Ömmur

nútildags eru aðeins öðruvísi en ömmurnar voru í gamla daga. Amma mín var lítil og þykk kona, ég held að mér sé farið að svipa nokkuð til hennar í útliti. Hún virtist hafa endalausan tíma og ég man ekki eftir að hafa séð hana flýta sér.

Ömmur í dag eru öðruvísi. Þær eru í vinnu og þær hafa margt sem þær eru að fást við.

Svo eru ömmur sem hafa mikið að gera og takmarkaða getu til að passa barnabörnin sín. Ég er svoleiðis amma. Ég hef nánast aldrei passað barnabörnin. Ég hefði alveg tíma til þess öðru hvoru en það er ekki það sem stoppar mig. Ég hef átt ansi erfitt oft með mína krakka, þau hafa lent í basli og allskyns veseni. Einhvernveginn hef ég tekið þetta óskaplega nærri mér og inn á mig. Þetta hefur lamað mig að mörgu leyti í mannlegum samskiptum, ég er orðin svo leið á vonbrigðunum að ég er farin að halda mig til hlés tilfinningalega. Ég hleypi ekki fólki að mér, ég get ekki þolað vonbrigðin. Sumir ná að smella inn fyrir brynjuna fyrirhafnarlaust en það er sjaldgæft. Oft langar mig að gera meira, vera meira með fólkinu mínu en mér finnst ég bara oft svo glötuð innan í mér að það sé ekki til neins. Ég til dæmis þori ekki að bera ábyrgð á velferð barns. Ef eitthvað kæmi fyrir...

Ég veit ekki alveg hvernig ég á að eiga við þetta vandamál. Nú er að koma nýtt barnabarn, það á skilið að fá ömmu sem virkar eins og amma. Ég á fyrir 2 dóttursyni sem eru fallegustu og bestu drengir í heiminum. Ég elska þá og er svo stolt af þeim.

Það er sama með krakkana mína, þau eru hvert öðru yndislegra. Það er bara ég sem er biluð...og svo þreytt á því að vera svoleiðis.

Þau eru samt góð og umbera mig. Við Himmi áttum sérstaklega gott með að skilja hvort annað og nú þegar ég skrifa þetta þá rífur sorgin í mig. Ég átti svo margt eftir að segja honum og gera með honum þessum elsku strák.

Munið ljósin hans og ljósin fyrir stúlkurnar mínar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Þetta er eitthvað sem þú þarft að takast á við.  Þú mátt hreinlega ekki missa af þessum elskum, þau eru of dýrmæt.  Ráðlegg þér viðtalstíma við Sálfræðing.  Jóhann man ekki hvers son, er alveg frábær, hann hefur verið meðferðarfulltrúi og þekkir mjög vel bæði til fíkla og alkóhólista.  Ég hef notið þess að ganga til hans, þegar allt um þrýtur hjá mér.  Ég skal finna nafnið hans ef þú hefur áhuga. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 23.10.2007 kl. 23:16

2 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Þú ert enn að segja Himma margt, en vandamálið er að þú færð ekki svörin þar sem hann er farinn í bili. Ég hef aldrei getað verið mikið með barnabörnin mín en það er heilsunnar vegna, stelpurnar okkar hafa í staðinn komið og gist með þeim stundum svo við getum notið samvista við þau á heimavelli svo erum við líka alltaf velkomin þegar við komum í bæinn, maður má ekki missa af þessu elskum, þau gefa svo mikið. Vona elsku Ragga mín að þetta lagist.

Ásdís Sigurðardóttir, 23.10.2007 kl. 23:26

3 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Ragnheiður mín.  Ég skil vel að þú hleypir ekki hverjum sem er að þér.... það þekki ég.... mér finnst líka sjálfsagt að velja samferðamenn sína vandlega.... það lærir maður með auknum þroska.

Hins vegar særa börnin ekki.... þau eru svo hreinlynd og góð.  Þú þarft að gera greinarmun þarna... og vita jafnframt að þú ert ein fallegasta sál sem fyrirfinnst og ég er sannfærð um að þú hefur verið eins góð mamma og þér hefur verið unnt á hverjum tíma.  Það er svo margt sem spilar inn í, í lífinu, sem maður ræður ekki beinlínis við.  Þú getur gefið barnabörnunum svo margt..... og láttu það nú eftir þér... fyrir þig og ekki síður þau. 

Anna Einarsdóttir, 24.10.2007 kl. 00:02

4 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Þú hlýtur að vera flott amma sem á bara eftir að batna af því þú veltir því fyrir þér yfirhöfuð.  Bara þannig held ég að maður auki við þroskann.  Ég tek ömmuhlutverkið alvarlega (er reyndar alltaf sísmælandi í því) og finnst það frábært.  Ég efast ekki um að þú átt eftir að taka niður varnarmúrinn smátt og smátt.  Það er ekkert sem gerist á einum degi. 

Knús á þig krútta mín.

Jenný Anna Baldursdóttir, 24.10.2007 kl. 00:16

5 Smámynd: Ásta María H Jensen

Ég veit ekki hvernig amma ég verð en ég vona að ég verði ekki slæm

Ásta María H Jensen, 24.10.2007 kl. 02:16

6 Smámynd: Hugarfluga

Ekki refsa sjálfri þér svona, kæra vina. Taktu eitt skref í einu til að bæta það sem þér finnst þurfa að bæta.  Let bygones be bygones. Sendi þér risaknús með hugarflugi. 

Hugarfluga, 24.10.2007 kl. 10:57

7 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Elsku Ragnheiður, ekki láta gamlar hugsanir um mistök(?= það sem þú lítur á sem þín mistök) í fortíðinni verða þér fjötur í fót í að umgangast barnabörnin þín .

Njóttu þess bara að vera amma, spilaðu eftir eyranu og hjartanu .

Sú amma sem þú ert er sú amma sem barnabörnin þín eiga að eiga...vonandi skilst hvað ég meina ...

Ein sem ekki er enn orðin amma (en samt orðin langamma).

Greta Björg Úlfsdóttir, 24.10.2007 kl. 14:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband