Afrit

 

Við fórum

áðan og tókum til á leiði Hilmars. Fjarlægðum kransana, þeir voru orðnir svo ljótir. Það eina sem er á leiðinu hans núna er rauða rósin sem Birna Dís kom með í morgun.

Hjalli hinn ólánsami kom hingað í fylgd með fullorðnum í dag. Hann á ekki að vera að keyra. Hann er að standa sig vel kallanginn minn og vill allt fyrir mömmu sína gera. Við ræðum líka hreinskilnislega um það að missa og hræðsluna í mér við að enda með að missa hann líka. Hann hefur verið í svo miklum áhættuhóp. Hann skilur mömmu betur nú.

Ég las í blaði í morgun frétt sem var mjög jákvæð. Strákar á Skólavörðustíg eru komnir í hópefli, þeir standa saman og styðja hvern annan. Mikið fannst mér þetta falleg frétt. Áfram strákar !!

Ég held að það sé ekki meira sem ég hef ætlað að segja ykkur akkurat núna. Ég hafði gott af skælinu í dag og það er friður í sálinni núna.

Munið Himmaljósin fallegu og kvitt fyrir innlitin.


Dagurinn í dag

fer í að eiga bágt, ég á mynd af honum sem er tekin örstuttu fyrir andlátið og hún er sorgleg. Ég hef horft á hana í dag og þá skæli ég bara. Það er líka allt í lagi. Ég er ein í friði heima og þarf að fá smá tíma líka fyrir mig, tíma til að eiga bágt og syrgja þennan elskulega son minn.

Ég fann góðan vin á annarri síðu. Hann ætlar að koma og vera hér á blogginu mínu í dag.

 

Angel came down from heaven yesterday

Gott að þetta er ekki sjónvarpsblogg

 Ég er nebblega ógreidd og á náttkjólnum !

Hún Heiða gladdi mig í morgun (www.skessa.blog.is) Hún hittir svo gjörsamlega naglann á höfuðið í dag.

Ég er nokkuð viss um að ef ég færi fram á vefnum að fólk skrifaði undir áskorun um að bæta sálgæslu í fangelsum og byggja nýtt fangelsi fyrir yngstu afbrotamennina þá fengi ég ekki svona margar undirskriftir eins og áskorunin um Randver fær.

Málið er að fólk er oftast til í að skrifa sig á dægurmála áskoranir en þegar dauðans alvara blasir við þá koðna mótmælin oftar niður.

Ég vil líka stórauka það sem gæti heitið endurhæfing í fangelsum. Hilmar minn var t.d. þannig að hann kunni ekki að stjórna ofvirkninni sinni. Það hefði hann þurft að læra betur á. Í dag veit fólk mun meira um ofvirkni en það gerði. Hann var settur á lyf en það eitt er ekki nóg þegar ungir mann neita svo lyfjagjöf. Þegar hann hætti á lyfjunum þá var hann eins og blaðra,full blaðra sem maður sleppir áður en maður er búinn að binda hnútinn á hann. Blaðran fer um allt þar til loftið er búið.

Ég hef sagt ykkur að Hilmar var góðhjartaður, hann var stundum einum of góðhjartaður. Ef ég hefði t.d. sagt honum að JóiJóns væri vondur við mig og skuldaði mér aura þá hefði Hilmar brugðist við. Hann hefði ekki lamið Jóa en hann hefði farið og sótt eitthvað af eigum hans í bætur. Hálfgerður Hrói Höttur...á skakkan máta. Þá sagði mamma oft; Himmi minn, það má ekkert gera svona ! Þú lendir bara endalaust í klandri !! Já en mamma, veistu ekki hvað hann var búinn að gera við (einhvern vininn) ??. Hann vildi réttlæti en fór kolvitlaust í það...kolvitlaust.

Í fyrra varð hann var við að systir hans var eitthvað blönk. Hann sendi vinkonur sínar með aura og keypti af henni bílinn. Hann bjargaði málum þar. Þá sat hann inni og fékk einmitt viðbótardóm meðan hann sat inni.Það fannst honum erfitt þá. Það sama var að gerast nú, núna gat hann það ekki og gafst upp. Ég var að skoða færslur á gömlu bloggi síðan þá og ég sé að mamman gat þetta þá tæplega heldur. Ég hef verið farin að hlakka svo til að hitta hann og varð greinilega mjög sár þegar hann varð að vera lengur.

Hann var fyrst dæmdur 2004 og hann lést 2007. Þetta er ekki langur tími. Ég hef þá trú að ef það hefði verið hægt að gera eitthvað annað í hans málum þá hefði hann kannski náð betri tökum á sjálfum sér. Hann var ráðvilltur ungur maður með hjarta úr gulli, það vita allir sem þekktu hann.

Ég lokaði öðrum kafla í sorgarsögunni í gær, ég greiddi reikning útfararstofunnar. Þá er það frá.

 


Smá ljós til baka

Candle on plate

 

Það kannski stækkar ef þið smellið á það, nú annars hafið þið bara viljann fyrir verkið að þessu sinni. Ég er alls ekki nógu klár að finna myndir, ekki eins og Jenný eða Ásdís.

Dagurinn á morgun er skipulagður í slugs, ég þarf einn svoleiðis dag. Það verður nokkuð mikið um að vera á föstudaginn hins vegar. Helgin á líka helst að vera róleg.

Ég sé ykkur, sé ykkur og finn stuðninginn. Fyrir það er ég óskaplega þakklát, ef ykkar nyti ekki við þá væri ég mun verr á mig komin. Það er ég viss um.

Munið, ég sé ykkur svona

bloggvinirnir

og sérstaklega þegar það eru komin fleiri en 200 kerti á síðuna hans. Endilega kveikið á kertunum og látið vita af ykkur í kommentunum, þið gerið ykkur líklega ekki grein fyrir hvað það er mikill styrkur.

Nú er þessi minnisvarði kominn og farinn, það er mánuður síðan hann lést.

KLÚS í nóttina og Guð geymi ykkur öll.


Voðalega huglaus

og með kökkinn í hálsinum. Eitthvað hefur sett mig svo algerlega úr jafnvægi síðan í gærkvöldi. Það var samt svo ómerkilegt sem ýtti boltanum af stað...svo hefur bara safnast utan á skömmina síðan þá.

Sem betur fer þá er ég að vinna síðustu vaktina í bili...ég þarf endalaust að hvíla mig, úthaldið er ekkert.

Hjalli minn var eitthvað þungur áðan. Mamman sökk alveg innan í sér. Það á að kvarta í mömmu sagði ég við hann. Hann hefur oft barist við þungt skap.

Hilmar var hins vegar allt öðruvísi. Hann var svo kátur að manni datt ekki í hug að hann færi þessa leið.

Æj andsk....ferlega verð ég svört innan í mér stundum !


Hilmar minn er ekki einn

Þessir ungu menn sem berjast við sjúkdóma þurfa aðstoð -aðstoð okkar hinna. Hún Benna mín, sem mér þykir endalaust vænt um, skrifar í gær átakanlega færslu á bloggið sitt. Hérna er færslan hennar .

Ég er svo sorgmædd yfir þessu og finn svo til með fólkinu hans. Vesalings strákurinn....við þurfum að finna leið til að hjálpa þessum strákum. Flestir eru þeir bara hræddir, ungir menn og vilja snúa við blaðinu. Við það þarf að hjálpa þeim og ég myndi vilja sjá annað úrræði en fangelsi fyrir þá.

Það er auðvitað ekki í lagi að menn séu harðar dæmdir fyrir þjófnaði en brot gegn fólki ss nauðganir og þess háttar glæpi.

Æj ég er alveg með kökk í hálsinum.

Megi Guð vera með fjölskyldu þessa unga manns og vonandi tekur einhver annar hjartahlýr strákur við honum í himnasal og heldur utan um hann, passar hann.

 


Það er liðinn mánuður

Hann hefur verið lengi að líða, hann hefur líka verið erfiður, hann hefur verið sorglegur og hann hefur verið leiðinlegur.

Vesalings Himminn minn...

Þessi mynd hjálpar mér og minningin um þann dag.

Hilmar

Hilmar, Hjalti og Björn.

Ég er auðvitað eins og allar aðrar mömmur, finnst mínir krakkar sætastir hehehe. Mömmur eru svoleiðis.

Þið voruð dugleg að kvitta við síðustu færslu og megið vera það áfram. Ljósin hans Himma míns eru líka í fullu gildi og þá má setja fleiri en eitt á mann. Þau loga bara hvert í 48 tíma. Ég var að gá á síðuna hans og hann á 188 kerti. Mikið vildi ég að hann gæti séð þetta, hvað það eru margar góðar manneskjur til sem sjá sorgina í andláti hans. Elsku karlinn hennar mömmu sinnar...


Æj þreytt

ég er kannski að gera of mikið á of knöppum tíma ? ég veit það ekki alveg....

Í kvöld er ég eins og undin tuska...þoli takmarkað mótlæti og er bara þreytt.

Ég verð betri í fyrramálið þegar ég vakna, það er ég viss um.

Munið kertasíðuna hans. Linkurinn er þarna uppi.

Takk fyrir hlýjar kveðjur og góð komment. Þið megið vera aðeins duglegri við að kvitta hérna. Það er nóg að setja eitt svona Heart ef þið vitið ekki hvað þið eigið að segja.

Ég er svo einföld að það gleður mig.

KLÚS í nóttina ( eins og Himmi hefði sagt þegar hann var minni )


Æj vesen er á mér !

Var búin að stofna nýja síðu hérna með gömlum færslum ...svo var ég að setja þær inn og asnaði þeim inn á vitlausan stað.

Hvert hringir maður til að panta heilaígræðslu ? Í landsbankann bara ?

Ég er annars bara alveg sæmileg. Hjalli birtist snemma heima, ekki svefnfriður þar á bæ. Tengdadóttirin hóstar alveg út í eitt og gat ekki sofið sjálf fyrir hávaðanum í sér. Greyin...Það er alveg ferlega leiðinlegt kvef að ganga.

Mig langar að biðja þá sem ætla að leiði Hilmars að setja bara þar blóm eða útikerti. Ekki engla eða eitthvað svoleiðis. Ef allir koma með eitthvað svoleiðis þá verður þetta svo ruslalegt eitthvað. Við ætlum sjálf að skipuleggja gröf hans eins og við viljum hafa hana og viljum ekki þurfa að taka upp á því að henda af henni dóti sem ekki passar við það sem við ákveðum. Þetta er ekki illa meint og vinsamlega ekki taka því svoleiðis.



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband