Þriðjudagur, 25. nóvember 2008
Ég er á réttu ári og réttri öld
og þvílíkur hvirfilbylur í heilanum. Ég skrapp í kirkjuna áðan, það voru boðaðir þeir sem sr. Bjarni hafði þjónað sl ár. Það er semsagt ár síðan hann boðaði mig á slíka samveru. Þeirrar samveru þá naut ég ekki, ég var enn of dofin og sljó. Núna skildi ég hvert orð, fann hverja tilfinningu og þetta leiddi til mikilla átaka innra með mér. Mér finnst ég vera í slitrum...tætlum...ónýt.
Meðan á björgunarleiðangrinum með Hjalta minn stóð þá var ég ágæt, andlega. Nú er það mál í höfn, með góðri niðurstöðu og ég hef tíma til að hugsa, finna, skilja og upplifa enn á ný þennan andstyggilega sársauka. Sem ég vildi að færi til fjandans, beina leið.
Ég skil stundum ekkert á hvaða leið ég er - ég er bara eins og drusla í vindinum og flaksast eitthvað bara. Ég vil ekki vera svona og ég vil alls ekki eiga svona erfitt -en hvað ? Það er ekki eins og Himmi minn komi skoppandi til baka bara vegna þess að ég krefst þess! Þetta virkar ekki þannig, ef svo væri þá væri hann löngu kominn. Með brosið breiða, hlýjuna í augunum og kippandi upp buxunum í skrefinu vegna þess að hann mundi ekkert hvar beltið hans varð eftir. Pjakkurinn minn, sólargeislinn...
Að nokkurt foreldri nokkru sinni verði að þræða þennan stíg er bara ósanngjarnt, drullu ósanngjarnt. Ég meina það, hann tók ekki það mikið pláss í heiminum að til vandræða væri. Afhverju mátti ég ekki hafa hann í friði?
Í augnablikinu er ég svo reið að ég er nánast alveg að kafna, það er eins og fíll sé sestur á brjóstkassann.
Til hvers er þetta allt ? Hvað á ég að gera ? Þramma bara áfram veginn eins og sauður, steinþegjandi ? Til hvers ?
Mér finnst þetta drulluósanngjarnt og mér má alveg finnast það.
Athugasemdir
Þú ert í fullum rétti Ragga mín
Sigrún Jónsdóttir, 25.11.2008 kl. 23:03
Þegar þú finnur til í hjartanu, finn ég líka til í hjartanu.
Það er alveg rétt hjá þér, auðvitað hefur þú rétt á öllum þeim tilfinningum sem með þér bærast. Tilfinningar væru tæplega í okkur ef ekki ætti að nota þær. OG ....... þetta er ósanngjarnt. Svo ósanngjarnt að það er ekki hægt að setja það í orð.
Ragga mín. Þú verður að skipa heilanum að hugsa einhvern veginn á þennan hátt; "Jafnvel þótt ég skilji ekki, hlýtur að vera tilgangur sem ég mun skilja síðar".
Aðeins með því að trúa því að allt hafi tilgang og að maður játi tregðu sína til að skilja lífsgátuna, kemst maður í þann farveg - með tíð og tíma - að verða aftur hamingjusamur. Þú átt svo skilið að vera hamingjusöm og þannig vil ég sjá þig ljúfust.
Anna Einarsdóttir, 26.11.2008 kl. 00:01
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 26.11.2008 kl. 01:04
Þessi reiði tilfinning er bara svo hræðilega vond... láttu mig vita það !! En ég vona bara að við komumst einhvern tíman yfir hana og sættumst við Guð og menn...
*Knús á þig*
Sifjan, 26.11.2008 kl. 01:22
Hrönn Sigurðardóttir, 26.11.2008 kl. 08:13
Úff, púff, Ragga mín. Fá útrás fyrir reiðina.... mín leið er stundum sú að fá líkamlega útrás, með því að fara að ganga út og ganga þá svo hratt að ég tek fram úr sjálfum mér. Eða fara í ræktina og taka vel á. Þetta er þó tímabundin lækning hjá mér... því reiðin nær að byggjast upp aftur. Þá er að snúa sér að íhugun og öðru sem virkar á hugann. Það hjálpar líka til.
Annars get ég voða lítið komið með uppástungur núna, ég er enn hálfsofandi, og fingurnir (og heilinn) ekki vaknaðir alveg.
En, hvað um það.... Þú færð lopapeysuknús frá mérnúna! Sýnist ekki vera vanþörf á því núna.
Farðu vel með þig og ykkur, og *KNÚS*
Einar Indriðason, 26.11.2008 kl. 08:13
Elsku stelpan mín, þetta er vont það heyri ég, get ekkert gert nema beðið fyrir þér og reynt að vera hjá þér í huganum. Kærleikskveðja
Ásdís Sigurðardóttir, 26.11.2008 kl. 09:52
Já, Ragga mín, vildi að ég gæti sagt eitthvað af viti. Sendi þér
Jórunn Sigurbergsdóttir , 26.11.2008 kl. 11:38
Svona er þetta suma daga hjá mér.En svo léttir til.Í smá stund.Góðu stundunum fjölgar hjá okkur,en ósköp hægt þykir mér stundum.Þetta hjartasár er það vesta.Ég kom við hjá Himmanum þínum í gær.Ég og 800 grömmin vorum í kirkjugarðsgöngutúr.
Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 26.11.2008 kl. 11:52
Já takk Birna mín, voru blómin hans fokin um allt ? Ég þarf að drífa mig þangað uppeftir í dag helst.
Ragnheiður , 26.11.2008 kl. 12:03
Ásdís Emilía Björgvinsdóttir (IP-tala skráð) 26.11.2008 kl. 12:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.