Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008

Ég var að spögulera...

Í nokkur skipti þegar ég hef lesið blogg víðsvegar hef ég séð fólk tala um að hafa lent í basli á vinnustað vegna bloggfærsla sinna. Stundum hefur það gengið svo langt að fólk hefur verið rekið úr starfi, án þess að hafa nokkru sinni rætt um sinn vinnustað á blogginu. Þetta hefur komið mér verulega á óvart og það er langt í frá að ég skilji slíka starfsmannastefnu. Hvaða minnimáttarkennd ætli þetta sé ? Hvar á að draga mörkin milli persónufrelsis og helsis vinnunnar ?

Mér dytti ekki í hug að reka starfsmann fyrir það að halda úti bloggsíðu. Ef sú staða kæmi upp að hann væri að drulla yfir sinn vinnustað opinberlega þá myndi ég mögulega ræða fyrst við starfsmanninn og sjá hvað væri hægt að laga.

www.skessa.blog.is skrifaði fantafærslu en ég er syfjuð og skil hana ekki. Heiða mín, á ég að setja upp lesgleraugun ? Reyni kannski aftur á morgun að lesa og botna í. Þetta kemur stundum fyrir mig, næ ekki að einbeita mér.

Ég er hrifin af bókinni sem ég er að lesa, bókin um Laxnes skráð af Ólafi Ragnarssyni. Hún er bráðskemmtilega fyrir Laxnes aðdáanda eins og mig.

Mér þóttu fréttamenn mjólka heldur fréttir af andláti Bobby´s í kvöld, upp dregnir allir sem mögulega höfðu einhver samskipti við hann, sýndur tómur stóll og ég veit ekki hvað...en mikið rosalega langaði mig inn í þessa fornbókabúð Errm

Það er hálfvesaldarleg bloggtilvera svona Jennýarlaus...rosa skarð skilur konan eftir sig í skreppinu til London.

Hérna til hliðar er linkur á kertasíðu fyrir hana Þórdísi Tinnu, kveikið ljós fyrir hana þessa elsku. Hún er ansi lasin núna.

Góða nótt


Þegar ég var krakki

í Laugarnesinu þá varð allt vitlaust eitt árið, það stóð yfir skákmót í laugardalshöllinni. Við krakkarnir snigluðumst þarna í kring með óttablandinni virðingu. Þarna voru flottir bílar og haugur af fréttamönnum. Mikið kapp lagði ég á að sjá teikningar Sigmunds á hverjum morgni, hann teiknaði skákmeistarana. Þetta vakti upp skákáhuga hjá okkur krökkunum, seinna fórum við flest í Laugalækjarskólann. Það var Þráinn Guðmundsson skólastjóri, afskaplega yndislegur maður og mikill skákmaður alla tíð. Það komu margir skákmeistarar úr hans skóla í gegnum tíðina. Alltaf þegar ég á leið framhjá skólanum þá sé ég fyrir mér þennan hlýja og góða skólastjóra, honum átti ég margt að þakka. Hann er nú látinn. Ástæða þessara bernskuminninga er auðvitað sú staðreynd að nú er annar þessara miklu skákmeistara fallinn frá. Bobby lést í gær. Ég er ánægð með að hann fékk að eyða sínum tæplega síðustu 3 árum hérna á Íslandi í friði og ró.

Í dag fylgir Greta bloggvinkona mín föður sínum Úlfi síðasta spölinn. Það eru rúm 5 ár síðan ég gekk hnuggin á eftir kistu móður minnar sem lést eftir hatramma baráttu við krabbann. Hún var merkileg kona. Fram á síðustu stundu ætlaði hún heim og þessi krabbi skildi ekki vinna sigur á henni. Á föstudegi 29 nóvember var hún að byrja að fjara út en þá kom fyrrum mágur minn í heimsókn. Hún náði að heilsa honum og brosti til hans. Hann hefur alltaf verið mikið uppáhald í fjölskyldunni enda hafa þau náð að setja börnin sín í forgang eftir skilnað þeirra. Slíkt fólk er magnað. Stuttu seinna missti hún meðvitund og vaknaði ekki aftur, hún lést síðdegis næsta dag. Hann fékk síðasta brosið hennar og það átti hann svo innilega skilið. Okkar hjálparhella í veikindum mömmu var Gréta systir hennar. Þær voru alltaf svo samrýmdar og máttu ekki hvor af annarri sjá. Gréta stóð eins og sá klettur sem hún alltaf var. Hún lést síðastliðið vor, í sömu stofu og mamma og í sama rúmi, þá búið að berjast við krabbann sjálf. Hún var þá búin að ganga í gegnum þá mestu sorg þegar hún missti dóttur sína snögglega nokkrum mánuðum eftir að systir hennar féll frá. Stína dóttir hennar, alin upp á vestfjörðum, var mesti heimsborgari sem ég hef nokkru sinni þekkt. Ótrúlega mögnuð kona alla tíð. Stína missti mann sinn af slysförum frá ungum börnum og það vissum við að reyndist henni erfitt en dugnaður hennar í gegnum lífið var okkur hinum fyrirmynd. Hálfu ári áður en Gréta frænka lést þá lést öldruð móðir hennar, Gréta hafði borið þungann af umönnun gömlu konunnar í áraraðir. Stundum finnst mér ég hafa verið snuðuð um báðar mæður mínar, Gréta var mér sem móðir og tók það sérstaklega fram þegar við stóðum við dánarbeð mömmu. ,,Ég skal vera mamma þín, Ragna mín" sagði hún.

Fjölskyldan hefur alltaf kallað mig Rögnu og það finnst mér alveg ágætt. Það er einka fyrir mitt fólk. Þetta breyttist í gegnum tíðina, einhver tók upp á að kalla mig Röggu þegar ég var unglingur og fannst hitt kellingalegt. Mér er alveg sama hvort er notað en í seinni tíð finnst mér nafnið mitt heilt og óstytt bara best.

Ég veit ekki hvert þessi pistill fór...hann átti að snúast um skák bernsku minnar en eitthvað fór ég útaf sporinu.

Báðar "mömmurnar" mínar hafa vonandi tekið á móti Himma mínum og passa hann nú vel. Mamma kallaði hann oft ,,lilla nabba" . Það var úr einhverjum sjónvarpsþætti sem vinsæll var, hann hét líklega ; undir sama þaki . Ég man það þó ekki alveg en hann átti að gerast í blokk. Íslenskur þáttur og eins og svo margt sem gert var á þeim árum alveg snilldarframleiðsla.

Jæja....farin að gera eitthvað annað en að skrifa hérna.

Já gleymdi einu, ég hef verið að fækka bloggvinum. Þetta bloggvinakerfi fer svolítið í taugarnar á mér, ég set alltaf síður í favorites sem ég vil ekki týna. Mér finnst standa upp á mig að lesa hjá öllum bloggvinum og ég mun fækka þeim þar til ég er sátt við fjöldann. Ykkur er samt velkomið að lesa og kommenta að vild. Ykkur var ekki skutlað út vegna kommentaleysis, alls ekki. Þar af leiðir þá mun ég ekki taka við nýjum bloggvinum heldur, þetta er náttlega fáránlegt að koma sér í svona aðstöðu...þvingandi aðstöðu. Það er ekkert persónulegt ef þið eruð sett út....og vinsamlega ekki taka því svoleiðis.

Á tímabili var ég að hugsa um að hafa bara þá bloggvini sem ég hefði hitt í eigin persónu...hehe þá hefði þeim fækkað niðurfyrir 10 hehehe...nei og þó....Rósantsdæturnar yrðu náttlega hérna....kannski rúmlega 10 hehe

 


EM 2008

Bara örfærsla....íslenskir áhorfendur á EM 2008 fá klappið í upphafi leiks. Þeir sungu þjóðsönginn hátt og snjallt með strákunum og gáfu þar með rétta tóninn.

Áfram Ísland !

Þá er fyrri hálfleikur búinn og ég er búin að komast að því hvað þessi alkunna svíagrýla heitir, hún heitir Thomas Svensson og er markvarðarantik ...með glóðarauga og allt og minnir mig helst á sjóaðan fresskött.

Íslenska liðið virkar á mig þungt og þreytt. En stundum hafa þeir komið tvíelfldir til baka eftir leikhlé og nú bind ég vonir við það....Alfreð ...ýttu á réttu hnappana !!

 

Hann ýtti ekki á réttu hnappana og nú er ég orðin svartsýn...verulega svartsýn og akkurat í skrifuðum orðum eru dómararnir að gera einhvern skandal

Ó boj..okkur er slátrað þarna bara. Það klikkar allt hjá okkar mönnum, bara allt. Svensson markvörður er bara búinn að loka markinu og henda lyklinum. Það er alveg sama þó Svíar séu 2 færri, það bara skiptir ekki neinu máli.

Steinar er farinn úr stofunni, hann tautaði áðan yfir að það hefðu verið of margir æfingaleikir og mennirnir væru þreyttir. Ef það hefðu ekki verið neinir æfingaleikir þá hefði hann áreiðanlega sagt að þá hefði vantað W00t

Nú kom allt í einu góður kafli og ég er alveg hissa...munar bara 6 mörkum núna en rétt áðan voru þau 10

Og við töpuðum Crying


Eftirköstin koma fram

af þessu Kringlurápi, bilaði fóturinn segist ekki vera með í þessu og neitar að virka. Mikið vildi ég að hægt væri að afhjúpa vandamálið með hann, þá væri kannski smásmuga að laga hann til. Svo er mjóbakið eiginlega alveg í mínus líka og það er ekki eins og vant er.

Ég hef verið nokkuð niðurdregin undanfarið en hef ekki viljað vera að skrifa það neitt sérstaklega hérna. Bæði er ég límið í minni familíu og svo leiðist mér ég sjálf, síkvartandi.

Hann hefur endalaust þvælst fyrir mér núna...

Hann labbar frá hurðinni, kippir buxunum upp í skrefinu. Opnar bílinn sinn, lítur við og brosir til mín. Ég veifa og hann fer inn í bílinn og bakkar burt.

Næst hringir hann og er þá á Hverfisgötunni á leið austur...hjartað í mömmu sökk....æj æj æj...en mamma reyndi að hugga sig við að þetta væri ekki svo langur tími. Mamma alltaf að reyna að vera bjartsýn og vongóð.....Mamma náttlega asni....hann kom aldrei heim aftur.


Nýtt persónulegt met slegið í dag

Ég fór í Kringluna í dag, það er óvenjulegt. Þangað fer ég aldrei. Auðvitað kom það ekki til af góðu. Björn þurfti endilega að breytast í hálfgert lukkudýr í dag. Það byrjaði með að hann hringdi í augnlækninn og það var til tími þar í dag. Meðan við biðum eftir honum þá margkomust við að því að engir tímar voru lausir fyrr en í apríl. Björn datt svona snyrtilega inn í afpöntun á tíma. Svo var að fara um lukkudýrið í gleraugnabúðina og þar kom fyrir það sem aldrei hefur áður gerst. Glerin fyrir vonda augað voru til. Ég hef skrilljón sinnum keypt fyrir hann gleraugu í gegnum tíðina og þau hafa ALDREI verið til og alltaf þurft að panta þau og bíða eftir þeim. Hann er með svo slæma sjón á þessu bilaða auga að venjulega hafa verslanir ekki legið með svona gler á lager. Hann komst að því í leiðinni að hann hefði svo slæma sjón að hann hefði ekki fengið vottorð fyrir meirapróf, það á eftir að verða leiðinlegt fyrir hann. Það verður skoðað betur síðar. Vont að vera úr atvinnubílafamilíu og geta ekki verið með í félaginu.

En metið mitt var semsagt að vera í Kringlunni í 3 klukkutíma og hér sit ég og blogga um þennan merkilega atburð í lífi mínu. Það var auðvitað fullt af fólki þar og ég gæti vísast gleymt mér heilan dag í að horfa á allt fólkið þarna.

Þegar við komum út aftur þá komumst við að því að það hafi kafsnjóað...KAFsnjóað. Ókum heim og komumst að því í leiðinni að Bessastaðir voru horfnir.

Ég var svo heppin að eiga gjafakort í Kringlunni og ég gat notað það. Fékk mér eina seríu af sjónvarpsþáttum sem ég er að safna og einn geisladisk. Skrapp í Bónus þarna og það er þá í annað sinn sem ég fer í Bónus í Kringlunni...sko mig ! Rambaði inn í bókabúð og fékk mér bók á útsölu. Bók sem kom út fyrir jólin eftir Ólaf Ragnarsson um Halldór Laxnes. Þarna mátti líka fá Guðna á útsölu en ég tímdi ekki að kaupa nema eina bók.

Nú eru feðgar farnir að sækja gleraugun, Steinar ákvað að hlífa kellingarvarginum (eða heimilisbókhaldinu?) fyrir meiri Kringludvöl og skutlaði mér heim meðan var verið að græja gleraugu Bjarnarins.

Komi hann heim á mínum bíl þá hefur hann ekki treyst sínum í snjónum. Minn er náttlega á mun betri dekkjum Whistling

Nú ætla ég að sitja hér, slaka á og taugabilast yfir því að kallarnir mínir eru úti í vonda veðrinu......

Þessi færsla var í boði Kringlunnar.


Undur og stórmerki

og ég er alveg hissa og sannfærð um að málshátturinn ; þolinmæði þrautir vinnur allar...svínvirkar. Þegar sumir ungir menn á heimilinu voru að verða 17 þá voru sömu ungu menn búnir að vinna sér inn hjá móður fyrir bílprófi og svoleiðis. Hann fór í tíma og í ökuskólann, hann var næstum búinn með allt þegar............púff..........hann nennti þessu ekki.

Í morgun spurði hann okkur hvað hann hefði eiginlega verið á sterkum lyfjum þegar hann hætti við þarna um árið.. Gamla settið glotti ofan í kaffibollana..og þvertóku fyrir að nein lyf hefðu verið notuð. Nú ætlar hann að vaða í að klára þetta, verst er að hann verður að byrja aftur frá grunni.

Hver ferð hefst á einu hænuskrefi....hann fer í augnlækninn í dag.

Við eigum hérna ágætan gamla bíl handa honum, hann þarf að laga hann smávegis en þá ætti bíllinn líka að henta ágætlega fyrir byrjanda í umferðinni. Himmabíllinn er hérna inn í skúr og ég ekki tilbúin að sleppa af honum hendinni ennþá....vesalings Himmi minn.

Björn hefur semsagt ákveðið að ljúka við bílprófið áður en hann verður tvítugur....

Vei !

PS..tók aðeins til og hef örugglega farið offari við það...þið kvartið þá bara.


Jæja

Ein alveg snilldarmynd af Hilmari.

IMG_4933

Hann er bara flottastur...

Dúa segist hafa verið nr . 600.000 en ég held að hún sé bara að endurnýja pönnukökuinneignina sína, það er líka allt í lagi. Anna var rosalega nálægt þessu...

Það er ekkert í fréttum hérna núna...er ekki alveg sú hressasta, báðar hliðar bilaðar en á morgun ætla ég að reyna að hvíla mig og sjá hvort þetta lagast eitthvað. Þetta er ansi þungt stundum. Ég sé menn fá brandaradóma fyrir það sem ég tel alvarlegt brot. Himmi var dæmdur mun þyngra oft á tíðum en hann meiddi ekki fólk, hvorki börn né fullorðna.

Steinar ætlaði að kaupa 2 dekk í dag en vegna þess að við erum sérvitur og viljum bara ákveðna sort þá fékk hann ekki dekk. Ekki til á landinu. Hann er svosem ekki á ónýtum dekkjum, vetrardekkjum frá mér síðan í fyrra. Græna skruggan (dekurrófan) fékk nýja kuldaskó í vetur.

Við púslum bara hérna og höfum það ágætt.

Ég eins og fleiri vorum slegin óhug eftir atvikið við Laugarnesskóla, gamla skólann minn. Við þurfum alltaf að halda vöku okkar og brýna fyrir börnum okkar að fara ekki í bíl með ókunnugum, við getum ekki passað þau hverja mínútu. Forvarnir byrja heima.

Þetta er samt ekki framtíð sem við íslendingar höfum áhuga á...það er skelfilegt að fylgjast með t.d. bandarísku þjóðfélagi, þar má ekki líta af börnum....æj hrollur...Það er eiginlega ekkert hægt að segja en það setur að mér óhug.

Jenný leiðist ekki neitt og hefur ekki leiðst neitt í dag, ég er alveg viss um það Whistling


Fátt í fréttum og þó

helvískur teljarinn ....nú verðið þið að fylgjast með. Ég vil endilega vita hver verður 600.000 þúsundasti gesturinn hérna.

Annars er hér framhaldsspá, búist er við bloggleti enda hugmyndaflugið lokað niðri eins og sakir standa. Úr þessu gæti þó ræst fyrirvaralaust. Mér er gjörsamlega fyrirmunað að nenna að blogga um fólk þó það hafi gefið út margar plötur og skreyti forsíður blaða á degi hverjum.

Þetta fólk á náttlega bágt að lifa eins og gullfiskar í kúlu og við með nefið ofan í öllu sem þau gera, þökk sé alheimsfréttamiðlum !


Syfjuð

Þrátt fyrir að Heiður hafi reynt að vekja mig með kafsnjómyndum úr Grindavíkinni. Þá datt mér í hug við kallinn í gær, þurftum aðeins að skreppast að heiman. Steinar segir með skelfingu í röddinni, það hefur bara snjóað heilmikið ! Ég leit út um bílgluggann og taldi snjókornin, ég held að þykktin á ullarteppinu hafi næstum náð hálfum sentimetra ! Ég benti manninum á þessa veðurathugun mína og hann ákvað að skipta um umræðuefni. Ekki skil ég afhverju ?!

Annars er nákvæmlega ekkert í fréttum nema náttlega á heimsvísu, bendi á www.mbl.is og www.visir.is

Nú ætla ég að halda áfram við það sem ég er að gera....gríðarlega upptekin.

Bonzó er í klappi og knúsi hjá Öskju. Hann átti tíma þar í morgun og eftir skakkaföll helgarinnar fær hann nýjar síur...sá verður glaður, hann verður áreiðanlega alveg grænn af gleði !


Mjölnir er fundinn!

Frábært..ég óska eiganda hans til hamingju með það.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband