Færsluflokkur: Bloggar

einhver dagur, týnd dagsetning

Byrðin er svo þung

og ég get varla borið hana. Gleðin er dáin innan í mér....

Nú þarf ég að stökkva frá hálfskrifaðri færslu...

Komin til baka, ég er bara svo orðlaus að ég veit ekki hvað ég á eiginlega að skrifa. Eitthvað rekur mig samt til að skrifa hérna, hvað það er veit ég ekki.

Ég fékk nýja mynd af Himma í gær. Pabbi hans kom með hana. Þessa mynd gaf Himmi litlu systur sinni. Hann lét svo stækka hana og ramma hana inn. Þetta er voða falleg mynd af honum og hún fór á borðið hans Himma sem ég setti upp. Á borðinu eru myndir af honum, blóm og kort sem hafa verið send eða einhverjir komið með. Þar er líka Biblían og minningarbók um Hilmar sem ég lét grafa í nafnið hans, fæðingar og dánardag.

Núna í nótt verður vika síðan drengurinn minn gafst upp. Það eru hroðaleg tímamót og ég kvíði fyrir þeim. Ég kvíði fyrir öllu núna.

Krakkarnir mínir eru duglegir að koma og ég er þeim svo þakklát, ég þarf svo mikið á þeim að halda. Ég er svo brotin innaní mér og lítil.

Ég bara skil ekki hvernig ég á að lifa drenginn minn. Það ætti að banna að foreldrar þurfi að lifa börnin sín, bara ætti að vera bannað !!


Dagur 7

25.8.2007 | 16:20

Að finna leiðina

er hreint ekki það auðveldasta.

Þessi dagur hefur verið eins og næstum öll þessi vika, það er þessi doði í höfðinu og eiginlega finnst mér ég bara vera að bíða eftir að einhver veki mig. Þetta hljóti allt bara að vera tóm vitleysa.

Solla mín var hér í gærkvöldi, hún er svipuð. Hún trúir eiginlega ekki í augnablikinu að Hilmar sé dáinn.Samt veit hún vel að svo er, hún fór með okkur austur að sjá líkið síðasta sunnudag. Svo er meira um að vera hjá henni eins og er. Hún á yndislega ömmu sem er búin að kljást við veikindi í sumar. Nú liggur amman sofandi í öndunarvél á sjúkrahúsi og getur farið í hvora áttina sem er. Þau eru líka að fá afhenta íbúðina sem þau voru að kaupa og hún er byrjuð í skóla. Það er mikið um að vera hjá henni...Svo síðast en ekki síst þá á hún von á barni og það á að koma um miðjan nóvember.

Bjössi var ekki heima í nótt, hann var hjá vini sínum. Um leið og hann vaknaði þá var hann búinn að hringja í mig að gá hvernig ég hefði það. Hann virðist ætla að taka þetta að sér þannig, passa mömmu sína eins vel og hann getur. Það er óskaplega erfitt fyrir hann, ungan mann, að þurfa að fullorðnast allt í einu. Það hefur aldrei verið neitt vesen á honum en basl bræðra hans hefur fengið á hann í gegnum tíðina. Hversu oft höfum við ekki setið, ég og hann, og rætt áhyggjur okkar af þeim og hræðsluna við að einhverjir vofeiflegir atburðir gerðust í kringum þá bræður.

Þetta var samt ekki það sem manni hefði dottið í hug með Hilmar. Ekki að hann tæki líf sitt, alls ekki. Svona skapgóður og glaður sem hann alltaf var. Þetta er afar ólíkt þeim Himma sem við þekktum en er til merkis um það hversu ótrúlega erfitt hans líf var orðið.

Aðstæðurnar þegar hann er settur inn voru líka nokkuð áfall fyrir hann og okkur í sjálfu sér. Hann er dæmdur í maí og taldi sjálfur að hann færi ekki inn fyrr en í vetur næsta. Svo klagar, fyrrum kærasti stúlkunnar sem hann er með, Himma fyrir tilraun til innbrots. Himmi er pikkaður upp og yfirheyrður, í því ferli kemur í ljós að hann á eftir að afplána þennan 3ja mánaða dóm og hann er sendur beint í afplánun. Hann hringir í mig og biður mig um að sækja bílinn sinn sem varð eftir í lögguportinu. Ég var alveg jafn hissa á þessu og hann. Venjulega hefur hann vitað með aðeins fyrirvara að hann eigi að fara inn og getað komið og kvatt sitt fólk, en nei ekki í þetta sinn. Bíllinn hans stóð hérna og ég hrökk upp við það nokkrum dögum seinna að það var verið að taka bílinn. Þegar ég fór að skipta mér af því þá var það þessi kærasta og líklega bróðir hennar. Þau fóru svo á bílnum austur til að færa Himma föt. Næst þegar þau tóku bílinn þá seldu þau hann fyrir Himma. Kannski eins gott, ég er ekki viss um að ég hefði fengið af mér að gera nokkuð með þennan bíl, hann hefði staðið þarna til eilífðarnóns bara. Það vill til að innkeyrslan hjá mér rúmar marga bíla.

Smásögukorn í viðbót;

Himmi var alltaf fljótur til að tileinka sér hluti og flýtti sér mikið að verða stór. Eitt loddi þó við hann frameftir aldri, ef hann meiddi sig þá varð mamma að kyssa á það. Einn daginn kemur hann gólandi inn og heldur um afturendann. Æj á ég að kyssa á það ; segi ég án þess að sjá hvar meiddið er. Hann snarar niður buxunum og bendir á rauðan blett á botninum á sér. Hilmar ég get nú varla farið að kyssa þig á rassinn ;segir mamman. Lítill gutti stendur hugsi fyrir framan mig og segir ; nei það gengur ekki. Upp fóru buxurnar og hann skottaðist áfram út að leika, alsæll. Síðan bað hann ekki um að kyssa á neitt...

Alla ævina sína var hann óttalegur knúsikall við mig. Ef hann sat við hliðina á mér þá leið yfirleitt ekki löng stund þar til hann lagði kollinn sinn á öxlina á mér. Það var hans leið til að hvíla sig og segja mömmu sinni að honum þætti vænt um hana. Hann knúsaði mig í vinnunni þó að margir kallar sæu,honum var sama um það.

Þegar Himmi var 10 mánaða þá steinhætti hann að samþykkja að ég mataði hann. Hann vildi gera sjálfur og hætti ekki fyrr en mamman leyfði það. Maturinn fór fyrir ofan garð og neðan en honum tókst að læra þetta. Þá var hann ógleymanlega ákveðinn.

Meira seinna, takk fyrir fallegu kveðjurnar

 


Dagur 6

24.8.2007 | 10:52

Falleg kveðja

Ó, faðir, gjör mig lítið ljós
um lífs míns stutta skeið,
til hjálpar hverjum hal og drós,
sem hefur villzt af leið

Ó, faðir, gjör mig blómstur blítt,
sem brosir öllum mót
og kvíðalaust við kalt og hlýtt
er kyrrt á sinni rót.

Ó, faðir, gjör mig ljúflingslag,
sem lífgar hug og sál
og vekur sól og sumardag,
en svæfir storm og bál.

Ó, faðir, gjör mig styrkan staf
að styðja hvern sem þarf,
unz allt það pund, sem Guð mér gaf,
ég gef sem bróðurarf.

Ó, faðir, gjör mig sigursálm,
eitt signað trúarlag,
sem afli blæs í brotinn hálm
og breytir nótt í dag.

Ég ætla að reyna að setja inn link á síðu þar sem má kveikja á kerti fyrir Hilmar, því eins og Ásdís segir í kommenti þá getur umbreytingin orðið honum erfið. Hann fer svo snöggt. Elsku mömmustrákurinn.
Hérna er vonandi linkurinn á það.

ég setti inn 2 myndir af honum í viðbót, á annarri er hann með þáverandi unnustu og er að fá sér pönnsur hjá mömmu. Á hinni myndinni er hann með Kela vini sínum.

 


Dagur 5

23.8.2007 | 23:22

Margir gestir og mörg knús

og ekki veitir manni af því. Hérna komu margir í dag og meira að segja pabbi lét sjá sig. Aumingja gamli maðurinn segir svo upp úr eins manns hljóði : þetta var eini nafni minn ! Hann virðist vera að átta sig á þessu eins og allir aðrir, þetta er lengi að síast inn. Að maður fái ekki að sjá fallega brosið, prakkaraglampann í augunum og stóru hrammahendurnar hans framar. Fallegi fallegi drengurinn minn.

Ég á svo mikinn haug af góðum minningum um þennan strák. Ég var birta dómana um hann til fróðleiks um hann, ég vil kynna fyrir ykkur minn dreng eins og hann var, með kostum og göllum og trúið mér, kostirnir voru fleiri.

Hann var ótrúlega skapgóður, blíður og hlýr. Hann hringdi stundum í mig bara til að vera góður við mig. Í vor þegar hann hætti í neyslunni þá sagði hann mér frá því öllu og líka hvað honum þætti vænt um mig, ég væri besti vinur hans og alltaf til staðar fyrir hann. Ég myndi í dag hafa viljað tala við hann miklu oftar,knúsað hann miklu oftar og gert allt miklu oftar. En það er tilfinning sem fylgir öllum sem missa ástvin og byggist bara á því að maður saknar svo sárt.

Ég var byrjuð að telja niður dagana þegar hann kæmi aftur...hann átti að koma áður en ég á afmæli næst. Við ætluðum að hafa annan svona skemmtilegan dag eins og tvítugsafmælið hans Hjalla í maí sl. Himmi hjálpaði þá við matarundirbúninginn og frágang.....

En hvernig stendur á því að ég fæ alltaf ný verkefni sem eru óvinnandi ? Þetta er ekkert hægt að lifa af en samt verð ég, hinna vegna. Þetta er svo ömurlegt eitthvað.

Núna býð ég góða nótt og bíð eftir morgundeginum, hann verður jafnglataður og dagurinn í dag.

PS

Ég gleymi ! Þakka ykkur fyrir allan stuðninginn. Þau gleðja mig kommentin ykkur,það segi ég satt. Kannski tekst mér bráðum að skilja það sem ég les þannig að ég geti verið til einhvers gagns á ykkar síðum en þið bíðið bara þolinmóð.


Dagur 3

21.8.2007 | 13:40

Óhugnanlega róleg

Ég kem sjálfri mér nokkuð á óvart með því. Ekki þar fyrir,ég hef ekki misst barn fyrr en maður gerir ráð fyrir öskrum og örvæntingu.

Ég er rosalega róleg. Ég hef einbeitt mér mikið að því að passa krakkana mína og hugsa um allar góðu minningarnar um drenginn minn. Og trúið mér þær eru svo margar. Hérna hefur fólk verið að koma og knúsa mig.

Mér gengur herfilega að sofa en það hlýtur að lagast. Ég var að hugsa með mér í nótt hvort ég ætti að fá eitthvað til að sofa af hjá lækni en ég er ekki svo viss um að það henti mér.

Við skildum ekkert í því í gær að það var allt í blóðslettum í húsinu, í skottahæð. Eftir nákvæma rannsókn á hundaskottum þá kom í ljós sár á rófunni hans Kela. Hann var svo glaður þegar systir mín og sonur hennar komu í gær að hann hefur barið skottið sitt til blóðs. Hann meira að segja kvartaði ekki eða neitt.

Þakka ykkur innilega fyrir allar kveðjurnar. Þær eru svo dýrmætar.

Meira seinna.


Dagur 2

20.8.2007 | 01:38

Get auðvitað ekki sofnað

enda ekki við því að búast beinlínis. Það eru 4 ungar manneskjur í fótbolta úti á götunni fyrir framan húsið mitt. Ungar manneskjur á svipuðum aldri og sonur minn sem liggur í líkbörunum, hann hverfur ekki úr huga mér í eitt andartak angakallinn minn.

Ég er samt svo ferlega þreytt

Mér hefur enn ekki tekist að sofna en það hlýtur bráðum að koma að því. Ég var að hugsa, núna langar mig svo mikið að eignast fallegt ísblátt kerti með krossi á. Nafnið hans Hilmars míns þarf ekki að vera á því og helst ekki. Einhverntímann finnst mér ég hafa heyrt að svona geti maður fengið í klaustrinu í Hafnarfirði. Veit þetta einhver ?

Innilegar þakkir fyrir allar góðu kveðjurnar hérna og þessi fallegu email sem mér hafa borist. Þetta skiptir allt svo ótrúlega miklu máli og er svo mikil hjálp í þessarri þrekraun.

20.8.2007 | 16:37

Ég sit hérna

og hugurinn æðir um. Ég er samt ekki reið hvorki út í minn dreng né nokkurn sem að þessu kom. Hugur minn hefur dvalið mjög í morgun hjá fangavörðunum fyrir austan, á tímabili langaði mig að fara austur og knúsa þá. Ofsalega held ég að þetta sé erfitt fyrir þá. Hann var búinn að vera þarna hjá þeim nokkrum sinnum áður og þeir þekktu hann vel. Það er svo áreiðanlega alveg satt að þeir sáu þetta alls ekki fyrir. Hann var með ótrúlegt pókerandlit og hafi hann ætlað sér þetta þá lét hann þá ekki sjá það.

Ég fór og setti tilkynningar í blöðin. Það var ofsalega erfitt að horfa á tilkynninguna prentaða út -þetta varð svo ómögulegt og endanlegt. Sem betur fer hef ég haft stóru systur mína með mér í dag. Hún er mín hjálparhella og mikil fyrirmynd í lífinu.

Ég sá að fréttin um andlát sonar míns er komin inn á bæði moggann og vísi og var greinilega í hádegisfréttum stöðvar 2 eða bylgjunnar eða hvað þetta heitir nú allt saman. Ég velti fyrir mér hver hefði komið þessu í fréttirnar og fann út að samtök fanga birtu þetta á síðunni sinni. Svona leit það út hjá þeim ;

FRÉTTATILKYNNING

vegna alvarlegs atburðar sem átti sér stað

19. ágúst s.l. á Litla – Hrauni

Sá sorgaratburður átti sér stað í fangelsinu Litla – Hraun aðfaranótt sunnudags er ungur fangi, fæddur árið 1985 fannst látinn í klefa sínum við venjubundið eftirlit fangavarða að morgni 19. ágúst s.l. Samkvæmt upplýsingum frá fangapresti hafði ungi maðurinn tekið sitt eigið líf.


Stjórn AFSTÖÐU er harmi slegin vegna þessa válegrar atburðar og er hugur okkar hjá aðstandendum hans.


AFSTAÐA - félag fanga vil senda f.h. fanga á Litla - Hrauni samúðarkveðjur til aðstandenda og vina viðkomandi

Mér þykir óskaplega vænt um allar kveðjurnar sem komið hafa í gegnum þessa bloggsíðu og er búin að afrita þær. Þær verða vel geymdar með öllu öðru sem hingað berst á þessum erfiða tíma.

Sérstaklega þykir mér vænt um ljóðið frá henni Ásdísi bloggvinkonu minni þó ég vilji ekki á neinn halla í þessum kærleik öllum. Ljóðið hennar er eins og hún hafi þekkt hann Hilmar minn.

Ég var svo glöð áðan, ég fann frábæra mynd í tölvunni minni af þeim þremur bræðrum og þeir eru svo fallegir og brosa allir svo fínt í myndavélina. Þessi mynd verður stækkuð og sett inn á heimili þeirra nánustu. Þetta var þegar afmælið hans Hjalta var í maí síðastliðnum og við borðuðum saman. Hilmar minn var svo duglegur að hjálpa við bæði matseldina og fráganginn allan eins og þau öll þannig að úr þessum degi varð til svo falleg minning sem yljar særðu hjarta í dag. Vesalings drengurinn minn…….


Dagur 1

19.8.2007 | 12:57

Ekki búast við neinum

færslum í bili.

 

19.8.2007 | 21:14

Ég hef aldrei þurft að standa

í jafn erfiðum sporum og í dag og það veit ég að baráttan er rétt að hefjast. Sumum kann að finnast skrýtið að skrifa þetta nú svo stuttu eftir þessa vofeiflegu atburði en mér veitir ekki af þeim styrk sem mér tekst kannski að kría út úr þessu.

Son minn hef ég aldrei skammast mín fyrir og sér í lagi ekki nú þegar hann er látinn. Elsku hjartans strákurinn minn fyrirfór sér í klefa sínum á Litla Hrauni síðastliðna nótt.

Dagurinn er búinn að líða í mikilli þoku, það þurfti að ná í allt það nánasta og smala hingað til að segja þeim þessar hörmungarfréttir.

Ég treysti mér ekki alveg í að skrifa meira akkurat núna en ég mun gera það samt fljótlega.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband