Færsluflokkur: Bloggar

jæja

leitin að númerunum skilaði árangri. Það lá við að við Steinar værum orðin góðkunningjar lögreglunnar við þetta, fórum á 2 lögreglustöðvar. Halo Þær fundist fyrir rest og það varð einföld handvömm í kerfinu sem orsakaði það að þau skráðust ekki sem innlögð. Því hefur nú verið kippt í liðinn. Bíllinn er nokkuð heillegur að sjá. Það er að vísu búið að brjóta rúðu, filma í rúðunni hefur bjargað því að rúðan færi ekki í smáatriðum inn um allan bíl. Nóg er nú samt, græjurnar farnar og svo var hann með svona skjái í hauspúðunum og það er farið líka. En það verður að hafa það, bíllinn er hér. Það er nóg.

Ég er aðeins búin að blaða í Mannlíf, nennti nú ekki að lesa það Blush Kann hálfilla við mig í svona blaði. Ég veit hver verður ekki að horfa á Kompás þegar hann birtist Errm Þetta er heldur svo sem ekki gert fyrir mig, þetta er fyrir alla Himmana sem eru lokaðir inni og þurfa aðstoð til að verða nýtir þegnar þjóðfélagsins á ný. Við eigum þessa krakka og verðum að reyna að muna það hvert skref. Hverju einu sem verður bjargað..það er dýrmætt. Hvert þeirra er meira virði en þau telja sjálf en þau þurfa mismikla hjálp við að komast á fætur aftur. Sumum þeirra verður ekki bjargað en það er ekki okkar að velja það.

Ég hef verið að hugsa mikið um þetta undanfarið. Við erum með lágt hlutfall ungbarnadauða, sem betur fer.

 Hversu mörg erum við að missa á þessum aldri, aldrinum til 25 ára, í sjálfsvígum og við ofneyslu efna ? Hversu mörg ætli þau séu ?

Það er spurning..ég held að það sé hægt að finna einhverjar tölur um þetta á netinu...ég skrepp í það.

Himma og Þuríðar ljósin....linkur á bæði þarna uppi, með góðfúslegu leyfi Áslaugar móður Þuríðar.

Viðbót ; Mig langar að benda ykkur á að taka ykkur smátíma í að lesa fantagóðan pistil sem er á vef fanganna núna. Pistill er hérna . Þetta skrifar fangapresturinn, fáir þekkja málefni fanga eins vel og hann


fleiri fréttir

þetta smá mjakast...en alltaf bætast ný verkefni við jafnóðum.

 

Ég komst að því að bíllinn hans hafði ekki verið seldur og fann hvar hann var. Leysti hann út úr Vöku áðan og vegna þess að það eru engir lyklar þá varð ég að láta Vöku koma með hann til mín. Samtals fór þetta í 34000 en samt slógu þeir helling af. Þá var næst að athuga veð og svoleiðis og setja bílinn á mitt nafn. Það gekk alveg og nú eigum við Gísli saman einn bíl hehe. Það var ekkert veð á bílnum en það hafði ekki verið klippt af honum. Líklega hefur númerunum verið stolið og þá þarf að panta ný og leggja þau svo inn þar til bíllinn verður nothæfur eða hvað það nú er sem við gerum við hann. Það var búið að brjótast inn í hann og stela öllu úr honum,mölva rúðu. Það er búið að rigna inn í hann í einhverjar vikur. Þetta verður skrautlegt æfintýri...örugglega alls ekki peninganna virði en það er sama. Við ætlum allaveganna að hafa þennan bíl í skúrnum og sjá svo til. Ef einhver sem les hér hefur hugmynd um lyklana eða telur sig geta komið þeim til okkar þá yrðum við þakklát. Það þarf þá ekki að kaupa alla sílindrana í læsingarnar og svissinn. Ef við finnum ekki númerin þá verðum við að fara í lögguna og tilkynna það. Lífið er víst ekki einfalt hjá okkur Himmafólki þessa dagana.

Munið Himmaljósin fallegu...


Alveg að takast

að finna aleiguna hans, eða sko umboðsmaður familíunnar, Hjördísin mín , duglega og klára. Hún hefur unnið í þessu og leyst það.

Það sem finnst er komið, það eru 2 innkaupapokar. Á reikning hans voru smáaurar, mér sýnist að við Gísli erfum 262.5 krónur á mann.

Svo sækjum við bílinn hans á morgun. Það kostar einhverja aura. Hann var kominn í Vöku.

Við höfum fengið ómetanlega aðstoð úr áttum sem við áttum þess ekki von í þessari leit að eigum hans. Fyrir það er ég þakklát.

Klúsiklús...nú er komin nóttin.

Ljósin hans fallegu og líka fyrir litlu Þuríði Örnu.

Smáviðbót.

Ég hef einn skrýtinn hæfileika sem ég hef ekki mikið talað um. Hann virkar þannig að krakkanir eru með einhverskonar beina línu í kollinn á mér. Oftar en ekki hef ég fengið þau á heilann og það hefur alltaf staðist að akkurat á þeim tíma þá var eitthvað að hjá þeim. Hilmar minn deyr aðfararnótt sunnudags. Laugardagskvöldið hjá mér, 18 ágúst, var slæmt. Ég var endalaust að hugsa um hann og ætlaði að hringja austur daginn eftir. Hann byrjaði ekki fyrr en svo seint að senda mér skilaboðin. Það voru hans hinstu boð til mömmu sinnar, hann var að kveðja mig. Einstæðingur, lokaður inni vegna þess að hann lærði ekki reglur samfélagsins. Drengurinn minn þó, fyrst og fremst. Það var hann og verður ávallt. Ég er búin að knúsa fötin hans...þau ætla ég að geyma vel. Elsku Hilmar, mamma elskar þig og mun ávallt gera. Mamma mun muna fallega brosið og hlýja glampann í augunum þínum. Mjúku knúsin þín og hvað það var gaman að hlæja með þér. Yndið mitt...


Það er eiginlega meira fjör

í kommentakerfinu orðið en á síðunni sjálfri. Ég skrifa náttlega bara þegar mér finnst ég þurfa þess með en læt það vera á milli.

Hjalli fór í tannlæknir í gær, tekinn bilaður endajaxl og sett bráðabirgðafylling í aðra tönn sem var líklegast að kvelja hann. Hann bar sig vel eftir þetta og var svo sáttur við að vera laus við tannpínuna sem var að kvelja hann. Hann fór líka fyrir dómarann og ég held að í kringum afmælið mitt verði kveðinn upp dómur. Hann er alveg laus við efni núna og er fullviss sjálfur um að stóri bróðir í himnaríki sé að hjálpa honum við það, hann fær enn engin fráhvarfseinkenni eða neitt. Ég er búin að margsegja við hann að líta á þetta sem síðustu gjöfina frá Hilmari, tækifæri til að koma sér og sínum málum í lag. Hjalti er alveg öruggur með leiðina sem hann ætlar að fara....hann hefur aldrei verið áður svona viss. Hann eignaðist líka nokkuð merkilegt í þessu ferli, hann vill trúa núna á Guð og er viss um að Hilmar sé núna í þeim allrabestu höndum. Hann var meira að segja að spá í að koma með mér í messu. Messu hjá prestinum sem jarðsöng Himmann.

Með góðar tannlæknaábendingar, við höfum haft sama tannlækninn hérna og við viljum halda okkur við hann. Þetta bjargast allt.

Í upphafi ætlaði ég ekki að þurfa að loka á neinar IP tölur eða útiloka einhverja notendur. Ef málið sneri bara að mér einni þá hefði ég heldur ekki gert það. Hjalli á hinsvegar vont með að lesa sum komment sem komið hafa undanfarið og að vel athuguðu máli lokaði ég á eina IP tölu í gær. Þá vorum við búin að finna út hvaðan þetta er að koma og afhverju. Það mun ég láta liggja milli hluta. Hér eru tvær síður, önnur er svona baksíða, notuð til að geyma eldri færslur. Mér sveið eitthvað svo að lesa þær, fyrstu færslurnar eftir að Hilmar dó. Ég ákvað að fela þær svona fyrir sjálfri mér.

Við Hjalti erum búin að reyna að hætta við, hætta við þetta allt og hætta við að missa Himma. Það virkar auðvitað ekki.  


Viðtekin venja er

þegar fólk fellur frá að þá séu ekki lagðar þyngri byrðar á nánustu aðstandendur en sá veruleiki að ástvinurinn sé fallinn frá. Fólk yfirleitt leggur þá ekki illt til hins látna enda þykir það lýsa lítilmótlegu innræti. Okkur í Himmafjölskyldu hafa borist ýmsar upplýsingar sem fólk okkur velviljað hefur safnað saman eftir birtingu á netinu. Sumt er þess eðlis að það hefur verið tekið úr birtingu á þeim vefsvæðum sem það hefur birst á en náðist samt afrit áður en svo fór. Margt af þessu hefur verið erfitt að lesa en hefur varpað miklu ljósi á það hverjar orsakir þess voru að okkar maður gafst upp.

Ég geri mér samt grein fyrir að í málum Himma og annarra manna í hans stöðu sitja eftir möguleg fórnarlömb verka hans. Við því getum við Hilmars fólk ekkert gert, því miður. Auðvitað leiðist okkur að svo hafi verið. Að fólk hafi ekki haft eigur sínar í friði..það er sorglegt mál. Að ætla svo að hefna sín á okkur fjölskyldu hans er svo auðvitað engin lausn fyrir neinn. Ábyrgðin er ekki okkar og hún var það aldrei.

Drjúg eru morgunverkin er sagt. Ekki fannst mér þó aðili ,sem hér skildi eftir komment, hafa haft neitt sérstakt að gera á fætur svona snemma. Ef eina erindi manns á fætur er að reyna að meiða og særa þá er jafngott að snúa sér á hina hliðina og reyna að sofna aðeins aftur.

Öðrum þakka ég fyrir góð komment og góðar óskir til Hilmars og okkar. Ég tók mynd af englinum á leiðinu hans í gær og mun reyna að koma mynd af honum inn. Þið sem þekktuð Himma og saknið hans, þið megið afrita þær myndir sem hér eru til eignar fyrir ykkur persónulega. Það er alveg í fullkomnu lagi af minni hálfu.

Munið svo ljósin hans fallegu og kvittið fyrir komunni. Í dag skiptir það aðeins meira máli en venjulega.

engillinn hans Himma

Hérna er mynd af englinum sem situr á leiðinu hans Hilmars. Hann er óttalegt krútt. Ég setti svo nýtt í tenglana. Það er linkur sem heitir Leiðið hans Hilmars, þar geta þeir séð sem vilja fara til hans hvar í garðinum hann er.

Svo minni ég aftur á kertasíðuna, bæði þessa sem hann á og er í tenglunum -svo megið þið endilega líta við á síðunni hennar Áslaugar (www.aslaugosk.blog.is ) og setja ljós fyrir litlu snúlluna hana Þuríði Örnu.


Með sorg

í hjarta í dag.

Það hafa borist tilkynningar í fjölmiðlum í dag um unga manninn sem fannst látinn í klefa sínum um helgina. Góðir vinir létu mig vita svo mér yrði ekki mikið um. Fyrir það er ég þakklát.

Fjölskyldu unga mannsins sendi ég mínar samúðarkveðjur. Megi Guð vera með ykkur öllum. Kveðjur sendi ég líka samföngum hans og fangavörðum fyrir austan.


það er nú það

hvað færslan á að heita ?

 

Ég er á leið upp í rúm...ég er ferlega þreytt og heilmikið pirruð. Ég er að láta þetta með dótið hans setja mig alveg út af laginu. Við erum sammála um það,ég og pabbi hans, að þetta er með öllu ólíðandi að fá ekki dótið hans. Það verður farið í málið í vikunni og byrjað á að skoða reikninginn hans. Ég er heppin, er með fantagóðan lögfræðing ef á þarf að halda. Hann sér um öll mál á þessu heimili sem þurfa þess með.

Komst ekki til að kveðja Kela á Kringlukránni í dag. Hér voru gestir í allan dag. Það dreifir huganum.

Mér líður samt andstyggilega...reið...pirruð...og losna ekki við þessar leiðindahugsanir, ég vil helst bara fara á eftir Himma. Mér finnst ég ekki geta þetta. Ekki með nokkru móti. Mér gengur illa að sofa en þori ekki að fá lyf..hrædd um að éta þau þá öll í einu.

Það styttist í að ég verði að fara til sálfræðings eða í eitthvað þannig prógramm, áður en ég verð endanlega galin.

Ég er svooo þreytt...ferlega þreytt.

Góða nótt og muna ljósin hans


eins og þið vitið þá hafa lesendur

veitt okkur sem syrgjum Hilmar mikinn styrk. Öll fallegu kommentin -kertin á síðunni hans og hjörtun þegar þið vitið ekki hvað þið eigið að segja. Mér hafa líka borist mörg email, ég er nýbúin að breyta emailinu mínu þarna í höfundaglugganum til að vera viss um að allt berist til okkar. Hotmailið á til að setja furðulegustu hluti í junk mail og ég er hrædd um að þar hafi ég jafnvel tapað góðum bréfum til að byrja með.

Ég fékk bréf í gær frá ungum manni sem búsettur er afar langt að heiman, hann er í Guatemala. Hann er ljósmyndari og bjó til afar fallega mynd af Hilmari. Með góðfúslegu leyfi hans birti ég þessa mynd.

hilmar (2)

Uppáhaldsmyndin okkar af Hilmari okkar.

Munið svo ljósin hans og kommentin


Hvasst í dag

Windy sunset at

Annars er bara ágætt. Hér verður umstang í dag. Grindavíkurdeildin ætlar að kíkja við, við bökum pönnsur. Hjalti og Aníta ætla að koma, við þurfum að sækja þau núna. Það er ekkert mál. Svo ætla Jón og Solla að koma líka. Það verður höfð kjötsúpa í kvöldmatinn. Ég skoðaði pakkað súpukjöt í gær og þvílíkt rusl...endaði með að kaupa leggi og framhrygg í súpuna.

Ég skrifa kannski eitthvað annað síðar í dag en í bili er allt í lagi og ég er sátt.

Til að fyrirbyggja misskilning, eigur Hilmars eru ekki fyrir austan.


Að berjast í gegnum hvern dag

er stundum erfitt. Það vantar svo mikið í lífið okkar núna. Samt var eins og við hefðum verið undirbúin undir þetta að sumu leyti. Hann var núna inni fjórða sumarið í röð. Það var alltaf jafnerfitt að sjá á eftir honum inn í afplánun. Fyrsta skiptið var mjög slæmt, þá fór hann á Kvíabryggju..í fallega umhverfið þar og á nýja dýnu í boði Árna Johnsen. Hann lét vel af þeirri dvöl og lofaði mömmu að gera þetta ekki aftur, ekki aftur í fangelsi. Mamman logandi hrædd um að ef hann lenti á Hraunið þá myndi hann læra að vera forhertur. Allt kom fyrir ekki, á Hraunið fór hann og mamman hélt að hún myndi bara deyja...mamma dó ekki og strákur kom út aftur.

Ekki forhertur, bara sami glaði strákurinn minn. Hann fór inn á Skólavörðustíg, settur í síbrotagæslu. Svo aftur austur...hann átti að koma út á ákveðnum tíma en nei, það var dæmt meira og hann var lengur. Gömul færsla á öðru bloggi segir mér að þá átti mamma erfitt og var svolítið reið út í kerfið. Hann kom svo loks á haustmánuðum út í það skipti. Þá var hann þreyttur á vistinni enda búinn að vera um 9 mánuði þarna fyrir austan. Við hittum hann ekki þann tíma, það var samkomulag milli okkar að mamma ætti að bíða heima, ekki að sjá soninn sinn innilokaðan. Solla systir hans fór austur og líka Björn. Hann hringdi hinsvegar í mig, stundum oft á dag og það var notalegt. Hann bar alla tíð fangavörðum vel söguna. Hann kvartaði aldrei yfir neinu.

Það síðasta sem hann vildi var að láta mig hafa áhyggjur af sér. Hann var í allskonar basli og mamma vissi ekki neitt. Hann var farinn að segja mér frá því sem hann gerði af sér. Hann vissi að ég sæi það hvort eð er á dómasíðunni. Hann vissi að hana las ég. Félagsþjónustan brást honum eins og bróður hans. Hann fékk ekki fjárhagsaðstoð vegna þess að hann átti nokkur hlutabréf sem hann erfði eftir ömmu sína þegar hann var nokkurra vikna gamall. Það varð til þess að hann leitaði bréfin uppi og seldi þau rétt áður en hann fór inn. Reikningurinn hans var tómur við andlát hans. Það á eftir að rannsaka það betur hvernig stóð á því. Hver tók út og hversvegna....

Aleigan hans hvarf með svipuðum hætti. Við fengum ekki einu sinni fötin hans né hvað þá sængina hans. Það er ekki gott mál, alls ekki. Fötin hans hefðum við viljað fá,það er alveg öruggt !!

Við pabbi hans erum sammála um að fólk þarf að svara fyrir gjörðir sínar síðar...ef ekki í lífinu sjálfu þá allaveganna fyrir hæsta dómara þegar þar að kemur.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband