Þegar ár er liðið þá er gott að staldra við

og líta aðeins yfir farinn veg.

Ég held að ein alfyrsta ákvörðunin sem ég tók þegar Himmi dó var að jarða hann ekki í kyrrþey. Það var eina hugsunin sem ég náði utan um og ég held að hún hafi komið áður en systkini hans vissu um lát hans. Bregðist minnið mér ekki þá var hér bara komin mín kæra systir sem brást strax við neyðarópi minni systurinnar.

Áberandi var hversu orðlaust fólk var. Enda hvað segir maður við móður sem stendur yfir líki 21 árs sonar síns ? Það er eiginlega ekkert hægt að segja en það er ofsalega gott þegar fólk kemur, knúsar mann og situr hjá manni.

Ég hef líklega tekið þá ákvörðun að skrifa opinskátt um hans líf, erfiðleika og hvernig hann dó. Ég hef verið lánsöm, ég hef ekki orðið fyrir því að fá leiðinlegar athugasemdir hér á síðuna, ja ef frá er talið eitthvað smávegis sem ég reyndar vissi alveg hvaðan kom. Ég átti, í sannleika sagt, von á því að fá fleiri neikvæð og rætin komment enda átti Himmi óvini. Menn í hans stöðu eignast eðlilega óvini, annað væri undarlegt.

Ég eyddi hinsvegar ekki þessum athugasemdum en lokaði á Ip töluna eftir mikil heilabrot. Ég gerði það ekki síst vegna systkinanna hans. Hann á mörg systkini og yngsta er bara 6 ára. Þeim þarf að hlífa.

Fyrstu færslurnar tók ég svo til hliðar, til að týna þeim ekki en því miður þá tapaði ég þar með athugasemdunum við þær. Það athugaði ég ekki áður en ég afritaði þær. Ég var semsagt hrædd um að týna þeim í eigin málæði. En þær eru hérna -á síðu sem finnst þegar þið smellið á bloggin mín og þar er Bók Hilmars.

Um daginn las ég dagbækur Matthíasar mér til ánægju en eitt sagði hann sem olli mér nokkrum heilabrotum. Hann var að fjalla um aðför að Haraldi syni sínum sem þá var fangelsismálastjóri og var kallaður ónefnum (ákveð að skrifa ekki hér hvað hann var kallaður) og Matthías er eðlilega sár fyrir hönd sonar síns. Hann skammast yfir þessu og klykkir út með að tala um "ræfladýrkun". Ég las ekki lengra þann daginn en sat og hugsaði ; ætli bloggið um Hilmar falli undir svoleiðis ?

Svo prófaði ég að sofa á þessu og var komin að niðurstöðu næsta dag. Það sem skín í gegn í færslum M.J. er ást hans á sonum sínum tveimur, ég vil meina að það sama sé hér uppi við. Ást mín á Hilmari.

Auðvitað hefði ég kosið að sonur minn hefði gert mig stolta af afrekum sínum, ekki niðurbrotna vegna afbrota sinna eins og oft gerðist. Hann hefði getað svo miklu betur en hann gerði en hans leið var grýtt og flókin, stjórnlaus og leiðinleg. Mamma dinglaði með enda ekki með nein úrræði til að bregðast við þessu ferlega ástandi.

Ég var ansi oft fokreið við hann, ég sé það á gömlum færslum á gamalli bloggsíðu. Af virðingu við Himma þá tók ég það allt burt og hef ekki lesið það heldur en það á að vera hérna nema það hafi tapast út við tölvubilun sem varð hér um daginn. Það nær þá ekki lengra.

Ég hef reynt að stikla hér milliveg, reynt að sleppa umfjöllunum um aðra en okkur sem tilheyrum fjölskyldunni en samt tekist að stíga á tær og fengið skammir fyrir.

Það sem styrkir mig í þeirri skoðun að uppljóstrun þessi á lífi Himma hafi skilað einhverju er einfaldlega sú að þið hafið fleytt ljósasíðunni hans áfram í ár. Það er afrek. Hvert kerti logar í 48 tíma og oft höfum við sem tilheyrum ekki náð að halda henni hjálparlaust við. Það er magnað.

Hann Himmi minn hefði mátt hafa þessi áhrif lifandi

Kærar þakkir fyrir öll kommentin, allan stuðninginn og hjálpina. Það hefur verið ómetanlegt í gegnum tíðina, þetta hörmungarár.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: E.R Gunnlaugs

Þakka þér Ragnheiður að leyfa okkur að fá innsýn í hugsanir þínar, sem sum kannski ná að tengja við en aðrir ekki.

En ég verð að taka undir eitt sem þú sagðir, Það er eiginlega ekkert hægt að segja en það er ofsalega gott þegar fólk kemur, knúsar mann og situr hjá manni.

E.R Gunnlaugs, 24.8.2008 kl. 20:17

2 Smámynd: Bergur Thorberg

Já Ragnheiður mín. Lífið er stundum erfitt og flókið. Þú sýnir mikinn styrk að tala um þetta. Megi Guð vera með þér og þínum alla tíð.

Bergur Thorberg, 24.8.2008 kl. 20:17

3 Smámynd: Hugarfluga

Takk, Ragga .... fyrir svo margt. Ég lifi til að læra og stundum síast námsefnið inn og stundum ekki. Þú kennir mér um æðruleysi og óskilyrta ást og í þessu tilviki þarf ég ekki að sitja eftir. Ég lofa að vinna heimavinnuna mína.

Hugarfluga, 24.8.2008 kl. 20:20

4 Smámynd: Huld S. Ringsted

Huld S. Ringsted, 24.8.2008 kl. 20:35

5 Smámynd: Anna Margrét Bragadóttir

Takk elsku Ragga

að hafa deilt þessu hér,því ég hef lært mikið af því að fá að fylgjast með skrifum þínum

Guð veri með þér og þínum alltaf

Anna Margrét Bragadóttir, 24.8.2008 kl. 20:41

6 Smámynd: Matthilda M. Eyvindsd Tórshamar

Það er alveg sjálfsagt að láta þig fá slóðina inn á síðuna hennar. Ég skal knúsa hana frá Himma mömmu, næst þegar ég sé hana, en hún flutti í bæinn núna í ágúst.

http://folk.visir.is/maggiein

Matthilda M. Eyvindsd Tórshamar, 24.8.2008 kl. 20:41

7 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 24.8.2008 kl. 20:48

8 Smámynd: M

M, 24.8.2008 kl. 20:56

9 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Það ert þú sem átt að fá þakkir frá okkur.  Þú ert yndi.

Anna Einarsdóttir, 24.8.2008 kl. 21:05

10 identicon

Knús á þig kæra nafna

Ragga (IP-tala skráð) 24.8.2008 kl. 21:15

11 Smámynd: Brattur

... ég les þig oft en kommenta ekki alltaf... stundum á ég ekki orð og ekkert sem mér finnst ég geti sagt. Ég sem kalla mig mann orðsins finn þau ekki, finnst engin nógu góð orð til ... en nú segi ég þetta;

Í hreinskilni þinni og því sem þú skrifar um býr mikil fegurð... fegurð fyrir því fallega sem lífið hefur upp á að bjóða, fegurð sem býr inni í þér... og sýnir hvað þú ert góð manneskja....

Brattur, 24.8.2008 kl. 21:29

12 identicon

Guðrún B. (IP-tala skráð) 24.8.2008 kl. 21:40

13 Smámynd: Sigrún Óskars

Sigrún Óskars, 24.8.2008 kl. 21:50

14 identicon

Sæl Ragga mín!

Vil bara taka undir allt sem sagt er hér á undan, falleg orð til fallegrar manneskju!

Kær kveðja úr Eyjum, 

Ásdís Emilía Björgvinsdóttir (IP-tala skráð) 24.8.2008 kl. 21:57

15 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Ragga mín! Þú veittir mér innsýn inn í svo margt með skrifum þínum! Það var svo margt sem ég upplifði í gegnum þig! Það er líka svo margt sem þú getur verið stolt af varðandi Himma þinn og ég veit að þú ert það líka!

Hann var umhyggjusamur sonur sem oftast nær mundi eftir að taka tillit til móður sinnar - þrátt fyrir allt!

Ég hef aldrei upplifað skrif þín sem "ræfladýrkun" þvert á móti hef ég upplifað þau sem skrif ráðþrota móður sem elskaði sinn dreng.

Hrönn Sigurðardóttir, 24.8.2008 kl. 22:01

16 Smámynd: Guðrún Jóna Gunnarsdóttir

Það er okkar að þakka fyrir að veita okkur innsýn inn í þitt líf og líðan. Ég þekki sjálf hvernig hugsanir leita á mann eftir sjálfsvíg ástvina. Sjálfsásakanirnar láta ekki á sér standa; ,,ef ég hefði....",  ,,hvað ef ég hefði ekki sagt....",  ,,hvar mistöókst mér".. spurningarnar linnulausar.

Þú ert sterkur persónuleiki og móðir, skrif þín endurspegla það. Haltu áfram að vera þú sjálf og leyfðu þér að finna til þegar þannig stendur á. Enginn tekur fallegar minningar frá okkur, þær græða örlítið sárin. 

Farðu umfram allt vel með þig, mín kæra.

Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 24.8.2008 kl. 22:14

17 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

AÐ hafa fengið að kynnast Hilmari, þér og lífi ykkar hefur gert mig hæfari til að framkvæma það sem mig hefur alltaf langað, reyna að hjálpa þeim sem erfitt eiga, þú sýndir mér enn betur að það eiga allir sinn tilverurétt og það er fullt af fólki sem vill og þarf stuðning og það er í raun auðvelt að gefa af sér.  Hafðu það ávallt sem best elskuleg og já, þú átt surprice hjá mér þú varst næst hálfri milljón, viðeigandi finnst mér.  Knús Bouncy 2  Bouncing Hearts

Ásdís Sigurðardóttir, 24.8.2008 kl. 22:21

18 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Tek undir það sem hin segja hér að ofan Ragnheiður mín ...

Þú (og Himmi) eruð mér inspirasjón í mínu starfi. Ég geng skrefinu lengra til að aðstoða þá sem til mín leita. Lífið er vandasamt fyrir marga.

Kveiki reglulega á kerti, fyrir Himma þinn og elsku mömmu hans og fjölskyldu alla,  og um leið fyrir allt unga fólkið sem á í sálarstríði.  

Þú ert ljós.

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 24.8.2008 kl. 23:14

19 Smámynd: Fjóla Æ.

Fyrir mjög mörgum árum sagði við mig merkur maður orð sem mér þóttu óskiljanleg en eftir að hafa ígrundað þau um tíma komst ég á þá skoðun að hann hefði sennilega nokkuð til síns máls.

Þessi orð voru einhvern veginn á þessa leið: "Hvert áfall sem þig hendir og þú upplifir er sjaldan það slæmt að ekki megi láta það leiða til einhvers góðs fyrir þig og þitt líf. Þú ræður hvernig þú vinnur úr áfallinu og hvernig þú nýtir það".

Mér finnst þú sjá það góða og veit að það hjálpar til heilunar. Tek heilshugar undir orð Önnu Einarsdóttur að það sé réttara að þú fengir þakkir frá okkur sem lesum. Knús á þig.

Fjóla Æ., 24.8.2008 kl. 23:24

20 Smámynd: Jórunn Sigurbergsdóttir

Já, þú hefur gert mikið gott með þessum skrifum þínu. ég á mínum tíma tók þá ákvörðum að standa með syni mínum og ég hef aldrei séð efitir því. Hvað getur móðir annað gert?

Jórunn Sigurbergsdóttir , 24.8.2008 kl. 23:28

21 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Ég vil þakka þér skrifin þín kæra kona

Sigrún Jónsdóttir, 25.8.2008 kl. 00:23

22 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

  Þú ert svo einlæg, það hefur verið gaman að lesa hugleiðingar þínar.  Þessar slæmu voru átakanlegar og þessar góðu skemmtilegar.  Ég hef lært mikið á því að lesa þínar færslur

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 25.8.2008 kl. 00:48

23 Smámynd: Helga skjol

Búið er að skrifa öll þau orð sem ég gæti sagt um þig og ég er 100% sammála öllu sem skrifað er, þú ert yndi

Helga skjol, 25.8.2008 kl. 07:24

24 identicon

Hvað get ég sagt.Ég þekki hvert tár og hvert orð.Þú ert svo dugleg.Takk fyrir að deila sorginni með okkur.Það hjálpaði mér óendanlega mikið í minni sorg.(og hjálpar enn,sorgin sem aldrei hverfur.Bara breitist)

Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 25.8.2008 kl. 09:29

25 Smámynd: Erna

Elsku Ragga þú hefur gert mig að betri manneskju og kennt mér margt, með skrifum þínum. Þú ert vandfundin einstök manneskja og mér þykir vænt um þig

Erna, 25.8.2008 kl. 10:20

26 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Þú hefur staðið þig eins og hetja.

Jenný Anna Baldursdóttir, 25.8.2008 kl. 13:52

27 identicon

Sæl, kíkti hér inn og vil kvitta fyrir innlitið. Þú skrifar svo vel. Margt gott í þessari færslu.  Verð að skríða í bólið, góða nótt. Kv St.

Steinvör (IP-tala skráð) 29.8.2008 kl. 00:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband