins og Himmi minn komi skoppandi til baka bara vegna þess að ég krefst þess! Þetta virkar ekki þannig, ef svo væri þá væri hann löngu kominn. Með brosið breiða, hlýjuna í augunum og kippandi upp buxunum í skrefinu vegna þess að hann mundi ekkert hvar beltið hans varð eftir. Pjakkurinn minn, sólargeislinn...

Að nokkurt foreldri nokkru sinni verði að þræða þennan stíg er bara ósanngjarnt, drullu ósanngjarnt. Ég meina það, hann tók ekki það mikið pláss í heiminum að til vandræða væri. Afhverju mátti ég ekki hafa hann í friði?

Í augnablikinu er ég svo reið að ég er nánast alveg að kafna, það er eins og fíll sé sestur á brjóstkassann.

Til hvers er þetta allt ? Hvað á ég að gera ? Þramma bara áfram veginn eins og sauður, steinþegjandi ? Til hvers ?

Mér finnst þetta drulluósanngjarnt og mér má alveg finnast það.

 


Kirkjugarðurinn

Hún gengur hægum skrefum upp slakkann, henni finnst þessi smábrekka alltaf verða brattari. Það marrar í snjónum undir fótum hennar, snjófjúkið treður sér milli laga og skopast glaðlega við nefið á henni. Hún staðnæmist, nuddar nefið og vefur sjalinu betur að sér. Þetta er nú meira rokið hugsar hún og dæsir. Það er svo sem aldrei skjól í þessum kirkjugarði. Samt var hann verri fyrir þessum þrjátíu árum sem liðin eru síðan sonur hennar var jarðsettur hérna. Þá var gröfin á nýjasta svæðinu og oftar en ekki göptu nýteknar grafir framan í hana þegar hún fór að vitja leiðis hans fyrstu árin. Glottandi ljótar grafir. Djúpar svartar holur.

Það setur að henni hroll. Ein alversta minningin í þessu öllu var að standa þarna á grafarbakkanum og horfa á hvítu kistuna hans, kyrfilega á grafarbotninum. Hana langaði allra mest að kasta sér ofan í gröfina og fá að vera hjá honum þar um alla eilífð. En vegna hinna barnanna þá var hún tilneydd að halda áfram, halda áfram brotin á sálinni, ónóg sjálfri sér og óhamingjusöm. Hvernig lifir maður barnið sitt ? hafði hún oft spurt sig. Hún vissi enn ekki svarið við því þó að svona mörg ár væru liðin. Hún vissi bara að hver dagur leið í tímans rás og á eftir honum kom sá næsti.

Á hverju kvöldi þegar hún lagðist til hvílu hugsaði hún með sér, jæja þá er þessi dagur liðinn og ég komin þeim deginum nær að hitta drenginn minn. Svo þraukaði hún, einn dag í einu.

Hún bar sig vel við sitt fólk og út á við. Henni var til efs að einhver myndi nenna að hlusta á hennar innstu sorg. Hún vildi ekki að neinn vissi að hún taldi bara dagana. Stundum fékk hún samviskubit vegna hinna barnanna sem sátu uppi með móður sem var meira og minna stödd í andanum hinumegin. Móður sem beið með gleði dauða síns. Hlakkaði til að fá að kveðja lífið og hitta hann aftur, þann sem hún missti.

Hún gekk aftur af stað.

Gröfin hans var hulin hvítri snjóábreiðu. Englarnir hans með smáskafla á vængjunum. Þarna situr einn og les í bók, hann er samt að skáskjóta augunum á næsta engil sem er að spila á hörpu. Þeir virðast ekki alveg sáttir við hvorn annan, líklega truflar hljóðfæraengillinn þennan sem er að reyna að lesa.

Hún lítur yfir allt til að sjá hvort sé ekki alveg allt með felldu. Stundum hafa englarnir verið oltnir um og þá þarf að laga þá til. En nú þarf ekkert að gera, þeir eru líklega frosnir á sinn stað.

Margt hefur gerst síðan drengurinn hennar dó. Hún hefur lifað af kreppuna og allskyns önnur vandræði í þjóðfélaginu en ekkert hefur snert við henni.

Hún signir yfir gröfina, vefur sjalinu enn betur að sér. Það setur að henni hroll og hún reynir að hraða sér til baka. Stígurinn er svo háll.

Hún kemur aftur á morgun


Alveg að koma afmæli !

Það er alveg að koma afmæli

og ég er miklu rólegri en ég var síðast þegar þessi afmælisdagur rann upp. Síðast svaf ég ekki og var komin með bauga niður á höku. Skalf af þreytu og vanlíðan og sá ekki glaðan dag í eitt augnablik. Ég endaði á að gera það sem ég hafði aldrei gert fyrr, ekki viljað gera fyrr. Ég fór til læknis og fékk svefnlyf. Mér hefur alltaf verið bölvanlega við róandi lyf og svefnlyf en þarna játaði ég mig sigraða. Ég fékk nokkrar töflur og enn í dag hef ég ekki lokið við skammtinn sem ég fékk. Ég þurfti þess ekki. Um leið og ég náði að sofa í nokkrar nætur þá losnaði ég úr þessum vítahring sem ég var komin í.

Hérna er mynd sem tekin var á síðasta afmælinu hans sem hann lifði. Greinilega höfum við haldið afmælið hans degi of seint það árið og eins og myndin ber með sér þá hafði ekkert okkar grun um að þarna væri hans síðasti afmælisdagur upp runninn.

Hérna kemur slóð á kertasíðuna hans .

Ég hef enn ekki ákveðið hvort ég ætla að gera eitthvað sérstakt í tilefni afmælis hans. Samt ætla ég að færa honum rauðar rósir, tákn ástarinnar.

Þeir sem vilja leggja blóm á leiði hans um helgina fá hér slóð á hvar hann liggur og sefur sinn síðasta blund.

Angakallinn minn..ég ætla að ljúka þessari færslu með uppáhaldsmyndinni minni af honum.

Himmi að keyra

Menn verða ekki mikið sætari en þetta - gæðablóðið hennar mömmu sinnar InLove



Ég er nokkuð viss

um að þetta er ekki það sem ég og fleiri aðstandendur fanga höfum haft í huga þegar við höfum fagnað því að þeim gefist tækifæri til að mennta sig.

Mín sýn á þessi mál var einföld og kannski barnaleg. Ég vildi að þessir menn kæmu betri út og yrðu það sem við hin köllum "nýtir" þjóðfélagsþegnar.

Ekki að þeir menntuðu sig á einhverjum þeim sviðum sem stórvirkar í málum sem þessum.

Ég er hnuggin yfir þessu, ég er alltaf svo hrædd um að svona kappar skemmi fyrir þeim sem er í raun hægt að endurhæfa.

Ég á hinsvegar afmæli á morgun og ég er alveg búin að finna hvað mig langar í í afmælisgjöf, mig langar í tandurhreint hús...hehe. Kostar ekkert og ekki mjög erfitt í framkvæmd, en kannski verð ég bara að gefa mér gjöfina sjálf þetta árið.


mbl.is Höfuðpaurar á reynslulausn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Má vera að þetta hljómi furðulega

en það verður bara að hafa það.

Hilmar minn er eitt þeirra barna sem ekki pössuðu í normið. Oftar en ekki var hann búinn að gera skammir af sér, hann virtist framkvæma hraðar en heilinn vann. Oftast vissi hann vel að um afbrot var að ræða. Hann varð ótrúlega sár við sjálfan sig. Þegar hann lést í fyrra þá misstum við svo mikið, við misstum strák sem elskaði okkur öll með stóra hjartanu sínu. Við elskuðum hann líka öll til baka. Annað var ekki hægt. Einn hans mesti kostur var hversu góður hann var, hann var meinlaus. Hann lenti í erfiðum aðilum, sem vildu láta hann bæta tjón sem hann olli. Á því hafði hann sjaldnast möguleika nema þegar hann sat þá inni fyrir brot sín. Þeir hræddu hann. Þeir hræddu okkur, stundum í gegnum hann.

Hann reyndist of meinlaus þegar upp var staðið, þeir brutu hann.

En líti ég til baka á strákinn minn, þá sé ég meinlausa bangsann minn. Ég er stolt af því að hafa fengið að vera móðir hans. Ég hefði ekki viljað missa af honum fyrir nokkurn mun. Hann var strákurinn minn, stóri glaði og káti strákurinn minn. Ég mun elska hann allt mitt líf. Ég mun líka vera honum þakklát allt mitt líf fyrir þá ást sem hann sýndi mér.

Hvíldu þig ástin mín, mamma elskar þig.


Málfarsþátturinn hinsegin

en hérna sko....

Heima hjá mér er orðið Úfinn notað í stað orðsins að vera reiður. Þetta er eins og margt annað frá Himma. Hann vildi helst leika úti annan daginn og hentaði ekki alltaf að koma inn í mat eða í hreint eða hvað það var sem móður hans hugkvæmdist að ónáða hann með.

Eitt sinn tók ég hann inn og hann var EKKI sáttur við mig. Í aumri tilraun til að skipta um umræðuefni þá kom móðurinni ekkert annað í hug en að beina athygli snáðans að undarlegri hárgreiðslu hans þegar lambhúshettan hafði verið rifin af önugum sveittum snáðanum. ,,Nei sko Himmi, þú ert úfinn !"sagði mamman.

Hann taldi mig vera að sneiða að honum fyrir geðvonskuna og síðan hefur alltaf verið sagt að einhver sé úfinn.

Annars er ég góð, en þið ?

Komið endilega með svona heimsmíðuð orðatiltæki ef þau finnast hjá ykkar fjölskyldum.


Fréttablogg

Tekið af www.visir.is núna rétt í þessu. Set þetta inn til skýringar fyrir þá sem halda að það séu alltaf bara jólin að vera í afplánun í íslensku fangelsi. Mín skoðun er sú, alveg bjargföst að það megi ekki stækka Litla Hraun. Hættan á málum eins og þessum eykst við það.

Hvert eiga menn að flýja þegar þeir verða fyrir barðinu á svona ?

Pólstjörnufangar kröfðu samfanga um verndartolla

mynd

Fangar sem afplána dóma á Litla-Hrauni vegna Pólstjörnumálsins hafa verið aðskildir vegna meintrar ofbeldisfullrar hegðunar innan veggja fangelsisins. Þeir hafa krafið samfanga um verndartolla, samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins. Þá hafa þeir tvívegis ráðist á og slasað samfanga.

Fyrri líkamsárásin var í lok mars. Þá komu fjórir fangar inn í söluturn í fangelsinu þar sem fyrir var einn fangi. Hann vissi svo ekki fyrr en hann fékk sting í aðra rasskinnina. Þegar hann fór að huga betur að varð hann var við að í rasskinninni stóð útskurðarsporjárn sem einn mannanna fjögurra hafði stungið í hann. Fanginn var fluttur á heilsugæsluna á Selfossi þar sem gert var að sárinu. Hann var síðan fluttur til áframhaldandi afplánunar í öðru fangelsi, þar sem hann dvelur nú. Hinir fjórir voru aðskildir og yfirheyrðir sem sakborningar.

Síðari árásin átti sér stað á fimmtudagsmorgun, í kennslustofu á Litla-Hrauni. Kennarinn þurfti að bregða sér frá örskamma stund. Þrír fangar notuðu tækifærið og réðust á samfanga sinn. Þeir létu högg og spörk dynja á honum þar sem hann lá á gólfinu. Meðal annars þurfti að sauma áverka á andliti hans, auk þess sem hann var blár og bólginn. Þá hafa borist kvartanir vegna þessara sömu manna þess efnis að þeir hafi krafið samfanga um verndartolla, samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins.

Fangelsismálayfirvöld hafa gert ráðstafanir til að koma í veg fyrir að atburðir af þessu tagi geti endurtekið sig. Lögreglan á Selfossi hefur fengið bæði líkamsárásarmálin til rannsóknar. Rannsókn stungumálsins er lokið og hefur það verið sent til ríkissaksóknara. Vegna síðari líkamsárásarinnar hefur lögregla yfirheyrt þrettán fanga, eða alla þá sem voru í skólastofunni. Unnið er að rannsókn málsins af fullum krafti, en fangarnir þrír sem grunaðir eru um verknaðinn hafa neitað sök, samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins.- jss


Þegar ár er liðið þá er gott að staldra við

og líta aðeins yfir farinn veg.

Ég held að ein alfyrsta ákvörðunin sem ég tók þegar Himmi dó var að jarða hann ekki í kyrrþey. Það var eina hugsunin sem ég náði utan um og ég held að hún hafi komið áður en systkini hans vissu um lát hans. Bregðist minnið mér ekki þá var hér bara komin mín kæra systir sem brást strax við neyðarópi minni systurinnar.

Áberandi var hversu orðlaust fólk var. Enda hvað segir maður við móður sem stendur yfir líki 21 árs sonar síns ? Það er eiginlega ekkert hægt að segja en það er ofsalega gott þegar fólk kemur, knúsar mann og situr hjá manni.

Ég hef líklega tekið þá ákvörðun að skrifa opinskátt um hans líf, erfiðleika og hvernig hann dó. Ég hef verið lánsöm, ég hef ekki orðið fyrir því að fá leiðinlegar athugasemdir hér á síðuna, ja ef frá er talið eitthvað smávegis sem ég reyndar vissi alveg hvaðan kom. Ég átti, í sannleika sagt, von á því að fá fleiri neikvæð og rætin komment enda átti Himmi óvini. Menn í hans stöðu eignast eðlilega óvini, annað væri undarlegt.

Ég eyddi hinsvegar ekki þessum athugasemdum en lokaði á Ip töluna eftir mikil heilabrot. Ég gerði það ekki síst vegna systkinanna hans. Hann á mörg systkini og yngsta er bara 6 ára. Þeim þarf að hlífa.

Fyrstu færslurnar tók ég svo til hliðar, til að týna þeim ekki en því miður þá tapaði ég þar með athugasemdunum við þær. Það athugaði ég ekki áður en ég afritaði þær. Ég var semsagt hrædd um að týna þeim í eigin málæði. En þær eru hérna -á síðu sem finnst þegar þið smellið á bloggin mín og þar er Bók Hilmars.

Um daginn las ég dagbækur Matthíasar mér til ánægju en eitt sagði hann sem olli mér nokkrum heilabrotum. Hann var að fjalla um aðför að Haraldi syni sínum sem þá var fangelsismálastjóri og var kallaður ónefnum (ákveð að skrifa ekki hér hvað hann var kallaður) og Matthías er eðlilega sár fyrir hönd sonar síns. Hann skammast yfir þessu og klykkir út með að tala um "ræfladýrkun". Ég las ekki lengra þann daginn en sat og hugsaði ; ætli bloggið um Hilmar falli undir svoleiðis ?

Svo prófaði ég að sofa á þessu og var komin að niðurstöðu næsta dag. Það sem skín í gegn í færslum M.J. er ást hans á sonum sínum tveimur, ég vil meina að það sama sé hér uppi við. Ást mín á Hilmari.

Auðvitað hefði ég kosið að sonur minn hefði gert mig stolta af afrekum sínum, ekki niðurbrotna vegna afbrota sinna eins og oft gerðist. Hann hefði getað svo miklu betur en hann gerði en hans leið var grýtt og flókin, stjórnlaus og leiðinleg. Mamma dinglaði með enda ekki með nein úrræði til að bregðast við þessu ferlega ástandi.

Ég var ansi oft fokreið við hann, ég sé það á gömlum færslum á gamalli bloggsíðu. Af virðingu við Himma þá tók ég það allt burt og hef ekki lesið það heldur en það á að vera hérna nema það hafi tapast út við tölvubilun sem varð hér um daginn. Það nær þá ekki lengra.

Ég hef reynt að stikla hér milliveg, reynt að sleppa umfjöllunum um aðra en okkur sem tilheyrum fjölskyldunni en samt tekist að stíga á tær og fengið skammir fyrir.

Það sem styrkir mig í þeirri skoðun að uppljóstrun þessi á lífi Himma hafi skilað einhverju er einfaldlega sú að þið hafið fleytt ljósasíðunni hans áfram í ár. Það er afrek. Hvert kerti logar í 48 tíma og oft höfum við sem tilheyrum ekki náð að halda henni hjálparlaust við. Það er magnað.

Hann Himmi minn hefði mátt hafa þessi áhrif lifandi

Kærar þakkir fyrir öll kommentin, allan stuðninginn og hjálpina. Það hefur verið ómetanlegt í gegnum tíðina, þetta hörmungarár.


17 ágúst 2007

Þessi færsla er meira tilkynning en beinlínis færsla.

Þann 19 ágúst næstkomandi verður hér opið hús fyrir þá ættingja, vini og félaga Hilmars sem vilja koma og minnast hans. Það væri vel þegið ef fólk kæmi með eitthvað með sér, einhverjar kökur eða slíkt til að setja hér á borð fyrir gesti.

Þeir sem vilja fara að leiði Himma fá hér leiðbeiningar. Það væri ofsalega notalegt ef fólk leggði hjá honum blóm eða kæmi með litla engla eða slíkt til að setja á leiðið hans.

Hann hvílir í Gufunesgarði. Einfaldast til að rata til hans er að fara alltaf vinstri beygju, alltaf fyrstu vinstri beygju. Þá er komið inn á bílaplan. Enn erum við vinstrisinnuð og göngum þaðan til vinstri. Við göngum upp eitt grafarsvæði og þá erum við komin í grafarsvæðið sem Himmi er í. Þið sjáið hann úr fjarlægð, hann er með brúnan kross og hann hefur hvíta steina og hvítan engil hjá sér.

Ég ætla að koma með tengilinn hans á www.gardur.is ef betra er að skoða þetta á korti. Hérna er slóðin á þetta.

Ég ætla að ljúka þessari færslu á því að endurbirta hér færsluna sem ég birti að kvöldi 19 ágúst í fyrra:

19.8.2007 | 21:14

Ég hef aldrei þurft að standa

í jafn erfiðum sporum og í dag og það veit ég að baráttan er rétt að hefjast. Sumum kann að finnast skrýtið að skrifa þetta nú svo stuttu eftir þessa vofeiflegu atburði en mér veitir ekki af þeim styrk sem mér tekst kannski að kría út úr þessu.

Son minn hef ég aldrei skammast mín fyrir og sér í lagi ekki nú þegar hann er látinn. Elsku hjartans strákurinn minn fyrirfór sér í klefa sínum á Litla Hrauni síðastliðna nótt.

Dagurinn er búinn að líða í mikilli þoku, það þurfti að ná í allt það nánasta og smala hingað til að segja þeim þessar hörmungarfréttir.

Ég treysti mér ekki alveg í að skrifa meira akkurat núna en ég mun gera það samt fljótlega.


------------------------------------------------------------------------------------------------

Að lokum minni ég á kertasíðuna hans. Hún er hér í tenglum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband