Gamlir ungir vinir

ég var að lesa hjá henni Stínu minni, hún er að fjalla um fíklana sína og nefnir þar atriði sem hristi upp í mér aðeins. Ég gekk niður minningastíg og kom brosandi til baka.

Synir mínir hafa átt ótrúlega trausta og góða vini, langbesti vinur Himma var Kristinn. Hann kom í kistulagninguna og jarðarförina og kvaddi sinn besta vin eins vel og hann gat og jafn óundirbúinn og við öll. Við áttum enga von á að við ættum að kveðja Himma, 21 árs gamlan.

Hjalti hefur líka átt afar góða vini. Einn vina hans kom hingað færandi hendi og fékk knús. Ég held að hann hafi vantað knús.

Góðu vinirnir hans Bjössa sem hann hefur nánast alltaf átt komu í jarðarförina, þessir elsku strákar. Ungir menn sem líklegast hafa ekki hugmynd um hvað þeim tókst að gleðja sært móðurhjartað. Þeir eru gamlir heimilisvinir en samt kornungir menn.

Útför Hilmars var ekki í kyrrþey. Mér fannst ég verða að leiðarlokum að heiðra minningu hans og standa stolt yfir kistu míns ástkæra sonar og muna gleðina yfir að hafa mátt vera mamman hans. Um daginn þegar við Heiður ræddum aðeins saman í síma þá sagði hún nokkuð sem gladdi mig. Hún sagðist vera viss um að Himmi fylgdist stoltur með sínu fólki. Við höfum þurft að eiga við undarlegustu mál eftir að hann féll frá og við höfum reynt að taka hvert verkefni eins og það hefur komið fyrir. Ekki auðvelt -alls ekki en það hefur bara ekki verið hægt að hugsa um það neitt. Þetta hefur bara þurft að gera.

Þegar sorgin beit sárast þá vildi ég ekki muna neitt, það lagaðist vegna þess að ég skildi að þær systur, gleðina og sorgina get ég ekki skilið að. Ég hef grátið vegna þess sem var gleði mín. Sætur uppátækjasamur smágormur með heillandi bros og blíðublik í augum , fékk móður sína til að fyrirgefa sér öll afbrot og uppátæki.

Hún Birna mín missti Hauk sinn. Ég hafði skoðað minningarsíðu Hauks áður en Himmi dó og hann minnti mig svo á Himma. Stuttu seinna var ég komin í spor Birnu. Það eru erfið spor. Hún trúir og vinnur í kirkjunni. Ég er enn reið við Guð og vil engu trúa. Ég veit hinsvegar að ég kemst að hinu sanna þegar minn tími kemur. Sama hvernig það fer þá fer ég til Himma, ég á gröf næst honum.

Ég tók mynd af kláruðu púsli í dag. Bjössi sagði mér að taka myndir af þeim þegar ég er búin með þau og setja á síðuna mína. Það finnst mér snjöll hugmynd, verst að hún kom ekki fram fyrr. Ég er áreiðanlega búin með 20 stykki nú þegar. Þessi sem ég pantaði að utan eru komin og bíða á pósthúsinu, Björn hafði ekki rænu á að borga fyrir þau í síðustu viku þegar ég var ekki heima. Ég sæki þau seinna.

Nóg raus í bili, takk fyrir að hlusta. Kertasíðan hans er í fullu gildi. Hann fékk 2 alvöruljós hjá sér á leiðið í dag. Pabbi hans setti svo fínar lugtir hjá honum sem hægt er að setja friðarkerti inn í og ég fór með tvö svoleiðis. Það er slabb í garðinum og mér varð kalt á tásunum þannig að ég labbaði ekki til Hauks sem ég geri oftast. Ég sendi honum hlýjar hugsanir og vona að þær skili sér til hans, þessarar elsku sem ég þekkti ekki lifandi en þykir vænt um nú þegar hann er látinn.

Góða nótt


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Ég geri síðustu setningu þína að minni:

"Himmi fær mínar hlýjustu hugsanir og þrátt fyrir að ég hafi ekki þekkt hann í lifanda lífi, þá þykir mér orðið afar vænt um hann". 

Sofðu fallega Ragnheiður vinkona.

Anna Einarsdóttir, 8.3.2008 kl. 23:54

2 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Sammála Önnu. KNús í bæinn, elsku dúllan mín. Sofðu svo "rétt". 

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 9.3.2008 kl. 00:07

3 Smámynd: Katrín Ósk Adamsdóttir

Risaknús og faðmlag til þín elsku Ragga

Katrín Ósk Adamsdóttir, 9.3.2008 kl. 00:17

4 Smámynd: Brynja skordal

Sendi þér knús inn í nóttina Ragnheiður mín og ég kveikti á kerti hafðu ljúfan sunnudag

Brynja skordal, 9.3.2008 kl. 00:18

5 Smámynd: Steingrímur Helgason

Uss, Ragga, það er svo gott að lesa þig...

Steingrímur Helgason, 9.3.2008 kl. 01:32

6 identicon

Góða nótt vinkona.Ég rölti líka á millil strákanna okkar.Þeir voru svo ótrúlega líkir þessir strákar.Þú ert hetjan mín.

Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 9.3.2008 kl. 02:35

7 Smámynd: Tiger

  I Don't Know Yeah, i don´t know how you do it - en þú ert svo endalaust sterk og dugleg að ég get ekki annað en verið stórkostlega hrifinn af þér!

Love LetterÞað eitt að geta skrifað eftirfarandi: "Þegar sorgin beit sárast þá vildi ég ekki muna neitt, það lagaðist vegna þess að ég skildi að þær systur, gleðina og sorgina get ég ekki skilið að. Ég hef grátið vegna þess sem var gleði mín. Sætur uppátækjasamur smágormur með heillandi bros og blíðublik í augum , fékk móður sína til að fyrirgefa sér öll afbrot og uppátæki. " - á svona fallegan og sterkan hátt er hreint út svo virðingavert og sýnir hve þroskuð sál þú ert að það hálfa væri þegar hellingur...

Too FunnyGet sagt þér það Ragnheiður, eins mikill karlrembukall og töffari ég er, þá tárast ég þegar ég les svona - að nokkur móðir skuli þurfa að skrifa svona lagað og bara yfir höfuð að foreldrar skuli þurfa að líða það augnablik að þurfa að sjá á eftir barni sínu í blóma lífsins... fær mig til að hugsa um það þvílíkar hetjur slíkir foreldrar eru að geta haldið áfram veginn og séð ljós framundan. 


Þú ert endalaus uppspretta af kærleik og dugnaði sem ég veit að er hér að hjálpa fullt af fólki sem stendur í þínum sporum - og því nær sem þú kemst vegi friðar og kærleika sálarinnar aftur því mildari verður sorgin og því betra verður það fyrir þig að brosa að minnsta hlut - með tærri gleði í hjarta - sem minnir þig á Hilmar. Og einmitt því nær sem þú kemur hjarta þínu að innri ró og sáttleika við frelsara okkar því glaðari verður Hilmar okkar þarna uppi.  Hann skilur það sem ég skrifaði í gestabókina hans og ég veit að hann er samþykkur því: Að þegar hjarta okkar grætur vegna þess sem við höfum misst - brosir og hlær andi/sál okkar vegna þess sem hinn farni hefur öðlast, frelsi og eilíft líf við hlið frelsara okkar.

Ragnheiður, ég ber endalausa virðingu fyrir þér og styrk þínum. þú ert á svo ótrúlega góðri leið í sorgarferli þínu að það er aðdáun að og ég veit að margir munu lesa þig í von um að geta nýtt sér þína reynslu sér til hjálpar í svipuðum aðstæðum. Mikið rosalega held ég að Hilmar sé stoltur og hamingjusamur yfir móður sinni - því þér er óhætt að trúa því Ragnheiður, að hann sér og finnur allt sem þú sendir frá þér, alla þína sorg, alla þína gleði og alla þína orkustrauma. Ég veit að allir okkar sem hverfa á braut fylgja okkur fast í sorgarferlinu og veit að um leið og okkur tekst að yfirvinna sorgina og breyta henni í gleði og góðar minningar - þá loks fá okkar yndislegu englar sinn frið og sína ró. Guð veri með þér og þínum Kæra bloggvinkona.

Tiger, 9.3.2008 kl. 05:34

8 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Hrönn Sigurðardóttir, 9.3.2008 kl. 08:03

9 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Takk fyrir að fá mig til að hugsa.  Mér þykir svo vænt um þig.

Jenný Anna Baldursdóttir, 9.3.2008 kl. 08:51

10 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Ég gekk niður minningastíg og kom brosandi tilbaka.
Ragga mín þú sterka góða kona, svoleiðis á það að vera.
maður á alltaf að koma brosandi frá minningunum, því þeir sem maður er að mynnast eru þeir sem maður elskar.
Takk fyrir mig þín skrif hafa alltaf áhrif á mig, en bara til góðs.
                             Sólarkveðjur inn í góðan dag.
                                      Þín Milla.

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 9.3.2008 kl. 09:33

11 Smámynd: Heiður Þórunn Sverrisdóttir

Ragga mín...þegar ég er að lesa eftir þig þegar þú ert að tala um strákana þá er ég svo sammála þér og þessi fæsla er enginn undantekning,þetta sem þú vitnar í mín orð er ég svo snnfærð um hann elskaði sitt fólk í lifandi lífi og hann gerir það líka á nýjum stað það er ég svo sannfærð um og hann var líka elskaður og er elskaður enn börnin okkar áttu góðan bróður það sá ég á litlu krökkunum hér hlaupið á móti honum framm í gang og kallað HIMMI og svo hent sér í fangið hans.

Ég hef ekki lesið um Hauk son Birnu en nú ætla ég að læðast inn á síðuna hennar og lesa.

Kveðja til ykkar og knús inn í daginn.

Kveðja Heiður. 

Heiður Þórunn Sverrisdóttir, 9.3.2008 kl. 10:31

12 Smámynd: Kristín Katla Árnadóttir

Takk Elsku Ragga mig þykir voða vænt um þig ljós til þín.

Eigðu góðan sunnudag.

Kristín Katla Árnadóttir, 9.3.2008 kl. 11:30

13 Smámynd: M

Það er svo gott að lesa þig Ragnheiður, segir svo fallega og róandi frá. 

Sendi þér fallega kveðju inní daginn. 

M, 9.3.2008 kl. 11:42

14 Smámynd: Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir

Ragga mín...ég sé varla textann á skjánum fyrir tárum.....takk fyrir mig. Ég hef líka þessa tilfinningu að þeir hafi ekki verið svo ólíkir strákarnir...mér þykir orðið vænt um þinn..eiginlega þína væri réttara að segja....og þig..

Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir, 9.3.2008 kl. 12:06

15 Smámynd: Sigrún Óskars

Ragnheiður, þú skrifar svo fallega og fær mann til að hugsa. Mér finnst þú á svo góðri leið og það gleður mig. sendi ykkur ljós.

Sigrún Óskars, 9.3.2008 kl. 12:08

16 Smámynd: Huld S. Ringsted

Huld S. Ringsted, 9.3.2008 kl. 14:33

17 Smámynd: Ásta Björk Hermannsdóttir

Já Ragga það er erfitt að skilja þær systur að og ég held að það væri skrítið ef þær fylgdu ekki hvorri annari.  Allt það sem maður lærir í henni veröld á hverjum degi tengist og ef tengingin væri allt í einu slitin þá væri ekki hægt að botna í neinu.

Það er mikið samband á milli mín og Heiðar og ég get endalaust hlustað á hana segja frá grallaranum honum Himma og að sjá hvernig andlitið á henni breytist þegar hún talar um hann, og ástin sem skín úr augunum þegar hún hugsar um hann. Og þannig sér maður og heyrir hvað hann var yndislegur drengur.

Hann Bjössa hitti ég stundum og veit að þar er gæða eintak á ferð, yndislegur drengur í alla staði. Bara það eitt að sjá hann og tala við hann þá sér maður hvernig hann er. Hjalta hef ég bara séð tvisvar held ég, en þar er sömu sögu að segja, þeir bera það með sér synir þínir, hvað þeir eru yndislegir. 

Ég sendi ykkur hlýjar hugsanir héðan úr Grindavík

kveðja Ásta Björk 

Ásta Björk Hermannsdóttir, 9.3.2008 kl. 14:57

18 Smámynd: Guðrún Jóhannesdóttir

Ragga mín, þú ert bara frábær, falleg skrifin þín

Knús á þig

Guðrún Jóhannesdóttir, 10.3.2008 kl. 00:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband