Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2010

"þessi færsla hefur aldrei verið vistuð"

enda ekki nema von, ég hef enn ekki skrifað hana múhahaha....(aulabrandari en hann var ókeypis, þið heppin !)

ég hef verið ágæt undanfarið, mun betri en á sama tíma í fyrra. Öðruhvoru skammast ég mín fyrir það en það er áreiðanlega ekki rétt. Ég hef engum gleymt og sorgin er hér enn en hún hopar meir og meir, út í horn. Ég skottast um glöð í sinni og þess fullviss að ég hitti hann þegar minn tími er kominn. Fólki finnst þetta líklega ótrúlegt. En lífið heldur óneitanlega áfram og þannig er það bara. Tilfinningarnar eru samt skammt undir yfirborðinu, það þarf ekki mikið til að minna mann á. Ég á enn til að sitja starandi á einhvern mann, sem líkist Himma, í ofvæni. Auðvitað veit ég vel að Himmi minn er dáinn en blekkingin er ljúfsár í þessi augnablik.

Ég hef mikið unnið undanfarið og það verður framhald á því. Steinar vinnur líka, ekki minna og við erum aðeins að sjá laun erfiðisins. Við erum að ná tökum að skammar skuldahalanum. Við erum ekki með gengislán en okkar lán hafa hækkað líka, sem betur fer ekki eins mikið og hin.

Hér bættust við 4 ný dýr um daginn, við fengum hænur í kofann sem er hér á lóðinni. Girtum vandlega í kringum þær svo Rebbi, Tumi og Rómeó veiddu þær ekki. Refur litli er mikil veiðikló, hann hefur komið inn með fugla og mýs, kanínu og stelk. Hálfstálpaður hænuungi yrði ekki vandamálið fyrir hann. Mér finnst hænurnar skemmtilegar :)

 

Ég ætlaði bara að láta ykkur vita af mér.


það hangir saman

andleg og líkamleg líðan. Nú er ég ekki upp á alla fiskana og þá er það segin saga. Leiði og sorg læðast að. Við fórum upp í garð áðan enda er afmælisdagurinn hennar mömmu í dag. Við fórum með blóm á leiðið hennar og ég keypti einn prakkaralegan engil og setti hjá Himma. Ég ætlaði svo að kíkja á vinnuna á eftir en ég fann að orkan lak úr mér, nánast áþreifanlega á leiðinni niður Ártúnsbrekkuna.

og ég hef eytt þessum degi í kúluspil á feisbúkk...

er að hugsa um Himmann minn, lífið hans stutta og hversu erfitt það er að bera þessa sorg áfram út lífið.

Ég gekk svolítinn hring í garðinum og leit við hjá ýmsum gengum vinum og vinnufélögum. Þegar ég kom heim þá áttaði ég mig á að mér hafði yfirsést herfilega. Haukurinn varð eftir...ég gleymdi að rölta til hans. Það er til skammar.

 


Þvergirðingsháttur

og líklega alveg skortur á mannkærleika.

Ég segi það enn og aftur, ég er lánsöm með nágranna.

Þessir leiðsögu og hjálparhundar eiga algerlega að vera óháðir hundalöggjöf - þetta er sérþjálfað vinnudýr.

Þessir nágrannar yrðu menn að meiri ef þau létu undan.

Annars hélt ég að byggi bara gott fólk á Skaganum, þekki ekkert annað....


mbl.is Vilja ekki leiðsöguhund í blokkinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta kemur ekki á óvart

Ástand manns eftir svona stór áföll er undarlegt. Það er eins og maður sé dofinn, í draumkenndu og ruglingslegu ástandi.

Þið sem ekki þekkið getið valið hér hitt bloggið mitt til að sjá þetta betur. Þar fer ég alveg yfir (minnir mig) hvernig mér gekk að fóta mig eftir andlát sonar míns 2007. Það verða 3 ár í ágúst.

Ég held að þetta sé einhverskonar öryggiskerfi sem tekur yfir, svo maður brjálist ekki. Svo síast veruleikinn inn, smátt og smátt. Maður tekur þetta áfall í skrefum og um að gera að taka sér þann tíma sem maður þarf.

Marga marga morgna varð ég að rífa mig framúr, ég vildi ekki lifa og vildi ekki koma til lífsins.

Nú lifi ég.

Hann lifir líka, í hjarta og hug okkar sem elskuðum hann.


mbl.is Hudson glímdi við þunglyndi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband