Færsluflokkur: Bloggar
Laugardagur, 8. mars 2008
Sólin skín
og ég hef ákveðið að byrja á þessu sem ég hef hugsað um í margar vikur, út að labba meðan sólin skín. Ég hef verið rög að byrja vegna þess að ég þoli svo illa kulda í gigtina, þá verður tilfinningin eins og það sé bein í bein þegar ég hreyfi mig og það er frekar vont.
Himmabíllinn stendur hérna úti. Þegar Solla kom í pönnsurnar þá hrökk hún við og hugsaði ; Víj hann er kominn ! Um leið kom leiðréttingarhugsunin upp, hann er ekkert kominn, hann er dáinn !! Þetta kannast ég við. Í vinnunni hrekk ég við þegar ókunnugur bíll stoppar fyrir utan gluggann og upp kemur..Himm........nei auðvitað ekki. Hann gerði þetta, stoppaði fyrir utan gluggann til að sjá hvort mamma var að vinna eða einhver annar.
Ég var að rifja upp með sjálfri mér áðan...vítiskvalirnar fyrst. Ég hugsaði alvarlega um að reyna að deyfa sársaukann með víni eða einhverjum pillum. Bloggvinir réðu mér frá því og þungt vegur auðvitað Jenný mín með snúrubloggin sín. Ég veit hvernig ég er, ég hefði hvergi stoppað, geri aldrei hlutina til hálfs, ég hefði drukkið mig beint ofan í gröfina. Ég fékk svefnpillur hjá lækninum þarna í kringum afmælið hans þegar sturlunin hafði náð þeim hæðum að ég svaf alls ekki. Ég notaði bara nokkrar, meðan ég var að ná að snúa ofan af þessu. Hinar sofa bara í náttborðinu mínu. ZZzzzzzzzzz.
Nú skal arkað af stað, ég er of þung ! Of máttlaus ! of stirð! Ég held að ég sé 83 kg og það gengur nú ekki upp. Steinar rifjar stundum upp þegar við kynntumst...100 ár síðan náttlega. Þá mátti ég þakka fyrir að tolla í 50 kg. Þangað ætla ég þó ekki aftur en verð sátt ef ég næ að mér 15-20 kg.
Annars góð..................njótið sólarinnar.
Bloggar | Breytt 21.9.2009 kl. 10:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Miðvikudagur, 5. mars 2008
Allur skalinn upp og niður
Sorg
Reiði
Skilningsleysi
Vantrú
Sektarkennd
Sjálfsásökun
Söknuður
Þetta eru þessar helstar sem ég hef bögglast með í gegnum áfallið mikla í ágúst síðastliðnum. Ég varð svo reið, við lífið og þann sem öllu ræður.
Skilningsleysið , ég skildi ekki hvernig hann gat gert þetta.
Vantrúin helltist yfir mig, hvernig gat þetta gerst ? Hvernig datt honum þetta í hug ?
Sektarkennd, vonda vonda tilfinningin um að ég hefði brugðist barninu mínu herfilega
Sjálfsásökun, ég gerði eitthvað eða gerði það ekki. Þetta hlaut að vera mér að kenna.
Söknuður svo sár að stundum er eins og bjarg hvíli á brjóstkassanum. Í ömurlegum vanmætti kjökra ég innra með mér og sé ekki hvernig lífið á að geta haldið áfram án hans.
---------------------------------------------------------------------------------------
Dofinn sem kom yfir mig var undarlegur, í fullkomnu skilningsleysi strauk ég vangann hans, ískaldan á sjúkrahúsi Selfoss. Það féll ekki eitt tár. Þá þegar var ég búin að bíta fastar á jaxlinn en ég taldi mögulegt. Ég reyndi af alefli að taka höggið af systkinum hans og stóð eins upprétt og ég gat. Þau áttu skelfilega bágt, þau voru svo brotin. "það er eins og brosið hafi verið þurrkað af andlitinu á mér og það kemur aldrei aftur " sagði Björn brostinni röddu. Þau áttu svo bágt að maður sá að þau liðu líkamlegar kvalir.
Mér tókst að skipuleggja útförina og halda andlitinu nánast í gegnum þetta allt nema við kistulagninguna hans. Þá kom örvæntingin fram, svo sár -svo erfið. Presturinn fól mér það verkefni að breiða líkblæjuna yfir andlit hans þegar athöfninni lauk. Að kveðja hann, endanlega.
Hann var ekki sjálfum sér líkur -hann hafði verið krufinn og merki þess sáust svo greinilega. Það kvaldi svo Hjalta bróður hans..".andlitið hans passar ekki" grét hann. Það var rétt hjá honum, nebbinn hans virkaði ókunnugur, augun sokkin...lífleysið algert. Hræðileg sjón...
Ég ákvað að hlífa fjölskyldunni fyrir minni kvöl, tók gamla harðjaxlabragðið á þetta og komst upp með það. Ég rausaði hérna, grét mig í gegnum hverja færsluna á fætur annarri. Las kommentin ykkar og grét meira. Myrkrið í sálinni þessar fyrstu vikur er eitthvað sem ég vil ekki og get ekki endurtekið. Ég grét og skammaði Guð. Því tókstu ekki mig frekar !! Taktu mig núna þá, þú ert búinn að skemma allt lífið mitt, nú er það handónýtt !! Var ekki nóg komið ?
Gamli jaxlinn er ekki betri en svo að enn hef ég bara farið í aðra vinnuna mína, hina get ég ekki feisað enn. Að sitja ein með sjálfri mér og bíða eftir kalli frá stöðinni er bara flókið ennþá en samt veit ég að bráðum verð ég að láta mig hafa það. Einhvernveginn verð ég að fjármagna fyrirhugaðar viðgerðir á húsinu í sumar. Það hefst ekki nema með vinnu.
------------------------------------------------------------------------------------
Mér er ekki vorkunn núna, ég vildi skrifa niður tilfinningarnar svo ég hefði það hérna í handraðanum. Ég er komin heillangt frá verstu dögunum. Ég nota oftast það sama á sjálfa mig, þetta hérna ; Ekki vera lítil og brotin, hann Himmi hefði ekki viljað það. Hann elskaði þig, mömmuna sína. Hann gat bara ekki meira basl sjálfur, þessi elska.
Góða nótt
Bloggar | Breytt 21.9.2009 kl. 10:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (26)
Sunnudagur, 2. mars 2008
Tölfræði um sjálfsvíg á Íslandi
Ég rak augun í efasemdarraddir hér í kommentunum um þennan fjölda sem hér kemur fram. Þess vegna ætla ég að skýra tilurð þessara talna. Þær eru fengnar af vef Hagstofu Íslands sem heldur utan um allar slíkar skráningar á Íslandi. Þessar tölur hjá þeim koma úr skráningu dánarvottorða....til fróðleiks ætla ég að líta á tölur hvað varða konur. Stúlkur fyrirfara sér flestar 1987 og þá er talan 14.
Hagstofan, fæddir og dánir
Ég er á þeirri skoðun að þessar tölur séu þær sem eru marktækar í þessu enda skráð upp úr dánarvottorðum. Tæplega 40% látinna eru krufðir. Þessi vefur Hagstofunnar er hafsjór af fróðleik.
1981 12
1982 15
1983 33
1984 37
1985 25
1986 25
1987 22
1988 30
1989 16
1990 35
1991 29
1992 23
1993 19
1994 21
1995 22
1996 28
1997 27
1998 23
1999 24
2000 42
2001 28
2002 19
2003 20
2004 26
2005 24
2006 22
Hérna eru tölur um sjálfsvíg karlmanna , tekið af vef Hagstofunnar. Þetta eru allt of margir sem gefast upp á hverju ári. Þetta eru 647 einstaklingar, að mestu leyti ungir karlar.
Bloggar | Breytt 21.9.2009 kl. 10:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (32)
Föstudagur, 29. febrúar 2008
Jæja komin heim og heilmikið niðri fyrir
Ég fékk email í morgun sem róaði mig mikið. Ég upplýsi það þegar það er heppilegt.
Annars kom einn vinnufélagi minn inn til mín í morgun og sagðist telja að Himmi minn væri á forsíðunni. Ég stökk út og náði í blaðið. Það fauk alveg herfilega í mig fyrst, mér hefði fundist betra að vera látin vita að það ætti að setja mynd af honum á forsíðuna.
Svo las ég þessa umfjöllun þeirra og skipti algerlega um skoðun. Þetta er fín grein, afar vönduð og vel unnin. Ég tek ofan fyrir Trausta Hafsteinssyni á DV. Svona á að vinna fréttirnar.
Ég hvet ykkur til að lesa þessa umfjöllun um málefni fanga í helgarblaði DV. Sérstaklega hafa þeir sem telja fanga vera í "hóteldvöl" gott af því að lesa þetta. Fyrirsögnin er ;níundi hver fangi lést 2004-2008 , 47 fangar látnir.
Ég hef með skrifum mínum hér reynt að sýna ykkur fólkið á bakvið fangann, okkur hérna ræflana sem líður illa yfir því að hafa misst ástvin okkar. Drengurinn minn átti lífið framundan, honum entist ekki æfi til að gera margt sem við teljum sjálfsagt. Hann eignaðist ekki börn. Að sumu leyti má kalla það gott núna þegar hann er látinn, það eru þá allaveganna ekki lítil börn svipt sínum föður. Margir fanganna sem eru inn í þessari tölu, 47, voru feður, allir voru þeir synir einhvers og allir áttu þeir einhvern að sem elskaði þá. Sumir auðvitað búnir að brenna brýr að baki sér en það breytir ekki því að sorgin bítur þegar ástvinurinn er látinn þó hann hafi kannski verið erfiður.
Kveðja til ykkar
Takk fyrir, DV og Trausti Hafsteinsson
Bloggar | Breytt 21.9.2009 kl. 10:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
Fimmtudagur, 28. febrúar 2008
Öll mín andlegu bein eru brotin
Smátt og smátt þéttist netið og raunveruleikinn síast inn. Kvíðinn tekur í og stundum er sárt að reyna að hugsa um hvernig þetta var allt saman.
Mér er orðið mál að segja frá því, kannski má ég það á morgun.
Mér finnst eins og valtari hafi ekið yfir sálina, hún er útflött og það blæðir úr henni.
Bráðum batnar það...bráðum.
Slæm hegðun hefur vondar afleiðingar. Það gildir fyrir fleiri en hann Himma minn.
Góða nótt
Bloggar | Breytt 21.9.2009 kl. 10:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (28)
Þriðjudagur, 26. febrúar 2008
Þessi mynd
Hefur truflað mig aðeins. Ég á eftir að fara í gegnum gamlar myndir í kassa og ég veit að þær eru nokkuð margar frá þessum árum, elsku Himmi. Hann er þarna lengst til vinstri, svo sætur. Svo er Bangsinn minn á hjólinu og Hjalli með prakkarasvipinn sinn.
Nú sendi ég Björn að sækja kassann og vind mér í málið !
Engan aumingjaskap Ragnheiður !!
Bloggar | Breytt 21.9.2009 kl. 10:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
Föstudagur, 22. febrúar 2008
Jæja er komin heim
og er eiginlega alveg bensínlaus, merkilegt hvað maður verður þreyttur af því að gera ekki neitt.
Var að hugsa um á heimleiðinni um öll undarlegu nöfnin sem krakkarnir hafa verið kallaðir í gegnum tíðina og ég man áreiðanlega bara sum þeirra.
Himmi var kallaður ;
HimmiTimmiTíkall
HimminnMár
HimminnSmár
Másipjási
Hjalti fékk aðeins önnur nöfn:
Hattinndó (Himmi gat ekki sagt nafnið hans betur fyrst)
Patti
Patti mús
Fjólmundur Patti mús
Músmundur
og svo er hann oft kallaður Hjalli í dag
Björn heppnastur;
Bangsi
Spotti
Bear
Bangsímon
--------------------------------------------------------------------
Það er kannski ekki undarlegt að menn séu hálffurðulegir með öll þessi aukanöfn. Svo önsuðu þeir þessu öllu saman vandræðalaust.
Himmi hló alltaf þegar ég kallaði hann ljósið mitt. Honum fannst það ekki alltaf réttnefni og hafði ákveðnar skoðanir á því hvað hann væri og hver. Við töluðum einmitt um það hérna heima þegar kistulagningin var búin að hann hefði laglega fussað yfir öllu þessu hvíta sem hann var vafinn inn í og breitt yfir hann sjálfan.
Angakallinn....
Með hlýju í hjarta, hugsandi um Himma minn, býð ég góða nótt.
Bloggar | Breytt 21.9.2009 kl. 10:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Þriðjudagur, 19. febrúar 2008
Ég er að verða búin +viðbót
að lifa þennan dag af. Ef ég segði að hann hefði verið auðveldur þá væri ég einfaldlega að ljúga, svo einfalt er það.
Hann hverfur ekki úr huganum -ekki í smástund. Ég reyni að einblína á góðu minningarnar en söknuðurinn rífur enn svo í brjóstið.
Tónlist tengir mann mikið við ákveðna atburði. Stuttu eftir að Hilmar lést þá kom Björn alvarlegur í bragði og tók af mér tölvuna, fann eitthvað og sagði ; mamma hlustaðu, þetta er lagið hans Hilmars til þín.
Þetta var lagið Leiðin okkar allra með Hjálmum. Hérna er linkur inn á síðuna þeirra, Hjálmar . Þið finnið lagið þarna í spilaranum þeirra, endilega hlustið á textann.
Ég keypti diskinn og þarf að fara bráðum í það að finna mér einhverja græju til að spila hann í, græjurnar okkar gáfust upp við flutningana síðast. Það er seinni tíma vandamál. Ég hlusta þarna á meðan og fæ tár í augun.
Kærar þakkir fyrir öll yndislegu kommentin ykkar og ljósin á kertasíðunni hans. Þetta er ómetanlegt.
viðbótin kemur hérna;
ég er bara miklu skárri núna en áðan, fékk svo notalega heimsókn og knús frá elskulegri nágrannakonu. Mér tókst að laga til í eldhúsinu líka og gera það fínt. Þá gat ég náttlega ekki haft það svoleiðis og varð að hræra í brauð. Kelmundur bjánahundur náði að skemma j á tölvunni minni, hann ætlaði að stytta sér leið yfir mig áðan. Stundum gengur einum of mikið á fyrir honum. En ég þarf að koma tölvunni í viðgerð, það er ljóst.
Ég vildi bara segja ykkur að ég væri skárri, það er ómögulegt að fólk hafi áhyggjur af mér. Náttlega enn og aftur búin að ná mér í flensusýnishorn, undarlegur andskoti að fá gjörsamlega allar pestir þennan veturinn.
Góða nótt elskurnar og takk fyrir mig
Bloggar | Breytt 21.9.2009 kl. 10:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (29)
Mánudagur, 18. febrúar 2008
Fyrir 6 mánuðum
var ég heima, það var laugardagur á fallegum ágústdegi. Ég var í sumarleyfi í vinnunni minni. Ég hafði örlitlar áhyggjur, ég hafði ekki heyrt almennilega í óþekktarorminum mínum að austan. Ég hugsaði með mér ; æj kallanginn, hann notar áreiðanlega allan símatímann sinn í kærustuna. Mamman bíður bara, það er ekki svo langur tími eftir hjá honum blessuðum.
En hann vék ekki í huga mér allan daginn né allt kvöldið og ég varð andvaka, drollaði langt fram á nótt og ákvað að reyna að hringja austur næsta dag.
Samkvæmt minni bestu vitund voru allir aðrir í lagi eða sko í eins miklu lagi og þeir geta verið miðað við fyrra líferni.
Daginn eftir kom höggið. Hið ómögulega hafði gerst. Sá brosmildasti og glaðasti af mínum börnum hafði fyrirfarið sér í klefanum sínum fyrir austan. Við Solla ræddum þetta í gær og við erum vissar um að hann taldi sig vera að gera okkur greiða, losa okkur við vandamálið sem hann taldi sjálfan sig vera. Við erum líka fullvissar um það að hann hefði ekki gert þetta hefði hann gert sér í hugarlund sársaukann sem þetta olli okkur, fólkinu hans. Það er sko ekki búið enn. Allir afmælisdagar okkar allra verða með svo stóru skarði, afmælið hans hjómið eitt. Dánardagurinn hans sorgardagur. Jólin tómleg. Allir hinir dagarnir þarna á milli undirlagðir af sorg og sársauka. Auðvitað munu sumir dagar verða bjartir og glaðir og þeim mun líklega fjölga með árunum en skarð hans fyllist aldrei.
Hann var það sem fólk kallar óalandi. Hann braust inn í bíla. Hann stal bílum. Hann braust tvisvar inn í hús. Hann ók próflaus. Hann ók of hratt. Hann prufaði dóp. Hann prufaði líka vín.
En hann var strákurinn minn og ég missti aldrei vonina um að hann myndi sjá að sér og hætta óþægðinni. Ég gafst ekki upp fyrr en 19 ágúst 2007. Þá varð öll von úti.
Hann var krútt. Hann hringdi í mig flesta mæðradaga og sagði ; til hamingju með daginn ! Stundum vissi ég ekkert hvað hann var að tala um og þá flissaði hann og sagði ; Mamma! Það er mæðradagurinn !! Þetta tókst honum að muna blessuðum. Hann kom oft við hjá mér í vinnunni og ég fékk knús. Enn horfi ég á ókunnuga bíla fyrir utan og sakna Himma.
Minning hans verður mér alltaf dýrmæt. Minning um uppátækjasaman smástrák með heillandi bros. Síðar breyttist hann í frekar ólánlegan ungling, allur mislangur eins og unglingsstrákar eru. Hann óx upp í að verða glæsilegur ungur maður. Mikið kvennagull.
Stundum fannst honum ég skamma hann of mikið. En hann var samt góður við mig..hann reyndi að skilja mig en fljótfærnin og kjánaskapurinn fóru stundum alveg með hann framúr sjálfum sér. Oft var ég svo sár út í hann og oftast þegar hann gerði eitthvað og kannski nýkominn úr fangavist. Þá varð ég sár, ég vissi að þá myndi hann þurfa brátt að fara inn aftur.
Síðan hann fór þá hef ég keppst við að muna góðu hliðarnar hans, hlýjuna og fallega brosið. Það hefur ekki verið erfitt.
Fyrir sex mánuðum var allt í lagi.
Daginn eftir kom höggið.........
Bloggar | Breytt 21.9.2009 kl. 10:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (42)
Sunnudagur, 10. febrúar 2008
Draumalandið bíður
og meiri himnaríkispælingar bíða betri tíma, þakka ykkur ykkar innlegg og skoðanir á málinu.
Þessi er ráðinn í að passa mig í nótt eins og allar aðrar nætur. Langsætastur og hlýjan skín úr fallegu augunum hans.
Bloggar | Breytt 21.9.2009 kl. 10:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)