Færsluflokkur: Bloggar

innkeyrslan -viðbót-

Hún heyrir bíl koma í innkeyrsluna, hjartað tekur viðbragð. Hann er kominn ! hugsar hún og drífur sig til dyranna. Um leið og hún opnar þá man hún það. Vitneskjunni lýstur eins og eldingu í þreyttan huga hennar. Hann kemur aldrei meira. Hún brosir við gestinum en brosið nær ekki til augnanna. Hún vonar að gesturinn sjái ekki vonbrigðin. Oft hefur hún beðið eftir syninum þegar hann var lokaður inn, fangi. Tilhlökkunin svo mikil að hitta vininn sinn góða og taka upp þráðinn aftur eftir aðskilnaðinn vonda.

Nú tjóir ekki að bíða, mamma hefur fengið lífstíðardóm. Ekkert verður nokkru sinni eins. Í fjölskyldunni fæðast börn, þau þekkja ekki soninn ljúfa. Þau eru börn eins og hann var barn í hjarta sínu. Elskulegur mömmustrákur.

Hann gengur nú í ljósinu, í sumarlandinu góða og nú er það hans að bíða, nú bíður hann eftir mömmu sinni.

-----------------------------------------------------------------------------------------------

Ég vil benda ykkur á að beina fyrirbænum ykkar að fólki sem stendur í erfiðum sporum. Þetta eru 6 aðilar sem hugur minn leitar til á þessum yndislega árstíma ástar og friðar í hjörtum. Hilmar minn er hólpinn, það hlýtur að vera þannig. Guð þekkir hjarta hans.

Ég raða þessu upp í einhverja röð, ekki endilega eftir hversu hlýtt mér er til þeirra...frekar svona handahófskennt.

Samkvæmt ósk á heimasíðu Þórdísar Tinnu erum við beðin að kveikja á kerti fyrir þær mæðgur í kvöld

Þórdísi Tinnu þekkjum við öll, hún þarf að komast heim fyrir jólin til elskunnar sinnar litlu.

Kári ofurstrákur fékk vondar fréttir núna nýlega. Hann biður okkur um fyrirbænir til sín,fólksins síns og baráttukveðjur. Hann er 18 ára.

Vala litla hefur ekki komið fram hérna fyrr en ég hef fylgst með henni. Hún er pínuponsulítil stelpurófa .

Páll er svo einn ungur maður sem kominn er í þessa baráttu. Mér er afskaplega hlýtt til móður hans. Nú er komið að mér að styðja. Hún studdi mig í sumar þegar Himmi dó.

Þuríði Örnu þekkjum við öll líka, hún er bara lítil telpa eins og Vala

Kristín Snorradóttir háir öðruvísi baráttu en það er líka upp á líf og dauða.

Munum eftir þeim öllum nú þegar nálgast jólin, þeirra spor eru öll skelfilega erfið.


ef þið þolið ekki reiðar konur þá verðið þið að fara annað !

Fór upp í rúm og út úr því aftur fokvond. Mér varð á að fara að hugsa um hann Himma minn og hans aðstæður í lífinu. Og ég varð reið,öskureið. Það er alltaf verið að tala um Guð og hvað hann er góður og jarí jarí...sér eru nú hver helvítis gæðin ! Rífa af mér Hilmar. Það er alveg lágmark að hirða fólk í réttri aldursröð og þá var ég bara langt á undan honum, takk fyrir. Guð hefur ekki hlustað rass á mig hingað til og ég er farin að hugsa alvarlega um að láta hann eiga sig héðan í frá. Þetta er allt tómt helvítis rugl og kjaftæði bara !!

Nú á að fara að byggja við fyrir austan, já einmitt. Búa til eitthvað andskotans batterí sem enginn getur haft yfirsýn yfir né kontrol á. Það er snjöll hugmynd !! Miðað við þá þjónustu sálfræðinga sem þeir eru að fá núna þá er það fullkominn óþarfi. Það má alveg eins moka þessum strákum inn í gáma á hafnarbakkanum...ja svo 10 stykki í hvern og loka. Þetta á að vera betrunarvist !! Hvar er þessi betrun eiginlega ? Ég veit ekki til þess að Hilmar hafi hitt nokkurn sálfræðing þarna.....Hann hitti bara fangaverði, undirborgaða og undirmannaða eins og allar stéttir sem vinna við að sinna fólki. Ó ég sagði fólki...sorry...fangar eru víst ekki fólk. Þeir eru undan óhæfu hyski, vondum foreldrum og langbest að loka augunum fyrir tilvist þeirra. Æ já ég bara gleymdi þessu í augnablik !!

Hvernig væri svo að sortéra þá aðeins betur ? Hvað hafa bílaþjófar og sektargemlingar að gera með að vera á gangi með morðingjum og nauðgurum ? Hvað hefur það upp á sig ? Hraðnámskeið ? Heppin er ég þá að Hilmar tók ekki eftir þeim lærdóm !!

Fjandinn hafi þetta allt og þennan helvítis Guð með því drasli öllu saman.


Gæti ekki sagt það betur sjálf

Ég taldi að dauði þinn


væri eyðing og eyðilegging,


sársaukafull sorg sem ég fékk vart afborið.


Smátt og smátt lærist mér


að líf þitt var gjöf og vöxtur


og kærleikur sem lifir með mér.


Örvænting dauðans


réðist að kærleikanum.


En þótt dauðinn sé staðreynd


fær hann ekki eytt því sem þegar hefur verið gefið.


Með tímanum læri ég að líta aftur til lífs þíns


í stað dauða þíns og brottfarar.

Höfundur er Marjorie Pizer


hugleiðing

Þú komst lítill og þú fórst stór.

Byrjunin ekki gæfuleg hjá okkur, þú lasinn en það lagaðist.

Fyrsta árið þitt voru gerðar nokkrar atlögur að þér.

Mest voru það mistök sem sneru að lyfjagjöf.

Þú hristir þetta af þér.

Þú varst alltaf glaður.

Þú brostir manna mest, alla æfina.

Fólk segir núna, þunglyndi. Það skiljum við ekki, við pabbi þinn.

Fátt er fjær raunveruleikanum.

Fangi, já. Sumt mátti setja beint á þín þroskafrávik.

Elskulegur, já. Það vissu allir sem þekktu þig.

Saknað, já. Alla æfina okkar mun okkur finnast við hafa verið snuðuð í lífinu.

Elskaður, já. Af öllu þínu fólki, heitt elskaður og það var gagnkvæmt.

Sumt fólk reyndist þér ekki vel, það þurfum við að lifa við og leysa það sem hægt er. Hitt verðum við að umbera.

Fallegastur, já. Mamma gekk um með þér, stolt af þér. Sætasti strákurinn, herðabreiður með stórar og þykkar hendur. Mamma elskaði hendurnar þínar og fallegu eyrun þín, mildu augun þín.

Stundum reiður, já. Mamma hafði lag á að róa sinn strák og þekkti takkana til að fá þig til að gleyma og fyrirgefa.

Langrækinn, nei. Aldrei...mun fljótari að gleyma en nokkur annar.

Seinna færðu betra bréf, ég veit að þú veist líklega afhverju þetta bréf er sett upp svona. Mundu, mamma þín mun elska þig alla sína æfi og hittir þig seinna með tilhlökkun í huga.

Núna eru ýmis verkefni sem bíða, við þurfum að passa Hjallann okkar og líka litla barnið sem er að hugsa um að koma í heiminn bráðum. Það mun missa af þér en mamma, Solla og allir munu segja því hversu góður strákur þú varst. Manstu hvað Sverrir litli bróðir sagði þegar hann klappaði á bringuna á sér...það var svo gott á Himma hérna. Einföld leið lítils bróður til að útskýra að hann hafði átt hjartahlýjan stóran bróður. Passaðu þau litlu systkinin og pabba og Heiði. Þú kemur úr svo stórri fjölskyldu að þú verður að vera alveg á þönum til að passa alla. Þú passaðir okkur þegar þú varst hérna, stundum hlífðir þú okkur of mikið, við hefðum þolað meira en þú vildir á okkur leggja.

Ég sakna þín en mér líður ögn betur nú en áður. Einhverntímann kemur að því að mamma þín verður til að lifa án þín en það er ekki komið enn að því. Veistu Himmi, það kemur samt seinna. Það verður ekki vegna þess að mamma sé hætt að elska þig eða búin að gleyma þér. Það verður vegna þess að öllu er afmörkuð stund. Stundin hennar mömmu er ekki komin enn en hún mun renna upp. Enn sé ég það sem gleðistund og óttast ekki. Það eru svo margir farnir. Það verður gott að hitta alla.

Hér í kommenti fyrir neðan erum við hvött til að hugsa hlýlega til litlu vinkonu okkar hennar Þuríðar Örnu og kveikja ljós á kertasíðunni hennar. Slóðin á kertasíðuna hennar er hérna til hliðar.


Kvöldið fór í

að sitja og hugsa í kirkju, það var ágæt tilbreyting en Keli móðgaðist nokkuð við mig. Hann er óvanur því að mammanhans sé að stinga af á kvöldin. Hundar eru vanafastir. Hló annars mikið að tíkinni hans Sigga Atla í dag,sat í bílnum hans meðan Steinar skokkaði inn í tryggingarnar til að ganga frá dagpeningunum á Bonzó. Hann sagði að hún væri alltaf að væla í bílnum og ef snúningurinn á vélinni færi yfir 3000 þá gelti hún. Hann sannaði þetta með að gefa bílnum dálítið rösklega inn á planinu, það passaði alveg. Tíkin gelti alveg fokvond þegar snúningshraðamælirinn var kominn í þolmörk hennar.

Tengdasonurinn náði sér í mörg prik í dag. Málið var að við fengum boð frá sr.Bjarna um að koma í kirkjuna á fræðslufund um sorg. Mér leist nú ekki rétt vel á að fara ein og hafði líka einhvern grun um að fólki gæti fundist þetta hjálplegt í erfiðum aðstæðum. Mál þróuðust því miður þannig að fólk forfallaðist af ýmsum ástæðum. Það endaði með að þetta vorum bara við gamli, en þá birtust bestu krakkarnir úr Njarðvíkinni og meira að segja tengdasonurinn sem er með krónískt kirkjuofnæmi. Svona eiga menn að vera...setti bara gömlu sína fyrst og lét sig hafa það. Það var mikil spenna í kirkjunni, við Solla vorum að velta fyrir okkur inn á milli hvort presturinn væri klár ljósmóðir. Krílið lét illa og það voru komnir samdráttir og bakverkir í viðbót. Þannig að þegar samveran í kirkjunni var búin þá hentust þau upp í bíl og hurfu í reykmekki suður með sjó aftur. Hún ætlar að eiga í Keflavík og ekki orð um það meir. Þar má nebblega sulla í baði meðan maður er að fæða barn.

Nú krossleggjum við, kæru bloggvinir, allt sem krossleggja má og vonum að barn komi í nótt.

Svona í leiðinni vona ég að skjálftarnir á Selfossi fari að hjaðna...ómögulegt að hristast fram úr í nóttinni.

PS

smá bræðra brandari síðan fyrir nokkrum árum.

Himmi stökk inn til að vekja Bjössa.

Himmi: Daddara !

Bjössi: (á kafi undir sæng) Dagskrá vikunnar !

Sumt lærðu þessir gormar örugglega og nokkuð fljótt.


Hluti þess sem datt út

Fólk talar um að Hilmar sé í kringum mig, ég hef ekki orðið vör við hann þó ég sé þekkt fyrir að hafa stundum aukaskilningarvit. Ég er heldur ekkert viss um að ég vildi að hann væri að væflast sjáanlega í kringum mig og ég geti ekki knúsað hann. Yrði ég ekki bara meira sár ef ég fyndi hann hérna og gæti ekki átt samskipti við hann ?

Þegar mamma dó, það verða 5 ár núna 30 nóvember, þá varð ég vör við hana næstu nótt á eftir. Síðan ekki söguna meir.

Við erum ansi mörg sem erum brotin eftir að missa Himma, bendi á síðuna hennar Heiðar. Hún ól hann upp til jafns við mig og á einnig mjög erfitt. Ég hef stundum öfundað hana svolítið af því að hafa litlu krakkana, "litli krakkinn" minn er stærðar kall með skegg og stundum táfýlu...en ég elska hann samt. Ég er líka nokkuð viss um að stundum er ekki langt í tárin hjá pabba strákanna þegar hann situr einn í vörubílnum sínum og hefur frið til að hugsa og sakna Hilmars.

Hjá mér potast lífið í gamlar skorður en undanfarnir dagar hafa verið skelfilegir, ég held að það hafi verið vegna afmælisdags Hilmars. Ég meina við vorum oft ekki sátt við þær leiðir sem hann fór en ekkert okkar, ekkert okkar, var til í að missa hann. Þennan fallega og góða strák....meinleysisljósið og gæðablóðið hann Himma.

Í kvöld ætla ég að hugleiða málin í góðum félagsskap. Ég er að reyna að pína Björn með mér en ef það gengur ekki þá kemur amk Steinar með mér.

Minni á kertasíðuna hans Himma, þar má senda okkur hlýjar kveðjur og hugsanir...ekki veitir okkur af..


Hrmpf

Hvað á maður eiginlega að gera ef maður sefur ekki ? Þetta er nú að verða ljóti vítahringurinn á þessu heimili ! Mér þykir verra ef það á að verða nauðsyn að kallinn handroti mig á kvöldin svo ég sé til friðs !! Ég fengi hann nú örugglega seint til þess blessaðan en hvað á að gera ? Öll gömul húsráð gagnslaus og bara tóm leiðindi í boðinu !

HRMPF..........

Þessi færsla er í boði Actavis sem selur svefnpillur !!


Slagveður

jesusAngelHeartPedestal

Ég ætla ekkert að gera nema bjóða góða nótt. Kæru vinir, allar myndir sem ég set hérna má taka, ég á þær ekki frekar en þið, er bara að deila þeim með ykkur.

Takk fyrir alla hlýjuna og öll ljósin á kertasíðunni hans Himma míns, mikið vildi ég óska að hann gæti séð þetta angastrákurinn minn.


Kylfa óskast !

Mér tekst ekki að sofa eins og sést á tímanum á þessari færslu.

Gærdagurinn varð verri en allt slæmt ! Ég sat lungann úr deginum ráðalaus með sjálfa mig og hafði mig ekki til neins. Björn rak mig svo af stað um kvöldmat upp í garð og þar hittum við Sollu og Jón. Við kveiktum á kerti en stoppuðum ekki lengi hjá Himma, skítkalt og svartamyrkur í stíl við mig sjálfa.

Þau komu svo með okkur hingað heim og ég eldaði kjúklingabringur. Þær voru ágætar. Svo héngu þau greyin hér frameftir öllu, vildu ekki skilja mig eftir eina heima. Björn ætlaði með þeim suðureftir og gerði það svo fyrir rest. Ég sat bara áfram hér í hlutlausum gír þar til Steinar kom loksins heim um klukkan 1. Hann var að vinna -allan daginn í gær. Núna steinsefur hann greyið og fattar sem betur fer ekki að hann er einn þarna inni.

Snemma morguns á afmælisdegi Hilmars sofnaði lítill strákur inn í eilífðarljósið. Föður hans þekkti ég í gamla daga, hann bjó beint á móti mér þegar ég var krakki. Hann er talsvert yngri en ég. Ég bað Hilmar sérstaklega um að passa þennan litla gutta þegar ég fór að gröf Hilmars. Blessað barnið og vesalings vesalings foreldrar hans. Barnið er laust frá sínum þrautum og veikindum en sporin þungu foreldranna þekki ég orðið of vel. Megi Guð veita þeim styrk.

Góð kona kom til hennar Heiðar með mynd af Himma síðan hann var í unglingavinnunni. Hún hafði lesið hérna á síðunni minni og vildi að myndin kæmist til fjölskyldu hans. Fyrir það er ég þakklát og búin að vista myndina á tölvunni minni en hana má sjá Heiðar megin (www.snar.blog.is )

Eins er ég þakklát ykkur sem settuð ykkar mark á vonda daginn og skilduð eftir hughreystingu og góðar óskir. Ég syrgi ekki að hafa átt Hilmar, ég syrgi tapaða framtíð og alla möguleikana hans sem hann átti ónýtta. Hann var strákurinn minn, heimsins bestur og blíðastur.

Jónu tókst samt að láta mig brosa í gær. Þessi elska...Hún brasaði nánast í því í allt gærkvöld að setja inn 22 ljós fyrir Himma. Eitt fyrir hvert ár. Jóna er ein þeirra sem gefur mér svo mikið í þessum bloggheimi. Þegar hún segir frá Þeim Einhverfa þá les ég og ég næ að skilja þrátt fyrir takmarkaða þekkingu á einhverfu. Þetta er eitt af því sem gerir bloggið hérna svo skemmtilegt, hér finnur maður allt mögulegt og lærir á allt mögulegt.

Ég hef líka afar gaman af tveimur systrum sem hafa verið að læra stafina, mér þótti ekki verra að sjá mömmu þeirra í útsvari í kvöld þó að athyglin væri óvart um víðan völl. Þegar ég sé á forsíðunni stafapistil þá rýk ég inn að lesa. Mér finnst svo gaman að lesa hvaða myndir telpur tvær teikna í kringum hvern staf.

Jenný mín er sífelld uppspretta gleði og er ég þó alls ekki sammála öllu sem hún skrifar. Sérlega lendum við á sitthvorri blaðsíðunni þegar hún er á dómaravaktinni en það er allt í lagi, ég les samt og meira að segja skamma hana ekki neitt þó ég sé ósammála. Hún hefur rétt á sinni skoðun og setur skoðanir sínar svo skemmtilega fram að það er ekkert hægt að fara í móðgunargírinn. Hún er ein fárra sem ég þekki í raunveruleikanum og það hef ég gert lengi.

Ég get skrifað svona pistil um flesta bloggvinina enda reyni ég að renna yfir hjá þeim daglega flestum. Í gær bættist við hann Valgeir sem fjallar um sína erfiðleika af mikilli hreinskilni. Hann er of þungur og vill fá úrbætur í kringum þann málaflokk og þar er ég sammála honum.

Milla mín er oft með svo skemmtilegar sögur og brandara að það er nauðsynlegt að skjótast inn til hennar áður en haldið er í háttinn.

Jórunn fær barnabörnin í heimsókn og hefur umsjón með móður sinni sem er á heimili hér í borg, mér finnst ég finna lyktina úr rúmfatnaðinum hjá ömmu minni þegar ég les síðuna hennar. Ég fæ svona notalega ömmutilfinningu. Nýlega bloggaði hún myndarlega um ferð sem hún var að koma úr og birti myndir. Það var gaman að sjá þetta allt enda á ég eftir að komast til útlanda, það hef ég aldrei gert.

Hérna hjá mér eru líka nánir fjölskyldumeðlimir.

Mæður sem eiga börn sem eru eða hafa verið í vanda.

Þórdísi Tinnu okkar þekkja allir, duglegu hetjuna okkar með músina sína.

Gillí er horfin okkur í bili en Anna frænka hennar er hérna enn. Hún skrifar skemmtilega um liðna tíð, skák og stundum tattoo. Stundum í gátum og stundum í vísum.

Ég er að horfa á einhverja leim ass bíómynd um sveitalöggu sem fann dauðan kall í runna,datt aftur fyrir sig og skaut upp í loftið...í boði Hallmark. Mér sýnist að bæli og bók líti betur út.


Fyrsta afmælið á himnum

rosecandles.

100_0890


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband