Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008

Jæja eruð þið tilbúin?

Nú er það næsti hjalli að klífa yfir...nú eru það frakkar sem eru í sigtinu.

Ég er ekkert allt of vongóð en ætla að horfa samt !

 

Og koma svo :

 

ÁFRAM ÍSLAND !!

Við skíttöpuðum enda ekki von á öðru gegn sterkum frökkum, fannst þeir vera fantar á köflum en var búin að sjá það í gær í leik þeirra gegn svíum. Í skaða/fýlu bætur ætlar Steinar að elda matinn...

Heyrumst seinna


samkvæmt þessu eru við örugg í milliriðilinn

Íslenska handboltalandsliðið er með öruggt sæti í milliriðlakeppninni eftir að Frakkar unnu Svía á EM í handbolta í gær.

Ef Svíþjóð vinnur Slóvakíu í dag er ljóst að Slóvakar sitja eftir með núll stig í riðlinum en þrjú af fjórum liðum fara áfram í milliriðlakeppnina.

Slóvakar þurfa því að vinna Svía í dag en ekkert minna en sex marka sigur dugar til. Það miðast einnig við að Ísland tapi fyrir Frakklandi í dag.

En hvort sem Slóvakía vinnur Svíþjóð með minna eða meira en sex marka mun fer Ísland áfram í milliriðlakeppnina með annarri hvorri þjóðinni.

Niðurröðun liðanna ræðst af árangri í innbyrðisviðureignum ef liðin þrjú - Ísland, Slóvakía og Svíþjóð - fá öll tvö stig í riðlakeppninni.

Ísland er með eitt mark í plús í markatölu í þeim samanburði. Sem stendur er Slóvakía með sex mörk í mínus og Svíþjóð fimm mörk í plús.

Vinni Slóvakía með sex mörkum í dag situr Svíþjóð eftir með eitt mark í mínus en Slóvakía verður þá með jafna markatölu.

Vinni Slóvakía með fimm mörkum sitja Slóvakar eftir með eitt mark í mínus en Svíþjóð verður þá með jafna markatölu.

Hvernig sem er verður Ísland alltaf með eitt mark í plús og því með betri árangur en bæði þessi lið.

Ef Slóvakar komast áfram í milliriðlakeppnina fer Ísland með tvö stig með sér í milliriðilinn en Slóvakar ekkert.

Ef Svíar komast áfram í milliriðlakeppnina fer Svíþjóð með tvö stig með sér í milliriðilinn en Ísland ekkert.

Allt þetta miðast auðvitað við að Ísland tapi fyrir Frakklandi í dag. Ef Ísland vinnur Frakkland dugar Slóvökum eins marks sigur á Svíum til að komast áfram.


Seinni til en aðrir.

Ég hef aldrei strengt áramótaheit. Ég þekki sjálfa mig og mína galla svo vel að ég hef alltaf talið hæpið að ég stæði við slík heit. Einhver áramótin hætti ég að reykja en ég man nú ekki hvort það entist eitthvað hjá mér.

Ég er samt búin að reyna að leggja niður með sjálfri mér markmið ársins.

a) Verða umburðarlyndari

b) Reyna að vinna gegn eigin fordómum

c) Reyna að sættast við lífið.

 

Ég sé að systir mín hefur sett inn myndir af nýjum "frændsystkinum". Ég hef aldrei séð svona nýja naggrísi og ég varð hissa á hvað þeir eru flottir, ekkert smábarnalegir. Bara eins og venjulegir grísir í smækkaðri mynd, sniðugt.


Framsókn, handbolti, smá skakkaföll og Davíð Oddson

Finnst ykkur fyrirsögnin ekki mergjuð ?

1)

Ég er búin að sjá að blessaður Framsóknarflokkurinn þarf ekki neina óvini. Þeir sjá um það alveg sjálfir og einir blessaðir að rífa sig niður innan frá. Ég hef áreiðanlega aldrei kosið flokkinn. Það er nokkuð magnað að fylgjast með þessu. Mér dettur í hug flugumaður úr sjálfstæðisflokknum, þetta er ekki í fyrsta sinn sem Guðjón gengur fram með þessum hætti. Svona mál á að leysa innanhúss og útvarpa þeim svo að því búnu. Nú er spurningin, mun valdamesti maður borgarstjórnar skipta um flokk ?

2)

Nú er næst að naga neglurnar til öryggis yfir frakkaleiknum í kvöld. Ég horfði á mestallan leik frakka og svía í gærkvöldi á www.ruv.is en þegar leikurinn var orðinn meira frosinn en minna þá gafst ég upp. Þetta eru ekki næg gæði í þessari útsendingu á vefnum. Frakkar léku ansi harðan bolta og svíar flugu eins og hráviði um allt. Ég er að vona að frakkar verði kannski smá þreyttir í dag, það gekk ansi mikið á. En ég er hins vegar ekki alveg nógu sátt við að gera bara ráð fyrir að við vinnum þá þannig, ef dagsform frakkanna er ekki nógu gott. Ég er ekki mjög bjartsýn á þennan leik.

3)

Bíllinn minn vildi endilega vera fastur í nótt og rann í framhaldinu utan í staur eða grindverk. Það kom sprunga í stuðarahlífina. Næst á dagskrá er að láta laga þetta til. Ég nota bara Pollýönnu á þetta og þakka fyrir að þetta varð ekki meira. Þetta getur alltaf gerst að eitthvað láti undan um helgar.

4)

Ég hef alltaf verið hrifin af ræðusnilld Davíðs Oddssonar. Hérna er bútur úr ræðu hans í afmælinu hans þann 17 janúar.

" Í desembermánuði sótti Þorsteinn sonur minn um starf og af því tilefni tóku að birtast myndir í fjölmiðlum, ein mynd af honum og sex myndir af mér. Þegar sjöunda myndin birtist af mér varð ég mjög hræddur um að fá starfið."
En svona er nú fjölmiðlunin á Íslandi, hún er á þessu hræðilega plani, eins og við höfum horft upp á í heilan mánuð," sagði Davíð og bætti við: "Reyndar var Ástríður nokkuð pirruð á því að þessi ágæti piltur væri alltaf sagður sonur minn en hennar aldrei getið. Ég benti konu minni á að þetta væri aðventan og þá væri mjög mikið talað um eingetna menn."

Að lokum minni ég á kertasíðuna hennar Þórdísar Tinnu hérna til hliðar. Hún er ansi lasin núna og veitir ekki af fyrirbænum, ég vona bara að á þær sé hlustað !


Olé Olé Olé Olé

Við erum komin í milliriðil, jibbý skibbý....

Það er bara spurning um hversu stór sigurinn verður....6 mörk eins og Einar bloggvinur minn spáði réttilega í hálfleik. Hreiðar markvörður er sko maður leiksins og dagsins....Olé Olé Olé....

Tölfræðilega er ekki aaalllveeeg öruggt að íslendingar séu áfram en það kemur í ljós betur síðar...


Ég er orðin frænka

ömmusystir ? langömmusystir ? skáfrænka ?

Æj ég veit það ekki en naggrís systur minnar gaut ungum áðan , heil 5 stykki í einni umferð...Iss..ég varð að gera fimm sinnum til að eiga fimm. Er þetta ekki svindl ?

Má ekki vera að þessu...handboltinn handboltinn maður !!!


Ein spurning ?

Hvaða lið spilaði í íslenska búningum á móti svíum ? Þetta er ekki sama liðið! Þetta lið sem þeir spila við núna er gjörsamlega spilað sundur og saman...ég er bara orðin alveg hissa á þessu....

Og.................

Áfram Ísland !

Áfram Ísland !!

Það verður að vera tvisvar, Anna mín er ekki við....núna er staðan 15-4 fyrir Ísland !!

Hver er þessi maður ?

bilde?Site=XZ&Date=20080119&Category=IDROTTIR02&ArtNo=80119042&Ref=AR&MaxW=260&MaxH=260&NoBorder=1


Jæja

þá á að fara að reyna að herða sig upp í að horfa á handboltaleik, væntingarnar eru engar hjá mér. Ég get ekki boðið mig fram í að senda góða strauma, ég er bara uppgefin..dæs. Var að vinna í morgun.

En samt.................

 

Áfram Ísland !


Hvað er það sem gefur lífinu gildi ?

Já þegar stórt er spurt.

Oft sé ég konur vera óánægðar með útlit sitt, þær berjast í megrunarkúrum, allskonar plokki og veseni með tilheyrandi sársauka og kvölum. Það er samt vitað mál að gott útlit eykur sjálfstraustið. Ég var í Kringlunni um daginn og horfði á fólkið. Ég sá fullt af ungum stúlkum sem litu eiginlega eins út...allar í svipuðum fötum og með svipaða hárgreiðslu. Ég sá líka eina stórglæsilega, líklega um þrítugt. Hún var sko alveg eins og klippt úr út tískublaði, stórbrotin að sjá. Hvert hár á réttum stað og farðinn óaðfinnanlegur. Ég mála mig aldrei, fyrir því er einföld skýring. Þegar ég var ung og sæt þá komst ég að því að ég þoli ekki snyrtivörur, ég fæ útbrot. Þetta olli mér heilmiklu hugarangri á þeim árum og ekki lagaðist klemman þegar ég komst að því að ég þoli heldur ekki skartgripi...ómæ...

Margar örvæntingarfullar tilraunir voru gerðar með vörur sem áttu að vera ofnæmisprófaðar..en ekkert dugði. Ég er löngu hætt að prufa og verð bara með það þreytta andlit sem mér var úthlutað. Þeir sem þekkja mig pæla ekkert í þessu en rosalega held ég að ég stingi í stúf í Kringlunni !

Þá má ég til með að segja ykkur aðaljólabrandarann. Steinar gaf mér hring í jólagjöf, gullhring (konuskepnan þolir ekta skartgripi)

Solla mín fer eitthvað að tala um giftingarhring og Sindri litli hans Jóns grípur það á lofti um leið.

Ha ? segir blessað barnið ráðvillt á svipinn

Hver vill giftast henni ? spurði hann svo alveg ráðalaus

Ég hló mig alveg máttlausa, blessað barnið. Þarna sá hann þessa gömlu kellingu og þessu botnaði hann ekki í.

Það kom dálítill vandræðasvipur á föður hans blessaðan en það var náttlega óþarfi. Hreinskilni barna er dásamlega og það er bara eitthvað að manni í hausnum ef maður móðgast yfir slíku..


Farbann

hefur margsannað sig að vera máttlaust úrræði hér á landi. Einhverju þarf að breyta. Eins lítið refsiglöð og ég er þá veit ég þó að á öllum reglum eru undantekingar. Menn sem ráðast með ofbeldi á aðra eru með eitthvað sérstakt innræti og teljast seint meinlausir menn. Nú eru þessir "kappar" sem réðust að lögreglumönnum á Laugavegi lausir en í farbanni.

Farbann hefur reynst vera lélegt úrræði, við sjáum það á umræðum undanfarinna vikna þegar menn í slíku banni hafa bara brokkað úr landi án eftirmála. Pólsk yfirvöld framselja ekki eigin þegna en það gerum við ekki heldur þannig að ekki getum við rifist yfir því.

Allar líkamsmeiðingar eru alvarlegt mál en sýnu verra er þegar ráðist er að lögreglumönnum við störf, þið munið...þessir í búningunum á skítakaupinu ! -

Nú hef ég haft talsvert að lögreglunni að segja, bæði opinberlega og óopinberlega þrátt fyrir að ég sé ein löghlýðnasta persóna sem til er. Málið er einfalt, ef allir væru eins leiðinlegir og fyrirsjáanlegir og ég þá mætti leggja löggur niður !

Oft varð ég að sækja stráka sem löggur voru að geyma og oft var Himminn minn í þeirra vörslu. Hann bar þeim alltaf vel söguna utan einu sinni. Þegar hann ók eins og óður maður um götur borgarinnar og þeir á eftir. Mamman skammaði hann náttlega (eins og að skvetta vatni á gæs) og hann beið eftir að mamman drægi andann og sagði þá ; veistu mamma mín, þetta er í fyrsta sinn sem löggan er vond við mig ! Þá var mamman búin að ná andanum aftur og spurði með nokkrum þjósti hvort honum fyndist það verulega furðulegt ! ,,Nei " sagði hann og ég heyrði brosið í gegnum símann. Svo var það mál útrætt en það var fyrir þetta sem hann sat inni sitt síðasta sinn.

Það er einfaldlega ekki lögreglunni að kenna þegar maður er hirtur fyrir afbrot. Það verður náttlega að gera þá kröfu á þá að þeir misnoti ekki vald sitt. Mín reynsla af lögreglunni hefur verið góð . Mér finnst að þeir eigi að fá almennilegt kaup og góðan aðbúnað....það má hækka laun þeirra umtalsvert og þá má líka auka kröfurnar. Núna hefur verið hallæri hjá lögreglunni, þeir hafa orðið að tefla fram nemum í auknum mæli og jafnvel svo að áhöfn bíls hefur verið alfarið mönnuð nemum í stað þess að hafa einn reyndan og einn nema eins og heppilegast er. Menn flýja þetta starf enda er ekki hægt að bjóða fjölskyldunni upp á hugsjónir í kvöldmatinn.

Jæja farin að hugsa um eitthvað annað....

Kvíða fyrir handboltaleiknum í dag eða eitthvað Pinch


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband