Dagur 2

20.8.2007 | 01:38

Get auðvitað ekki sofnað

enda ekki við því að búast beinlínis. Það eru 4 ungar manneskjur í fótbolta úti á götunni fyrir framan húsið mitt. Ungar manneskjur á svipuðum aldri og sonur minn sem liggur í líkbörunum, hann hverfur ekki úr huga mér í eitt andartak angakallinn minn.

Ég er samt svo ferlega þreytt

Mér hefur enn ekki tekist að sofna en það hlýtur bráðum að koma að því. Ég var að hugsa, núna langar mig svo mikið að eignast fallegt ísblátt kerti með krossi á. Nafnið hans Hilmars míns þarf ekki að vera á því og helst ekki. Einhverntímann finnst mér ég hafa heyrt að svona geti maður fengið í klaustrinu í Hafnarfirði. Veit þetta einhver ?

Innilegar þakkir fyrir allar góðu kveðjurnar hérna og þessi fallegu email sem mér hafa borist. Þetta skiptir allt svo ótrúlega miklu máli og er svo mikil hjálp í þessarri þrekraun.

20.8.2007 | 16:37

Ég sit hérna

og hugurinn æðir um. Ég er samt ekki reið hvorki út í minn dreng né nokkurn sem að þessu kom. Hugur minn hefur dvalið mjög í morgun hjá fangavörðunum fyrir austan, á tímabili langaði mig að fara austur og knúsa þá. Ofsalega held ég að þetta sé erfitt fyrir þá. Hann var búinn að vera þarna hjá þeim nokkrum sinnum áður og þeir þekktu hann vel. Það er svo áreiðanlega alveg satt að þeir sáu þetta alls ekki fyrir. Hann var með ótrúlegt pókerandlit og hafi hann ætlað sér þetta þá lét hann þá ekki sjá það.

Ég fór og setti tilkynningar í blöðin. Það var ofsalega erfitt að horfa á tilkynninguna prentaða út -þetta varð svo ómögulegt og endanlegt. Sem betur fer hef ég haft stóru systur mína með mér í dag. Hún er mín hjálparhella og mikil fyrirmynd í lífinu.

Ég sá að fréttin um andlát sonar míns er komin inn á bæði moggann og vísi og var greinilega í hádegisfréttum stöðvar 2 eða bylgjunnar eða hvað þetta heitir nú allt saman. Ég velti fyrir mér hver hefði komið þessu í fréttirnar og fann út að samtök fanga birtu þetta á síðunni sinni. Svona leit það út hjá þeim ;

FRÉTTATILKYNNING

vegna alvarlegs atburðar sem átti sér stað

19. ágúst s.l. á Litla – Hrauni

Sá sorgaratburður átti sér stað í fangelsinu Litla – Hraun aðfaranótt sunnudags er ungur fangi, fæddur árið 1985 fannst látinn í klefa sínum við venjubundið eftirlit fangavarða að morgni 19. ágúst s.l. Samkvæmt upplýsingum frá fangapresti hafði ungi maðurinn tekið sitt eigið líf.


Stjórn AFSTÖÐU er harmi slegin vegna þessa válegrar atburðar og er hugur okkar hjá aðstandendum hans.


AFSTAÐA - félag fanga vil senda f.h. fanga á Litla - Hrauni samúðarkveðjur til aðstandenda og vina viðkomandi

Mér þykir óskaplega vænt um allar kveðjurnar sem komið hafa í gegnum þessa bloggsíðu og er búin að afrita þær. Þær verða vel geymdar með öllu öðru sem hingað berst á þessum erfiða tíma.

Sérstaklega þykir mér vænt um ljóðið frá henni Ásdísi bloggvinkonu minni þó ég vilji ekki á neinn halla í þessum kærleik öllum. Ljóðið hennar er eins og hún hafi þekkt hann Hilmar minn.

Ég var svo glöð áðan, ég fann frábæra mynd í tölvunni minni af þeim þremur bræðrum og þeir eru svo fallegir og brosa allir svo fínt í myndavélina. Þessi mynd verður stækkuð og sett inn á heimili þeirra nánustu. Þetta var þegar afmælið hans Hjalta var í maí síðastliðnum og við borðuðum saman. Hilmar minn var svo duglegur að hjálpa við bæði matseldina og fráganginn allan eins og þau öll þannig að úr þessum degi varð til svo falleg minning sem yljar særðu hjarta í dag. Vesalings drengurinn minn…….


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband