Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008

Jæja

þá er að setja sig í stellingar fyrir leikinn, hundarnir horfa á mig eins og ég sé með lausa skrúfu en það er allt í lagi hehe.

Ég er bara að skrifa þetta til að sýna fram á að ég fór á fætur hehe....

en þið ?

¨¨eins og mér er illa við að kenna dómurum um slakt gengi okkar manna þá er það alveg ljóst að Kóreuskammirnar eru að vinna leikinn MEÐ dyggum stuðningi pólsku dómaranna¨¨

En það er í bland við slakan sóknarleik og góðan kóreaskan markvörð....það er enn von samt


Aukafrídagar

eru eins og aukakrónur Landsbankans, þeir koma bara.

Bílinn minn er í hálfgerðu verkfalli og það sem þarf að skipta um er ekki til. Það er í pöntun, hraðpöntun og næst vonandi fyrir helgina.

Annars ætlaði ég að koma hérna með eina mynd, af mér og þessum með rifbeinið, síðan í gær í garðinum. Við löguðum til hjá Himma og settum engil og hvíta steina á leiðið hans. Hann var með ljótasta leiðið á svæðinu, hjá honum var ekkert. Mamman svo lengi að ákveða hvað hún vildi gera og alls ekki með græna fingur. Ég tók líka bækling yfir legsteina og ætla að leggjast yfir það í vetur með mínu fólki hvað við setjum hjá Himma.

Jóna Kolbrún segir í kommenti við síðust færslu að hún hafi haldið til að byrja með að Patti væri hundur en komist að því að hann er manneskja þegar síminn hans hringdi.

Mínir hundar eru með gsm, þeir eru þeir einu sem ég þekki sem mega mása í símann hehe...kva!

En hér kemur myndinNýjasta myndaalbúmið 12082009 100

Við erum að hugsa um að kalla Patta, Beingrím. Honum leist ekkert illa á það í gær.

Hérna kemur svo mynd af leiðinu eins og það er núna.

Nýjasta myndaalbúmið 12082009 101Við ætlum að setja fleiri steina en eru komnir þarna.

 


Upp komast svik um síðir

og það kom í ljós í dag. Ég veit ekki alveg undir hvað þessi svik falla en svik eru það engu að síður. Hann Patti hefur verið í rannsóknum undanfarið. Hann er búinn að vera undarlegur í hálsinum. Við vissum ekki til að neitt hefði komið fyrir hálsinn á honum nema slys í leik þegar hann var smágormur.

En í dag fórum við að kaupa nýjan engil handa Himma og meðan við biðum þess að búið væri að líma engilinn á marmarastall þá hringdi síminn hans Patta. Aníta komst fljótt að því að Patti var að tala við lækninn og einhvernveginn komst hún að því að Patti væri allaveganna með eitt aukarifbein. Mamman fór að flissa eins og fífl í legsteinabúðinni og Patti brosti allan hringinn meðan hann spjallaði áfram við lækninn.

Svo loksins lauk þessu samtali og niðurstaðan er sú að rannsóknar er þörf. Hann er með auka rifbein öðru megin. Hann er með 3 samvaxna hálsliði og það veldur skekkjunni í hálsinum.

Áður hafði komið í ljós að það vantar í hann fjórar tennur sem koma aldrei. Þarf að smíða þær uppí hann.

Nú er spurningin ; hvað vorum við foreldrarnir á spá þegar Hjalti var settur í framleiðslu ? Anyone ?

Gísli ?

*hóst* farin að skammast mín

--------------------------------------------

setti margar nýjar myndir hinumegin.


Loksins

löglega afsökuð og get glápt á olympíuleikana í dag. Fór nefnilega að vinna í gær og Bonzó tók upp á að bila, skömmin sú arna. Hann skrapp til vina sinna í Öskju í morgun og þeir ætla aðeins að klappa honum. Annars er hann ekki mikið í að bila blessaður. Það er samt dálítið fyndið hvað þeir eru samtaka. Í síðustu viku fór miðstöðin í Steinars benz, núna er miðstöðin farin í mínum. En það var nú ekki bilunin sem var að kvelja mig núna heldur er annaðhvort farinn skynjari eða mótor fyrir viftuna, hann tók upp á að hita sig í gær.

Nú er ég líklega búin að tapa skilningi flestra sem hér lesa hehehe.

Við fórum aðeins í kirkjugarðarölt í gær og það var þriðja kvöldið í röð. Fyrsta kvöldið fórum við Bjössi í gönguferð í Fossvogi, næsta kvöld gengum við Sigga í Fossvogi en núna fórum við Steinar í Gufunes. Við fórum til Himma fyrst. Leiðið hans er hálfótótlegt, ég þarf endilega að setja alla í að færa honum eitthvað, engla eða eitthvað slíkt.

Í gær frétti ég af jarðarför vinnufélaga míns og vinar, það var í kyrrþey þannig að ég fór ekki enda frétti ég það svo seint að ég hefði ekki náð að mæta á réttum tíma heldur. Maður kemur ekki of seint í jarðarför! En mig langaði samt að kveðja þennan vin minn og við tókum okkur til og leituðum hans í leiðinni. Við fundum hann í Kópavogskirkjugarði. Ég stóð hjá honum nokkra stund og spjallaði við hann og kvaddi hann þar. Það verður undarlegt að mæta til vinnu í haust og hann verður ekki þar, hann verður heldur ekki væntanlegur.

Meistari Björn var búinn að laga kaffi þegar ég vaknaði. Hann er kominn með vinnu og átti að mæta í þjálfun á morgun. Í dag vantaði hins vegar einhvern í útkeyrslu og hann var fenginn í það. Það er ágætt að vera nýkominn með próf og vera settur í að keyra sagði brosandi Björn um leið og hann skottaðist út um dyrnar.

Vonandi gengur þetta vel hjá honum greyinu.

 

 


Konan sem fjallað er um

er þessi hérna og hér kemur færsla frá henni þar sem henni er réttast lýst.

Ég ætla að skreppa aðeins til Himma í Gufunesgarði.


Öðruvísi pistill

Í dag ætla ég að fjalla um konu, konu sem ég þekkti ekki fyrr en eftir 19 ágúst 2007. Hún hafði lagt inn hjá mér skemmtileg komment allt sumarið í fyrra þegar ég fjallaði um flísalögn, hvuttana mína og kóngulærnar sem hér er yfirdrifið nóg af.

Svo kom höggið mikla. Hilmar dó. Ég skrifaði skilmerkilega hér hvað ég var að hugsa, hvað ég vildi gera og hvað mig langaði í. Eitt það fyrsta sem mér fannst ég verða að fá var blátt kerti.

Ég man ekki hvaða dag það var en hún birtist hérna, með blátt kerti sem hún færði mér. Þetta kerti logaði á borðstofuborðinu alla vökuna og nokkuð lengi fram yfir útför Hilmars. Það er góð lykt af því, einhverskonar sjávarlykt.

Ég fékk mér skáp, í stíl við þennan skenk sem sjónvarpið stendur á og þar í raðaði ég öllu sem tilheyrir Hilmari. Þangað inn fór kertið hans bláa líka, þó það væri búið að brenna mikið niður. Þar er myndaalbúm með myndum af honum, öll kortin sem bárust og þar geymi ég gullin mín öll sem honum hafa tengst.

En fátt þykir mér vænna um en bláa kertið. Bláa kertið sem ókunnunga konan færði mér. Ef ég fer nærri skápnum þá finn ég lyktina af því, þessa lykt sem fyrir mér táknar manngæsku og einhverja þá fallegustu sál sem ég hef kynnst.

Þessi kona gerir það ekki endasleppt. Ljóðið hérna fyrir neðan sendi hún mér þann 8 ágúst. Hún veit eins og allir aðrir að árið -fyrsta árið- er að verða liðið. Það eru erfið tímamót.

Nú ætla ég að vita hvort þið eruð getspök, hvort þið getið giskað á hver þessi kona er hér á Moggablogginu.

SENN ER ÁRIÐ LIÐIÐ.

 

Því fórstu svo fljótt elsku drengurinn minn,

því dimmdi svo snöggt hér í heimi?

ég get ekki höndlað lífið um sinn,

minn hugur er langt út í geimi.

Árið að líða og ekkert er rétt

lífið svo undið og snúið.

Við brjóst mitt í huganum faðma þig þétt,

en þetta er allt saman búið.

 

Hver dagur hann líður í í pínu og kvöl,

ég reyni að gleðjast og vinna.

Því varð ekki lengri þín jarðneska dvöl,

var einhverju öðru að sinna?

Hugur þinn ávallt á fluginu var,

þú þeystir um landið sem stormur.

Hvað var það sem fleytti þér áfram þann dag,

er vonleysið skreið inn sem ormur.

 

Það vafði þig böndum og batt þína hönd,

í huganum barðist og streyttist.

Þeir lögðu' á andleg og skelfileg bönd,

þú hræddist að ekkert nú breyttist.

Ein var þó lausnin illskunni frá,

þú vildir mig vernda og tryggja

að hverfa í burtu þú hélst þar og þá

að minnst mundi gjörð sú mig hryggja.

 

En ástin mín eina, svo röng var þín trú,

ég vildi að hjálp hefði borist.

En líf þitt þú tókst og byggðir þér brú,

inn í framtíð, ei undan var skorist.

Ást þín á mömmu og pabba var sterk,

sterkari en ást á þér sjálfum.

Að vernda' okkur  fannst  þér svo auðvelt verk,

við eftir þó sitjum og skjálfum.

 

Eitt ár er í  lífinu hraðfleygt og stutt,

ég lifað hef allmörg nú þegar.

En árið sem líður senn héðan í burt,

er eilífð og uppfullt af trega.

Hvað gat ég gert, hvað gerði ég rángt,

ég spyr mig og velkist í efa.

Var það þá ég sem gerði þér bágt,

nei, nú verð ég hug minn að sefa.

 

 

 

 

Það segja mér margir, ég móðir sé góð,

ég gerði mitt besta ég vona.

En var þá mitt besta alls ekki nóg,

því endaði lífið þitt  svona?

 

Nú verð ég að reyna og ætla mér að,

 rísa upp kröftug og keik.

Veit að í huganum viltu mér það,

 að ég lifi með öðrum í leik.

 

Í minningu þinni, strákurinn minn,

ég þramma skal veginn með hinum,

sem sitja svo sárir og sakna um sinn

Himma sem lék sér með vinum .

 

Að lokum ég tjái þér ást mín enn,

þú aldrei úr huga mér víkur.

Stúfurinn litli hann stækkar nú senn,

og verður þér sjálfsagt mjög líkur.

 

Guð minn þín gæti og geymi um sinn,

þú hjálpar þeim líka' á þinn hátt.

Ég kem á þinn fund þegar tíminn er minn,

í faðmalög þá föllumst við sátt.

 

 

08.08.08.

 

 


Langar að gera eitthvað

en veit ekki hvað. Fór út með þvott áðan og komst að þeirri niðurstöðu að það er of heitt úti til að gera nokkuð þar. Ég er slæm þegar kalt er úti en ég er verri þegar mjög heitt er. Ég svitna og verður ómótt og líður bara illa þegar það er allt of heitt.

Ég setti skemmtilega sögu inn hinu megin í gær.

Ég náði að hanga vakandi í næstum alla nótt við að bíða eftir landsliðinu á olympíuleikunum,  djö sem ég hafði gaman af þessum leik en ég var alveg orðin logandi hrædd um að þeir myndu missa þetta niður. Ég er ekki sátt hinsvegar við Ólaf Stefánsson, mér finnst vera orðið of mikið um ýmiskonar mistök hjá honum en það var gaman að sjá nýliðana koma inn á -geislandi af gleði og sjálfsöryggi enda staddir á Ólympíuleikum. Ólafur hefur starfað vel fyrir landsliðið en það gæti verið að bráðum verði hans tími kominn og það verði að skipta honum út fyrir aðra. Snorri Steinn virkaði vel í fyrri hálfleik en virðist örmagna í þeim seinni.

Það er ekki í lagi með stútungskellingu eins og mig að hanga vakandi langt fram á nótt vegna íþróttaviðburðar og það alein. Ég er meira að segja ekki viss um að Steinar hefði nennt þessu ef hann hefði verið heima.

Kóngulærnar hérna úti eru klárar. En þessi stóra sem hefur haft aðra þvottasnúruna sem bakland í vefinn sá sitt óvænna áðan. Þetta hristist allt og skalf þegar ég var að hengja út tauið. Hún sat góða stund í vefnum og hugsaði.

The spider of all spiders in size & legs!

Er það bara ég

eða hljómar Bush eins og fáviti þegar hann er að setja ofan í við Rússa vegna atburðanna í Georgíu?

Það væri miklu nær að ég skammaði Pútín heldur en Bush. Ég hef þó aldrei farið í stríð.

Nennið þið að koma með Pútín, ég þarf að tala aðeins við hann !


Ný frétt

Sjá hérna

Bilun á Moggabloggi ?

ég reyndi að kommenta hjá Flugu minni áðan, það gekk ekki . Svo sá ég fróðlegan pistil hjá Paul Nikolov og ætlaði að kommenta þar líka en það gekk ekki heldur.

Svo er annað, ef ég smelli á skoða athugasemdir (þær sem ég er að vakta) þá kemur upp villumelding. Ekkert af þessu kom upp áður en moggablogg hrundi.

Verðið þið vör við truflanir í kerfinu?

 

 


skemmtilegt og svo ekki skemmtilegt/ og viðbót !

Ég er búin að vera að flissa yfir viðbrögðum við færslunni hennar Jónu þar sem hún tengir í fréttina um framhjáhald John Edwards. Fólk er alveg að tapa sér í heilagleikanum yfir þessu en komment Jónu sjálfrar þarna neðar segir allt sem segja þarf.

Það má vel vera að fólk líti á það sem karakterbrest að maðurinn haldi framhjá konu sinni. Mér finnst það samt ekki vera beintengt við hvort maðurinn er nothæfur stjórmálamaður. Og mér finnst ekki heldur vera hægt að lesa bandarískt samfélag bara út frá þeim fréttum sem okkur berast hérna. Einhver velur ofan í okkur fréttirnar og við erum áreiðanlega ekki að fá "bestu" fréttirnar.

Hvernig ætli við sjálf lítum út séð utan úr heimi ? Jarðskjálftar, eldgos, fyllerí og önnur óáran..samt vitum við öll að Ísland og okkar samfélag er svo miklu meira en það.

-----------------------------

Djö fer í taugarnar á mér auglýsing Kaffi Conditori, sem er verið að spila akkúrat núna.

"frítt kaffi fyrir samkynhneigða" segir auglýsingin. Sumsstaðar er frítt kaffi fyrir leigubílstjóra, ég fer aldrei á þá staði. Ég lít ekkert endilega út sem týpískur leigubílstjóri og ég nenni ekki að vera að tilkynna starf mitt í einhverri búllu. Kannski finnst samkynhneigðum þetta bara fínt og hvað er ég þá að skipta mér að því ?

----------------------------------

Ég komst að því á síðu Gurríar að ég er auli, ég hef ekki minnsta grun um hvað ég hef í árslaun...er það eitthvað sem fólk er almennt með á hreinu ? Ég er náttlega í 2 vinnum og þyrfti þá að leggja saman báðar...Ég skil bara ekkert í Gurrí að finna mig ekki í skattadótinu og birta mig, þá þyrfti ég ekki að vera að hugsa um þetta á miðjum laugardegi.

____________________________

Ég henti öllum dagblöðum út í horn í dag. Eða sko eftir að ég hafði rekið augun í að enn stendur til að fækka leiðum hjá Strætó bs. Ég hef lengi haft á tilfinningunni að einhverjir séu að reyna að reka strætó í þrot, ekki starfsmenn en mögulega yfirmenn og þeir í stjórnsýslunni sem um málefni strætó fjalla. Það gefur auga leið að ef leiðum fækkar og þjónustan versnar þá fækkar notendum þjónustunnar og þá versnar enn afkoman. Þetta segir sig sjálft.

Mér er sárt um strætó, þarna vann pabbi í áraraðir og þarna hefur systir mín unnið lengi líka. Ég hins vegar veit ekki mikið um strætó annað en það sem kemur í fréttum og svo var ég með einn notanda strætó hér á heimilinu. Hann bar þessu ekki vel söguna enda er það "verktakaleið" sem liggur hingað til mín og minna. Ekki endilega gott að spjalla við bílstjórann nema maður sé nokkuð seigur í pólsku, ja eða kínversku sagði barnið á sínum tíma.

Um daginn fór ég inn á nýja heimasíðu strætó og vildi vita hversu lengi ég yrði að koma mér í bíó í Álfabakka með þeim gulu. Jú jú hva....einn og hálfan tíma að komast þangað og svipað til baka. Þetta hefði breyst í ferðalag bara eða heila kvöldvöku.

---------------------------------------------

Alveg finnst mér Rússar magnaðir, um leið og heimsbyggðin er upptekin við að spá í ólympíuleika þá ráðast þeir inn í Ossetíu. Hvurslags...ég hélt að allt vesenið í Tjetjeníu væri nóg fyrir þá í bili. Ætli þeir séu að reyna að líma saman gamla sovét dótið ? Og eins og alltaf er mannfall meðal almennra borgara mikið.

Hvað dettur rússum í hug næst ?

Farin út í garð að grafa loftvarnarbyrgi

Taugaveikluð? Nei er það nokkuð ? Errm

____________________________

ég reyndi að kommenta hjá Flugu minni áðan, það gekk ekki . Svo sá ég fróðlegan pistil hjá Paul Nikolov og ætlaði að kommenta þar líka en það gekk ekki heldur.

Svo er annað, ef ég smelli á skoða athugasemdir (þær sem ég er að vakta) þá kemur upp villumelding. Ekkert af þessu kom upp áður en moggablogg hrundi.

Verðið þið vör við truflanir í kerfinu?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband