Laugardagur, 19. september 2009
afrit
Löngu vöknuð
18.9.2007 | 10:18
mér tekst bara ekki að sofa nema nokkra klukkutíma í senn. Ég er búin að vera á fótum í meira en klukkutíma og ég var að vinna til miðnættis í gær ! Þetta fer nú að verða þreytandi ástand. Ég er samt ekki beint þreytt heldur bara finnst mér ég hafa allt of mikinn tíma til að hugsa þegar ég vaki svona mikið.
Þið krakkar, vinir krakkanna minna, sem komið hingað, já og aðrir líka. Það má taka þær myndir sem ég birti hérna, til þess eru þær meðal annars. Venjulega er fólki ekki vel við að teknar séu myndir af vefsvæðum þess en þá má hér.
Ég er annars bara sæmileg, ég fletti upp í www.gardur.is í gær, það getur maður fundið legstað allra. Ég setti það í næstu færslu fyrir neðan, það er fyrir þá sem vilja fara að leiði Hilmars. Þar er líka hægt að birta ítarefni og láta birta mynd og ég setti það í ferli. Ég gerði það líka á sínum tíma með hana mömmu, hún hét Stella Árnadóttir. Þið getið flett henni upp og séð hvað ég er að meina.
Svo fór ég að gá að einhverju á Íslendingabók og sá náttlega sjálfa mig og afkomendur, þar er komið inn að Hilmar sé látinn 2007. Það er óþægilegt að sjá þetta svona svart á hvítu.
Verð að þjóta
KOMIN:
Hjalli fann ekki þessa kisu, það var einhver kona sem fann greyið. Annaðhvort hefur henni verið hent út eða mamman þvælst með hana og týnt henni.
Ég var að búa til síðu hérna á bakvið, hún heitir Bók Hilmars. Þar er ég að reyna að raða saman færslum í röð síðan Hilmar lést. Mér sýnist samt að ég hafi tapað einum degi en það verður að hafa það.
Leiðbeiningar fyrir þá sem ekki eru moggabloggarar en langar að kvitta. Það er ekkert mál að kvitta, það er opið fyrir alla. Þið þurfið bara að leggja saman þessar 2 tölur =summudæmið þarna. Í flestum tölvum er reiknivél þannig að þetta ætti ekki að vefjast fyrir neinum. Mér finnst gaman þegar fólk hefur fyrir því að kvitta þó það segi ekki neitt.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Annasamur dagur
18.9.2007 | 00:18
margar heimsóknir hingað líka og mörg kerti á síðunni hans Hilmars. Mikið gleður það mig að fólk skuli allaveganna hugsa það lengi til okkar að það hafi tíma til að kveikja eitt ljós fyrir hann og okkur sem lifum hann.
Þessi dagur hefur ekki verið slæmur, hreint ekki. Ég (þessi mannafælna með myndavélafóbíuna) lét mig hafa það að láta taka af mér mynd. Ég er alveg hörð á því að reyna að knýja fram breytingar á innra skipulagi fangelsa á Íslandi. Ég ætla að vera litla þúfan sem veltir hlassinu. Lít hvort eð er út eins og þúfa með allt þetta hár !
Ég fékk yndislega heimsókn í dag. Hjalli og Aníta komu til mín í vinnuna með kettlingsstýri sem þeim áskotnaðist um daginn. Litla kisa fannst á vergangi, mér sýnist hún ekki vera nema 6-7 vikna og ætti auðvitað að vera hjá mömmu sinni. Hún er voða góð en mikið barn ennþá en það lagast vonandi. Þau eru með annan kisa, hann Kanil , og sú litla reynir að herma eftir Kanil. Þannig ætlar hún að læra að vera kisa.
Ég var svo þreytt í vinnunni hjá ömmu að ég sofnaði bara við að lesa moggann, í miðri auglýsingu !!
Þakka ykkur fyrir góðar kveðjur og hugsanir, þetta skilar sér allt saman.
Hann Hilmar er í Gufuneskirkjugarði, í reit
A-3-0038 Oj það var erfitt að fletta þessu upp ! Góða nótt og takk fyrir að gleðja mig í dag |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
jæja
17.9.2007 | 13:38
Fyrsta skrefið er stigið, eða er þetta kannski skref nr 2 ?
Kveðja í bili, hef engu við þetta að bæta akkurat núna.
Minni á ljósin hans og síðuna mammagamla sem eru hérna hægra megin efst. Ljósin hans eru kertasíða en hin eru gamlar færslur héðan. Byrja sama dag og við misstum Himmann okkar
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
Þið skrifið komment
17.9.2007 | 11:16
og ég fer að hugsa til baka, þannig á það að vera er það ekki ?
Sigurlaug er að skrifa ágætan pistil hér í kommentin. Þegar hún minntist á vinkonur þá fór ég að hugsa. Ég á engar vinkonur ! Í mörg ár var ég á flækingi, ástæða þess skiptir ekki máli nú. En ég kynntist ekki vel fólki í kringum mig. Ég lét t.d. helst aldrei passa krakkana nema það væri vegna vinnu. Ég hef aldrei verið á djamminu eða neitt þannig og hafði þar með takmarkaða ástæðu til að fara út á lífið eins og það heitir. Þannig að þið sjáið að ég hef aldrei passað alveg með venjulegu fólki. Krakkarnir mínir voru og eru það sem skiptir mig máli í lífinu. Mér hefnist nokkuð fyrir þetta núna, amk að því leytinu að ég á engar vinkonur til að kvarta í....en viti menn, ég á moggabloggsíðu
Svo þegar strákarnir fóru að lenda í vandamálum þá lokaði ég mig enn meira af. Fór bara ekkert...það var auðveldara en að reyna að útskýra hvar þeir voru, eða taka þá með og vita ekki hvað gerðist svo í heimsókninni. Hilmar átti til að taka það sem lá á glámbekk, Hjalli var svo skapstór að það fauk svo auðveldlega í hann með viðeigandi hávaða. Ég fór ekkert. Gömlu hjónin, foreldrar mínir, skildu ekki ofvirkni. Þetta hét óþekkt hjá þeim. Þangað þýddi ekki að fara með guttana mína. Og ég fór ekkert nema í vinnuna.
Steinar vill meina og er alveg viss um að þessi síða hérna hefur hjálpað mér. Hann hefur líklega rétt fyrir sér í því. Ég sagði honum að ég væri hætt við að gerast fyllibytta, æj hvað ég er feginn sagði hann og brosti. Við erum heppin með hvort annað, við erum svo miklir vinir og hann er svo traustur. Ég hef nú stundum spurt hann hvernig hann nenni að vera í þessarri fjölskyldu, hér er aldrei nein lognmolla. Það er bara gaman að þessu segir hann. Hér er líf og fjör ! Þá var Hjallinn okkar búinn að fá kast og Steinar þurfti að bjarga heimsljósinu honum Birni frá útrýmingu. Hjalli lenti bara í fangi þess gamla og var fastur þar. Meira mojið allt saman. En núna er Hjalli minn allur að lagast. Hann hefur átt mjög bágt við að missa stóra bróður sinn eins og við öll.
Nú ætla ég að bíta á jaxlinn og reyna að standa mig í að passa þau hin sem enn eru hérna megin. Ég ætla að reyna að sjá gleðina sem bíður, gleðina með að Hjalli er á réttu leiðinni, að Björn er svo yndislegur við mömmu sína,að Aníta er líka á réttu leiðinni og Solla mín og elskulegur Jón Berg eru svo dugleg og ætla að koma með eitt sólskin í fjölskylduna sína í nóvember. Ég ætla að reyna að sjá líka þetta góða þó svartnættið sé yfirþyrmandi.
Þið sem lesið, takk fyrir að vera vinkonur mínar. Það skiptir engu máli þó einhver ykkar séu karlar...hehe vinkonur samt !
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
komin á fætur
17.9.2007 | 10:41
ég ætlaði að sofa lengur.
Birni leist ekki á hárgreiðsluna á mér áðan þegar ég kom fram. Hvað varstu að gera, spurði hann undrandi.,,Sofa" sagði ég. ,,á hausnum?" spurði hann. Ég fór og greiddi faxið. Málið leystist. Það er auðvitað ástæðan fyrir nafninu á síðunni,hross, ég er með hálfgert hrosshár. Við Bjössi erum bæði með afar gróft og þykkt hár. Ef hann klippir sig ekki stutt þá vex hárið á honum bara upp í himinhvolfið óáreitt. Hjalli er með ljósara hár og fær sætar krullur í það . Himmi var með einhvern lit þarna á milli og englakrullur þegar hann var lítill.
Við vorum í Grindavík í gær og ég var að fletta gömlum myndum af Himma. Hann er með sólskinbros á þeim öllum (ja nema þegar það var búið að taka margar í röð). Pabbi hans sagði einmitt að hann hefði ekki átt von á þessu með hann, hann hefði alltaf verið svo glaður ! Það er einmitt það sem gerir þetta líka svo erfitt....hann Himmi, glaði strákurinn. Svo erum við búin að liggja yfir því að skilja afhverju hann gerði þetta. Við teljum okkur vita það nú.
Birna Dís hittir nákvæmlega naglann á höfuðið þarna í kommenti við næstu færslu. Mann langar svo að slökkva á heilanum og sjálfum sér. Mann langar svo að losna við að líða svona herfilega illa. Ég geri mér samt grein fyrir að vín og pillur hjálpa ekki, ég var bara um daginn orðin svo þreytt á þessu ástandi. Mig langar bara í Himmann minn aftur,knú hann og passa hann.
Svo er vinnan sem bíður þessa vikuna og ég held að það sé meiri hjálp í því en víninu og pillunum. Ég vinn innan um góða kalla sem ég þekki orðið vel. Þeir hjálpa mér helling bara með að vera þeir sjálfir, það er ekki flóknara en það.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.