Bloggfærslur mánaðarins, júní 2008

Jæja !

Það styttist þá í 200 kallinn fyrir líterinn af díselolíu. Æði !

Við vorum að hækka taxtann hjá okkur sl föstudag. Hækkunin er ekki gefins, við þurfum að borga tæpar 4000 krónur fyrir breytinguna hjá radíóverkstæðunum. Þannig virkar það, við hækkum sjaldnar en þá meira í einu og fólk finnur þ.a.l. meira fyrir því. En hvað eigum við að gera ?

Verðum við að hækka strax aftur ?

Andsk....svo rífst fólk yfir aðgerðum Sturlu, ég meina hann gerði þó eitthvað!

Nú kýs ég kallinn á þing, hitt dótið er gagnslaust.


mbl.is Eldsneyti hækkar um 6-7 krónur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

að bera ábyrgð

á öðrum manni er ekki hægt. Mér datt þetta í hug þegar ég sá komment inni hjá Jennýu þar sem hún bloggar um myndbandið frá Patró sem er í umræðunni núna.

Einn segir þar ; vonandi er mamma hans stolt !

Þar á hann við móður mannsins sem lögreglan er að reyna að handtaka þarna.

Við sem foreldrar gerum eins vel og við getum. Stundum dugar það alls ekki til. Hilmar minn var einmitt dæmi um svoleiðis ástand. Hann vildi bara fara sínar eigin leiðir og ekki okkar leiðir. Því fór sem fór. Hann var þó alltaf góður hjá lögreglunni, þeir báru honum vel söguna. Ég hafði stundum samband til að heyra hvort þeir vissu um hann og þeir voru alltaf allir af vilja gerðir að róa mig og hjálpa. Hann kvartaði einu sinni undan lögreglunni en dró það sjálfur strax til baka. Það var fyrir rúmu ári þegar hann var tekinn fyrir ofsaaksturinn, þá tóku þeir á honum loksins þegar þeir gátu stoppað hann. Ekkert meis eða svoleiðis, bara þegar hann var járnaður. En svo sagði Himmi með prakkaraglotti á vörum og í augum : það var svosem von, þeir voru hundleiðir á að elta mig ! Svo flissaði hann og mamma skammaði hann fyrir tiltækið. Þarna varð samt ákveðinn vendipunktur hjá honum, hann fór að hugsa öðruvísi.

Fyrir þennan sem upphafið fjallaði um, kommentarann hjá Jennýu

Já ég var stolt af Hilmari syni mínum en ekki sátt við hans gjörðir.

Gaman þætti mér að sjá þá móður sem alltaf hefur verið sátt við allt sem barnið hefur gert á sinni lífsleið. Það er örugglega engin slík til. Börn eru börn, þau hegða sér ekki alltaf 100% en sem betur fer læra þau flest fyrir rest og verða fín. Sumar mömmur eru bara ekki svo heppnar að barninu endist æfin til að bæta sig.

 


Komin á fætur

og er auðvitað á leið í vinnuna, annað gengur nú ekki á þessum  síðustu og verstu. Skapið skárra en í gær en þó ekki eins og á að vera. Sit hér og hlusta á hamarshöggin í nýja húsinu innar í götunni. Það verður í smíðum fram eftir sumri. Virðist ætla að verða stórfallegt hús.

Í morgun hef ég hugsað til Birnu minnar. Í dag eru 2 ár síðan hún missti Haukinn sinn. Blessaðan kallinn. Ég hef oft borið saman myndir af honum og Himma. Þetta glaðlega hrekklaust útlit þeirra beggja sýnir mér að stundum eru þessir strákar svo meinlausir að þeir hreinlega lifa það ekki af. Ég hef verið á leiðinni að hafa samband við lögregluna fyrir austan og ætlaði að gera það daginn sem stóri skjálftinn reið yfir, svo hugsaði ég með mér að líklega hefðu þeir meira en nóg að gera eins og sakir standa og ákvað að bíða með það. Þetta er þó á áætlun í vikunni. Ég vil endilega fara að fá botn í þetta , okkar allra vegna.

Þetta er núna nákvæmlega eins og ég hef sagt ykkur áður, sumir dagar eru allt í lagi en aðrir alls ekki. Í gær var verið að brasa með bílana hér á planinu. Það þurfti að taka bílinn hans Sigga út úr skúrnum til að koma Tóka hennar systu inn til rannsóknar. Tóki var hinsvegar ekkert bilaður, hann langaði bara í smá klapp og klór. En til þess að koma Sigga bíl fyrir þá þurfti að færa Himmabílinn og ég á bara ekkert auðvelt með að sjá eitthvað bras með hann. Hann endaði inn í horn meðfram skúrnum og er þar með aldrei meira fyrir og það er ágætt. Steinar fór svo að segja mér að innri brettin að framan á Himmabíl séu ónýt, ég þoli ekki þegar hann er að tala um þennan bíl sem bíl (eða einhverja eign) þessi bíll verður aldrei notaður af neinum nema þá mögulega Hjalta eða Bjössa. Steinar skilur það stundum ekki og gloprar einhverju útúr sér sem ergir mig. Himmabíll er bara þarna vegna þess að hann ER Himmabíll. Hann verður aldrei annað en Himmabíll. Svona þarf nú lítið til að setja mann úr skorðum, ómerkilegt alveg. Það veit ég sjálf og ég veit líka að þetta var ekki meint neitt leiðinlega.

Björn kom heim í gærkvöldi og miðað við lætin í "húsvörðunum" þá fór hann aftur út í nótt, einhver sótti hann.

Æj ég þoli stundum ekki sjálfa mig þegar ég er að pirra mig á öllu mögulegu...dæs. Ætli það sé til pilla við þessu ? Afpirrunarpilla -djö myndi Actavis stórgræða á svoleiðis framleiðslu !

Annars er ég góð....eða þannig.

Litli götusóparinn er hér að hamast um öll gólf enda fóru voffar óeðlilega úr hárum í gærkvöldi. Haukur frændi, Hobbi vinur Sigga og Arnar vinur Bjössa komu allir og nenntu allir að tuskast í Kelmundi sem varð svakalega glaður með þetta. Gleðin rann þó af honum seint í gærkvöldi. Hann vildi bara liggja á gólfinu og ég fór að horfa á hann, þá sá ég að hann var svo hundlasinn. Hann var eiginlega grænn í framan. Hann skrapp nokkrum sinnum út í garð og endaði með að gubba heilan helling. Þá hresstist hann aðeins en tróð sér vandlega upp í fangið á mér þar sem ég lá upp í rúmi, ég gat auðvitað ekkert rekið hann á gólfið...kallanginn svo lítill í sér. Hann er svo ágætur núna, hann hefur verið búinn að sleikja ofan í sig hárvöndul og þurft að losna við það. Hann er alveg að verða fjögurra ára og hefur ekki orðið svona sjáanlega lasinn áður blessaður kallinn.

Jæja ég ætla að fara að gera eitthvað, set fyrst ljós á Himmasíðuna.

Knús á ykkur öll þennan fallega dag (amk hér sunnanlands)


Dálítið þreytt, smá í óstuði

Mikið um að vera í dag bæði í vinnunni og heima. Nýklippt í boði stóru systur. Er að horfa á "dónana" flengja íslendingana. Steinar er að slá.

Ég held að óstuðið tengist aðeins Himmabíl í dag og svo var ég að skoða myndir úr útför hans. Þolið ekki mikið, það er greinilegt. En einhverntímann verð ég að geta skoðað þetta, eða hvað ?

Farið vel með ykkur

Söfnunarreikningur fyrir Öldu hér til vinstri (í höfundarboxi ) Kertasíðan hans Himma hér hægra megin (í tenglunum)


Þolinmæði

þrautir vinnur allar, það borgaði sig að horfa (með öðru auganu) á fótboltann með kallinum. Nú eru allar flísarnar komnar upp og límdar á sinn stað. Næsta mál er að fúga veggina og það er ekkert mál. Svo þarf að mála gluggann. Rafvirkinn kemur í vikunni og dregur í innstunguna. Þá er næst að setja rör í fyrir affallið af vélunum og búa til eitthvað vatn þarna líka. Nú nema ég ætli að reka þurrhreinsun Whistling

Ég er alsæl með þetta og bara ánægð.

Góða nótt...

góðanótt

 


Í huganum þramma ég

fram og aftur um gólfið og tuða í kallinum, í raunveruleikanum sit ég og horfi á fótbolta.

Skrapp í Byko eftir vinnu, verslaði fyrir smáaura þar í dúndrandi Eurovision fíling. Spilaður var diskur og ég heyrði bæði í Lordi og Ruslönu. Það var skemmtilegt.

Mig langaði að klára þessar örfáu flísar í dag en Steinar er flísaskerinn, ég er hrædd við flísaskerann hans pabba. Hann er eins og mini vélsög og ég er viss um að ég mun ekki eiga nærri því 10 putta ef ég fer að fikta í honum. En í staðinn virkar þetta svona, ég stranda. Verð pirruð innan í mér en nenni ekki að þrasa, það er bara ekki minn stíll.

Þetta gerist bráðum, vonandi.

En hér með held ég með Portugal...(ekki spyrja mig afhverju,ákvað þetta bara snöggvast)

Keli étur allt sem ég rétti honum, rétti honum eggjaskurn áðan og hún hvarf ofan í hann. Hann treystir manni.

Hilmar Reynir er enn á ferðalagi með mömmu sinni og amma er komin með fráhvarfseinkenni....búhú . Hann kemur eftir helgina, litla hjartamúsin hennar ömmusín.

Man ekki meira, jú ég má ekki gleyma þessum borgarstjórnarmálum. Það er alveg sama hver sjallanna tekur við, þetta fólk hefur allt gjaldfellt sig í mínum augum í þessu dæmalausa samstarfi við þennan blörraða. Ef fólk ætlar að láta þetta duga til að jafna sig á vitleysu þá segi ég bara ó boj, teflonheilar !

Set hér inn mér til ánægju myndbandið með Lordi, finnsku skrímslunum sem unnu Eurovision. Við systa héldum mikið upp á þá og allir krakkar sem tengjast okkur hehe


Vísir oft ansi skemmtilegur

nú verð ég rekin af moggabloggi fyrir að segja þetta svona í fyrirsögn en ég veit ekki alveg með ykkur. Mér fannst þessi færsla snilld og sá fyrir mér tollarana alltaf vera að kíkja upp í norðurendann á gæjanum.

Fíkniefnasmygl er auðvitað dauðans alvara.

En maður verður að geta brosað af lífinu, amk stundum.

Björn hentist út í gærkvöldi (örugglega til að kynjafna sig) hann hefur áreiðanlega ætt beint á Goldfinger, pissað á hús í miðbænum og lent í slag ! Allavega hef ég ekkert heyrt í honum.

Góða nótt og hér kemur skemmtilega færslan

Vísir, 06. jún. 2008 16:34

Kókaínsmokkarnir koma ekki

mynd

Hollendingurinn sem situr í gæsluvarðhaldi lögreglunnar á Suðurnesjum hefur enn ekki skilað af sér öllum þeim pakkningum sem hann gleypti til þess að smygli kókaíni hingað til lands.

Meira en vika er liðin síðan Hollendingurinn var handtekinn og hefur hann verið undir nánu eftirliti lögreglu og lækna síðan. Hann gleypti töluvert magn af kókaíni sem pakkað var inn með þeim hætti að hann gæti geymt efnin innvortis.

Meltingarfærin ættu svo að öllu jöfnu að sjá til þess að pakknignarnar gangi niður en það hefur eitthvað brugðist í þessu tilfelli. Lögreglan á Suðurnesjum man ekki svo gjörla eftir því að annan eins tíma hafi tekið á fá pakkningar eins og þessar til þess að ganga niður en þess eru dæmi erlendis að það hafi tekið rúmar tvær vikur.

Sem fyrr segir er Hollendingurinn undir nánu eftirliti læknis sem er tilbúinn að grípa inn í ef grunur leikur á að heilsa mannsins sé í hættu af þessum völdum.

 

 


Næstum náði að klára

en vegna þess hversu hátt lætur í flísaskeranum ákvað ég að stöðva framkvæmdir. Það er eftir EIN flís sem þarf að taka úr fyrir ljósarofa og ein og hálf flís í kringum ofnloka. Annars er þetta búið eiginlega. Næst þarf ég að fúga þetta og klára fráganginn á þessu alveg...mikið verð ég fegin.

Kæri systursauður, þú kemur bara með þá sem þú vilt með þér. Það er allt í lagi.

Takk þið hin fyrir notalegar kveðjur.

Nú er sturtan klár og ég býð ykkur góða nótt..

ps eitt sá ég undarlegt á síðunni minni. Heimsóknartölur sem ég taldi í síðustu viku vera 800.000 eru eitthvað allt annað núna. Það er greinilega eitthvað bilað í þessu systemi ! Kíkið á hjá ykkur og sjáið hvort þær standast tölurnar

Breaking news

Björn fór á sex and the city. Hann er kominn heim í kasti, móður hans til mikillar gleði. Hann fór bara fyrir Evu sína enda er hún að fara langt og verður lengi. Ég þarf líklega að finna handa honum skítugan hlírabol og rétta honum bjór til að kynjafna hann aftur.


Reimleikar í Smáralind

Ég varð fyrir undarlegri reynslu áðan þegar ég renndi upp að bensínstöðinni við Smáralind. Þar var fyrirhugað að hitta ungan mann sem langaði svo skelfing ósköp til að hitta peningana hennar mömmu sinnar svo hann kæmist í bíó með kærustunni sem er að fara til útlanda í tvær vikur ! Peningarnir fengu náttúrlega vængi þegar þeir sáu þennan unga mann, örugglega úr sama bréfi og ákveðin dömubindasort !

En að reimleikunum, þegar ég ek upp að þá sé ég strákinn strax. Úr þeirri fjarlægð og með þessa klippingu sem hann er með núna þá leit hann nákvæmlega út eins og Himmi minn ! Þetta var frekar skringileg upplifun...Crying Þeir eru auðvitað albræður og kannski ekki alundarlegt að með þeim sé svipur en þarna æpti hann á mig !

Ég reyni að ýta Himma svolítið úr huganum og skammast mín fyrir það. Ég segi við sjálfa mig ; þú getur þetta seinna, ekki núna. Svona má fresta aðeins. Auðvitað verður hver að finna sína leið og svona er mín leið, greinilega.

_______________________________________________

Kelmundur tók á rás í gær. Endasentist laus bakvið hús og hvarf ! Húsbóndinn þrammaði af stað um allt hverfið (sem er betur fer ekki stórt) og fann engan hund. Hann endaði með að þramma heim og á hellunni fyrir framan sat ósvífið hundrassgat, nennti ekki á móti kallinum en sat bara þarna og beið eftir að honum yrði hleypt inn heima hjá sér sjálfum. Hver sneri á hvern ?

_________________________________________________

Gjaldskrárhækkun verður í fyrramálið, nú geta menn ekki lengur tekið á sig olíuhækkunina. Hækkunin verður samt ekki gríðarleg en vonandi nóg til að slá aðeins á kostnaðarbullið sem er í kringum þennan rekstur orðið.

_____________________________________________________

Man ekki meira....það kemur þá önnur færsla á eftir...

já hey maður..rafvirkinn kom áðan og kíkti á verkefnið. Hann ætlar að redda þessu í næstu viku og ég ætla núna að hendast í drullugallann og klára að flísaleggja og fúga þarna frammi....þetta er sko alveg að gerast....sko núna....Ragnheiður sauður, á lappir með yður !

 


sko

Ég hef ekki fjallað um hann áður en geri undantekningu nú, enda er ég í raun að fjalla um aðra en hann, aðra hegðun en hans.

Þessi frétt er fengin hjá www.visir.is

 

Vísir, 04. jún. 2008 17:29

Joseph Fritzl fær fjöll af ástarbréfum í fangelsið

mynd

Fólk hefur sem betur fer mismunandi smekk á mökum. Líklegt verður þó að teljast að kjallaraskrímslið Joseph Fritzl sé ekki eftirsóttasti piparsveinn í heimi. Eða hvað?

Fritzl, sem hélt dóttur sinni fanginni í kjallara heimilis síns í 24 ár og gat henni sjö börn, hafa borist tvöhundruð ástarbréf í Sankt Poelten fangelsið í Austurríki þar sem hann situr nú.

Í grein í Daily Mail kemur fram að margar kvennanna sem skrifa hinum rúmlega sjötuga Fritzl telja hann góðan inn við beinið og „misskilinn". Enda hafi hann bara lokað Elísabetu dóttur sína, þá átján ára, niðri í kjallara til að forða henni frá því að lenda í rugli. Elísabet, sem nú er 42 ára, hefur dvalið á geðsjúkrahúsi frá því hún slapp úr prísundinni.

Ástarbréfin eru þó ekki eini pósturinn sem Fritzl berst í fangelsið. Honum hafa borist um fimm þúsund bréf, flest þeirra á neikvæðu nótunum.
-----------------------------------------------------------------------------------

Mín hraðskoðun á þessu er einfaldlega sú að þessar konur sem eru að skrifa honum bréfin eru bara klikkaðar. Hvað haldið þið?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband