Færsluflokkur: Bloggar
Þriðjudagur, 18. september 2007
7 september 2007
7.9.2007 | 00:03
á hverju kvöldi síðan 19 ágúst hef ég spjallað við Guð. Ég hef spurt hann álits á því sem ég hef verið að gera og hugsa þann daginn. Hann hefur nú litlu svarað en Guð er svoleiðis. Hann hlustar líka eitthvað takmarkað á mig, allaveganna bað ég hann um það sama þar til að kvöldi útfarardags Hilmars og það gerðist ekki. Ég bað hann að sjá til þess að ég vaknaði ekki aftur.Hver helv....dag hef ég samt vaknað aftur..bara eins og ekkert sé !
Hvern dag hef ég þraukað og sagt við sjálfa mig; Ragnheiður á morgun er dagurinn sem þú mátt verða snarbrjáluð !
Auðvitað er ég sár og reið út í þetta allt, ég vildi hafa strákinn minn áfram. Ég er líka sár út í þá sem áttu að reynast honum betur í lífinu en þeir gerðu, þar er þó undanskilin öll fjölskyldan hans. Þar gerðu allir það sem þeim var unnt. Það veit ég.
Minn drengur gengur nú með Guði en ég er hér ! Föst í kolsvartamyrkri og veit ekkert hvernig ég á að klóra mig út úr þessu....fjandinn hafi þetta allt !!!
7.9.2007 | 11:34
Ég gleymdi nokkru sem ég ætlaði að hafa með í næstu færslu.
Það sem hefur verið að trufla mig er ekki bara mín eigin sorg yfir að missa Hilmar..
Það er svo margt sem kvelur mann á slíkum tímum.
Útförin hans var óskaplega falleg, hún var hlý og svo sönn. Presturinn flutti magnaða ræðu sem hljómaði eins og hann hefði þekkt Hilmar persónulega, honum tókst meira að segja að láta kirkjugesti flissa svolítið. Útförina á ég á upptöku, ég fékk mér lítinn diktafón og frændi minn Haukur Atli sá um að taka upp fyrir frænkuna sína. Það er samt merkilega góð upptaka. Ég er búin að hlusta nokkrum sinnum á hana hér í tölvunni. Ég fékk Þorvald Þorvaldsson til að syngja vegna þess að ég hef oft hlustað á Þorra syngja og
það gerir hann vel. Hann brást heldur ekki þarna....ótrúlega fallegur söngur. Hann er einn af þessum vörðusteinum í lífinu. Líf manns er varðað af góðu fólki, stundum sér maður ekki hversu gott það var fyrr en eftirá. Þannig er t.d. Jenný Anna vinkona mín, hún er eitt þessarra ljósa í lífinu sem lýsa manni lengi, ótrúlega lengi.
Það var eitt sem kvaldi mig í jarðarförinni, það var að horfa á Björn minn, þann yngsta í því hlutverki að bera kistu bróður síns úr kirkju. Hann er 19 ára og á ekki að standa í neinum slíkum sporum. Mamma hefur reynt að verja hann fyrir áföllum en núna náði mamma ekki að vera skjólið hans. Það kvaldi mig líka að horfa á pabba hans, hann átti ekki heldur að þurfa að bera kistuna sonar síns. Sigþór og Valdi voru aftur í þessum sporum að missa bróður, einu sinni var meira en nóg. Þeir áttu ekki að þurfa að ganga sporin þungu tvisvar. Jón Berg tengdasonur minn er til þess að gera nýkominn í fjölskylduna, hann er samt þannig að þar hefur hann haslað sér völl þannig að hann tilheyrir okkur öllum héðan í frá. Hann gekk með öðrum líkmönnum og bar með okkur sorgina eins og hann hefur gert síðan Hilmar dó. Steinar minn, kletturinn minn, bar drenginn minn á móti pabba hans. Ég vildi hafa þá pabbana hans saman, fremsta í röð líkmannanna.
Ég gleymdi svo auðvitað hluta af því sem ég ætlaði að segja...eins gott að enginn verði móðgaður við mig. Ég er bara með utanviðmig á nokkuð háu stigi. Það eru sko fleiri sem áttu ekki að standa í þessum sporum, systurnar hans Hjördís og Sólrún, þær elskuðu þennan glannalega stóra bróður sem elskaði þær með öllu stóra hjartanu sínu. Þær voru settar í að bera blóm og kransa ásamt Auði litlu systur hans. Hjalti gat ekki tekið þátt í að bera bróður sinn, hann fótbrotnaði svo illa í júní að fóturinn hefði líklega ekki þolað þungann.Þegar það gerðist þá hringdi Hilmar í mig til að láta mig vita að Hjalli væri slasaður, hann hafði miklar áhyggjur af bróður sínum þá. Ég ætla að feitletra þennan texta fyrst ég gleymdi honum áðan.
Litlu systkynin í Grindavík áttu heldur ekki að þurfa að standa í þessum sporum. Fólk segir kannski að þau séu svo lítil að þau muni ekki muna Himmann, ég held samt að þau muni muna hann. Hann var bróðir þeirra og honum þótti vænt um þau. Því gleyma börn ekki.Hilmar minn var ríkur, hann átti 2 pör af foreldrum og þar fylgdi með auka afar og ömmur. Hann naut þess. Amma hans á Patró er svo yndisleg kona, hún hefur sjálf staðið í þessum ómögulegu sporum að missa son. Enda var hennar faðmlag þétt og skilningsríkt. Ég fann að hún skildi.
Nú þegar hefur auðvitað eitthvað gott skilað sér í þessum hörmungum. Bæði móður og föðurfólk Hilmars hefur þjappað sér saman og allir reyna að bera þennan kross í sameiningu. Ég hef kynnst litlu systkynunum og hlakka til að hitta þau næst.
Systurnar litlu eru svo opnar og brosmildar, það skína af þeim gæðin. Sverrir litli bróðir er aðeins meiri jaxl og vill vera viss um að það sé í lagi með þetta lið fyrst. Hann hefur ansi marga Himmatakta, bíladellan alveg að fara með hann. Mér finnst gaman að horfa á Sverri Breiðfjörð.
í gær skrifaði ég einusinni....í dag er ég búin að skrifa tvisvar. Greinilega fer þetta bara eitthvað eftir því hvernig ég er stemmd...ojæja....það er enginn neyddur til að lesa
Nú segi ég eins og Heiður í gær (www.snar.blog.is) vinsamlega gerið vart við ykkur í kommentunum, ég vil vita hverjir eru hérna að lesa.
7.9.2007 | 10:27
og var að lesa færsluna á undan og kommentin frá ykkur, þið eruð náttlega alveg mögnuð.
Ég spjallaði við Guð í gær. Ég skammaði hann svolítið fyrir að taka Himmann minn en ég sagði honum að fyrst hann hefði gert það þá ætlaðist ég til þess að eitthvað gott kæmi út úr þessu öllu saman. Hann hefði ekki leyfi til að taka Himmann og svo bara *púff* ekkert meira.
Það þarf að taka betur á málefnum ungra afbrotamanna. Ég myndi líka vilja sjá að geðlæknar og sálfræðingar tækju menn hreinlega í kerfisbundið viðtöl. Fangi á ekki að þurfa að panta slíka þjónustu og bíða svo. Kerfisbundin viðtöl myndu skila því að fangar gætu létt af sér því sem kvelur þá og byggt sjálfa sig upp meðan þeir eru í afplánun. Ég meina, þessir strákar eru harðjaxlar og það er ekki hægt að ætlast til þess að þeir panti slík viðtöl sjálfviljugir. Þeir hafa líka sumir orðspors að gæta, orðspors sem heldur þeim hreinlega á lífi utan rimlanna.
Svo myndi ég vilja sjá stóraukna þjónustu til barna og foreldra þeirra þegar ljóst er að barnið fylgir ekki norminu, eins og t.d mínir strákar allir. Þeir eru allir eldklárir en það þarf að ná til þeirra öðruvísi en gert er í skólastofunum. Bara svo ég nefni einn galla sem þeir bera allir sameiginlega þá eru þeir einkennilega fastir í úlnliðunum. Nú má vera að sá sem les hugsi,, já en það er ekkert mál. Jú það er heilmikið mál, þeir geta ekki skrifað ! Þeir geta ekki haldið á blýanti og fengið hann til að gegna sér.
Hilmar var á Stuðlum 2001. Hann var í hegðunarerfiðleikagreiningu. Hann var settur innan um krakka sem höfðu prufað dóp. Þetta tvennt passar ekki saman, það á að hafa 2 deildir fyrir þetta.
Hilmar vildi alls ekki taka lyfin við ofvirkninni þegar hann var orðinn 16 ára. Þá varð hann stjórnlaus og við horfðum á hann fara í allar áttir aðrar en þá réttu, ég man enn hvað ég var hrædd um hann. Hann var í seinni tíð sífellt að ná betur tökum á lífinu, hann hefði þurft nokkuð mikinn stuðning til að læra betur á sjálfan sig en honum hefði líklega alveg tekist það.
Nú held ég að ég fái mér kaffi, maður á ekki að skrifa ritgerð á kaffibollalausum maga.
Ein spurning að lokum;
Hvað getur það verið sem veldur doða í útlimum,bæði höndum og fótum og sjóntruflunum ?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 18. september 2007
6 september 2007
6.9.2007 | 10:00
og það er óvenjulegt ástand á þessu heimili. Ef þið trúið því ekki þá getið þið spurt Steinar
Ég ætla að sýna ykkur hvers vegna orðið datt úr mér en ástæðan er hérna .
Hvað sagði ég í gær, þar sem mannvonskan ein á að búa ? Það var þá helst. Mín skoðun hefur lengi verið sú að illmenni sé eitt en fangi er allt annað. Sonur minn flokkaðist sem síbrotamaður en við hérna vonuðum alla tíð að hann hætti öllu slíku. Nú er hann hættur en kannski ekki með þeim hætti sem við vonuðumst eftir.
Sigurbjörn, ég sendi ykkur góðar kveðjur austur með hjartans þakklæti. Þið hafið glatt mig svo mikið.
PS setti inn nýjar myndir í nýtt dýraalbúm, aðalbloggarinn er þar. Svo er líka nýtt í drengirnir mínir, mynd af Hjördísi og Bjössa og líka af Patreki Mána ömmustrák.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 18. september 2007
5 september 2007
5.9.2007 | 20:16
enda er ég búin að setja inn myndir af kistunni,krossinum og leiðinu. Það er í albúminu sem heitir Hilmar Már Gíslason.
Vegna þess að ég er alltaf að hugsa um Hilmar þá poppa upp minningar...
Þegar hann var í kringum 5 ára þá sé ég hann koma álengdar, alveg voðalega innskeifur og greinilega með mikinn ekka. Þá hafði vinur hans slegið hann með leikfangi þannig að skurður kom á kinnbeinið hans. Þarna fékk hann spékopp sem fylgdi honum lífið á enda. Í allan dag hef ég séð hann í huga mér, koma kjökrandi til mömmu sinnar. Hann var óvenju innskeifur líklega vegna þess að hann átti bágt. Elskulegur.....
Hann lærði snemma að vera góður við mann. Þá stakkst lítið andlit undir vanga manns og hann nuggaði nebbanum í hálsakot. Ef hann var nokkurn spotta frá manni þegar maður bað um knús þá kom hann hlaupandi en löngu byrjaður að nugga nebbanum í réttar áttir....klúsiklúsiklúsiklús ! sagði hann.
Þegar Alda mín (Alda Berglind) var hjá okkur einhverju sinni þá var síminn til hennar. Hilmar svaraði í símann og þaut svo inn ganginn að sækja hana, gólandi, : Alda Berglinddinddindind....Hún er síðan oft kölluð Dinddind hérna...
Hjalti er búinn að vera í stífri þjálfun undanfarna daga. Alltaf þegar Hilmar sat hjá mér í sófanum þá læddist hann til að leggja kollinn á öxlina á mér. Hjalti er að læra þetta núna og á að taka við þessu knúsuhlutverki
Þakka ykkur fyrir ykkar innlegg....það var bara eitt þeirra sem ég skildi ekki, snerist um eitthvað tengdó....skýring óskast, það má nota e mailið ef þetta er gríðarlegt leyndarmál
Ég er sátt en gríðarlega þreytt....skrokkurinn er alveg handónýtur orðinn.
Björn er kominn með nýtt indíánanafn, hann heitir Little Bear Rock núna, það sem þessi drengur er traustur. Sú stúlka sem nær í hann verður heppin, verst ef mamma tímir ekki sínum strák hoho
5.9.2007 | 10:20
en öðrum kannski síður.
Það má vera að fólk furði sig á því hversvegna ég skrifa hérna hugleiðingar mínar þegar ég ætti að liggja nánast í rúminu af sorg, enda búin að missa son minn. Í þessum pistli í dag mun ég leggja fyrir ykkur tvær spurningar sem ég ætlast til að þið svarið af heilindum, sömu heilindum og þið hafið lagt í allar samúðarkveðjur til okkar fjölskyldu Hilmars.
Sorg mín hef ég lokað aðeins innan í mér, sérstaklega þegar krakkarnir mínir sjá. Í þeirra huga er mamma harðjaxl ,töffari og kletturinn sem séfellt hefur staðið þarna og þau getað leitað skjóls hjá. Þau eiga öll erfitt með að sjá klettinn brotna. Mamma er enn kletturinn þeirra, skjólið. Mamman er hinsvegar brotin og lemstruð innan í sér og það á eftir að taka langan tíma að gróa yfir í þolanlegt sár. Auðvitað hef ég grátið og átti t.d. skelfing erfitt þegar við kistulögðum drenginn minn....hann var svo ekki líkur sjálfum sér þarna í kistunni sinni. Það vantaði þá strax svo margt sem gerði hann að Himmanum okkar og það var svo sárt. Núna eiga krakkarnir mínir ekki síður erfitt enda má ég segja það og halla ekki á neitt þeirra með því að segja Hilmar var samnefnari þeirra, hann var sá sem þeim þótti vænst um innbyrðis. Hann var bara þannig....
Þið sáuð hvernig umfjöllunin var um andlát Hilmars, fangi á Litla Hrauni svipti sig lífi. Ég skrifa hérna til að sýna ykkur að hann var ekki bara fangi, hann var sonur foreldra sinna sem elskuðu hann. Hann var bróðir systkyna sinna sem elskuðu hann. Ég vildi koma því til lesenda að muna að hugsa ekki um einhver hóp manna sem ómögulega þjóðfélagsþegna. Fangi er ekki bara fangi, fíkill er ekki bara fíkill. Horfið á þá með mannlegum skilningi, þeir eru synir mæðra sinna og feðra.
Fyrri spurning mín er þessi : Telur þú þessi skrif hér hafa opnað augu þín fyrir því að fangar eru líka fólk ?
Ég les öll kommentin ykkar, hvern dag. Ég er ekki jafnklár að svara ykkur hverju og einu eins og til dæmis hún Jóna gerir (www.jonaa.blog.is) enda er hún upprennandi rithöfundur en ég bara símastúlka og atvinnubílstjóri.
Mér þykir samt vænt um kommentin ykkar og í dag kom eitt að austan, fyrir það þakka ég. Þeir héldu minningarathöfn fyrir austan í gær og ég var glöð. Ég veit að þar, þar sem illmennskan ein á að búa, er gott samfélag manna. Þeir eiga við sitt að stríða og ég óska þeim góðs í því. Megi Guð fylgja þeim og leggja þeim beinni veg. En ég veit líka að þessir menn eru margir afar hjartagóðir og þeir eiga líka allt gott skilið eins og önnur Guðsbörn. Mitt hlutverk er ekki að dæma þá, það er annar í því hérna á jörð og svo munu þeir eins og ég mæta sínum hæsta dómara þegar sá tími kemur.
Guð veri með ykkur strákar mínir fyrir austan.
Fangaverðir hafa verið mér hugleiknir síðan Hilmar minn dó. Fyrir þeim hef ég beðið og vonað að þeim líði betur. Fangelsismálastjóri fullvissaði mig um að um þá væri séð, ég vona að það sé nóg.
Nú er þessi færsla að verða gríðarlöng og ég biðst velvirðingar á því...
Hin spurningin mín er þessi ; er óviðeigandi að birta mynd af kistu Hilmars ?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 18. september 2007
4 september 2007
4.9.2007 | 00:13
verður ansi erfiður, það er nokkuð ljóst.
Fyrst vil ég biðja ykkur sem tök hafið á að kynna ykkur þetta hérna (www.annaeinars.blog.is) Þessu þarf að breyta og þetta þarf að laga. Ekkert okkar veit hver veikist næst.
Næst ætla ég að biðja ykkur afskaplega eigingjarnrar bónar. Ég hef hingað til beðið ykkur að biðja fyrir Himma. Nú breyti ég útaf venjunni en það er bara í þetta eina sinn. Ég vil biðja ykkur að biðja fyrir mér, að ég fái styrk til að standa með sóma við kistu sonar míns á morgun. Þó að ég nái að minnast þessa dags í dag með gleði þá er í mér mikill kvíði fyrir morgundeginum.
Kertasíðan hans Hilmars míns er ágæt í þetta líka. http://www.gratefulness.org/candles/candles.cfm?l=eng&gi=Himmi
Biðjið fyrir okkur öllum á morgun þegar við þurfum að ganga þau erfiðustu spor í okkar lífi.
Góða nótt
4.9.2007 | 18:51
fór fram í dag.
Það var margt í kirkjunni og veðrið lét skringilega, það var bilað veður í morgun en svo reif af sér. Það skein sól inn í kirkjuna og á kistuna hans Hilmars míns. Systir mín sagði að sólin hefði skinið á bakið á mér, bara mér (allaveganna þaðan sem hún sá til og sat)
Afhöfnin var óskaplega falleg og þótti fólki þetta með fallegri jarðarförum sem það hafði verið viðstatt.
Margt hjálpaðist að til að gera mér daginn bærilegri. Á kertasíðu Hilmars sá ég kveðju í morgun sem gladdi ósegjanlega. Hreinn fangelsisprestur hafði skrifað kveðju til hans þar, Hreinn var sá prestur sem fékk það þunga hlutverk að koma hingað og tilkynna okkur um orðinn hlut.
Hitt sem gladdi mig meira en orð frá lýst . Það var krans sem á stóð frá vinum að austan. Þessi barst ásamt fallegri skreytingu frá vinunum hans á Litla Hrauni, líklega bæði föngum og fangavörðum.
Elsku vinir, kærar þakkir fyrir þetta. Megi Guð fylgja ykkur.
Ég náði því miður ekki að sjá nærri alla sem honum fylgdu en presturinn talaði um starfsmann á Stuðlum sem kom. Hann kynntist einungis í nokkrar vikur en sagði við sr Bjarna að hann myndi aldrei gleyma honum.
Þessi áhrif hafði minn drengur á fólk...hann varð ógleymanlegur, gæðin skinu alltaf í gegn.
Presturinn tekur þátt í þessu af lífi og sál og hann syrgir með okkur. Slíkir prestar eru afar dýrmætir.
Þorvaldur Þorvaldsson söng einsöng og gerði það með miklum ágætum, það vissi ég að hann myndi gera og fékk hann til þess.
Ég ætla að skrifa meira um útförina seinna. Hugurinn er eiginlega ekki að starfa með mér núna, hálfgerð eyðimörk.
Þakka ykkur fyrir kveðjurnar og kertin sem logað hafa fyrir drenginn minn, þær hafa endalaust hjálpað .
Elskurnar mínar í sveitinni góðu, bráðum fær frænka að koma og hvíla sig þar. Ástarkveðja vestur
Ég reyndi að senda tölvupóstinn í morgun fyrir þær Þórdísi Tinnu og Gíslínu en því miður var tölvudruslan að hrekkja mig og mig brast þolinmæði til að greina vandann. Ég kem bara sterk inn næst þegar við hérna, vinirnir, viljum laga og breyta í þjóðfélaginu. En bænir mínar og góðar óskir fylgja þessum mögnuðu konum, ég tel mig ríkari eftir að hafa lesið síðurnar þeirra.
Í Guðs friði.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 18. september 2007
3 september 2007
3.9.2007 | 18:00
verið glöð, það kann að hljóma hálffáránlega miðað við aðstæður en það er samt þannig. Fékk símtal í morgun sem létti steini af mér, stórum steini. Að uppgötva mannlega eiginleika í ríkisbatteríi er nokkuð merkileg upplifun og mikið skelfing getur það glatt mann.
Fékk símtal frá móður sem stóð því miður í sporunum mínum fyrir 5 árum rúmum. Það var gott að heyra í henni, manni fannst eins og hún skildi...án orða.
Fékk svo annað símtal frá vini mínum sem er með magnað gullhjarta, hann sýnir það kannski ekki hverjum sem er en það var notalegt að tala við hann líka. Hann hefur margar fjörur sopið sjálfur og lífið hefur kennt honum margt. Hann ætlar að verða mér innan handar við nokkuð sem ég gæti þurft að gera. Það er gott.
Svo komu þau elskulega mæðgin, Sigga systir mín með Haukinn sinn, þennan ljúfa og góða dreng sem nánast ber hjartað að utanverðu. Þvílíkur gæðastrákur sem hann er og hefur alltaf verið.
í dag er ég glöð, glöð yfir að hafa átt Hilmar. Það var yndislegt.
Í dag hef ég líka fengið góð email. Minningarorðin frá prestinum,afburða góð..ég kannski birti þau á morgun eftir jarðarförina. Yndisleg ljóð frá tengdamóður minni, þau eru hérna á síðunni. Ekki alveg kannski nógu snyrtileg en það er mín sök, ekki hennar.
Í dag er ég glöð.
3.9.2007 | 15:29
Móðurást
Bjartari
en heiður vormorgunn
er hamingja móður
þegar hún leggur nýfætt
barn sitt að brjósti sér
glaðari
en fegursti fuglasöngur
er gleði móður
þegar hún fylgist með
þroska barna sinna
sterkari
en allir stormar lífsins
er ást móður
til barna sinna
dýpri
en svörtustu myrkurer sorg móður
sem syrgir barn sitt.
Trú von og kærleikur
Eins og stjarnan
lýsir í myrku
himinhvolfinu
lýsir trúin í myrkri angistar okkar.
Eins og fræið
liggur í moldinni
og vaknar að vori
lifir voni í djúpi sálar okkar.
Eins og glóðin
lifir í öskunni
og kveikir báli
vermir kærleikurinn hjörtu okkar.
Missum ekki trúna
vonina
og kærleikann
leyfum þeim að lýsa upp líf okkar
3.9.2007 | 11:18loksins eftir að hafa setið uppi hálfa nóttina.
Heilsufarið er eitthvað að bregðast okkur hérna í bili, Björn steinliggur í hálsbólgu. Skrokkurinn hjá mér er farinn að æpa hinsvegar. Öll sjúkraþjálfunin og allar æfingarnar hafa verið unnar fyrir gýg, verkurinn nær nú orðið úr öxlum og niður allt bak, fram í handleggi og auðvitað meira þennan ónýta vinstra megin. Höfuðið er farið að fá hausverk og ég er farin að ganga á verkjatöflum....
Ég þurfti að hafa nokkuð fyrir því að styðja Hjalla í gær, hann varð frekar miður sín kallanginn. Hann varð svo sár og reiður enda blandað í mál sem honum kom ekki við. Það höfum við fengið staðfest.
Ég hugsaði um það í gær að hætta að skrifa hérna en vildi svo ekki afhenda fólki út í bæ slík völd.
Ég ætla þegar aðeins fram líður að afrita það sem ég hef skrifað í þessu sorgarferli og geyma það, geyma það í skáp sem ég keypti á laugardaginn undir ýmislegt sem minnir okkur á Hilmar.
Auðvitað er til eitthvað af fólki sem telur Hilmar hafa brotið eitthvað á sér, það bara skiptir ekki máli núna. Hann er kominn inn í ljósið þar sem dómar mannanna ná ekki til hans.
Þakka ykkur fyrir öll fallegu kommentin ykkar
PS.
Ég var að lesa drög að minningarorðunum hans Hilmar, þau eru svo falleg. Ég er svo sátt við þau. Svo fékk ég símtal (kann ekki við að nefna frá hverjum) en þetta símtal var svo kærkomið. Ég náði líka að losna við nokkurn kvíðahnút í leiðinni sem snýr að Hjalta.
Það verður haldin minningarathöfn fyrir austan um Hilmar minn, það er verið að reyna að hjálpa föngum og fangavörðum að komast yfir þetta áfall. Guð veri með þeim.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 18. september 2007
2 september 2007
2.9.2007 | 17:20
að okkur Hjalla var kippt niður á jörðina, við sem vorum búin að hafa það ágætt í morgun og það sem af er degi.
Ég hef nú ekki í hyggju að birta það sem kom okkur niður á jörðina í dag en það sló okkur ansi illa.
Enda algjör óþarfi og tóm vitleysa að okkar mati. Ég vil síður þurfa að taka emailið mitt hérna út en ég geri það auðvitað ef ég fer að fá e mail sem gera nákvæmlega ekkert nema rífa niður.
Setti inn fleiri myndir og nýtt albúm
ðð
http://www.gratefulness.org/candles/candles.cfm?l=eng&gi=Himmi
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 18. september 2007
25 ágúst 2007
Sonur minn25.8.2007 | 20:38
sá sem er fjallað mest um hérna í augnablikinu , er það fyrst og fremst sonur móður sinnar.
Hann fór alls ekki alltaf þá leið sem móðir hans hefði kosið en það breytti ekki þeirri staðreynd að hann var sonur móður sinnar.
Hann sagði ekki né gerði alltaf það sem heppilegast var en það breytti heldur ekki þeirri staðreynd að hann var sonur móður sinnar.
Við fólk sem ekki vill leyfa mér að leggja son minn til hinstu hvílu segi ég þetta ; vinsamlegast finnið ykkur annan vettvang til að lesa á, hér eruð þið ekki velkomin.
Þetta gildir líka um þá sem mögulega telja mig vera að fegra glæpamanninn son minn, það vissu allir hvað hann var en það vissu fáir hver hann var. Ég hef og mun gera það áfram, einblínt á allt það góða sem gerði Hilmar að þeirri persónu sem hann var. Við sem áttum hann elskuðum hann, eins og hann var. Við vorum kannski ekki nærri alltaf sátt við hann en það breytti ekki því að við elskuðum hann.
Jarðarförin hans verður opinber en það er ekki ætlast til þess að þangað mæti fólk sem ekki getur minnst hans fyrir það góða sem í honum bjó. Þeir sem ætla að horfa á glæpamann jarðaðan geta farið eitthvað annað.
Ykkur sem hafið hér stutt okkur fólkið hans af heilindum þakka ég af heilum hug. Þið hin hafið þegar fengið of mörg orð.
Góðar stundir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 18. september 2007
30 ágúst 2007
30.8.2007 | 23:30
Það birtist ekki textinn við myndirnar en enginn gerði athugasemd við það. Ég held að mér hafi tekist að laga það núna.
Annars er ég svo innantóm -það er eins og skafið hafi verið innan úr mér með skeið. Skelin ein er eftir.
Mér kveið fyrir kistulagningunni og ekki af ástæðulausu, það er meira en að segja það að hafa fyrir augunum lík ungs manns,elskulegs sonar. Trúið mér, það er meira en að segja það.
Angakallinn hennar mömmu sinnar...hann var auðvitað ekkert sjálfum sér líkur beinlínis. Hann var samt mun betri en þegar við sáum hann síðast, sunnudaginn 19 ágúst síðastliðinn. Búið að laga hann vel til og gera fínan. Það sló gamla manninn hann pabba nokkuð að það sáust ummerkin um krufninguna á höfði okkar unga manns. Pabbi skildi ekki hvaða erindi þeir höfðu átt í höfuðið á nafna sínum. Ég sat með honum hérna úti á palli og reyndi að útskýra að það yrði að gera það við þessar aðstæður.
Ég held að jarðarförin verði mér auðveldari. Hún bara verður að vera það. Í dag hefði mér verið sama ef einhver hefði skotið mig frekar en að þurfa að ganga frá bílastæðinu inn í kapellu. Vesalings Bjössi varð nánast að draga móður sína inn, ótrúlegt hvað maður þarf á sínum að halda þegar svona stendur á.
Í augnablikinu finnst mér ég vera að telja dagana þar til ég hitti Himma á ný, ég er í raun að telja niður í eigið andlát. Asnalegt, ég veit og þetta veit ég líka að lagast en svona er það núna. Lífsgleðin sem ég hef hingað til haft nóg af er dáin með Himma mínum, þessu elskulega ljósi. Hinir krakkarnir eru samt að hjálpa mér mikið. Hjalli ætlar að vera hérna í nótt, okkur líður báðum betur með það..
Muna svo að setja ljós fyrir strákinn okkar
http://www.gratefulness.org/candles/candles.cfm?l=eng&gi=Himmi
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 18. september 2007
26 ágúst 2007
26.8.2007 | 10:04
Þennan morgunpistil ætla ég að nota í að reyna að rifja upp síðastliðinn sunnudag.
Samt ætla ég að byrja á fallegu smáhlutunum. Við erum með smá pallræmu hérna bakvið hús. Á pallinum er einn af útistólunum mínum,hinir eru á stóra pallinum. Steinar fer út með hundana í gær og ég sé að hann sest á stólinn. Eftir smástund kallar hann í mig. Þegar ég kem út þá bendir hann á fallegu stjörnurnar og segir ;hvar heldurðu að strákurinn okkar sé ? hvaða stjörnu hefur hann valið sér ? Ábyggilega þessa flottustu segi ég og skoða þær allar. ,,Já " segir Steinar, hann situr þarna upp og horfir á okkur.
Mér barst bréf í morgun, e mail. Það er frá ungum manni sem missti bróður sinn svona fyrir nokkrum árum. Mér þótti vænt um þetta bréf. Hann bendir mér líka á ágætar greinar sem fjalla um sorgina. Elsku vinur, þakka þér fyrir.
Sunnudagurinn 19 ágúst.
Ég vaknaði um 10 leytið og skálmaði hérna fram í náttfötunum. Ég held að ég hafi skrifað eitthvað hérna inn á síðuna og ákveðið svo að skríða aftur upp í rúmið mitt. Bóndinn heima og það hefur verið sjaldgæfur lúxus í sumar.
Ég skríð framúr aftur rétt fyrir hádegi, kem mér fyrir í stofusófanum og ætla að hlusta á hádegisfréttirnar á gufunni. Það er einhver óeirð í hundunum. Ég held fyrst að það sé vegna þess að nágranninn er að vinna í húsinu en finnst ég svo heyra að einhver er við dyrnar. Svo er bankað. Steinar fer til dyra, ég ekki hrifin af því að sportast á náttfötunum fram í hurð. Steinar kemur til mín og segir að það sé prestur frammi sem þurfi að færa mér slæmar fréttir.
Ég stekk framm. Maðurinn kynnir sig og biður um fá að koma inn. Hann gengur með mér inn í stofuna, snýr sér að mér og segir ; Ég er kominn til að tilkynna þér lát Hilmars, hann svipti sig lífi í klefa sínum í nótt. Næst man ég að hann segir mér að setjast niður. Hann segir okkur að ekki sé nákvæmlega vitað hvenær þetta gerist en klefinn hafi verið opnaður um morguninn klukkan 8 og þá hafi þetta komið í ljós. Hann segir að drengurinn minn sé á sjúkrahúsinu á Selfossi og við megum sjá hann þar. Svo spyr hann um systkini hans og ég sýp hveljur, Björninn minn svaf hérna inni og ég flýti mér að vekja hann. Bið hann að koma fram og fyrst ætlar hann að koma í sænginni. Ég segi honum að klæða sig og hann gerir það. Honum er svo sagt þetta hérna í stofunni að viðstöddum fangaprestinum.
Eftir á þá hélt ég að pabbi minn gamli væri dáinn, ég var með nafnið rétt en ekki réttan Hilmar samt. Presturinn kynnti sig samt sem fangaprest en ég heyrði það bara ekki. Ég fattaði það eftir á. Hefði ég heyrt það þá hefði ég áttað mig strax á að málið væri um drenginn minn fyrir austan.
Ég vona að fangavörðunum líði betur og að þeir hafi fengið áfallahjálp og þá aðstoð sem þeir eiga að fá. Ég hef reynt að biðja fyrir þeim líka, senda þeim ljós og góðar hugsanir.
Ég ætla að klára söguna af þessum sunnudegi seinna í dag. Takk fyrir kveðjurnar elskurnar, ég er annars talsvert hugaðri í dag en í gær
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 18. september 2007
24 ágúst 2007
24.8.2007 | 16:05
Meðan ég sit hérna ein og er ekkert sérstakt að afhafast í augnablikinu (kaffi og sígó telst ekki til athafna hérna) þá ætla ég að reyna að rifja upp sögur af Hilmari, bæði af honum og um hann. Ég býst við að færa svo færslurnar inn öðruhvoru. Ég hef svo hugsað mér að búa til sér síðu með mínum dreng og hafa hana hérna til hliðar við daglegt raus. En það gerist ekki meðan þetta er enn svona sárt.
Þeir eru frekar líkir mínir piltar enda allir smíðaðir úr sömu erfðaefnum, albræður. Nokkur munur er þó á þeim og sér í lagi misbrosmildir.
Björn skýrir muninn á bræðrunum svona ;
Fyrst bjó Guð til Hilmar ,horfði á hann og tautaði fyrir munni sér ; nei heyrðu þessi brosir allt of mikið, ég verð að reyna aftur !
Þá smíðaði hann Hjalta og skoðaði hann ; nei þetta gengur ekki ! Þessi brosir ekki neitt !!
Þá vandaði hann sig ógurlega og bjó til Björn. Og ég er fullkominn ! segir Björn.
Hilmar gat hlegið endalaust að þessu hjá litla bróður.
---------------------------------------------------------------------------------------------
Hilmar minn var nánast fæddur með gríðarlega bíladellu. Við vorum einmitt að rifja upp í gær að hann var afar góður ökumaður en maður gat verið í stórhættu að hann labbaði á mann. Hann var frægur flækjufótur og stakkst á hausinn alla tíð. Þessu ollu þessi veikindi hans, hann var ofvirkur með athyglisbrest og misþroska. Kallanginn hennar mömmu sinnar. Hún Dísa sem hefur birst hérna í kommentum er mágkona Hilmars. Hennar maður var Hafþór, stóri bróðirinn hans Hilmars sem lést sviplega í slysi 2002. Hann og Hilmar áttu margt sameiginlegt, meðal annars þennan ódrepandi bílaáhuga. Núna er örlítil huggun í að Hafþór hafi tekið litla bróður sinn í fangið við þessi snöggu umskipti
.
24.8.2007 | 21:25
þungt um öðru hvoru, ég fæ svona þyngslatilfinningu fyrir brjóstið og mér finnst hjartað alveg vera að bresta. Svo líður þetta hjá og ég lagast aftur. Ég fékk martröð í nótt og varð að hnippa í kallinn minn til að fá lánaða hendina hans. Það var rosalega óþægilegt.
Ég fékk bók frá útfararstjóranum um sorg og þar er farið yfir þetta ferli allt lið fyrir lið. Þar er líka bréf sem maður getur sett nafn hins látna inn í, þetta bréf er fyrir þá sem missa ástvini sína eins og ég núna. Sumt í þessu bréfi passar en sumt passar ekki, það kannski passar seinna, ég veit það ekki ennþá. Ég er ekki reið við Hilmar minn, ég veit að fyrst hann gerði þetta þá gat hann ekki meira. Ég er hinsvegar nokkuð sár út í lífið hans, hann þurfti að fara svo erfiða leið í gegnum þetta allt. Vesalings, vesalings kallinn minn.
Ég veit ekki hvernig ég á eiginlega að hafa þetta af...stór hluti af mér vill bara gefast upp en það má ég ekki vegna hinna sem á mig treysta. Ég sé ekki lífið fyrir mér án Hilmars.
Fjölskyldurnar hafa samt þjappast saman við þetta, það eru allir svo miður sín. Allar gamlar væringar og leiðinlegar tilfinningar hafa strokast út. Það er mikill samhugur í gangi hjá okkur sem næst honum stöndum, ég get enn ekki talað um hann í þátíð. Hann ER drengurinn minn þó látinn sé.
Ég þarf að reyna að finna mér útrás í einhverju. Ég bara verð !
----------------------------------------------------------------------------------------------
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)