Færsluflokkur: Bloggar
Sunnudagur, 10. febrúar 2008
Himnaríki
er búið að vera á heilanum á mér undanfarið. Ég virðist aldrei geta fengið eitthvað létt og einfalt á heilann.
Ég er auðvitað búin að velta þessu mikið fyrir mér síðan Himmi fór. Þegar ég fór í skírn Hilmars litla um daginn þá stóð ég mig að því að skera niður hvert orð sem presturinn sagði, vega og meta og endirinn varð sá að ég henti þessu öllu frá mér jafnóðum sem bulli. (Nú fæ ég alla trúarkappana á Moggabloggi í hausinn)
Jæja en aftur að umræðuefninu.
Fólk segir undarlegustu hluti þegar það missir ástvin. Guð elskar þá sem deyja ungir (amma mín varð rúmlega níræð, var Guði illa við hana ?)
Það hefur vantað einn svona í Himnaríki (það finnst mér ekki trúlegt, það eru milljónir manna þarna uppi)
Ég held að himnaríki sé eitthvað patent sem syrgjendur fundu upp til að minnka sársaukann og það skil ég vel. Það er náttlega notalegra að hugsa sér ástvininn á góðum hlýjum stað en grafinn ofan í kalda jörðina, orðinn að skordýramat.
Nú er kominn matur hjá mér og ég legg niður fingur í bili...reyni kannski að bæta við þetta síðar.
Bloggar | Breytt 21.9.2009 kl. 10:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Laugardagur, 9. febrúar 2008
Gengið niður minningastíg
Undanfarið hef ég af mestu varkárni þrætt hugann til baka og dvalið nokkuð við dagana dimmu og ljótu. Ég hafði áður reynt að bægja þessu sem mest frá mér, óviss um að ég þyldi að hugsa um þetta af neinu viti. Þetta gerist samt afar varlega, ein hugsun í einu og ég spái í hana þann daginn.
Það hjálpaðist reyndar nokkuð margt að í að gera þetta "þolanlegt". Suma daga var þetta samt næstum óbærilegt.
Ég man heimsókn prestsins, ég man símtalið við prestinn fyrir austan sem fékk það ömurlega verkefni að láta Hjördísi vita.Ég gat ekki hringt í hana með þessar fréttir, það var bara ekki hægt. Ég man líka vesenið með að ná í krakkana. Solla og Jón að koma að austan úr sumarbústað, þeim var fyrirskipað að koma hingað...beina leið. Ekki veit ég hvað þau héldu greyin. Það náðist ekkert í Hjalla símleiðis og Jón og Björn voru settir í að fara heim til hans og sækja þau. Þeir urðu að vera með pókerpeis dauðans alla leið hingað. Björn kom til mín og sagði ; þetta var erfitt !. Það blikaði á tár.
Að þurfa að segja börnunum sínum að nú hafi eitt þeirra látist er hryllingur.
Systir mín kom hingað og ég minnist nærveru hennar allan þennan vonda dag. Hún hlustaði á mig tauta um allt og ekkert, kvarta sáran yfir öllu mögulegu en hún hlustaði líka á þegar móðirin allt í einu rétti úr sér og tilkynnti við eldhúsborðið : Hann verður ekki jarðaður í kyrrþey !! Hann var strákurinn minn !!
Til mikils léttis þá gekk faðir hans alveg samstíga mér með það. Hann vildi heldur ekki jarða Himma í kyrrþey.
Ég er að verða búin að ganga gat á þennan dag í huganum. Ýmislegt undarlegt vildi ég endilega gera. Það skrýtnasta eflaust að láta vita í vinnunni minni að ég kæmi ekki á réttum tíma úr sumarleyfi. Það var nú samt nægur tími til að spá í það, heil vika eftir. Samviskusemin að drepa konuna...
Við hittumst fyrir utan sjúkrahúsið á Selfossi. Þar beið hann okkar, elsku strákurinn. Við vorum öll meira og minna klumsa. Enginn vissi eiginlega neitt hvað ætti að segja eða gera....presturinn fór með bænir en ég man ekki eitt orð. Ég man að áfallið við að sjá hann var svo mikið að ég átti ekki eitt einasta tár til, ekki eina hugsun meðan ég horfði á lík sonar míns á börunum. Vantrúin var svo mikið. Honum var svo kalt ! Það var svo undarlegt að horfa á hann að um tíma fannst mér eins og ég væri alls ekki þarna. Við strukum kollinn hans og kysstum hann. Ég man hversu áberandi kollvikin hans voru. Hann var búinn að skamma mig fyrir þetta. ,,ég er að verða sköllóttur mamma !" eins og afi !! En svo brosti hann. Þarna brosti hann ekki. Hann lá kyrr, kaldur....farinn frá okkur.
Hann hafði gengið út í síðsumarið síðla nætur, einn ...alltaf einn.
Hluti af þessu að vilja ekki jarða hann í kyrrþey birtist hérna á síðunni. Núna þegar hann er ekki lengur hér þá á hann marga að sem þykir orðið vænt um hann. Það eruð þið sem hafið kynnst þessum strákanga eins og mamma hans sá hann, ekki eins og réttvísin sá hann. Að vísu veit ég að mörgum þeim sem um hans mál fjölluðu þótti nokkuð til hans koma. Gæðin skinu af þessum góða, vegvillta strák.
Þegar ég hugsa um þennan vonda dag, þá kemur líka upp mikið þakklæti, þakklæti til þeirra sem stóðu mér næst þennan vonda dag.
Bloggar | Breytt 21.9.2009 kl. 10:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (27)
Fimmtudagur, 7. febrúar 2008
Hver og einn þeirra
er sérstakur. Þetta er alls ekki one size fit´s all.
Þetta er ekki Himmi minn, þetta er ungi maðurinn sem lést rúmum mánuði seinna.
Hérna er fréttin
Smá viðbót, var að lesa meiri fréttir á vísi og fann þessa setningu
Málið er til rannsóknar hjá deild innan Scotland Yard sem sér um alvarleg morðmál.
Þeir eru svo klárir þarna að þeir eru með sér deild fyrir óalvarleg morðmál.
Bloggar | Breytt 21.9.2009 kl. 10:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Miðvikudagur, 23. janúar 2008
Ummæli
sem ég heyrði í dag hafa setið ögn í mér.
Á vefnum www.gossip.is er fjallað um þennan leikara sem lést í gær, man ekki nafn hans í bili enda þekki ég afar lítið til leikara almennt. Þar er videóklippa af fréttastöð og þar er meðal annars rætt við foreldra þessa unga manns. Þau aftaka að hann hafi fyrirfarið sér og segja ; hann var ekki þannig maður !.
Þó ég hefði verið klipin með glóandi töng þá hefði ég aldrei látið mér til hugar koma að Hilmar minn ætti eftir að taka sitt líf eins og hann gerði óneitanlega 19 ágúst síðastliðinn. Manni dettur þetta bara ekki í hug. Hilmar var aldrei þunglyndur, hann var ótrúlega hressilegur og skemmtilegur strákur. Mér gafst ekkert færi á að þræta. Hann var jú aleinn í klefanum sínum þegar að var komið. Þá tóku bara við hinar spurningarnar, afhverju ? Hvað gerði ég vitlaust ? Hvað var eiginlega að hrjá hann ?
Við erum svosem komin með flest svörin sem snúa að honum en eigum öll eftir að sitja uppi með að skamma okkur sjálf fyrir að hafa ekki séð og heyrt neitt. Hann skildi okkur eftir með samviskuna í molum og það þurfum við að lifa með það sem eftir er. Hann skildi eftir bréf til okkar, eitt til mömmu og annað til pabba.
,,fyrirgefðu. Ég elska ykkur öll."
Það vissum við en í mestu og sárustu örvæntingunni hljómaði þetta bréf í huga mér og ég endurtók í huganum ; Já Hilmar, ég fyrirgef enda elska ég þig.
Ég hef greinilega verið heldur draugsleg undanfarna daga, húsbóndinn tók eftir því. Það er gott að eiga skilning hans þegar þarf á að halda. Ómetanlegt....
Bloggar | Breytt 21.9.2009 kl. 09:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Sunnudagur, 20. janúar 2008
Ég leit aðeins við á
kertasíðunni hans Himma og ég er svo þakklát fyrir kertin sem þið, elskulegir vinir, setjið fyrir hann þarna Það er svo notalegt að sjá hlýhuginn og skilninginn, það vekur mér von um að hann hafi kannski ekki farið alveg til einskis...kannski varð hann til þess að þú, lesandi góður,sérð að stundum eru þetta bara synir mæðra sinna. Elskurnar mínar, hjartans þakklæti fyrir ljósin hans. Í gær voru 5 mánuðir síðan hann Himmi minn dó, ég sakna hans gríðarlega og berst oftast við sektartilfinningu, mér finnst ég hafa stundum brugðist honum -vesalings vandræðabarninu mínu.
Ég hef ekki brugðist eftir að hann dó, ég hef reynt að hamast við að vekja athygli á málefnum fanga. Kannski fyrir daufum eyrum, það verður að hafa það en dropinn holar steininn.
Kæru vinir
Þórdís Tinna er mikið lasin, minnist hennar í bænum ykkar og hérna til hliðar er slóð á kertasíðuna hennar. Hún er samskonar og síðan hans Himma. Jafn einfalt en þið gerið ykkur líklega ekki nokkra grein fyrir hvað þetta gleður innilega særð hjörtu. Þarna er líka slóð á kertasíðu fyrir Þuríði Örnu sætaskott. Það var gaman að sjá pabba hennar í sjónvarpinu og myndir frá tónleikunum síðdegis. Okkar góða tónlistarfólk er yndislegt að styrkja SKB svona myndarlega.
Góða nótt
Bloggar | Breytt 21.9.2009 kl. 09:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
Föstudagur, 18. janúar 2008
Málefni fanganna
Grein á www.visir.is um málefni fanganna. Ég fagna öllum tillögum til úrbóta og minni enn á að í upphafi skyldi endinn skoða. Þeir koma út aftur og hvernig viljum við hafa þá ? Ég geri mér grein fyrir að þeim verður ekki öllum komið á rétta braut en hver einn sem bjargast er ansi dýrmætur.
Greinin er hérna
Bloggar | Breytt 21.9.2009 kl. 09:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Föstudagur, 11. janúar 2008
Ég las grein í morgun
Þar var verið að ræða við Margréti Frímannsdóttur sem tekur við Litla Hrauni 1 febrúar næstkomandi. Hún segir þar frá þeim línum sem hún hyggst leggja og sínum áherslum. Ég sat með tárin í augunum, það voru gleðitár. Loksins loksins kom einhver sem skilur. Ég hef séð hérna á blogginu fólk nöldra yfir að hún sé þarna, hún sé ekki menntuð til þess og svo þetta klassíska að hún sé uppgjafa pólitíkus....Stundum væri ekki verra ef fólk kynnti sér hlutina. Hún Margrét er nánast alin upp þarna á Litla Hrauni, þar var faðir hennar yfirfangavörður og hún er alin upp við umræður um fangelsið og fangana þar.Hún hefur veitt forstöðu nefnd sem unnið hefur að því að bæta aðstæður þarna, nefnin skilaði af sér í lok árs.
Það eina sem mér líst ekki á er að það eigi að stækka fyrir austan, ákveðnir gallar eru nú þegar komnir á fangelsið og ég tel það vegna stærðarinnar og ekki nægs eftirlits með föngunum. Það fór um mig hrollur þegar ég komst að því hvernig sumir fangar koma fram við aðra. Það má ekki gerast að við situm uppi með fangelsi sem verður eins og þessi amerísku fangelsi, með sínum klíkum og misþyrmingum á veigaminni föngum. Það þarf að fylgjast vel með. Gríðarlega vel. Það þarf að skilgreina það sem alvarlegt agabrot ef fangi brýtur gegn öðrum fanga.
Þið hin sem ekki hafið átt fanga í ykkar fjölskyldum megið minnast þess að þessir menn koma út aftur. Það er líka ykkar hagur að þeir komi betri út. Það er allra hagur að það takist að bæta fangana og endurhæfa þá.
Hugur minn leitar enn öðru hvoru til þeirra fangavarða sem komu að Himma mínum. Ég fékk martraðir og tóma dellu eftir að ég fór að sjá hann á sjúkrahúsinu á Selfossi. Það skal hafa verið slæmt að koma að þessu. Aumingja fangaverðirnir....en hins vegar sagði Valtýr fangelsismálastjóri að þeir hefðu fengið áfallahjálp. Það vonandi gerði eitthvað gagn.
Margréti Frímannsdóttur vil ég óska alls hins besta í starfi og ég hef svo mikla trú á henni. Meðan hún var á þingi þá sá maður að hún var afskaplega mannleg og hlý kona. Strákarnir fyrir austan eiga skilið að fá slíka konu til sín.
-----------------------
Annars er ég enn ómöguleg. Ég sef bara og sef. Málið er að janúar er leiðinlegur. Í desember er gleði og tilhlökkun. Maður er á kafi að finna gjafir fyrir ástvini sína og senda öðrum ástvinum kort. Það er mikið að gera og mikið gleði. Svo kemur janúar og púff....allir þreyttir og ekkert að gerast. Heilmikið myrkur og allt í pati.
Áætlanaskrá fyrir árið 2008
Ég ætla að spara og búa mig undir kreppu.
Ég ætla að fara til Selfoss í skemmtiferð , ég bara verð að losna við þessa slæmu ímynd bæjarfélagsins úr höfðinu. Nú er bara að þora Suðurlandsveg.
Fleiri áætlanir eru ekki komnar í gang...enda er ég ekki kona loforða, ég er kona framkvæmda.
Bloggar | Breytt 21.9.2009 kl. 09:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
Miðvikudagur, 9. janúar 2008
Komin heim
og er nokkuð góð bara.
Himmi hefur mikið verið í huganum. Hann var duglegur að kíkja til mín í vinnunna og í kvöld þegar einkabíll stoppaði fyrir utan gluggann eins og verið væri að gá hver væri á vakt þá var það ósköp Himmalegt. Þá saknaði ég Himmans.
Horfði á viðtal við smyglara í sjónvarpi og fannst afleitt að hann hugsaði aldrei til þeirra sem hefðu keypt dópið og óþverrann sem hann ætlaði að koma með inn í landið. Bara eintómir eiginhagsmunir eins og þjóðfélagið er reyndar orðið gegnsýrt af.
Las mér til skemmtunar eitt kvöldið brot af sögu Amish fólksins í Bandaríkjunum. Þar er mannkærleikur,hjálpsemi, trú og kirkjurækni í forgrunninum á þeirra samfélagi. Virkaði á mig sem friðsælt og notalegt líf, án nokkurrar truflunar frá brjáluðum heimi. Þau voru að vísu alvarlega trufluð þegar óður maður réðist inn í skóla þeirra og skaut marga nemendur og svo sjálfan sig. Í kærleika umvöfðu fjölskyldur barnanna fjölskyldu skotmannsins, konu hans og börn. Merkilegt fólk.
Steinar er að setja upp reykskynjara. Þeir höfðu allir verið teknir burt af seljanda. Þetta hefur verið á dagskrá síðan við fluttum inn en framkvæmdirnar eru bara á hraða snigilsins hérna stundum. Nú er þetta komið í lag. Það er gott.
Ég sef og sef þessa dagana öfugt við svefnleysið sem hrjáði mig. Það er eiginlega ekki betra. Ég hef ekki neina orku og rétt kemst bara í vinnuna...svo sigli ég bara í bælið og steinsef þar.
Nýja sængin er spes, afar létt. Hún er úr rúmfó. Þar er náttlega brjáluð útsala eins og alls staðar annarsstaðar. Mig vantar samt eiginlega ekki neitt meira og mun ekki kíkja á neinar útsölur frekar.
Æj ég er hálfþreytt og dösuð....tala við ykkur á morgun.
Bloggar | Breytt 21.9.2009 kl. 09:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
Þriðjudagur, 8. janúar 2008
Yesssss!
Margrét Frímannsdóttir forstöðumaður Litla-Hrauns | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 21.9.2009 kl. 09:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Föstudagur, 28. desember 2007
Engill með samviskubit
Hafið þið séð svoleiðis engil ?
Ekki ég en ég geri ráð fyrir að þannig engill sé nokkuð sorglegur. Vísast leikur hann bara sorgleg lög á hörpuna sína, með társtokknar kinnar og vængirnir drúpa af sorg. Hilmar minn á ekki að vera svoleiðis engill. Hann á að vera fallegur og glaður engill eins og hann var í jarðlífinu. Hann brosti endalaust og var alltaf glaður. Þegar ég var komin upp í rúm í gærkvöldi þá sá ég fyrir mér Himma skellihlæjandi, einhver gömul prakkaraminning. Ég lá í myrkrinu og brosti sjálf svo mig verkjaði í kinnarnar. Ég var glöð innan í mér og það var gott.
Ég hef farið upp og niður tröppur síðan Hilmar dó. Það var ekki fyrr en mér tókst að beita smárökhugsun að ég fann leiðina sem ég ætla mér að feta í minningu hans. Sorgina ætla ég að geyma innra með mér og sjá hvort hún dofnar ekki. Minninguna um góðan strák ætla ég að eiga alltaf og henni ætla ég að halda á lofti. Ég neita að láta þetta brjóta mig, ég harðneita að gera það. Það munaði minnstu samt í kringum afmælið hans. Þá festist ég í vonlausum vítahring og svaf ekki. Það lagaðist en ég hef samt ekki klárað svefntöflurnar sem ég fékk. Ég vil ekki sofa með hjálp meðala né deyfa hugann með slíku.
Sé það svo að Himmi minn sjái til mín þá vil ég að hann sjái mömmu sína sem saknar hans, hann á ekki að sjá bugaða móður. Hann á ekki að fá samviskubit yfir því að hafa valdið mér slíkri sorg. Það á hann ekki skilið af móður sinni. Geti hann séð þá vona ég að hann sjái líka að fjölskyldurnar tvær hafa náð vel saman. Heiður sendi mér mynd af börnunum, litlu systkinum Himma, það þótti mér reglulega vænt um.
Oft hafa þessar fjölskyldur verið á öndverðum meiði eins og oft er eftir skilnað. Samskiptin oft föst í einhverri kergju . Það var ekkert frekar þeim að kenna en mér. Nú þegar ég lít til baka þá þakka ég Guði fyrir Heiði. Hún var frekar ung þegar hún tók upp samband við Gísla sem nú hefur varað í ansi mörg ár. Mínir strákar voru litlir og alla tíð hefur hún tekið þeim afskaplega vel. Fyrir það er ég þakklát. Í dag er ég þakklát og ekki minna gleður mig að þeir tveir synir mínir sem eftir lifa eru elskir að Heiði og þykir reglulega vænt um hana. Mín ósk er sú að samskiptin verði ekki minni á árinu 2008. Ég gleðst þegar krakkarnir koma og vil endilega fá að fylgjast með uppvexti þeirra. Heiður tók ekki að sér lítið verkefni þegar mínir gormar voru þar um helgar, uppátækjasamir með afbrigðum og miklir gormar. Ekki var það minna þegar þau tóku alveg við uppeldi Hilmars þegar hann var 9 ára. Allt þetta leysti hún og Gísli með miklum sóma.Þau gerðu allt sem hægt var til að teyma Himma rétta leið en hann fór sínu fram. Ef allar stjúpmæður tækju börnum manna sinna svona eins og Heiður gerði þá væri margt öðruvísi á mörgum heimilum. Þessar samtíningsfjölskyldur eru að verða algengari en nokkuð annað form sambúðar. Pör koma bæði með börn inn í sambúðir og eignast svo kannski saman fleiri. Það þarf að gæta að jafnræði á heimilinu og það getur verið nokkuð púsl.
Það sem fer mest í taugarnar á mér er þegar fólk lætur biturð bitna á börnum. Börn eru börn og eiga að fá að vera það í friði. Sár á sál barns getur haft alvarlegar afleiðingar og ágætt er að hafa í huga að börn verða ekki alltaf börn. Vond framkoma við börn getur skilað sér árum seinna.
Ég mun halda uppteknum hætti og horfa frekar til þeirra sem snerta hjarta mitt og ég vil beina sjónum fólks að. Það er bara ég. Ég get ekki sett sjálfa mig í einhvern forgang. Mér líður oft sjálfri betur þegar ég sit og hugleiði stöðu annarra. Eða sko kannski ekki betur ...æj vont að finna réttu orðin. Ég vil fá að benda á þá sem mér finnst þurfa þess með...mér sárnaði nokkuð að lesa ábendingar um að hugsa um sjálfa mig og beina orkunni þangað. Það er ekki ég. Ég þarf að setja inn linka á síðurnar hérna til hliðar....ég er enn bara með Kára ofurstrák þar. Þar eiga sko fleiri að vera.
Klús á línuna og sorry hvað þetta varð langur pistill. Mæli með smákökum og mjólk við lesturinn.
Bloggar | Breytt 21.9.2009 kl. 09:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)