afrit

hef ég hugleitt að breyta út af vana mínum. Mér hefur aldrei tekist að læra að drekka brennivín né hakka í mig neinar róandi/þunglyndispillur. Núna hef ég hugsað nokkuð um það að ef ég sæti hér rallhálf heima þá væri þetta kannski ekki svona sárt allt saman....sama myndi líklega gerast ef ég sæti hér skökk af pilluáti.

Svo myndi ég kannski bara sofna sjálf einn daginn inn í eilífðina og þá fyndi ég aldrei meira til.

------------------------------------------------------------------> kertasíðan hans Himma míns er orðin fastur liður þarna uppi.

Ég ætla að setja eina Himmamynd í færsluna

Þessi er svo flott !

Hilmar með Sverri bróður sinn

 

Góða nótt


4 vikur liðnar frá

versta degi sem ég hef upplifað. Það eru orðnar 4 vikur síðan Hilmar minn gafst upp. Mamma hans og allir enn í skelfilegri sorg og það eiga allir verulega bágt. Við erum öll að reyna að finna leið til að lifa þetta af.

Hjalli greyið er búinn að vera lasinn, ég náði ekki í hann áður en ég fór suðureftir í dag. Við ákváðum að fara fyrst í Grindavík, að kíkja á Gísla og Heiði , á leiðinni datt mér í hug að bjóða Auði að koma með til hinnar systur hans Himma og fá að sjá kettlingana. Ég mundi að Auður hafði sýnt áhuga á að fá að sjá litlu kisurnar. Þeir eru fæddir um svipað leyti og Hilmar dó. Man ekki alveg hvaða dag. Þeir eru að byrja að skottast um alla íbúð. Þau krakkarnir eru búin að kaupa þrælfína íbúð þarna í Njarðvík, verulega fín íbúð hjá þeim og rúmt um þau. Ég á eftir að finna eitthvað fallegt handa þeim í innflutningsgjöf...finn það seinna.

Það var gaman að hafa Auði með, hún hafði voðalega gaman að kettlingunum. Ég gerði kannski smá bölvun, hún ætlaði að sjá hvort henni tækist að fá eina kisu. Var meira að segja að búin að velja kettlinginn sem hana langaði mest í.

Þið getið kíkt á gömlu færslurnar á þessari síðu www.mammagamla.bloggar.is

Hérna eru svo ljósin hans Himma http://www.gratefulness.org/candles/candles.cfm?l=eng&gi=Himmi

Ég er búin að festa kertasíðuna hans í tenglum þarna niðri ef ég gleymi að setja hana inn í færslur.


Urg

var búin að skrifa heillanga færslu sem fjallaði að mestu um það að ég er sauður, smellti svo á skoða síðu í staðinn fyrir vista færslu. Þetta sannar greinilega mitt mál, ég er bara sauður !!

Ég var ss að kvarta yfir að blog.central væri bilað, ég kvartaði líka yfir kattaofnæmi, ég kvartaði yfir sjónleysi, ég kvartaði ekki yfir sólinni en kvartaði undan klakanum innan í mér.

Sko ! Þetta hefur verið hundleiðinleg færsla.

Ég tautaði líka um að skilja ekki það sem ég les, rak mig á það um daginn þegar ég las komment aftur. Ég hafði ekki skilið nema helming í einu þeirra, þannig að ef ég skrifa eitthvað hjá ykkur sem skilst ekki þá vitið þið afhverju það er.

Ég ætla að skreppa til Sollunnar minnar í dag.

Ég er búin að setja færslurnar síðan fyrst eftir að Hilmar lést inn á sérstaka síðu. Til að geyma þær, og ég er líka með þær í tölvunni vistaðar. Ég á eftir að tengja prentara við fartölvuna til að prenta þetta hreinlega út og geyma, stóra vélin varð fyrir vírusárás og ég þori ekki að reyna að vista þetta í henni.


Æj

Bara búin að hafa það verulega erfitt í kvöld, endalaust með kökk í hálsinum og bara léleg.

Þetta er bara svo sárt og erfitt og sífellt skil ég betur endanleikann, hann kemur aldrei aftur.

Hvern dag þarf ég að tuskast við erfiðar tilfinningar, tilfinningu um að vilja ekki vera hér lengur. Það er líka erfitt.

Góða nótt, ég kem með ljósið hans

http://www.gratefulness.org/candles/candles.cfm?l=eng&gi=Himmi


jæja

búin að taka til á síðunni og ákvað að gera það þéttar framvegis. Ég er búin að afrita fleiri hundruð blaðsíður af gömlu bulli síðan áður en Hilmar lést. Þann 12 september sl var þessi síða ársgömul. Ég fann hérna smávegis orðsendingar frá gamalli tíð um strákana mína og þá Himmann minn. Ég á eftir að taka til í þessu og raða þessu upp í tímaröð. Þá sér maður ferlið í tímaröð. Ég set þetta svo annaðhvort hérna á aukasíðu eða annarsstaðar, kannski á gömlu síðuna mína.

Einn gestur á síðunni minni hefur misskilið eitthvað hér um daginn. Málið er að ég hótaði ekki að henda neinum bloggvini út - það var alveg öfugt. Hins vegar í sambandi við bloggvini þá tel ég mér alveg frjálst að setja út bloggvini sem ég á ekki skap við. Þannig á þetta að virka , bloggvinir manns eiga að vera þeir sem maður vill lesa hjá, á eitthvað sameiginlegt með. Bloggvinir eiga ekki bara að vera fastir á þeirri síðu sem þeir eru á. Það getur ekki verið tilefni til víðtæks harms ef einhver skutlar manni út sem bloggvini eða hvað ?

Þá kemur samviskuspurning til ykkar ; mynduð þið móðgast ef ykkur yrði hent út af bloggvinalista einhvers ?

Þá hafið þið það, ég hendi ykkur út ef mér líkar ekki málflutningur ykkar, líka ef það er af ykkur táfýla eða þið hafið gleymt að skipta um nærbuxur í viku ! Það er bara svoleiðis...en að öllu gríni slepptu þá er ég komin með of marga bloggvini og næ sjaldnast að lesa til hlítar hjá öllum. Það finnst mér leiðinlegt. Mér finnst að bloggvinir eigi að lesa hjá hver öðrum.

Mínar hugleiðingar um málefni fanga;

Ég skil vel að menn (konur líka) þurfi að afplána refsingu ef ekki er farið að leikreglum samfélagsins. Ef ég mætti ráða þessum málaflokki þá myndi ég breyta ýmsu.

Ég myndi dæma harðar í málum sem beinast að persónu fólks, ss morðum, líkamsmeiðingum, nauðgunum. Ég myndi ekki láta regluna um reynslulausn gilda um þá sem framið hafa morð af yfirlögðu ráði.

Fyrst og fremst myndi ég gjörbreyta inn í fangelsunum sjálfum með mikilli áherslu á að koma föngum í starfhæft ástand með mjög markvissum aðgerðum til að byggja þá upp. Fólk segir oft að fangar eigi ekkert gott skilið og það eigi bara ekki að eyða skattpeningunum í þá. Þessu er ég ósammála. Það er allra hagur að menn komi í góðu ástandi út úr fangelsum, þá eru mun minni líkur á að menn brjóti af sér aftur og fólk þyrfti kannski ekki eins mikið að óttast þá. Ég geri mér líka grein fyrir að ekki er unnt að koma öllum föngum á rétta braut en á meðan við sjáum svona um fangana þá er nánast engin von um að þeir komi betri út og þeir halda áfram að vera þessi ógn við löghlýðna borgara.

Það sem fór í mig um daginn voru ekki færslur bloggaranna sjálfra um mál mannsins sem strauk af Vernd heldur og takið eftir : komment við slíkar færslur. Þessi komment voru ekki bara um þennan ákveðna mann heldur fanga almennt. Kannski finnst þetta enn á síðu Jennýar, ég ætla allaveganna ekki að leita að þessu fyrir ykkur að sjá. Ég las þetta hjá Jennýu og svo á öðru bloggi en bara man ekki hvaða bloggi.

Hvaða bloggsíður eru til fleiri en mbl og 123, blogspot og blog.central ?


fly me to the moon

mig dreymdi þetta í nótt ;

 

Ég var búin að brjóta í mér allar tennur í neðri góð, meira að segja brúna líka. Ég vaknaði við að ég var að spýta út úr mér blóðugum tannbrotunum.

Hvað ætli þetta þýði ?

Annars er ég bara nokkuð góð. Gurrí, ég held að þú farir nokkuð nálægt líðan minni með "ofurumhyggju"kommentinu þínu þarna. Ég virðist vera súperviðkvæm fyrir ákveðnum málefnum og hefur tekist að vera mér hálfpartinn til skammar þar meðBlush Ég er líklega mun viðkvæmari en fólk telur svona í fljótu bragði hérna við lestur síðunnar. Það má nú kannski vera skiljanlegt en ég skal reyna að hemja mig og vera ekki að fá æðisköst opinberlega.

Ég á stóran klett hérna heima, ég get prufað að arga á hann. Hann er að vísu óvanur því en hann hlýtur að venjast því fljótt híhíhí.

Ég lagði mig eftir vinnu í dag og er bara spræk núna. Stefnan er að kíkja á Solluna mína í Keflavík um helgina og sjá nýju íbúðina. Ég ætla að reyna að smala Hjalla og Anítu með mér, þau hafa gott og gaman að því. Solla á 4 kettlinga sem eru komnir aðeins á legg.

Þakka ykkur fyrir kommentin ykkar. Ég les þau alltaf öll.

Kertasíðan hans Himma

http://www.gratefulness.org/candles/candles.cfm?l=eng&gi=Himmi


Hlýðinn hundum og fleira smálegt

Ansi var kalt úti í morgun þegar ég lagði af stað í vinnuna....brrr. Það er bara að verða kominn vetur.

Sat og glápti á sjónvarpið í gær, sá nú ekkert markvert í því en þegar desperate housewifes byrjaði þá kom fljótlega jólalag. Það var erfitt...mér varð á að hugsa til næstu jóla. Þá verð ég Himmalaus -fyrstu svoleiðis jólin síðan 1984, jólin áður en hann fæddist .

Hundurinn er hlýðinn. Steinar setti þá út í morgun. Allt í einu kemur Lappi á spretti inn og horfir montinn á Steinar. Hvað er að þér ? spyr Steinar. ,,Það var starrinn sem flautaði en ekki ég !  Segiði svo að hann sé ekki hlýðinn....gegnir fuglunum í garðinum.

Þið eigið eftir að sjá bjánalegustu færslur á síðunni minni, ég er að kroppa saman færslurnar og ætla að geyma þær. Held að ég sé búin að fjarlægja aftur til júlí 07. Þetta hefði verið auðveldara ef ég hefði ekki verið OF ofvirkur bloggari.

Takk fyrir góðar kveðjur og umburðarlyndi.

Munamunamuna= skrifa drauminn


Hef fátt að segja

ég er búin að gera það sem ég hafði ætlað mér. Taka saman færslurnar um Himma minn, það koma fleiri en ég þarf að geyma þessar þar til ég get lesið þær.

Ég hef hvergi stutt það að fangar taki ekki út dóm fyrir sín afbrot. Ég vil hins vegar að lögð sé áhersla á að það sé hægt að skila þeim betri út í þjóðfélagið, þá með betri og skilvirkari geðlæknaþjónustum og öðru slíku sem má betur fara. Þó að fangar séu með toppaðbúnað miðað við þá sem hírast í moldarkofum í svörtustu afríku, það kemur bara málinu ekki við. Ef Hilmar minn hefði verið í Saudi Arabíu þá hefði hann fyrir löngu verið orðinn útlimalaus. Við erum á Íslandi og okkur ber að sjá um ALLA okkar þegna. Líka þá sem eru eins og skítugu börnin hennar Evu. Ég get vel skilið að sárar tilfinningar fylgi því ef ástvinur er myrtur. Ég sé ekki einu sinni fyrir mér hvernig fólk á að lifa slíkan missi af. Heift og hefnigirni hjálpar áreiðanlega ekki, eins og reiðikast mitt hjálpaði mér ekki neitt. Mér leið bara mun verr en venjulega.

Ég veit vel um aðila á Litla Hrauni núna sem framdi svo ljótan glæp að það er ekki nokkur leið fyrir aðstandendur að fyrirgefa honum og ég ætlast ekki til þess að þau geri það.

Sonur minn var þjófur. Hann er dáinn. Ég er brotin innan í mér. Það getur verið að seinna þoli ég slíkar alhæfingar um fanga. Já og svo það sé á hreinu þá voru það yfirleitt komment við færslur sem ´brutu mig svona niður í dag. Ég get verið óþolandi viðkvæm fyrir dómhörku. Ég hef ORÐIÐ að kasta slíkum tilfinningum sjálf á haf út. Ástin til drengjanna minna sem ganga sífellt með vindinn í fangið er bara sterkari en slíkar leiðinda tilfinningar. Krakkana mína elska ég meira en allt.

Ég kem hérna með kertasíðuna elskurnar mínar og býð góða nótt. Vonandi verð ég skárri á morgun.

http://www.gratefulness.org/candles/candles.cfm?l=eng&gi=Himmi



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband