Hvað er að vera mannlegur ?

Jú til dæmis það að gera mistök, það er talið mannlegt. Í mínum huga er góðmenni ekki endilega einhver sem er ríkur, ekki endilega einhver sem er farsæll í sínu einkalífi og starfi.

Góðmenni er í mínum huga einhver sem lætur sér hag annarra varða...kannski ekki með beinum afskiptum inn í líf þess sem er honum hugleikinn, heldur kannski með að íhuga hag hins og hugsa um ráð til hjálpar þessum sem við erfiðleikana glímir.

Góðmennin forðast að dæma aðra og vita eins og er minn skilningur á trú, að það er annar sem dæmir. Góðmenni vill veg annarra sem mestan.

Mikið hefur verið rifist um vín í búðir undanfarið. Ég er enn á sömu skoðun. Ég tel aðgengið að áfengi nógu gott og ég vil ekki vín í búðir. Kona hér sem hefur bloggað af einlægni um sín vandamál tengd áfengi fékk m.a. komment um það að þó að hún höndlaði ekki vín þá skyldi hún ekki voga sér að vera á móti því að vín kæmi í matvörubúðir. Þetta hefur setið í mér undanfarna daga og ég hef velt þessu fyrir mér. Hvað er að fólki sem segir svona ? Hver getur staðið hér undir sínu nafni og sagt við mig að viðkomandi þekki engan sem hefur átt erfitt með að ungangast áfengi ? Hver ? Ekki get ég gert það, það er nokkuð ljóst ! Mér finnst fólk stundum vera eins og vagnhestar, með hlífar fyrir augunum svo það sjái áreiðanlega ekki til hliðanna. Það vill ekki sjá og vill ekki skilja...vegna hvers ? Er það virkilega bara vegna þess að það vill komast hjá því að skreppa í eina aukaverslun til að ná sér í sitt vín ?  Skiptir það meira máli ?

Það er hellingur af fólki sem drekkur vín í hófi og það er ágætt. Það er ekki verið að tala um að BANNA áfengi, það verður til sölu áfram í vínbúðum sem reka meira að segja ágætan vef um hvaða vín passi með hverju og þar fram eftir götunum. Vefurinn þeirra er hérna www.vinbud.is

Ég sé ekkert endilega fyrir mér að ofdrykkja aukist við þetta enda vínbúðir mikið opnar. Ef málið er að þetta eigi ekki að vera ríkisverslun þá má selja ÁTVR. En regluverkið og vesenið við að fylgja þeim reglum sem gilda um sölu áfengis verður illframkvæmanlegt í verslunum. Eins og er eru tóm vandræði við að fá starfsfólk í verslanir,hvað þá ef það á að vera eldra en tvítugt. Margar verslanir eru opnar að næturlagi,hvað á að gera ef einhverjum dettur í hug að ræna áfenginu um miðja nótt ? Hvað sér maður það oft í myndum og þáttum framleiddum í USA að það er verið að ræna vínbúðir...það er náttlega ekki þessi almenni borgari sem sefur þá drykkjusvefni heima hjá sér sannfærður um að drykkjan hans sé sko í lagi. Nei það eru ALKARNIR, vonda fólkið sem enginn vill þekkja...þeir sem eru inn og út úr fangelsum vegna þess að þeir eru að fjármagna sínar fíknir....Oj já það lið...sem enginn kannast við að þekkja.

Ég held þetta eigi eftir að skapa mun meiri vandamál en það mögulega leysir, sé bara alls ekki hvaða vandamál það á að leysa ? Hvað er að þessum opnunartíma ?

Afgreiðslutímar á höfuðborgarsvæðinu

 

Vínbúðirnar Dalvegi
og Skeifu:

Mán.- fös. 9-20
Lau. 11-18

 

Aðrar vínbúðir á
höfuðborgarsvæðinu:

Mán.- fös. 11-18
Fös. 11-19
Lau. 11-18

PS. Rakst á ágætan pistil ungs manns sem er í læknisnámi í USA


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Takk fyrir frábæran pistil.  Ég hef trú á að þín rök nái frekar í gegn en mín þar sem ég mun hafa skotið mig í fótinn vegna alkahólismans og telst því ekki bær til að hafa skoðanir í áfengismálum.

En ég er sammála þér og ég skil ekki hversvegna er verið að leggja þetta kapp á að koma áfengi í matvöruverslanir.  Mér finnst eins og sumir haldi að Ísland verði "menningarlegra" ef þeir geta keypt mjöðinn með steikinni í sömu búð.  Fáránlegt.

Þú bendir réttilega á opnunartíma.  Hann er vel rúmur og ég myndi skilja þetta ef það væri en búð eða svo sem þyrfti að mæta í til að kaupa áfengi.  Þessar verslanir eru allar á fjölförnum slóðum og oftast í verslunarkjörnum.

Takk fyrir mig.

Jenný Anna Baldursdóttir, 21.10.2007 kl. 15:34

2 Smámynd: Katrín Ósk Adamsdóttir

Takk fyrir góða færslu og ég er sko sammála þér en ég vill ekki vín í matvöruverslanir og vill helst ekki hugsa það til enda ef það verður að veruleika og ég hef íhugað að bjóða þessum aðalflutningsaðilum frumvarpsins að fara fyrir þá í ríkið fyrst að þeim reynist svona erfitt að komast þangað og ég get ekki betur séð að opnunartíminn sé ansi rúmur.

Katrín Ósk Adamsdóttir, 21.10.2007 kl. 15:44

3 identicon

Mátti til að kasta smá kveðju hér inn einu sinni, kíki oft en kvitta aldrei.  Gaman að lesa marga pislanna.  Ég samhryggist ykkur í raunum ykkar, lífið er svo óútreiknanlegt sumir ganga breiðan sléttan veg en aðrir þurfa margar brekkur að fara og stundum kletta að klífa.  Þú veist örugglega ekkert hver ég er, en einu sinni endur fyrir löngu þegar afi okkar var jarðaður kom ég með mömmu í heimsókn til bróður síns og minningin úr þeirri ferð er " vá hvað það eru mörg dýr hérna " .  Bestu kveðjur Jóhanna.

Jóhanna Þorvaldsdóttir (IP-tala skráð) 21.10.2007 kl. 16:54

4 Smámynd: Ragnheiður

Já Jóhanna, ég myndi kannski ekki þekkja þig í sjón en ég veit hver þú ert og Þorvaldur bróðir þinn á sama afmælisdag og ég. Mamma þín kom einmitt hér í gærkvöldi, það var gaman að hitta hana

Ragnheiður , 21.10.2007 kl. 17:12

5 Smámynd: Ragnheiður

Það stóð ekki til að leyfa fólki ekki að hafa sínar skoðanir á málinu. Mínar eru skýrar og koma fram í innlegginu.

Ragnheiður , 21.10.2007 kl. 21:54

6 identicon

Mér finnst vert að taka það fram að það hefur hver maður rétt á sínum skoðunum sama hvað öðrum finnst um þær.

Varðandi vínbúðirnar þá finnst mér sök sér að leyfa létt vín og bjór í búðum. Mín tilfinning er sú að þeir sem á annað borð eiga erfitt með að halda sér frá víni og drekka það ótæpilega hafi nú þegar alveg nógu góðann aðgang að því þannig að þó svo létt vín væri selt í búðum þá myndi það ekkert auðvelda þeim sérstaklega aðganginn að því. Einnig má hugsa sér að góður aðgangur að léttvíni myndi minnka aðsókn í sterkt vín. og þar af leiðandi bæta vínmenningu á heildina.

En svo er líka annað mál en það er að sumir vilja meina að ölkum sé hvort eð er ekki viðbjargandi og þeir nái sér í áfengi ef þeir á annað borð ætla sér það. Ég er átfíkill og feitur, stundum þá fer ég út í búð gagngert til að kaupa nammi (samanber óviðbjargandi alki) en stundum þá er ég staddur útí búð bara til að kaupa í matinn en þar sem ég stend við kassann þá verður freistingin viljanum yfirsterkari þar sem kassinn er jú stútfullur af nammi (samanber alki sem ræður almennt við drykkjuna) Hvernig verður þetta þá þegar verða komnir bjórkælar við nammibarinn á kössunum í Bónus, verða þessir alkar sem almennt ráða við sig ekki bara nett léttir á því þegar þeir koma heim úr búðinni. (Það sakar náttúrulega ekki að drekka einn bjór á leiðinni heim !!)

 Eins og áður sagði þá er í mörg horn að líta

Kveðja,

Hallbjörn Magnússon (IP-tala skráð) 24.10.2007 kl. 09:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband