Færsluflokkur: Bloggar

Vandræðaástand

á konunni. Afmælisdagurinn hans er alveg að renna upp og ég er hálfsturluð innra með mér...heltekin af söknuði,kvíða og reiði. Það er slagveður og barnið mitt er þarna úti í dimmunni, bleytunni og rokinu.....

Ég hef reynt allt til að dreifa huganum og las hvert komment hjá Heiðu í sjóðheitum trúarumræðum. Ég varð eiginlega bara sorgmæddari við að lesa hvern skilning ofsatrúarmenn hafa á Biblíunni. Við höfum ekki efni á að setja okkar minnstu bræður í hendurnar á einhverju og einhverjum. Það þarf að styðja betur við þá sem eru að reyna að hafa betur í fíknisjúkdómum, föngum sem eru að reyna að fóta sig eftir afplánun. Ef þessir aðilar fá betri stuðning þá eru meiri líkur á að þeir nái að spjara sig í lífinu. Það er hagur okkar allra, fíkill í neyslu og fangi á villigötum eru dýrir samfélaginu. Í þessu nýríka þjóðfélagi okkar þá er allt sortérað eftir arðsemi, fangar og fíklar eru líklega ekki ofarlega á þeim lista. Þeir ættu að vera ofar vegna þess að á bakvið hvern og einn er heil fjölskylda sem þjáist í þögn og ótta. Og þá með tilheyrandi vandræðum allra, veikindadögum og almennri vanlíðan.

Ég get ekki sagt hversu oft ég hef setið í vinnunni og sett upp falska gleðiandlitið en blætt innra með mér af áhyggjum af drengjunum mínum. Ég hef náð að halda vinnunni minni utan við þetta. Það hefur samt kostað blóð svita og tár. Margir vissu samt um ástand mála enda ég búin að vinna þarna í áraraðir.

Í kvöld átti ég í fyrsta sinn verulega erfitt með að vera á vaktinni , augun fylltust af tárum og ég náði ekki að hrista þetta almennilega af mér.

Fyrst mér líður svona núna með afmælið hans þá veit ég ekki hvernig ég verð um jólin...svei mér þá !

 


Enn vitlausu megin

og bara heilmikið pirruð. Mér tekst ekki alveg að henda reiður á þessu en samt.....ég er að syrgja glötuð tækifæri. Glataðar stundir og glataða framtíð hans Hilmars. Þessi góði strákur (nú fussar einhver yfir glæponinum) átti margt eftir að gera í lífinu sínu. Hans var framtíðin og allir möguleikarnir, ég er mamman...ég er búin með það helsta sem ég átti að gera. Þegar ég sé fyrir mér bjarta brosið, álappalega göngulagið (einstakur flækjufótur og sætastur) þá fýkur í mig. Afhverju mátti ég ekki hafa hann lengur ? Það eru svo margar spurningar en engin svör....sumt veit ég. Annað truflar mig.

Heima beið bréf frá kirkjugörðunum, samúðarkveðja og ráðleggingar með umhirðu leiðisins einnig ábending um vefsíðuna www.gardur.is . Þar er hægt að láta birta upplýsingar og mynd af hinum látna. Það gerði ég þegar mamma lést og líka núna með Hilmar. Það eru samt sorglega fáir sem nota þennan möguleika. Á þessum vef er haldið utan um legstaðaskrár og maður getur fundið sitt fólk ef maður hefur týnt leiðinni. Endilega látið setja inn upplýsingar um fólkið ykkar, þetta mun standa þarna um ókomna tíð.

Nú ætla ég að reyna að leggja mig, það tekur yfirleitt 1-2 tíma að sofna þannig að oftast skríð ég framúr jafnnær.

URG....

Þeir sem hafa tök á að létta móðurinni sem er í næstu færslu lífið geta gert það. Ég þekki hana ekki neitt en vildi koma þessu á framfæri. Síðan mín er að komast í 500.000 heimsóknir og það er ágætt að reyna að nýta eitthvað af þessu til góðs.


Æ..

Í dag eru 2 mánuðir síðan hann var jarðaður.

Ég var að hugsa áðan, ég er léleg í að eiga bágt. Ég hef alltaf þurft að vera jaxl (presturinn kallaði mig töffara ? ) Ég kann ekki að setja mig á undan og leyfa mér að eiga bágt. Mér tekst að breiða yfir mína líðan þegar aðrir eru í kringum mig en svo á ég bágt þegar ég er ein, sérstaklega ein í bílnum. Mér er alltaf minnisstætt þegar Solla mín átti að teikna dýr sem táknuðu fjölskylduna hennar. Hún teiknaði mig sem ljón. Hún hefur verið c.a. 9 ára þá.

Ég hef verið að hugsa með afmælið hans, nú kaupi ég ekki afmælisgjöf fyrir hann en ég var að spá í hvort maður gæti ekki í staðinn látið smávegis til líknarsamtaka ? Er ekki hægt að nota minningargjafasjóði í svona líka ? Hugmyndir óskast í athugasemdum.

Krossinn hans Himma


Er að hlusta

á útför Hilmars. Við tókum hana upp 4 september síðastliðinn. Mér finnst rosalega gott að hlusta á það sem Sr.Bjarni segir. Hann segir að líf Hilmars hafi ekki misheppnast. Hann er ótrúlega góður prestur. Hann talaði um Hilmar eins og hann hefði þekkt hann alla æfina hans Himma míns. Það kemur til af því að hann kynntist honum hjá okkur, eins og þið gerið hérna. Þessi drengur,góðmennskan sjálf, átti svo erfitt líf. Hann vildi vera góður og braut stundum á öðru fólki við að vera góður við sitt fólk. Hann var svo nærri því að skilja þetta þegar hann gat ekki haldið áfram lengur.

Við hérna, ég og Björn, höfum setið saman og talað um Himma. Reynt að rýna í aðstæður þessa hörmungaratburðar og við erum búin að reyna að sjá þetta frá hans sjónarhorni. Í dag, 21/2 mánuði eftir lát hans þá skiljum við og vitum. Ekkert okkar í fjölskyldu er Hilmari reitt, við skiljum. Oft sækir á mig reiði vegna þess að þetta hafi farið svona...reiði við lífið....reiði við það sem við köllum forlög.....reiði við Guð...en ekki reiði við hann Hilmar minn.

Núna segir presturinn ; Hilmar Már vildi öllum vel.

Það var rétt....og það var meðal annars hans Akkilesar hæll. Hann var líka stundum ótrúlega áhrifagjarn...

Hefði mamma vitað hvað í vændum var þá hefði mamma lokað sjálfa sig inni með sinn strák og aldrei hleypt honum út fyrir hússins dyr. Aldrei aldrei....ég hefði bara setið inni í húsi með hann.

Mér líður mun betur í dag en fyrir mánuði síðan. Þetta er að potast í rétta átt. Enn vantar þó mikið upp á að lífsgleðin sé komin á sinn stað...kannski kemur hún...kannski ekki.

Ég hef undanfarið verið að gera allskonar hluti sem ég hef ekki gert áður og ég held áfram við það. Suma daga vil ég bara vera lokuð inni og sambandslaus. Ég hef lengi ekki þolað að vera með síma...svoleiðis græjur eru bara truflandi og óþolandi. Ég veit að fólk hefur verið að hringja í mig með engum árangri...ég get eiginlega ekki beðist afsökunar á því. Símar eru verkfæri þess í neðra held ég.

Munið Himmaljósin og ljósin fyrir stúlkurnar mínar þrjár.

 


Kannast lesendur við

þá meina ég þeir sem hafa misst ástvin sinn að vera sífellt að fletta upp í minningunum, rifja upp samtöl, samskipti. Ég er ekki að meina slæm samskipti eða neitt þannig, heldur bara venjuleg samtöl. Ég er alltaf að reyna að hugsa hvort hann hafi gefið mér þetta til kynna og ég ekki fattað, en ég er eiginlega alveg viss um að svo var ekki. Hann var bara sami góði strákurinn þegar ég talaði við hann síðast. Það var ekki hægt að heyra að neitt væri að.

Ég held að þetta sé eðlileg afleiðing þess að mann langar svo að fá ástvininn sinn aftur, maður er að leita leiðar til að breyta því sem er óumbreytanlegt. Það er ekki hægt, ég horfði á drenginn minn í kistunni og ég sá kistuna setta ofan í gröfina. Ég horfði á viðtal við móður Madeline McCann í kvöld og í fyrsta sinn þá skildi ég hana. Ég hef vogað mér að dæma hana fyrir að skilja börnin eftir ein, í kvöld sá ég hennar aðstæður öðruvísi. Hún er búin að missa barn, hún veit ekki hvar barnið er, hún mun bíða alla æfi eftir að barnið birtist aftur. Mér fannst hún vera pikkföst í sínum aðstæðum á meðan ég finn að mér batnar, að vísu skelfilega hægt en ég er nú þegar mun skárri en ég var til dæmis 20 ágúst.

Þetta hafa bloggvinirnir sagt mér, þetta gerist hægt. Ég held áfram, enda vön að vera með storminn í fangið. Þannig hefur líf mitt oftast verið. Nú vona ég samt að þessu linni, ég myndi þiggja að fá að vera áfallalaus héðan í frá. Á því eru engar líkur en ég má samt vona.

Munið ljósin fyrir okkur öll. Ljósalinkar hérna til hægri á fjórar kertasíður sem veita gleði. Ég skoðaði Himma síðuna áðan og hann á svo mörg falleg ljós. Ég verð glöð þegar ég sé ljósin, svolítið meyr og mikið þakklát.

Góða nótt

PS. Fann snilldarpistil á netinu, slóðin á hann er hérna


Minning

hefur þvælst fyrir mér í dag. Eins og ég talaði um þá er verið að taka grunn hérna rétt innar í götunni. Í gær komu stórir malarflutningabílar með möl í grunninn, í dag hefur verið stöðugur straumur af vörubílum sem hafa verið að fara með moldina burtu. Þetta umstang minnti mig á Himma. Við bjuggum einu sinni við aðalgötu í smáþorpi. Einn glugginn sneri að götunni. Þarna eyddum við Himmi löngum stundum við að horfa út og sjá bílana. Honum fannst það endalaust gaman. Ég setti svefnsófa undir gluggann og þá gat hann staðið þar sjálfur og horft.

Elsku kallinn.

Ég á eftir að skanna inn myndir af honum frá þeim aldri. Á líka myndir frá jólunum þegar hann var rúmlega eins árs, með gullna lokka og sætastur í heiminum.


Hin löglegu fórnarlömb

þessa lífs eru margskonar, núna virðist ég fallin í þann flokk.

Án þess að ég ætli að gera lítið úr þessum mikla stuðningi og hlýhug sem ég hef fundið fyrir síðan sonur minn lést þá get ég ekki neitað að stundum hef ég horft hissa á síðuna mína, hissa á teljarann og kommentin.

Stundum hef ég velt fyrir mér, hvar var allt þetta fólk þegar sonur minn var að gera út af við móður sína ? Hann gengdi engu og fór sínu fram þrátt fyrir grátbænir móðurinnar um að hætta þessu. Vond hegðun hefur slæmar afleiðingar sagði mamma. Það voru allir búnir að gefast upp, ættingjarnir líka. Það eina sem eftir stóð voru foreldrar hans og systkinin sem þekktu kauða, aðrir gátu ekki staðið í þessu. Strax smástrákur var hann farinn að sýna merki þess sem á eftir kom. Hann fór í veskið mitt og skildi ekki að það mátti ekki bjarga sér með þeim hætti sjálfur í annara fjármuni. Hann var ekki byrjaður í skóla þegar ég var orðin viss um að hann myndi eiga líf fangans fyrir höndum. Vinkonur mínar supu hveljur.....að ég skyldi segja þetta um fallega snáðann !! Við pabbi hans reyndum meira að segja að koma honum í rétta átt með því að hann tæki hann til sín. Vonuðum að það næðist frekar að siða hann á því heimili sem þá var barnlaust..en ekkert dugði. Hilmar græddi á því, hann eignaðist aðra móður og heila stóra fjölskyldu með. Fyrir það var ég þakklát. Honum þótti afar vænt um ömmuna sína og afann sem hann fékk með í þessum skiptum.

Við mæður barna sem leiðast af leið getum ekki borið alla tíð byrðarnar ein. Það þarf stuðning við alla fjölskylduna þegar sýnt er að einhver vandkvæði eru. Hilmar var lagður af stað í rétta átt, það vitum við. Það er huggun í því.

Það er ekkert sem ég myndi ekki gera til að fá þennan óþægðaranga minn til baka en ég veit að það gerist aldrei...það er vont. 


Vörðu-blogg

Það eru liðnir heilir 2 mánuðir frá versta degi lífs míns.

Kistan hans Hilmars míns

Það er hvergi nærri komin sátt, skilningur né friður. Hnúturinn fyrir brjóstinu er þar enn. Reiðin kemur upp öðru hvoru en vonleysið er þungt. Tilfinningin að hanga bara hér, án tilgangs og án nokkurs hlutar er erfið. Mér finnst ég vera að bíða...dagurinn fer allur í að bíða.


Pókerfeis í dag

hilmar (2)

Hilmar Már Gíslasonhilmar! (2)

Nú kemur færslan sem ég vildi ekki reyna að skrifa áðan. Eins og mér hafa borist margar fallegar kveðjur í tilefni afmælisins þá hefur að sama skapi þögnin argað á mig. Hann hringdi þegar ég átti afmæli, hann hringdi kannski og skellti á (engin inneign) en hann hringdi. Ég var búin að kvíða fyrir þessum degi og þó ég sé lasin þá ákvað ég að fara í vinnuna og sitja þar í kvöld...útiloka allar hugsanir um strákinn minn þennan tíma sem ég sat þar.

Í kvöldfréttum var talað um að sjálfsvígum hefði fækkað. Það gerir nákvæmlega ekkert fyrir mig né alla aðra sem misst hafa ástvini með þeim hætti þetta ár 2007. Við erum öll jafnbrotin eftir.

Þið hafið séð að ég er nokkuð upptekin af þeim hetjustúlkum,Gíslínu,Þórdísi Tinnu og litlu Þuríði Örnu. Þegar myrkrið í mínum huga var sem svartast þá vildi ég ekki lifa. Ég fór markvisst á síðurnar þeirra og las og las. Ég reyndi að skilja sporin þeirra, þær berjast allar við alvarleg veikindi og standa sig eins og þær hetjur sem þær eru. Ég horfði á myndirnar af þeim og skammaði sjálfa mig. Þú skalt ekki voga þér að gefast upp ! sagði ég reið við mig. Horfðu á þessar fallegu manneskjur sem þrá ekkert heitar en lífið sem þú villt forsmá !!

Síðurnar þeirra hafa hjálpað mér meira en nokkuð annað...að sjá ljósið og reyna að skilja að ég hef enga afsökun fyrir að vilja ekki vera hér. Hilmar geymi ég mér í hjartastað hvert sem ég fer og hvað sem ég geri. Þetta er ekki alltaf auðvelt, ég finn til nánast allan minn vökutíma. Hann hverfur ekki úr huganum þetta blessaða barn mitt.

Að þessu loknu vil ég biðja ykkur að kveikja ljós á kertasíðunum fyrir stúlkurnar mínar hugprúðu, biðjum þess saman að þær fái bót meina sinna.

Góða nótt


Magnað

einhver ykkar muna kannski að konan kvartaði yfir doða í útlimum og öðru veseni eftir að sonurinn lést. Þessu fylgdu sjóntruflanir sem urðu svo slæmar að konan varð að hafa lesgleraugun á nefinu nánast allan sólarhringinn,rataði ekki einu sinni í draumalandinu skammlaust gleraugnalaust.

Doðinn lagaðist smátt og smátt,brauðlappirnar breyttust aftur í venjulegar lappir. Hendurnar skiluðu sér til baka í það venjulega vesenisástand sem á þeim hefur verið en só, sátt við að þær eru þó amk ekki verri en það. En augun ætluðu ekki að lagast...bara alls ekki.  Nú ber svo við að augun eru orðin miklu skárri, get lesið á tölvuna gleraugnalaust og er bara að verða eins og ég var áður en áfallið mikla dundi yfir.

Góðir bloggvinir bentu mér á lækni. Ég hef enn ekki treyst mér í lækni, lenti í vondri reynslu með einn í fyrra og hef bara ekki haft mig í lækna síðan...fer líklega ekki sjálfviljug héðan af. Það er náttlega hið versta mál. Þetta læknismál endaði hjá landlækni en hinn góði doktor sem um ræddi hagræddi bara sannleikanum en það er sama. Það er núna bókuð á hann kæra þannig að hann þarf að gæta sín á að fá ekki fleiri blessaður. Ég kann samt ekki ferilinn á þessu. Ég hef haft nokkurn áhuga á að prufa nýja lyfið sem er notað sem hjálparmeðal í að hætta að reykja. Til þess þarf ég að fara til læknis og þar er málið fast.

Manni ætti að bjóðast áfallahjálp við svona aðstæður, mér datt ekki í hug að þetta myndi sitja svona í mér.

Munið ljósasíðurnar þeirra englanna minna....


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband