Færsluflokkur: Bloggar

Í dag eru

liðnir 9 mánuðir síðan sonur minn ákvað að vera hér ekki lengur. 19 ágúst 2007 fyrirfór hann sér í fangelsinu á Litla Hrauni.

Dagarnir síðan hafa verið slæmir en misslæmir þó. Suma daga sit ég enn undrandi yfir hversu undarlega auðveldlega lífið hefur þó haldið áfram. Samt finn ég alla daga fyrir söknuði og sorg yfir að hafa misst hann. Ég ákvað á sínum tíma að reyna að jaxlast í gegnum þetta án hjálpar frá pillum eða neinu svoleiðis. Ég hafði ykkur hérna mér til aðstoðar, þið urðuð sálfræðingurinn minn, öxlin til að gráta á. Fyrir það verð ég alltaf þakklát.

bloggvinirnir

Svona sá ég ykkur.

-----------------------------------------------------------------

Hérna kemur svo sagan um nafnið hennar Öldu, Dindind.

Hún bjó hjá okkur oft um lengri tíma. Einhverntímann hringdi síminn og Himmi svaraði. Hann var nú oft á talsverðri hraðferð. Hann hentist inn ganginn að sækja Öldu í símann og gólaði ; Alda Berglindindinddinddind!!!

Síðan hefur hún verið kölluð Dinddind hérna heima hjá okkur


Yessss!

Ég hafði áhyggjur af þessu en þarf þess þá ekki lengur. Þetta kemur mínum fanga ekki til gagns en þetta er samt frábært. Þetta er líka að mínu mati eina leiðin til að einhver von sé til þess að þeir komi betri þaðan út. Það hlýtur að vera takmarkið ! Fyrir okkur öll, ekki bara þá og aðstandendur þeirra, heldur samfélagið allt.

Ég hlustaði á rás 1 í dag eins og svo oft áður. Það hefur samt aldrei gerst áður að ég var komin með kökk í hálsinn og það sauð á mér reiði þegar ég var búin að hlusta á hálfan þáttinn. Í þættinum var fjallað um söng geldinga og spiluð eina upptakan sem til er af slíkum söng. Maðurinn söng á ítölsku og ég skildi ekki eitt orð en einhvern veginn skynjaði ég svo mikla sorg og örvæntingu í gegnum söng hans. Ég hef óskaplega gaman af því að hlusta á söng en þessi áhrif voru undarleg. Það sauð á mér alveg, ég sá fyrir mér meðferðina á þessum manni, þá ungum pilti. Endir varð sá að geldingar voru bannaðir og þessi siður lagðist sem betur fer af en lengst hélt páfagarður í hefðina. Þetta var auðvitað enn ein misþyrmingin í boði kirkjunnar.

Ég er að hugsa um að fara á útskrifartónleika annað kvöld.

Listaháskóli Íslands - Útskriftartónleikar

Þorvaldur Kr. Þorvaldsson, bassi, 8. maí 2008 KL. 20:00, Verð:

SÖNGTÓNLEIKAR
Þorvaldur Kr. Þorvaldsson, bassi.
Á efnisskrá eru verk eftir JSBach, Beethoven, Karl O. Runólfsson, Tshaikovsky og Verdi.
Meðleikarar Selma Guðmundsdóttir, píanó, Lenka Matéová, orgel, Þorgerður Edda Hall, selló.
Útskriftartónleikar frá Listaháskóla Íslands. Aðgangur ókeypis, allir velkomnir!


mbl.is 15 milljónir í meðferðargang
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í felum

Stundum er ég að fela mig fyrir ykkur, ég skrifa prakkaralega færslu og sýni ykkur bara yfirborðið. Það eru dagarnir þegar ég held að afneitun dugi á ástandið.

Eins og þið hafið séð þá hef ég tekið upp störf á hinum vettvanginum líka. Það hef ég ekki treyst mér til að gera fyrr en nú. Ég hef átt erfitt með að vera ein með hugsunum mínum. Það starf byggist oft upp á mikilli bið milli ferða og það var mér erfitt. Svo er maður að þvælast um allt og á staði sem minna mig á Himma og það var líka erfitt. Málið er hinsvegar það að það er ekki hægt að reka leigubíl bara með afleysingamanni um helgar, þó ég sé með afar góðan helgarmann. Reksturinn á þessu kostar of mikið til að þetta sé hægt.

Ég hef neitað mér um að horfast í augu við að Himmi komi aldrei aftur. Ég hef tekið einn dag í einu og vakna á morgnanna og hugsa með mér ; þú þarft bara að lifa þennan dag, ekki hugsa um meira.

Hvern dag hugsa ég um prakkaraglottið, letilega Hæið hans ( það var eiginlega svona Haaaæjj) . Ég hef reynt að skoða hvað er svona sárt. Stundum finnst mér það vera að vonin um að hann yrði góður og nýtur þjóðfélagsþegn er brostin. Stundum græt ég framtíð hans sem ekki verður. Ég tætist um innan í höfðinu á mér og reyni að finna eitthvað til huggunar. Hann átti þó allaveganna ekki börn sem þurfa að alast upp föðurlaus hugsa ég í örvæntingu. Ég reyni að setja mig aftur fyrir hina, reyni að breiða yfir alla aðra og geymi sjálfa mig.

Heiður mín elskuleg skrifar ótrúlega góðan pistil í dag, allir að lesa hann. Slóðin til hennar er www.snar.blog.is

Fyrir þá sem muna það ekki þá var Himmi hjá þeim frá 9 ára til hvað 17 ára aldurs ? . Það var til þess að reyna að koma Himma í rétta átt en það gekk ekki. Það var þó alls ekki þeim að kenna. Þau reyndu gjörsamlega allt til að aðstoða þennan vegvillta unga mann. Hann fór bara sínu fram. Hann var eins og foss, rann áfram stjórnlaust.

Ég skrifaði í komment hjá Heiði. Þið sjáið um hvað hún fjallar. Þennan sólardag í ágúst kom fangelsispresturinn til okkar. Hann kom hingað, tilkynnti atburði og fór svo enda þurfti hann að koma við á 2 öðrum stöðum. Málið er að okkur hefði ekkert veitt að að fá okkar eigin sóknarpresta með honum eða einhvern sálgæsluaðila sem hefði getað stoppað lengur, setið með okkur og aðstoðað. Einhvern til að hjálpa okkur.

Ég hef stundum séð fólk hnýta í fyrirbærið áfallahjálp. Áfallahjálp er áreiðanlega ágæt. Fangaverðir og fangar fyrir austan fengu áfallahjálp. Það gleymdist aðeins eitt smáatriði, fjölskyldur Hilmars Más.

Nú ætla ég að fara að skoða hagtölur, til að sjá hversu margir fóru sömu leið og Másipjási minn í fyrra, eða hversu margir eru skráðir þannig. Mér var gerð grein fyrir síðast þegar ég birti slíkar tölur að þær væru alls ekki tæmandi. Stundum væru sjálfsvíg skráð slysfarir en væru það ekki í raun.


Þetta þarf

að vera uppi á borðinu og sjálfsvíg ungs fólks eru hræðilegur fórnarkostnaður í lífinu. Eftir situr brotin fjölskylda og aldrei verður neitt eins.

Nú veit ég ekki hvernig málum er háttað nákvæmlega í þessum velska smábæ en get þó gert mér hæglega í hugarlund að missir 19 ungmenna setur sár í samfélagið sem óvíst er að grói á mannsaldri.

Hérna er smáfrétt og lýsing á þessum smábæ

Krakkarnir okkar eru okkur dýrmætust. Við þurfum að vera á verði og ég hefði þurft að reyna að skyggnast bakvið sæta pókerfeisið hans Himma og sjá hvað var að. Hann ,því miður, hlífði sínu fólki og sagði ekki frá því sem angraði hann.

Það reyndist banvænt.

Ég set hér mynd af pókerfeisinu hans.

Himmi að keyra


mbl.is Nýtt sjálfsmorð í welskum bæ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég get sjáð !!

Gólaði Himmi minn um árið. Hann hafði fengið hið versta glóðarauga og augað steinlokaðist. Það tók 2-3 daga að opnast aftur og þá kom hann þjótandi og gólaði : Mamma, ég get sjáð !! . Hann tilkynnti öllum þetta þann daginn.

Nú getur mamma "sjáð". Kvefið virðist vera á undanhaldi, nema það sé að safna liði og hjóli í mig aftur. Nefrennslið er mun minna og augað er opið. Hnerruveikin er samt ennþá en þetta er allt að skána.

Ég heyrði greinilega í lóunni áðan. Nú ætla ég að reyna að sjá til ferða hennar, það er bara svo hvasst að ég þori ekki út svo ég espi ekki upp kvefið.

Ég er náttlega að púsla, hef sett myndir í púslalbúmið. En það er eins gott að enginn sér myndina sem ég er að púsla núna.Sögusviðið er vínkjallari og það er þvílík svall-kynlífsorgía í gangi. Ég er búin að handfjatla heilan haug af rössum og brjóstum, flöskum og ámum.

Fyrst þegar Björn sá púslið þá sagði hann ; Aha, nú skil ég afhverju amma drakk aldrei neitt !? Hún hefur haldið að hún yrði þá að láta svona!

Þetta púsl kemur nefnilega frá ástkærri móður minni.

 


Mikið búin að hugsa í morgun

Tilefni þessara hugsana allra var færsla skessunnar minnar í morgun, þessi hérna.

Stundum hef ég velt fyrir mér hvernig aðrir sjá skrif mín um Himma minn. Kannski finnst sumum ég vera að fegra hann, það er óþarfi. Hann átti allt sem hann var dæmdur fyrir...bílaþjófnaði og þjófnað úr bílum, ótrúlega fjölda umferðarsekta. Hann átti hins vegar ekki dóma fyrir ofbeldisbrot né dópsölu eða svoleiðis. Það tekst mér að vera þakklát fyrir.

Í raun var Himmi meinlaus en agalega vegvilltur. Ég ætla ekki að reyna að útskýra líðan móður þegar hún horfir á eftir ástkæru barni í fangelsi í fyrsta sinn. Ég var svo ónýt, ég var sár og reið, fannst ég hafa brugðist, vildi ekki vera mamma neins og var bara ómöguleg. Þetta er svo ekki eitthvað sem maður tekur til umræðu í fjölskylduboðum, ég fór bara ekki meðal fólks. Mín leið en ekki endilega rétt leið.

Í dag veit ég að ég hefði átt að gera öðruvísi. Ég hefði átt að halda betur utan um þennan strák minn sem í öllu baslinu sínu var mér svo dýrmætur. Það brást allt sem brugðist gat í kringum hann í þessari lokaafplánun hans. Þar á meðal ég. Það er ljóst.

Ég vildi hinsvegar sýna ykkur Himma minn nú þegar hann er öllum meinlaus, nema mömmu sinni sem verður aldrei söm.

Ég vil þó taka skýrt fram að ég er ekki að gagnrýna færslu Heiðu www.skessa.blog.is alls ekki, ég skil hvað hún er að tala um, hvert orð. Ég fór bara að hugsa með mér upp úr þessum lestri.

Ég hlustaði á Jónu í morgun. Verð að reyna að hlusta aftur á netinu í dag eða á morgun, of mikil truflun hérna í vinnunni til að njóta til botns. Svo las Valdís upp email frá einhverjum í lok þáttar og þá varð ég sár og ætla að viðurkenna það opinberlega. Viðkomandi býsnaðist yfir flatskjáum og öðru sem fangar hafa hjá sér í klefum á Akureyri, það er ekkert samasem merki milli þess að einhver hópur fái eitthvað versus annar fái ekki almennilega þjónustu. Ég myndi ekki vilja vera lokuð inni með alla heimsins helvítis flatskjái.

Takk fyrir kveðjur til Steinars

Ég held ógurlega upp á þennan texta enda lýsir hann engu betur en mér sjálfri. Ég hef alltaf farið mína leið í gegnum lífið.


Þetta er erfitt

Ég lenti í svipuðum erfiðleikum, ég hafði engin símanúmer hjá neinum og varð að birta bara í blaðinu dánartilkynninguna í von um að vinir Himma sæu það. Ég var með eitt símanúmer frá gamalli tíð,hjá fyrrum kærustu hans. Ég gat hringt í hana.

Svo tók við að reyna að hafa upp á dótinu hans, það tókst en ekki allt. Síminn hans er til dæmis ekki hérna. Við erum með föt frá honum og bílinn sem hann átti síðast. Bíllinn er bilaður en verður hafður hérna. Kannski vilja bræður hans laga hann seinna.

Ef okkur hefði verið sagt eitthvað meira frá þeim sem vissu, þá hefðum við náð aleigunni hans og bílnum áður en brotist var inn í hann og öllu stolið.

Þetta fór ótrúlega í mig á sínum tíma en í dag er ég sátt við að hafa þó þetta sem ég hef hérna.

Elsku Himmi....


mbl.is Týndu farangri manns sem lést
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pæling

ég fór að hugsa útfrá kommenti sem ég sá hjá henni Heiðu (www.skessa.blog.is) og datt í leiðinni í hug gamall málsháttur um að ekki eigi að nefna snöru í hengds manns húsi. Man hann náttlega ekkert orðrétt Pinch

Þar fær Heiða skammir frá einhverjum fyrir að nota þetta alkunna orðatiltæki að þora að hengja sig upp á eitthvað. Þetta segja voða margir og nákvæmlega ekkert að því, ég segi þetta stundum meira að segja sjálf.

Maður getur oft valið yfir hverju maður verður móðgaður og sár. Ég hins vegar nenni ekki að vera virkt fórnarlamb og reyni að muna hvern dag að ég get bara valið fyrir mig en ekki fyrir aðra. Ég get líka ekki breytt neinu af orðnum atburðum. Ég finn að ég er viðkvæm sumsstaðar fyrir en almennt er ég jafnólseig og ég hef alltaf verið.

Ákveðin tónlist getur hinsvegar ruglað mig alveg í ríminu og þá sérstaklega það sem valið var til útfararinnar hans Himma. Ég hlusta ekki á það nema ég sé tilbúin í það og ákveði það sjálf.

Ég er mun hressari í dag en í gær, mér tókst að ná mér í einhvern magapestarvott og lá fyrir og þorði tæpast að hreyfa mig. Steinar færði mér vínber í gær og ég át nokkur svoleiðis og er bara búin að ákveða að það hafi breytt málinu úr slæmu í ágætt. W00t

Aníta mín á afmæli í dag, til hamingju elskan mín. Hún er kærastan hans Hjalta og hún er líka vinur minn. Yndisleg stúlka og nú er hún orðin 21 árs. Þegar Himmi dó þá datt rænan úr húsmóðurinni á heimilinu. Aníta var þá klár, hún birtist með mat ofan í liðið sitt. Best í heimi.

Hjalti og Aníta

Hérna sitja þau við eldhúsborðið með gömlu sinni.

°°°°°°já já já ég veit, ég er að fara að taka til !


Snilldarkvöld

og við erum komin heim aftur, ég og gamli og Bjössi. Maturinn klikkar sko ekki á Ruby Tuesday. Hjalli borðaði á sig gat, ég hef ekki séð hann borða svona mikið lengi lengi. Ég sannfærðist enn um það að ég á þá frábærustu og skemmtilegustu krakka sem til eru.

Ég fékk síðbúna afmælisgjöf og hana sko ekki af verri endanum. Það var falleg lyklakippa sem er með krossi á og myndir af Himmaljósinu mínu sitt hvoru megin.

Þessi hérna öðrumegin

Sætur Himmi

Og svo er þessi hinumegin

hilmar! (2)

Yndisleg gjöf.

Steinar læddist með okkur inn og tók myndir af okkur saman við borðið. Við vorum 3 öðrumegin við borðið en 2 hinumegin. Áberandi hvað það vantaði eða öllu heldur var ágætt pláss til að hafa Himma með okkur en hann var kannski þarna samt. Hann var allaveganna ofarlega í huga okkar hinna.

Nú ætla ég að liggja á meltunni og býð góða nótt


Gamlir ungir vinir

ég var að lesa hjá henni Stínu minni, hún er að fjalla um fíklana sína og nefnir þar atriði sem hristi upp í mér aðeins. Ég gekk niður minningastíg og kom brosandi til baka.

Synir mínir hafa átt ótrúlega trausta og góða vini, langbesti vinur Himma var Kristinn. Hann kom í kistulagninguna og jarðarförina og kvaddi sinn besta vin eins vel og hann gat og jafn óundirbúinn og við öll. Við áttum enga von á að við ættum að kveðja Himma, 21 árs gamlan.

Hjalti hefur líka átt afar góða vini. Einn vina hans kom hingað færandi hendi og fékk knús. Ég held að hann hafi vantað knús.

Góðu vinirnir hans Bjössa sem hann hefur nánast alltaf átt komu í jarðarförina, þessir elsku strákar. Ungir menn sem líklegast hafa ekki hugmynd um hvað þeim tókst að gleðja sært móðurhjartað. Þeir eru gamlir heimilisvinir en samt kornungir menn.

Útför Hilmars var ekki í kyrrþey. Mér fannst ég verða að leiðarlokum að heiðra minningu hans og standa stolt yfir kistu míns ástkæra sonar og muna gleðina yfir að hafa mátt vera mamman hans. Um daginn þegar við Heiður ræddum aðeins saman í síma þá sagði hún nokkuð sem gladdi mig. Hún sagðist vera viss um að Himmi fylgdist stoltur með sínu fólki. Við höfum þurft að eiga við undarlegustu mál eftir að hann féll frá og við höfum reynt að taka hvert verkefni eins og það hefur komið fyrir. Ekki auðvelt -alls ekki en það hefur bara ekki verið hægt að hugsa um það neitt. Þetta hefur bara þurft að gera.

Þegar sorgin beit sárast þá vildi ég ekki muna neitt, það lagaðist vegna þess að ég skildi að þær systur, gleðina og sorgina get ég ekki skilið að. Ég hef grátið vegna þess sem var gleði mín. Sætur uppátækjasamur smágormur með heillandi bros og blíðublik í augum , fékk móður sína til að fyrirgefa sér öll afbrot og uppátæki.

Hún Birna mín missti Hauk sinn. Ég hafði skoðað minningarsíðu Hauks áður en Himmi dó og hann minnti mig svo á Himma. Stuttu seinna var ég komin í spor Birnu. Það eru erfið spor. Hún trúir og vinnur í kirkjunni. Ég er enn reið við Guð og vil engu trúa. Ég veit hinsvegar að ég kemst að hinu sanna þegar minn tími kemur. Sama hvernig það fer þá fer ég til Himma, ég á gröf næst honum.

Ég tók mynd af kláruðu púsli í dag. Bjössi sagði mér að taka myndir af þeim þegar ég er búin með þau og setja á síðuna mína. Það finnst mér snjöll hugmynd, verst að hún kom ekki fram fyrr. Ég er áreiðanlega búin með 20 stykki nú þegar. Þessi sem ég pantaði að utan eru komin og bíða á pósthúsinu, Björn hafði ekki rænu á að borga fyrir þau í síðustu viku þegar ég var ekki heima. Ég sæki þau seinna.

Nóg raus í bili, takk fyrir að hlusta. Kertasíðan hans er í fullu gildi. Hann fékk 2 alvöruljós hjá sér á leiðið í dag. Pabbi hans setti svo fínar lugtir hjá honum sem hægt er að setja friðarkerti inn í og ég fór með tvö svoleiðis. Það er slabb í garðinum og mér varð kalt á tásunum þannig að ég labbaði ekki til Hauks sem ég geri oftast. Ég sendi honum hlýjar hugsanir og vona að þær skili sér til hans, þessarar elsku sem ég þekkti ekki lifandi en þykir vænt um nú þegar hann er látinn.

Góða nótt


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband